07.05.1981
Sameinað þing: 81. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4077 í B-deild Alþingistíðinda. (4217)

280. mál, stóriðjumál

Frh. fyrri umr. Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Varðandi það mál, sem hér er nú tekið á dagskrá, þáltill. um stóriðjumál, þá liggur fyrir till. um að vísa því máli til allshn. Sþ. Í umr. um það mál og um þá till. lýsti ég andstöðu minni við þá málsmeðferð þar sem ég taldi að hv. n. hefði þegar tekið þetta mál til rækilegrar meðferðar og sú till., sem hér er til umr., byggðist á því starfi nefndarinnar. Hins vegar kom það fram í umr. af hálfu hv. 1. þm. Norðurl. v., formanns þingflokks Framsfl., að till. hans um þessa málsmeðferð byggðist að engu leyti á því, að um nokkra töf væri að ræða á málinu eða tilraun til tafar á málinu, heldur mundi hann beita sér fyrir að málið fengi hraða afgreiðslu í nefnd. Því lýsi ég því yfir með skírskotun til þessarar yfirlýsingar hans, að ég mun greiða atkv. með því að málið fari til allshn. Sþ.