07.05.1981
Sameinað þing: 81. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4095 í B-deild Alþingistíðinda. (4232)

372. mál, málefni Ríkisútvarpsins

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég mun ekki hafa mörg orð um þessa skýrslu eða málefni Ríkisútvarpsins, en kýs þó að ræða nokkur atriði og þó einkum þau sem hafa helst verið í sviðsljósinu að undanförnu. Mér er skylt að þakka hæstv. menntmrh. fyrir að hafa lagt fram þessa skýrslu samkv. beiðni, en hef að sjálfsögðu þann fyrirvara á, að skýrslan, þótt ítarleg sé í sumum efnum, hefur ekki að geyma fyrirheit eða stefnumótun ráðh. nema að mjög takmörkuðu leyti, enda kom fram hjá hæstv. ráðh. að hann hefði sjálfur kosið að skýrslan yrði í öðru formi.

Hv. síðasti ræðumaður, fyrsti „skýrslubeiðandi“, hefur í mjög ítarlegu máli gagnrýnt skýrsluna og hæstv. menntmrh. og vikið til hans ýmsum nýjum spurningum. Í máli hans mátti kenna ýmis þau atriði sem gjarnan ber á góma í útvarpsráði, en síðasti ræðumaður á sæti í útvarpsráði um þessar mundir, einmitt á þeim tímum þegar í fyrsta skipti, að ég held, a. m. k. um mjög langan aldur, er verið að reyna að ná fram sparnaði hjá Ríkisútvarpinu vegna þess hve stjórnvöld hafa skorið fjármagn við nögl til stofnunarinnar, einkum og sér í lagi með íhaldssemi er varðar hækkun afnotagjalda og með niðurfellingu aðflutningsgjalda sem á sínum tíma var ætlað að standa undir verulegum hluta uppbyggingar Ríkisútvarpsins og þá einkum sjónvarpsins.

Hv. síðasti ræðumaður sagðist vonast til þess — og skoraði jafnframt á ráðh. að hann legði fram skýrslu einu sinni á ári í sinni ráðherratíð. Til gamans get ég kannske bætt við að ég vona að hæstv. ráðh. sé þegar búinn að efna þetta loforð, því að auðvitað eigum við stjórnarandstæðingar þann draum heitastan að þessi ríkisstj. sitji ekki nema þetta ár. Þess vegna má segja, í gamni að vísu, að það sé von mín að ráðh. hafi þegar orðið við þessari beiðni.

Það er auðvitað hallarekstur Ríkisútvarpsins sem hlýtur að verða mest til umræðu nú, ekki síst þegar þess er gætt, að í þessari skýrslu er ekki að finna miklar yfirlýsingar um framtíðarstefnumótun, en hins vegar fjallað um þau mál sem hafa verið til umfjöllunar af hálfu þeirra sem hafa með málefni Ríkisútvarpsins að gera. Því hefur stundum verið lýst úr þessum ræðustól á hv. Alþingi, að það sé vísitalan sem í raun stjórni öllum efnahagsmálum þessa lands, þar með talið fjármálum ríkisstofnana. Ugglaust er eitthvað til í því, kannske meira en lítið. Þetta lýsir sér oft með þeim hætti, að stofnanir og B-hluta fyrirtæki fá ekki umbeðnar hækkanir, en eru látnar leysa vandamál sín með lántöku. Þetta er gert í orði kveðnu til þess að halda niðri verðbólgunni og skýringin er þá talin vera sú, að með því að skera niður afnotagjöld útvarps og önnur slík gjöld komi þær hækkanir ekki fram í kaupi launafólks, en kaup launafólks er stór liður í því að hækka verð vöru í landinu og það er einmitt það sem mælir verðbólguna. Sé þetta hins vegar kannað til hlítar kemur í ljós að ef vandinn er leystur með lántökum til rekstrar eða uppbyggingar slíkra stofnana hefur slíkur niðurskurður — eða þegar komið er í veg fyrir hækkun afnotagjalda í þessu tilviki — ekki minnstu þýðingu til þess að halda verðbólgunni í skefjum. Á þetta minnist ég hér þótt það sé ekki eingöngu mál Ríkisútvarpsins, heldur almennt lögmál sem á við um allar stofnanir, en sýnir fyrst og fremst hve frumstæðir við stjórnmálamenn oft erum þegar við þykjumst vera að leysa vandamál með því í raun að ýta þeim á undan okkur og gera þau enn verri viðureignar.

