07.05.1981
Sameinað þing: 81. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4080 í B-deild Alþingistíðinda. (4230)

372. mál, málefni Ríkisútvarpsins

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Samkv. beiðni 10 þm. hef ég lagt fram prentaða skýrslu um Ríkisútvarpið. Þessi beiðni var fram borin með heimild í 31. gr. þingskapalaga og Alþingi samþykkti hinn 3. febr. að beiðnina mætti bera fram.

Með bréfi til útvarpsstjóra, sem var dags. 6. febr., fór ég þess á leit við hann, að hann veitti mér aðstoð við skýrslugerðina, og fóru fram viðræður þá þegar milli mín og útvarpsstjóra um hvernig sú aðstoð yrði í té látin. Við komum okkur saman um hvaða þættir það væru sem skýrslubeiðendur óskuðu sérstaklega upplýsinga um, enda var augljóst af orðalagi beiðninnar og grg., sem henni fylgdi, hvað í henni fólst. Ég leit svo á, að það væri verið að biðja um mjög ítarlega skýrslu um Ríkisútvarpið, sem ekki væri fljótunnið verk ef vel ætti að vera. Því óskaði ég þess sérstaklega af útvarpsstjóra, að hann fengi mér í hendur, eftir því sem hann gæti, sem flest gögn og upplýsingar sem nota mætti til heillegrar og víðtækrar skýrslugerðar.

En það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur, að skýrsla sú, sem hér liggur fyrir, er ekki í því formi sem ég hafði hugsað mér í upphafi. Ég hafði ráðgert aðra framsetningu en reyndin hefur orðið. Ætlun mín var að vinna öðruvísi úr fyrirliggjandi gögnum en hér er gert. Ástæðan til þess, að skýrslan er svo úr garði gerð sem raun ber vitni, er sú, að ég taldi mig kominn í tímaþröng.

Það hafði mikil áhrif á gang þessa máls, að útvarpsstjóri var mikið frá vinnu á þessum tíma vegna sjúkleika og síðar vegna legu á sjúkrahúsi og gat því ekki sinnt því samstarfi við mig um skýrslugerðina sem ég taldi eðlilegt og reyndar óhjákvæmilegt. Að lokum fór svo, að sú leið var valin, sem skýrslan ber með sér, að bein svör við fsp. eru stutt, en vísað til fskj. til frekari skýringa og upplýsinga. Þótt ég viðurkenni galla á þessari framsetningu tel ég að í skýrslunni sé að finna svör við því, sem skýrslubeiðendur spyrja einkum um, svo og nokkurn almennan fróðleik um Ríkisútvarpið sem gagnlegt er að hafa á einum stað.

Efni skýrslubeiðninnar er svo skýrt og vel afmarkað í þætti að auðvelt var að haga svörum á svipaðan hátt og gert er þegar fsp. er svarað á Alþingi. Og þannig er skýrslan reyndar úr garði gerð eins og hún liggur fyrir, og það er kannske ekki ókostur þegar öll kurl koma til grafar. Beiðninni er skipt í 10 fyrirspurnaliði. Fjallað er um hvern einstakan lið í stuttu svari, en síðan vísað til fskj. til nánari upplýsinga. Það skiptir því miklu máli að lesa fskj., svo mikilvæg sem þau eru í þessari framsetningu.

Til yfirlits um efnisþætti fsp. og hvernig svörum er raðað í skýrslunni vil ég minna á efnisyfirlitið í upphafi skýrslunnar. Það gefur lesendum skýrslunnar hugmynd um hvað um sé að ræða. Þetta efnisyfirlit, eins og það er sett hér fram, er í 10 liðum. Það er um hag og stöðu, framtíðaráform útvarps og sjónvarps, hvernig halli undanfarinna ára verði greiddur. Fjallað er um fjármögnun nýrrar langbylgjustöðvar, um fjármögnun útvarpshúss, um húsnæðisvandann næstu ár, um áætlanir, um styrkingu dreifikerfis, um fjárhagslega þætti sjónvarpssambands við gervitungl og svör við því, hvenær stereóútsendingar nái til landsins alls, og einnig er hér fjallað um spurninguna um aðra útvarpsrás eða landshlutaútvarp.

Mig langar nú, þó að skýrslan út af fyrir sig tali sínu máli, til þess að fara hér nokkrum orðum um nokkra efnisþætti skýrslunnar.

