07.05.1981
Sameinað þing: 81. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4078 í B-deild Alþingistíðinda. (4227)

125. mál, tilraunageymir til veiðarfærarannsókna

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Þetta mál er eitt margra merkismála sem lögð eru fyrir hina afkastamiklu og ágætu þingnefnd, atvmn. Sþ. Það hefur verið rætt á fundum nefndarinnar og hafa menn einu sinni enn orðið einhuga um afgreiðslu málsins í þeirri nefnd. Þarna er raunar afar merkilegt mál á ferðinni, þar sem er að koma upp hér á landi — eða raunar um það að kanna í samráði við Fiskifélag Íslands og Hafrannsóknastofnun möguleika þess, að hér á landi verði komið upp tilraunageymi o. s. frv., eins og þar segir. Það er ekki fastara að orði kveðið. En tilgangurinn og hugsunin á bak við þetta er mjög merkileg að mínum dómi og ég tel að flestallir, ef ekki allir sjómenn, sem stundað hafa togveiðar við Ísland, séu mjög hrifnir af þessari hugmynd og sjálfsagt fleiri fiskimenn. En þetta tel ég að eigi sérstaklega við um togveiðiskipstjóra og stýrimenn sem hafa margir hverjir að vísu getað notið þess að skoða slík tæki í útlöndum og þá líklega flestir í Bretlandi þar sem mjög myndarlegur veiðarfæratankur er rekinn. Þar er mikil eftirspurn eftir því að kanna og athuga við þann tank hvernig veiðarfæri haga sér í sjó. Hann er í stöðugri og mikilli notkun allt árið og þangað kemur fjöldi manns af Bretlandseyjum og nálægum löndum, þ. á. m. frá Íslandi. Og það er löngu kominn tími til þess í raun og veru, að við Íslendingar, sem lifum á fiskveiðum og fiskvinnslu og þjónustugreinum í kringum þann atvinnuveg fyrst og fremst, komum okkur upp slíkri aðstöðu.

Herra forseti. Vegna þessa máls væri sannarlega ástæða til þess að fjalla af meiri nákvæmni um þetta. Það hefur verið talsverð umræða í þjóðfélaginu um tæki af þessari tegund, og það er skoðun mín að jafnvel þó að þetta kunni að vera nokkuð dýrt í byrjun fyrst og fremst, þá verði veiðarfæratankur þar sem unnt er að fylgjast með hvernig veiðarfæri hagar sér við mismunandi toghraða, mismunandi gerð veiðarfæra, mismunandi hlera o. s. frv. — allt sem þetta snertir er ákaflega breytilegt og nákvæmt og viðkvæmt — slíkur veiðarfæratankur verði fljótur að margborga sig, — ekki aðeins að borga sig, heldur margborga sig.

Herra forseti. Ég legg til og öll atvmn. sameiginlega að þessi till. verði samþykkt.