Það er eðlilegt að spurt sé að því, hvernig hæstv. menntmrh. — og þá um leið hæstv. ríkisstj. — ætlar sér að greiða Ríkisútvarpinu þann rekstrarhalla sem varð á síðustu tveimur árum og lýst er á bls. 5 og 6 í þessari skýrslu. Á bls. 2 í skýrslunni er reyndar sagt að það sé unnt að greiða þetta tap með því að dreifa því á næstu fimm ár og þá með þeim hætti að hækka afnotagjöldin um 10%. Ég held að ég fari rétt með — því miður hef ég ekki tölur við höndina — en ég held að ef Ríkisútvarpið á að vera hallalaust rekið á þessu ári þurfi hækkun í haust að vera talsvert umfram það sem mér hefur heyrst að hæstv. ríkisstj. ætli sér að leyfa opinberum stofnunum að hækka sínar gjaldskrár. Þess vegna er það ákaflega mikils virði fyrir þá, sem stjórna fjármálum þessarar stofnunar, að fá fyrr en síðar vitneskju um hvernig staðið verður að gjaldskrárhækkunarbeiðni stofnunarinnar næsta haust. Í þessu sambandi er rétt að rifja það upp, að þegar hæstv. ríkisstj. tók ákvörðun um það um síðustu áramót að hækka alla opinbera þjónustu um 10%, þá kom slík hækkun vitaskuld ekki Ríkisútvarpinu til góða hvað afnotagjöldin snertir, þótt aðra sögu sé að segja þegar vikið er að auglýsingum útvarps og sjónvarps, en auglýsingagjöld sjónvarps og útvarps hafa hækkað talsvert fram yfir almennar verðlagshækkanir í landinu. Okkur finnst, a. m. k. sumum skýrslubeiðendum, að það þurfi að liggja fyrir sem allra fyrst svar við þessari spurningu.

Það kom fram í máli hæstv. menntmrh., og reyndar kemur það fram í skýrslunni einnig, að tapið á Ríkisútvarpinu mætti rekja til þess, að tolltekjur voru teknar af Ríkisútvarpinu. Hæstv. menntmrh. gat um það í leiðinni, að í raun hefði Ríkisútvarpið átt að vera búið að átta sig á þessu og sníða sér þannig stakk eftir vexti í rekstrinum. Það er rétt í þessu sambandi að rifja það upp, að þessar tolltekjur voru á sínum tíma álitnar vera forsendur þess, að hægt væri að bæta dreifikerfi sjónvarps og að hefja þá litvæðingu sem Ríkisútvarpið lagði í á sínum tíma. Um þetta má ekki aðeins leita upplýsinga og raka í fundargerðarbókum útvarpsráðs, heldur enn fremur í skýrslu nefndar sem m. a. tveir hv. þm. áttu sæti í, Sverrir Hermannsson og Steingrímur Hermannsson, — ég man ekki hver var þriðji maður, en ugglaust voru þeir fleiri, — að þessar tekjur þyrftu að standa undir uppsetningu dreifikerfis. Og þá var reiknað með að litvæðingin, sem fyrst og fremst gat orðið á þéttbýlissvæði Suðvesturlands, gæti skilað af sér gífurlegum tekjuauka vegna aukinnar sölu sjónvarpstækja. En eins og allir vita var lögum breytt og tolltekjurnar hurfu beint í ríkissjóð. Þetta hefur síðan orðið til þess að Ríkisútvarpið hefur þurft að taka lán, sem ég held að sé um 570 millj. gkr., kemur fram í þessari skýrslu, og um það hefur verið deilt hvort hér sé um endurkræft eða óendurkræft lán að tefla. Ég tel að það sé ástæða til þess, að hæstv. menntmrh. svari þeirri spurningu, hvort ætlunin sé, að Ríkisútvarpið greiði þessa fjármuni aftur, eða hvort ætlunin sé, að ríkissjóður greiði þetta lán í stað Ríkisútvarpsins.

Það hefur komið fram í þessum umræðum, og reyndar lýsti hv, síðasti ræðumaður því mætavel, hvernig útvarpsráð hefur undanfarnar vikur og mánuði verið að fást við það að reyna að spara í dagskrárgerð. Útvarpsráð hafur aðeins með dagskrána að gera, það er ekki almenn stjórn stofnunarinnar, en slíkt hefur orðið til þess, að stjórnunin er veik, og kemur m. a. fram í því, að það er tiltölulega lítill hluti útgjalda útvarps sem fer til beinnar útsendingar. Það má eiginlega segja að breytilegi útsendingarkostnaðurinn sé ákaflega lítill, þannig að ef á að ná fram gífurlegum sparnaði með því að skera niður útsendingu eða þynna dagskrána þarf gífurlega mikinn niðurskurð í dagskrárgerð til þess að ná fram tiltölulega litlum sparnaði. Ástæðan fyrir þessu er einfaldlega sú, að fasti kostnaðurinn er gífurlega mikill hjá stofnuninni og á hana, á rekstrarkostnaðinn, hafa verið hengdir ýmsir pinklar. Það hefur verið tiltölulega auðvelt fyrir ýmsa sérhópa að semja við þessa stofnun. Frægt dæmi og nýlegt er um leikara. Enn fremur má minna á það sem hv. síðasti ræðumaður talaði um, Sinfóníuhljómsveitina, og er þá ekki verið að dæma um það, hvort leggja eigi hana niður eða ekki, heldur aðeins að benda á að útvarpinu hefur verið skylt að greiða stóran hluta rekstrarkostnaðarins, alveg burt séð frá því hvort hagur Ríkisútvarpsins stendur vel eða illa.

Jafnframt er hjá Ríkisútvarpinu rekið með myndarlegum hætti hljómplötusafn, kannske það eina sem má kalla fullkomið hljómplötusafn hér á landi. Það er ákaflega dýrt að halda úti slíkri söfnun og geymslu á hljómplötum og spurning hvort það á að vera hlutverk Ríkisútvarpsins að gera slíkt eða einhverra annarrá aðila.

Það, sem ég er að segja með þessum orðum, er einfaldlega það, að ef spara á í rekstrinum kemur fyllilega til greina að spara á miklu fleiri sviðum en í dagskrárgerðinni. En því miður hefur útvarpsráð — eða sem betur fer, eftir því hvernig horft er á það — ekki vald til þess að gera tillögur um slíkt.

Það er ekkert leyndarmál, það er a. m. k. mín skoðun og fjöldamargra annarra, að stjórn Ríkisútvarpsins sé ákaflega veik þótt talsverð bót hafi fengist að undanförnu. Vil ég þar sérstaklega nefna að til útvarpsins hefur ráðist ágætur fjármálastjóri sem hefur tekið á þessum málum þannig að til fyrirmyndar er. En það er ekki nóg.

Komi boð frá hæstv. ríkisstj. um að nú eigi að spara verður ríkisstj. eða fulltrúar hennar í fjárlaga- og hagsýslustofnun að efna til viðræðna við forustumenn Ríkisútvarpsins um hvernig hægt sé að spara. Það er alveg sjálfsagt, eins og hæstv. ráðh. gat um, að draga saman seglin, að rifa seglin þegar ekki fást fjármunir til þess að standa undir óbreyttri starfsemi. Það er sjálfsögð skylda forráðamanna stofnunarinnar að verða við slíkum tilmælum. En á móti hlýtur stjórn útvarpsins að gera þá kröfu til hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh., að þeir láti sína sérfræðinga benda á með hverjum hætti hægt er að spara, en vísi þessu ekki beinlínis til dagskrárgerðarmannanna sem hafa aðeins með lítinn hluta starfseminnar að gera.

Í ræðum, sem hér hafa verið fluttar, hefur talsvert verið rætt um útboð og byggingarframkvæmdir og skal ég ekki fjalla um það frekar. En það er þó athyglisvert mál, einkum og sér í lagi vegna stöðu nefndar í stjórnkerfinu, Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir, að það er augljóst að með því að halda áfram eða hefja á ný — eða hvað við viljum kalla það — byggingu útvarpshúss er verið að taka fram fyrir hendur þessarar ágætu nefndar sem starfar samkvæmt lögum. Og það er ekkert leyndarmál, að formaður fjvn. hefur svarað því til, að það sé ekki löglegt athæfi að hans áliti að fara af stað með útvarpshúsið. Þetta er ég ekki að segja vegna þess að ég telji að ekki eigi að hefja byggingarframkvæmdir og efna til útboðs, heldur til þess að benda á hvernig komið er fyrir ýmsum stofnunum og B-hluta fyrirtækjum sem eiga undir þessa nefnd að sækja. Ástæðan er sú sem kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns, að það hefur verið ágreiningur á milli forráðamanna Ríkisútvarpsins og líklega hæstv. menntmrh. annars vegar og fulltrúa ríkisfjármagnsins hins vegar um hvernig túlka eigi útvarpslögin. Síðan strandaði málið að mínu áliti einfaldlega á því, að menn ræddu ekki saman um þetta mál af — ég leyfi mér að segja: annarlegum ástæðum. Eiga bæði forráðamenn Ríkisútvarpsins og fulltrúar fjmrn. sök á því, hvernig málið strandaði.

Í þessari skýrslu er nokkuð fjallað um landshlutaútvarp og aðra rás. Ég skal ekki heldur tefja lengi við þann kafla, en mig langar til að koma því hér á framfæri og segja frá því, að ég hef í hyggju næsta haust að leggja fram frv. um breytingu á útvarpslögunum sem gerir ráð fyrir að draga úr, ef ég má svo að orði komast, einokun Ríkisútvarpsins á útvarpsrekstri. Slík þróun hefur átt sér stað í nágrannalöndum, og víðast hvar á vesturhveli eru það fleiri en ríkið sem eiga aðild að útvarpsrekstri með ýmsum hætti, ýmist opinberir aðilar eða þá að útvarpsrekstur er í eign einkaaðila eða þá að um er að ræða leigða dagskrá. Aðeins hefur komið fyrir hjá íslenska Ríkisútvarpinu, að útvarpsráð og útvarpsstjóri hafa lánað við viss tækifæri bylgju, eins og t. d. fyrir kosningar, fyrir prestskosningar, alþingiskosningar, sveitarstjórnarkosningar og jafnvel kosningar í Háskóla Íslands, svo dæmi séu tekin. Það má að sjálfsögðu byrja með þessum hætti, en í framtíðinni hlýtur það að verða keppikefli að gefa fleirum tækifæri til þess að gera dagskrá fyrir almenning, og auðvitað styðst það við þá miklu þróun sem hefur orðið í tæknimálum útvarpsrekstrar og þó sérstaklega með tilkomu FM-útvarpsins.

Um þetta ætla ég ekki frekar að ræða að sinni. Þetta mál er í athugun og ég hef þegar safnað gögnum frá ýmsum löndum varðandi þetta mál.

Ég vil aðeins að lokum ítreka þakkir fyrir þessa umr., sem ég held að sé tímabær og nauðsynleg hér í sölum Alþingis, og jafnframt sér í lagi að þakka þá yfirlýsingu, sem kom frá hæstv. menntmrh. og verður að teljast yfirlýsing dagsins, að hann skuli sjá um eða hafi það að sinni stefnu að útvarpið verði rekið hallalaust í hans tíð.