Ég tek þá fyrir fyrst það sem varðar hag og stöðu fyrirtækisins og um er spurt. Undir þessum lið kemur það fram, að Ríkisútvarpið var rekið með verulegum halla allan fyrri hluta síðasta áratugar, þ. e. fram til ársins 1975. Á árunum 1976–1978 var Ríkisútvarpið rekið hallalaust og reyndar var verulegur tekjuafgangur árið 1978. Árið 1979 brá aftur til hallarekstrar og svo var einnig árið 1980. Það er ljóst, að góð afkoma Ríkisútvarpsins 1976–1978 réðst að verulegu leyti af því, að þá fékk stofnunin ríflegan hlut af tolltekjum af innfluttum sjónvarpstækjum. Auk þess voru afnotagjöld áætluð þannig að þau voru stofnuninni hagstæð. Hallinn, sem varð árin 1979 og 1980, stafar hins vegar mjög af því, að þá kemur til framkvæmda ný stefna í fjármálastjórn ríkisins að því er varðar skil ríkissjóðs á tolltekjum af sjónvarpstækjum til Ríkisútvarpsins. Auk þess voru afnotagjöld ekki í samræmi við verðbólgu mest af þessum tíma. Þarna var því þrengt að Ríkisútvarpinu, sem ég ætla síst að bera í bætifláka fyrir, en hins vegar tel ég að Ríkisútvarpið sjálft hefði fyrr átt að aðlaga sig raunverulegri tekjustöðu, þ. e. sníða sér stakk eftir vexti í rekstri sínum og endurskoða rekstraráætlanir sínar í tíma.

Það hefur komið í minn hlut að fyrirskipa samdrátt í rekstri Ríkisútvarpsins til þess að stöðva hallareksturinn og finna leið til þess að greiða upp halla tveggja ára. Slíkur samdráttur er ekki góður kostur, en hann er nauðsynjamál eins og málum var komið. Stefnt er að því, að Ríkisútvarpið verði rekið hallalaust á þessu ári. Þá hefur stofnunin tekið lán til þess að jafna halla tveggja síðustu ára. Slík aðgerð er bráðabirgðalausn að sjálfsögðu. Eins og fram kemur í skýrslunni eru hugmyndir uppi um það að jafna hallann endanlega á fimm árum með sérstakri hækkun afnotagjalda. Það verður kannað nánar, hvort sú leið verður farin eða einhver önnur. En ég legg á það áherslu, að Ríkisútvarpið aðlagi á hverjum tíma rekstur sinn ríkjandi fjárhagsástæðum, þ. e. safni ekki rekstrarskuldum. Slíka kröfu þarf reyndar að gera til allra ríkisfyrirtækja, því að annað er ábyrgðarleysi í fjármálum. En ég endurtek það, að ég er ekki að bera í bætifláka fyrir þá fjármálastefnu ríkissjóðs sem lögfest var 1976, en framkvæmd hefur verið með fullum þunga 1979 og 1980, að afnema rétt Ríkisútvarpsins til þess að njóta tolltekna af sjónvarpstækjum. Ég er ekki heldur að mæla því bót í sjálfu sér, að ákvörðun afnotagjalds skuli háð ströngum verðlagshöftum og afnotagjöldin tengd vísitölukerfinu. Hins vegar eru þetta staðreyndir sem verður að viðurkenna eins og sakir standa. Þetta eru aðstæður sem Ríkisútvarpið verður að búa við, a. m. k. um sinn. En höfuðatriðið er það í þessu sambandi, að stefnt er að hallalausum rekstri á þessu ári. Á það legg ég áherslu þegar rætt er um rekstur stofnunarinnar og fjárhagsmál almennt. Hallarekstur síðustu tveggja ára verður ekki endurtekinn.

