07.05.1981
Neðri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4069 í B-deild Alþingistíðinda. (4191)

263. mál, varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Það verður vonandi hægt að koma þessu máli áfram, óskandi að sértrúarsöfnuður kolaverndarmanna grípi ekki þar í taumana.

Allshn. deildarinnar hefur fjallað um þetta mál nokkuð á sínum fundum, að vísu ekki mjög vendilega vegna þess að það var skoðað vel í Ed. Við höfum ekki eytt í það löngum tíma. Málið er nefnilega býsna ljóst. Aðalatriði þess er það, að Ísland verði aðili að samningi um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum.

Það má öllum Íslendingum vera ljóst, að fáum þjóðum er eins mikil nauðsyn á hreinum sjó og Íslendingum. Mengun sjávarins er orðin ákaflega mikil og á hættustigi víða um heim þannig að lífi sjávar er á mjög stórum hafsvæðum veruleg hætta búin og allmörg innhöf eru næstum orðin dauð höf, eins og stundum er tekið til orða. Það verður kannske ekki hér á þessum hafsvæðum, en allt um það tel ég og við í allshn. sjálfsagt að ríkisstj. verði með samþykkt þessa frv. veitt heimild til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum.