07.05.1981
Neðri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4069 í B-deild Alþingistíðinda. (4195)

263. mál, varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Hv. alþm. hafa gefið tækifæri til þess, þrátt fyrir allt, að skarkolaveiðin í Faxaflóa sé hér rædd. Ég hóf alls ekki máls á því í raun og veru. En ég nefndi þetta, þennan sértrúarsöfnuð, áðan í örfáum orðum mínum vegna þess að sé ekki hægt að ræða það mál sem var á dagskrá áðan, um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, vegna þess að flm. sé ekki viðstaddur, þá ætti með sömu röksemdum ekki að vera mögulegt að taka þetta mál til afgreiðslu vegna þess að þarna er um utanríkismál að ræða og utanrrh. ekki viðstaddur.

En samræmið og röksemdafærslan er ekki sterkasta hlið þeirra manna sem eru á móti því að sækja hér í sjóinn með ákaflega sakleysislegu veiðarfæti, skaðlitlu, á mjög takmörkuðu svæði í Faxaflóa, líklega í mesta lagi 15% af svæðinu, kolaafla sem er a. m. k. 5 milljarða kr. virði á ári, að vísu gamalla, með tiltölulega litlum tilkostnaði, færandi mikla björg í bú og talsverða vinnu fyrir landsmenn — af ástæðum sem eru mönnum næstum því óskiljanlegar vegna þess að þegar menn eru að tala um dragnót núna, þá sem nú er notuð og þá dragnót sem var notuð hér áður fyrr, þá er þar alls ekki um sambærileg veiðarfæri að ræða, á engan handa máta, fyrir utan það að röksemdafærsla þessara manna gegn dragnótaveiðum, m. a. sú að veiði hafi dregist saman í flóanum vegna þess að dragnótaveiði hafi verið stunduð hér áður fyrr, auðvitað með miklu afkastameira tæki en hér er verið að tala um, hefur alls ekki verið sönnuð. Þetta eru bara fullyrðingar sem hver étur upp eftir öðrum án þess að hafa hugmynd um, margir hverjir, hvað þeir eru að tala um, því miður. Þetta er leiður ósiður. Þetta eru auðvitað bestu menn, sem eru vandir að virðingu sinni og vilja sem best vinna að sínum störfum, t. d, eins og hv. þm. sem skaut þessu fram áðan, Jósef Þorgeirsson. Ég hef unnið með honum í nefnd og hann vinnur þar prýðilega. En þegar kemur að máli eins og þessu, þá er eins og sé dregin svört dula fyrir framan augun á þeim og stungið svörtum töppum — allt skal það vera svart — í eyrun á þeim þannig að þeir hvorki heyra né sjá einfaldar og sjálfsagðar staðreyndir, því miður.

Við ræðum þetta betur á morgun. Hæstv. forseti hefur lofað því, að þetta komi á dagskrá og verði rætt. Það eru næstum tveir mánuðir liðnir frá því að þetta mál var afgreitt hér úr nefnd. Ég veit ekki um neitt mál sem hefur verið dregið svo lengi að taka til 2. umr. af öllum þeim málum sem lögð hafa verið fyrir þingið. Til dæmis að taka er verið að ræða núna samtímis þessi tvö mál, frv. um nýtingu kolans við Íslandsstrendur, dýrasta fiskafla sem fyrirfinnst í veröldinni, það er 174. mál, og 263. mál, ósköp einfaldlega vegna þess að tiltölulega mjög fáir einstaklingar virðast ráða óhóflega miklu í þessari löggjafarsamkomu þegar mál af þessu tagi ber á góma. Það er ekki eins og alltaf í munni hv. þm. Halldórs Blöndals um Alþb.-menn að ræða, ekki að þessu sinni. Þeir ráða greinilega ekki miklu þar þegar verið er að fjalla um höfuðatvinnuveg landsmanna. (HBl: Alþb. ræður samt miklu.) Það verður að hafa sinn gang. Við erum að fjalla hér um annað frv. algerlega óskylt hinu fyrra og erfitt að tengja það svokölluðum varnarmálum, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, formaður þingflokks Alþfl., var að reyna að bögglast við. Sú athugasemd var auðvitað ákaflega þunn í roðinu. En flest er hey í harðindum og ég hef fyrirgefið honum þetta frumhlaup.

Herra forseti. Ég legg áherslu á að þetta frv. fái sína eðlilegu afgreiðslu. Það er nú til 2. umr. í seinni deild. Þetta er mjög mikilvægt mál um varnir gegn mengun, þar sem mengun sjávar er líklega það hættulegasta sem fyrir getur komið fyrir þjóð sem lifir á sjávarafla.