Skýrslubeiðendur spyrjast fyrir um framtíðaráform Ríkisútvarpsins. Því er til að svara einfaldlega að af minni hálfu og allra forráðamanna Ríkisútvarpsins er að því stefnt nú sem endranær, að Ríkisútvarpið verði svo öflugur og virkur fjölmiðill sem lög um stofnunina ætlast til og fjárhagur leyfir á hverri tíð. Þegar t. d. er talað um samdrátt í starfsemi Ríkisútvarpsins verður að taka slíkt með miklum fyrirvara. Sé litið yfir hina fjölþættu starfsemi í heild er varla sanngjarnt að tala um samdrátt á vegum stofnunarinnar. Þvert á móti sækir Ríkisútvarpið fram á mörgum sviðum, sem í heildarmati á starfi stofnunarinnar vegur fyllilega upp á móti nauðsynlegum aðgerðum í rekstri til þess að aðlaga hann raunverulegum tekjum og öðru ráðstöfunarfé stofnunarinnar. Því er að því unnið hjá Ríkisútvarpinu að styrkja fjárhag þess til frambúðar, sníða sér í öllu stakk eftir vexti í rekstrarútgjöldum, en efla jafnframt stofnunina hvað snertir framtíðarhúsnæði, tækjabúnað og dreifikerfi. Þess verður m. a. gætt nú og í framtíðinni að greina skýrt á milli rekstrarfjármagns og byggingarsjóðs og annars framkvæmdafjármagns sem stofnunin hefur yfir að ráða. Þannig verður að varast að taka fé byggingarsjóðs traustataki til þess að greiða rekstrarhalla eða verja til rekstrar á annan hátt, eins og dæmi munu vera um, og hið sama gildir um svokallað afskriftarfé. Það verður ekki notað í rekstur, heldur til uppbyggingar búnaði og tækjum.

Ég vil geta þess, að fyrir sérstakt frumkvæði útvarpsstjóra og fjármálastjóra útvarpsins og í fullum samráðum við mig og reyndar fyrirrennara mína hefur verið leitað aðstoðar fjárlaga- og hagsýslustofnunar fjmrn. um ýmiss konar hagræðingu og endurskipulagningu í stofnuninni. Að þessu hefur verið unnið af kappi síðan á útmánuðum í fyrra og þó heldur lengur og er það mat forráðamanna útvarpsins nú, að mikið gagn hafi orðið af þessari starfsemi. Ég vil benda hv. þm. á þetta atriði sérstaklega. Þetta er dæmi um það, að stjórnendur Ríkisútvarpsins eru sér vel meðvitandi um ábyrgð sína hvað tekur til almennrar stjórnsýslu, skipulagningar og hagræðingar í rekstri stofnunarinnar og telja sig ekki yfir það hafna að leita ráða út fyrir Ríkisútvarpið þegar um vandasöm stjórnunar- og skipulagsatriði er að ræða. En þegar talað er um framtíðaráform legg ég áherslu á þessi atriði:

1. Að Ríkisútvarpið verði ávallt rekið hallalaust.

2. Stefnt verði markvisst að því að byggja eigið hús yfir stofnunina, enda er nauðsyn þess ótvíræð. Saga húsnæðismála og byggingarmála Ríkisútvarpsins í 50 ár er um margt sorgarsaga sem hv. þm. ættu að kynna sér og ég mun aðeins drepa á nánar síðar.

3. Ég legg höfuðáherslu á að haldið verði áfram að styrkja dreifikerfi sjónvarps og útvarps með það fyrir augum að fólkið, sem í landinu býr, og sjómenn á miðum kringum landið geti notið útsendinga við sæmileg skilyrði. Hvað þetta snertir er geysimikið verk óunnið og verður ekki lokið í hendingskasti, en vissulega þarf að hafa þar markaða stefnu við að styðjast.

Ég hef, herra forseti, rætt um rekstrarmál Ríkisútvarpsins og hef þar ekki miklu við að bæta. Ég endurtek það, að rekstrinum er háttað með það fyrir augum að stofnunin verði rekin hallalaus á þessu ári. Viðunandi framtíðarrekstur Ríkisútvarpsins byggist á því, að það takist og haldi áfram í framtíðinni.

Í framhaldi af því, sem ég var að segja rétt áðan um dreifikerfið, vil ég bæta við nokkrum orðum til þess að kynna það efni sem reyndar er í skýrslunni og hægast er að lesa. Í því sambandi minni ég á fskj. 1.8, 1.9, 1.10, 1.12, 1.13 og 1.14. Í þessum skjölum er greint frá fyrirhuguðum framkvæmdum í dreifikerfi. Auk þess er að finna í skýrslunni skrá um endurvarpsstöðvar hljóðvarps og sjónvarps. Þessar skrár eru að sjálfsögðu birtar til fróðleiks til þess að auðvelda mönnum að fá yfirlitsmynd af dreifingarkerfinu. En ég leyfi mér að benda á það, að á þessu ári eru fyrirhugaðar verulegar framkvæmdir í því að stækka og styrkja dreifikerfið.

Eins og fram kemur á fskj. 1.16, sem er á bls. 22, er enn fjöldi sveitabæja í landinu þar sem myndgæði sjónvarps eru slæm eða ónothæf. Auk þess hefur ekki fundist lausn á því að dreifa sjónvarpi svo að vel sé til skipa umhverfis landið. Hins vegar ber að geta þess, að talið er að 98% landsmanna hafi góð skilyrði til móttöku sjónvarps og mun það síst lægri tala en í sumum nágrannalöndum okkar. Ef vel gengur með þær framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru nú á þessu ári, fjölgar mjög þeim heimilum sem njóta munu sjónvarpssendinga, og yfirleitt má segja að þar sé um sveitaheimili að ræða. En þótt verulegt átakverði gert á árinu hvað þetta snertir, þá tek ég fram að enn munu mörg heimill til sveita verða út undan í þessu tilliti og sjónvarpssendingar til skipa á miðum úti halda áfram að vera torleyst vandamál. Alls er ráðgert að framkvæma endurbætur og styrkingu á sjónvarpsdreifingu fyrir rúmlega 7.9 millj. nýkr. eða 794 millj. gkr. Í fyrra var þessi tala 207 millj. gkr. Í mínum augum er sjónvarpsdreifingin mjög mikilvægt mál og í raun og veru mannréttindamál. Ég tel það vera eitt af brýnustu verkefnum Ríkisútvarpsins að efla dreifingarkerfið, og þannig munu vafalaust flestir hugsa, en í þessu máli verður þó að gera kröfur til manna um raunsæi.

Ísland er af augljósum ástæðum mjög erfitt land til sjónvarpsdreifingar og reyndar útvarpssendinga yfirleitt.

Það hefur því tekið langan tíma að fullnægja ítrustu kröfum í þessu efni, og því fer víðs fjarri að fullkomin lausn dreifingarvandans sé í sjónmáli. En á það bendi ég samt, að margt hefur áunnist því að heita má að 100% landsmanna geti notið útvarps og 98% sjónvarps. Og endurbætur og framfarir á þessu sviði munu halda áfram eftir því sem kostur er.

Ég mun þá snúa mér að því að ræða atriði, sem ég tel eitt af þremur mikilvægustu verkefnum Ríkisútvarpsins, en það er markviss uppbygging eigin húss fyrir stofnunina. Það er að vísu stórt verkefni og ærið kostnaðarsamt, en öll frekari töf á byggingarframkvæmdum ætti ekki að koma til greina. Slík töf er með öllu óþörf, enda ekkert annað en óþurftarmál hvernig sem á er litið. Ég nefni sem rök fyrir þessu í fyrsta lagi að þörfin er brýn. Ríkisútvarpið vantar húsnæði bæði í bráð og lengd. Í öðru lagi er það, að fullkominn og fagmannlegur undirbúningur er fyrir hendi til þess að ráðast markvisst í byggingu útvarpshúss. Og í þriðja lagi nefni ég að nægilegt fjármagn er fyrir hendi í byggingarsjóði Ríkisútvarpsins til þess að hefjast handa og koma húsinu vel áfram á næstu árum. Ég efast reyndar um að nokkru sinni hafi verið ráðist í byggingu stórhýsis á vegum opinberrar stofnunar þar sem fjármögnun af eigin fé er byggð á jafntraustum grunni sem nú þegar fyrir alvöru er hafist handa um byggingu útvarpshússins. Ég er ekki í vafa um að allir, sem láta sig velferð Ríkisútvarpsins einhverju varða, eru á einu máli um það, að hraða verði byggingu útvarpshússins eins og frekast er kostur. Það ætti því ekki að vera þörf á að ræða það mál miklu nánar eða rökstyðja það sérstaklega. Í skýrslunni er ýmsar upplýsingar að finna um þetta mál og vísast til þeirra. Eigi að síður ætla ég að drepa í stuttu máli á sögu húsnæðismála Ríkisútvarpsins í 50 ár. Það er dálítið fróðleg saga þó að ég stikli á stóru.

Ríkisútvarpið tók til starfa í árslok 1930 og er því rúmlega 50 ára. Allan þennan tíma hefur Ríkisútvarpið að mestum hluta verið leigutaki og oft búið við þrengsli og ófullkomnar aðstæður. Vinnuskilyrði margra starfshópa innan Ríkisútvarpsins hafa löngum verið léleg. Á síðari árum má segja að þjóðfrægt sé hversu illa hefur verið búið að fréttastofu hljóðvarps, hversu starfsaðstaða á fréttastofunni er slæm. Þó eru gerðar miklar kröfur til fréttamanna um mikinn vinnuhraða, vandað málfar og góða framsetningu á fréttaefni, og má lítið út af bera svo að fréttamenn séu ekki hafðir að skotspæni gagnrýnenda. En aðbúnaðurinn á fréttastofunni er aðeins eitt dæmi um vandræðin í húsnæðismálum Ríkisútvarpsins. Úr þeim verður að bæta. Og af því að við erum að tala um framtíðina og framtíðaráformin, þá kemur ekki annað til greina en leysa húsnæðisvandann með því að reisa sérstakt hús yfir stofnunina.

Eins og ég sagði hefur Ríkisútvarpið alla tíð verið leigutaki að langmestu leyti, lengst af hjá Landssíma Íslands og að nokkru hjá framtakssömum kaupmönnum, síðar hjá Fiskifélagi Íslands. Í því húsi eru enn höfuðstöðvar útvarpsins. Forráðamenn Ríkisútvarpsins ólu frá upphafi með sér þann draum, að stofnunin eignaðist eigið hús og starfaði í sérhönnuðu útvarpshúsi eins og aðrar útvarpsstöðvar í heiminum. Fyrstu 10–15 ár útvarpsrekstrar var útvarpshús aðeins hugmynd og draumur án þess að neinar aðgerðir kæmu til til þess að mega sjá slíkan draum rætast. En á árunum milli 1940 og 1950 beitti þáv. útvarpsstjóri, Jónas Þorbergsson, sér fyrir stofnun byggingarsjóðs og safnaðist talsvert fé í sjóðinn. Þetta fé var eins konar stríðsgróði, en Jónas Þorbergsson hugsaði sér að nota stríðsgróðann í þágu framtíðarinnar og stofnaði af þessu fé þennan byggingarsjóð, sem mun hafa verið orðinn alldigur sjóður árið 1950 eða þar um bil og reyndar eitthvað fyrr. Af stórhug og bjartsýni beitti Jónas sér einnig fyrir því að útvega stóra lóð vestur á Melum hér í Reykjavík, þar sem Þjóðarbókhlaðan er nú að rísa, og ætlaði þessa lóð undir útvarpshús. Hann fékk færa bandaríska arkitekta og hönnuði til að teikna og fullhanna útvarpshús og luku þeir verki sínu á góðum tíma. Mér hefur verið sagt að þetta fyrirhugaða útvarpshús Jónasar Þorbergssonar hafi verið ágætlega hugsað í hvívetna. Hitt er annað mál, að þetta hús varð aldrei annað en teikning og hætti auk þess að vera draumur þess manns sem lengst hafði vonað að draumur hans yrði að veruleika. Það var aldrei hafist handa um húsbygginguna.

Byggingarsjóðurinn sem myndaður hafði verið af eins konar sparifé Ríkisútvarpsins, var í raun og veru tekinn herfangi, traustataki og fé hans ráðstafað til allt annarra þarfa en til var ætlast. M. a. var fé hans lánað til þess að ljúka Þjóðleikhúsinu. Sumt af þessu fé fór til þess að byggja íbúðarhús fyrir einhvern starfshóp í þjóðfélaginu. Hluti fjárins fór í lán til þess að koma upp húsi á horni Klapparstígs og Hverfisgötu sem Silli & Valdi voru að byggja, en þar átti útvarpið að fá inni með eitthvað af starfsemi sinni. Þá mun verðbólgan hafa étið sinn hlut af sjóðnum svo og gengisfellingar. Heyrt hef ég einnig að eftirhreyturnar af byggingarsjóði Jónasar Þorbergssonar hafi gengið til þess að kosta innréttingar í Fiskifélagshúsinu við Skúlagötu og greiða fyrir fram leigu fyrir húsnæði útvarpsins þar. — Þetta er í stuttu máli saga byggingarsjóðs Jónasar Þorbergssonar.

Á 40 ára afmæli Ríkisútvarpsins í des. 1970 ákvað þáv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, að stofnaður yrði nýr byggingarsjóður og skyldi ganga til hans 5% af brúttótekjum Ríkisútvarpsins. Tilgangurinn með byggingarsjóðnum var að fjármagna nýtt útvarpshús og búa það tækjum. Þennan sjóð mætti vel kalla byggingarsjóð Gylfa Þ. Gíslasonar því að hann bar þetta mál fram og undirbjó það vel og skynsamlega. Jafnframt sjóðsstofnuninni beitti Gylfi sér fyrir því, að skipuð var byggingarnefnd útvarpshúss sem vann ágætt undirbúningsverk næstu 6–7 ár. Eftirmenn Gylfa Þ. Gíslasonar á ráðherrastóli, Magnús Torfi Ólafsson og Vilhjálmur Hjálmarsson, héldu uppi því merki sem Gylfi hafði reist, enda var unnið markvisst þessi ár allt til 1978 að því að hægt væri að hefja byggingarframkvæmdir. Og reyndar voru byggingarframkvæmdir hafnar á því ári þó að atvikin höguðu því svo að þær urðu minni en til stóð. Ríkisstj. sú, sem Vilhjálmur Hjálmarsson átti sæti í, hafði samþykkt mjög formlega að á árinu 1978 skyldi grafa grunn útvarpshússins sem Reykjavíkurborg hafði úthlutað landi við Háaleitisbraut suður undir Fossvogi, og ætlunin var þá og ákveðið að ljúka kjallaranum og botnplötu fyrstu hæðar. En þessu verki var aldrei lokið og ákvörðun ríkisstj. af einhverjum ástæðum gerð að engu. En sem sagt, mér er ekki fullkomlega kunnugt um hvers vegna ákveðið var að fresta þessum framkvæmdum. En það er alveg víst, að það gat ekki verið af fjárskorti, því að þá var nægilegt fé í byggingarsjóði til þess að framkvæma þennan verkhluta og tekjur sjóðsins voru öruggar.

Þannig stóðu málin þegar ég tók við málefnum Ríkisútvarpsins í febr. 1980. Það ríkti eitthvert óvissuástand í byggingarmálum útvarpshússins. Því betur sem ég kynnti mér málið; því ljósara varð mér að þessu óvissuástandi varð að linna. Það varð að taka framkvæmdastjórn byggingarmála útvarpshússins nýjum tökum. Málið var í sjálfheldu. Skipan byggingarnefndar, sem setið hafði óbreytt síðan 1971 eða í 9 ár, var orðin úrelt að ýmsu leyti og að mínum dómi nauðsynlegt að endurskipuleggja hana. Þá taldi ég nauðsynlegt að tryggja nýrri nefnd sem mest sjálfstæði í störfum þannig að hún væri óháð öðrum en ráðh. og stjórnendum Ríkisútvarpsins. Með þetta í huga skipaði ég nýja byggingarnefnd 19. jan. s. l. Hún er í raun og veru framkvæmdastjórn útvarpsbyggingarinnar. Þessi nýskipan nefndarinnar hefur gefist vel. Vinna við útvarpshús er hafin að nýju eftir tveggja og hálfs árs hlé. Unnið er að svokölluðum 2. áfanga hússins samkv. útboði og þessum áfanga á að verða lokið fyrir miðjan des. á þessu ári. Þessi áfangi nær yfir kjallara og ýmsar lagnir í honum og í grunninum ásamt botnplötu fyrstu hæðar. Hér er að sjálfsögðu um að ræða þann áfanga sem átti að ljúka árið 1978, þannig að tafir á þessari byggingu eru þrjú ár.

Skýrslubeiðendur hafa sérstaklega spurt um fjármögnun útvarpshúss. Því er til að svara, að Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins fjármagnar bygginguna. Tekjur Framkvæmdasjóðs eru nú 10% af brúttótekjum Ríkisútvarpsins á ári. Stefnt er að því að húsið verði tilbúið um áramót 1986–1987. Heildarkostnaður er áætlaður 93 millj. kr. eða 9.3 milljarðar gkr. og eins og fram kemur í skýrslunni á bls. 3 er í þessari áætlun gengið út frá því, að framlag úr byggingarsjóði verði til upp í þessa upphæð, 78 millj. kr. eða 7.8 milljarðar áður en verkinu yrði lokið. Þann mismun, sem þarna myndast, má jafna m. a. með sölu húseignar Ríkisútvarpsins á Laugavegi 176 þegar þar að kæmi.

Þess er einnig að geta; að ef ráðgerðum framkvæmdahraða er haldið þarf að taka skammtímalán árin 1984 og 1985, en þau lán yrðu greidd af byggingarsjóði á tveimur eða þremur árum. Er fyrirhugað að lán þessi yrðu greidd upp að fullu 1987 og þá muni verða í byggingarsjóði 2 millj. kr. Það er því alveg óhætt að segja það, að byggingarsjóður stendur undir þessum byggingaráformum eins og honum ber að gera. Engu öðru fé er áætlað að verja til þessarar byggingar. Framlög úr ríkissjóði koma ekki til greina og sáralítið þarf að grípa til lántöku, reyndar aðeins um skamman tíma og algerlega á kostnað og ábyrgð byggingarsjóðs. Hér er því að mínum dómi um mjög vel undirbúna fjármögnun að ræða.

