07.05.1981
Neðri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4076 í B-deild Alþingistíðinda. (4212)

237. mál, þýðingarsjóður

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til l. um þýðingarsjóð sem liggur fyrir á þskj. 469, 237. mál. Nefndin hefur fjallað um frv. og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess með þeim brtt. sem fluttar eru á þskj. 736. Fjarverandi afgreiðslu málsins var hæstv. ráðh. Friðjón Þórðarson.

Breytingar þær, sem liggja fyrir á þskj. 736, eru í þá veru, að 1. brtt. felur í sér að í stað þess að eingöngu sé um að ræða styrki til útgefenda, þá er gert ráð fyrir að einnig sé hægt að lána útgefendum fé til að kosta þýðingar — eins og segir — viðurkenndra skáldverka og fræðirita.

Nefndinni þótti ekki nógu skýrt kveðið á um hvernig sjóðsstjórnin skyldi skipuð. Því er gert ráð fyrir í 2. brtt., að inn komi ný grein er verði 4. gr. og hljóði svo, með leyfi forseta:

„Menntmrh. skal skipa þrjá menn í stjórn sjóðsins til tveggja ára í senn, einn tilnefndan af samtökum útgefenda, einn tilnefndan af Rithöfundasambandi Íslands og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnarinnar.“

3. brtt. er um lítilvægar breytingar á ákvæði um að menntmrh. setji reglugerð um framkvæmd laganna að höfðu samráði við Rithöfundasamband Íslands og samtök útgefenda, í stað þess að áður var talað um samtök rithöfunda, þýðenda og útgefenda, en eins og kunnugt er eru samtök þýðenda innan Rithöfundasambands Íslands.

Annað er ekki um þetta að segja. Nefndin mælir með því að frv. nái samþykki með þessum brtt.