Eins og ég hef áður rakið á Ríkisútvarpið við húsnæðisvanda að etja. Stefnt er að því, að þegar sá vandi verði leystur verði það gert til langrar framtíðar, þ. e. með byggingu útvarpshússins við Háaleitisbraut. Það húsnæði, sem stofnunin hefur haft til umráða undanfarin ár og áratugi, verður látið nægja þangað til hægt er að flytja í eigin húsakynni.

Í framhaldi af því, sem hér hefur verið rætt um kostnaðarsamar framkvæmdir og fjárfestingu á vegum Ríkisútvarpsins, er skylt að minnast á endurnýjunarþörf langbylgjustöðvarinnar á Vatnsenda. Í því efni vísa ég til þess sem í skýrslunni segir, en hlýt að segja sem er, að framkvæmdafé hefur ekki verið tryggt í þessu skyni og óvíst hvenær hafist verður handa um slíkar framkvæmdir. Það liggur fyrir að Vatnsendastöð er illa farin og endurnýjun hennar býsna brýn. Þó mun það nokkuð ljóst, að nýrri langbylgjustöð verður ekki valinn staður á Vatnsenda, heldur hafa aðrir staðir verið taldir heppilegri, þ. e. á Garðskaga syðra eða í Flóa í Árnessýslu. Eins og lesa má í skýrslunni hefur verið gerð lausleg áætlun um kostnað við að byggja 500 kw. langbylgjustöð í Flóanum og er hann áætlaður um það bil 50 millj. kr., en segja verður að þessi áætlun er engan veginn nægilega vel undirbúin til þess að öruggt sé að þessi tala standist. Að mínum dómi er bygging langbylgjustöðvar vissulega brýn, og ég hef ekki legið á því að útvega verði fé til stöðvarinnar, þó að það hafi ekki borið árangur til þessa. Eðlilegast er að ríkissjóður taki lán til byggingar langbylgjustöðvar, a. m. k. að verulegum hluta, eins og algengt er þegar um opinber mannvirki er að ræða. Hugsanlegt væri að stofna sérstakan byggingasjóð langbylgjustöðvar með álagi á verð innfluttra hljómflutningstækja, eins og bent er á í skýrslunni að komið gæti til greina, og þá er að nokkru höfð í huga fyrirmynd frá Norðmönnum sem skattleggja hljómflutningstæki í þágu norska ríkisútvarpsins. — En vegna fsp. skýrslubeiðanda er skylt að endurtaka að ákvörðun um byggingu nýrrar langbylgjustöðvar liggur ekki fyrir. Það mál er enn á athugunarstigi og á umræðustigi. Ég verð fús til að hlusta á góð ráð og leiðbeiningar um hvernig það mál verði leyst best fjárhagslega og tæknilega.

Skýrslubeiðendur spyrja hvenær stereóútsendingar nái til landsins alls. Því er til að svara, að nú þegar ná stereósendingar til Suður- og Vesturlands og ráðgert er að Norður- og Austurland njóti þeirra á næsta ári.

Eitt af þeim atriðum, sem snerta útvarpsrekstur og stundum eru rædd manna á meðal og á opinberum vettvangi, er spurningin um landshlutaútvarp, þ. e. útvarp staðbundinnar dagskrár. Fyrirmyndir um slíkt er vissulega að finna í flestum löndum sem Íslendingar þekkja til og vilja gjarnan miða sig við. Ég hygg að nokkur áhugi muni vera víða um land á slíku útvarpi og óneitanlega er margt jákvætt við þessa hugmynd. Persónulega hef ég lengi velt þessari hugmynd fyrir mér og verið henni fylgjandi í grundvallaratriðum. Hins vegar er þessi hugmynd ekki einhlít og ekki auðframkvæmd við ríkjandi aðstæður: Þess vegna hef ég ekki lagt áherslu á að hefja ákveðinn undirbúning undir ákvörðun í þessu máli þann stutta tíma sem ég hef farið með þessi mál í ríkisstj. Önnur miklu brýnni mál hafa kallað að hjá Ríkisútvarpinu. Það vil ég þó segja, að það telst til framtíðarverkefna Ríkisútvarpsins að vinna að því, að landshlutaútvarp sé fyrir hendi og starfi við hliðina á aðalútvarpsrekstrinum.

Um nýja útvarpsrás er svipað að segja. Ég hef ekki séð ástæðu til þess við ríkjandi aðstæður að huga sérstaklega að því máli, en ég get fallist á að hér sé um framtíðarverkefni að ræða.

Þá minnast skýrslubeiðendur á fjármál og kostnað vegna sjónvarpssambands um gervitungl. Um það mál er að finna allítarlegar upplýsingar í skýrslunni og þá sérstaklega í grg. Péturs Guðfinnssonar, sem er alllöng, á bls. 62–64.

Eftir að jarðstöðin Skyggnir í Mosfellssveit hefur tekið til starfa eru tæknilegir möguleikar allmiklir í þessu efni. En slíku sambandi fylgir ákaflega mikill kostnaður og af minni hálfu er þetta mál því enn til athugunar. Það er á athugunarstigi og erfitt að sjá hvenær endanlega leysist úr því. Í þessu sambandi er ekki úr vegi að minnast þess, að svokallað NORDSAT-mál er nú til gaumgæfilegrar könnunar og stefnt að því að leggja tillögur um örlög þess máls af eða á fyrir næsta fund Norðurlandaráðs. Segja má að Íslendingar hafi nú tekið ákveðnari afstöðu með NORDSAT en áður, þótt engin lokaákvörðun liggi fyrir af hálfu Alþingis eða ríkisstj., sem auðvitað er ekki að vænta fyrr en málið liggur fyrir í tillöguformi og eins og það á að framkvæmast og hægt er að ræða það á þeim grundvelli. En ef NORDSAT verður að veruleika, þá mun það hafa sín áhrif á útvarps- og sjónvarpsrekstur hér á landi bæði beint og óbeint.

Herra forseti. Ég skal nú fara að ljúka máli mínu. Ég vil endurtaka það sem ég sagði í upphafi, að þó að skýrslan, sem hér liggur fyrir, sé ekki í því formi sem ég hefði helst kosið, þá á þar eigi að síður að vera að finna staðgóðar upplýsingar um Ríkisútvarpið. Vona ég að hv. alþm. geti haft hennar not við að móta sér hugmyndir og fá skilning á högum stofnunarinnar eins og nú háttar. Það er ljóst, að rekstrarstaða Ríkisútvarpsins hefur verið erfið síðustu tvö ár og er það reyndar enn, en það kemur einnig fram, að stefnt er að því að stöðva hallareksturinn á þessu ár, og ég tel að fullyrða megi að góðar horfur séu í því efni eftir þeim tölum sem liggja fyrir um það sem liðið er ársins. Þetta mál hefur þó ekki gengið átakalaust, sem varla er við að búast, og ég sé ástæðu til þess við þetta tækifæri að þakka stjórnendum Ríkisútvarpsins og útvarpsráði fyrir störf sín í því að finna leið út úr ógöngum hallarekstrar. Þótt Ríkisútvarpið hafi í bili orðið að rifa seglin hvað reksturinn snertir er fjarri því að réttmætt sé að tala um stöðnun eða samdrátt í allri starfsemi stofnunarinnar þegar á heildina er litið. Menn tala gjarnan um framtíðina, en ég vil forðast framtíðarspár fram yfir það sem ráða má af skynsamlegum líkum. Hvorki er það ætlandi nokkrum manni að sjá alla framtíðina fyrir sér né er það sanngjarnt við framtíðina sjálfa, að dauðlegir menn og misjafnlega langlífir takist á hendur að leysa vandamál komandi kynslóða fyrir fram. Ég ætla mér enga slíka dul í málefnum Ríkisútvarpsins. Ég geri mér ekki vonir um að allur vandi Ríkisútvarpsins verði leystur á skömmum tíma og að allar hugmyndir um æskilega starfsemi stofnunarinnar geti orðið að veruleika á samri stundu. Slíkt kemur naumast til greina. En ég vona að það, sem gert er í þágu stofnunarinnar á hverjum tíma, varði leið til framtíðarinnar og það, sem ógert er og verður að bíða, sé ekki svo aðkallandi að það skaði framtíðarhagsmuni Ríkisútvarpsins. Ef okkur tekst að vinna þannig að málum ætti þeim að vera sæmilega borgið.