07.05.1981
Sameinað þing: 81. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4099 í B-deild Alþingistíðinda. (4233)

372. mál, málefni Ríkisútvarpsins

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður um þessa skýrslu. Hér er búið að segja margt og þó einkum fjallað um fjármálahlið skýrslunnar, enda gefur hún í sjálfu sér ekki tilefni til annars og er það heldur lakara að mínu mati. Hér hafa menn teygt lopann um fjármálavanda Ríkisútvarpsins og haft um hann mörg orð.

Ég vil byrja á því að þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessa skýrslu. Og ég vil þakka það, að þessi umræða hefur hafist hér á þingi, og vona, að framhald geti orðið á umræðu af þessu tagi í náinni framtíð. Málefni Ríkisútvarpsins eru mjög tengd þessari samkundu, löggjafarsamkundunni, enda um að ræða eitt merkasta menningartæki eða almerkasta sem þessi þjóð ræður yfir.

Áður en ég held lengra og kem að skýrslunni vil ég fara nokkrum orðum um það sem síðasti ræðumaður sagði hér, hugmynd hans um frjálsan útvarpsrekstur. Ég vil taka það fram, taka það skýrt fram, að þeirri hugmynd er ég algjörlega andsnúinn og mun snúast gegn henni af fullri hörku, enda held ég að reynslan, sem hann talar um í öðrum löndum, hafi leitt það í ljós, að svokallaður frjáls útvarpsrekstur er útvarpsrekstur fjármagnsins, en ekki frelsisins.

Ég vil þá aðeins víkja að því sem ég tel kosti og galla á þessari skýrslu.

Í fyrsta lagi hefur skýrslan talsverða kosti sem söguleg heimild. Hún er fullþurr og vantar þar almenna umræðu um menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins sem allt of sjaldan er talað um hér á þingi. Það vantar líka í þessa skýrslu hugleiðingar, m. a. hæstv. menntmrh., um dagskrárgerð útvarps og sjónvarps, um stjórnunarkerfi Ríkisútvarpsins, sem ekki er hvað síst mikilvægt um þessar mundir, hvernig beri að haga stjórnun Ríkisútvarpsins, þ. e. valdi útvarpsráðs annars vegar og útvarpsstjóra hins vegar.

Þá vantar í þessa skýrslu mikilvægan þátt þar sem er öryggisþátturinn, þ. e. sá mikilvægi þáttur sem útvarpinu er gert að gegna í sambandi við allar almannavarnir og hvernig það er í stakk búið til þess að gera það.

Ég vil þá fyrst víkja að húsnæðismálum Ríkisútvarpsins. Og mikið lifandi skelfing er mér farið að leiðast sú ræða sem úrtölumenn í byggingarmálum útvarpsins flytja oftlega, ekki bara hér, heldur á almennum vettvangi, og þetta á auðvitað við hvort sem um er að ræða flokksbræður mína eða einhverja aðra. Ég er þeirrar skoðunar, að ekkert standi Ríkisútvarpinu eins mikið fyrir þrifum og húsnæðismálin, þar þarf að gera gott átak. Og ég er þakklátur hæstv. menntmrh. fyrir að höggva á þann hnút sem það mál var komið í vegna ákveðinnar stefnu tiltekinna embættismanna sem ég hirði ekki um að rekja hér, en hef áður nefnt.

Það kemur fram í skýrslunni, að Ríkisútvarpið býr við þá aðstöðu að þurfa að nota húsnæði á níu stöðum í Reykjavík. Það er á Skúlagötu 4, það er á einkaheimili Páls Heiðars Jónssonar útvarpsmanns, það er í Háskólabíói, það er á Starhaga 2, það er í Edduhúsinu, það er á Suðurlandsbraut 12, á Vatnsendahæð, það er á Suðurlandsbraut 176, við Grensásveg og við Borgartún. Þetta er það sem merkustu menningarstofnun þjóðarinnar er boðið. Auðvitað gefur auga leið að á þessu þarf að ráða bót og verður að ráða bót. Og ég er þeirrar skoðunar, að hæstv. menntmrh. ætti jafnvel — til þess að flýta byggingu útvarpshússins — að reyna að afla meira fjármagns en Framkvæmdasjóðurinn raunverulega heimilar, vegna þess að viðfangsefnið er svo brýnt og það bil, sem þarf að brúa frá þeirri aðstöðu sem nú er fyrir hendi og þar til nýja útvarpshúsið er risið og hægt verður að nota það, — það bil verður styttra eftir því sem fjármagnið verður meira og byggingarhraðinn meiri. Ég vil skora á hæstv. menntmrh. að hugleiða þetta vandlega, hvort ekki væri vegur að reyna að auka fjármagnið sem fer til smíðar hússins, þó ekki væri með öðru en að ríkissjóður endurgreiddi Ríkisútvarpinu það sem hann hefur tekið „ófrjálsri“ hendi frá þeirri stofnun með því að hirða tolltekjur hennar.

Þá vil ég víkja aðeins að þeirri umræðu sem ég held að hér hefði átt að fara fram að einhverju leyti um menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins. Það vill oft verða svo þegar mál af þessu tagi ber á góma, að menn í stjórn og stjórnarandstöðu setji sig í þær stellingar að berjast eins og hundar og kettir. Þetta mál á ekkert skylt við það í raun og veru. Hér er um að ræða mál sem snertir hagsmuni allrar þjóðarinnar. Og ég held ég verði að láta þá skoðun mína í ljós, að núv. hæstv. menntmrh. tók ekki við mjög glæsilegu búi þegar hann kom í sitt embætti. Má í þeim efnum setja ofan í við fyrrv. ríkisstjórnir margar aðrar í málefnum Ríkisútvarpsins, allt frá því að Jónas Þorbergsson varð að gefast upp við að reisa útvarpshúsið á Melunum sem ekkert er til eftir af nema teikningar einar og líkan, líklega geymt í kjallaranum uppi á Vatnsendahæð, nema því hafi verið komið á betri stað núna.

Ég tel að þessi stofnun, Alþingi Íslendinga, verði að ræða meir og betur menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins og láta ekki umræðuna stöðvast um of á fjármálahliðinni og einhverjum tittlingaskít, sem ég vil kalla svo, sem dreginn er fram í dagsljósið þegar umræða af þessu tagi fer fram.

Dagskrárgerð Ríkisútvarpsins og hlutverk þess í menningarlífi þjóðarinnar hefur ekki fengið þá umfjöllun sem nauðsynleg er. Ég vil í þessu sambandi benda t. d. á skýrslu sem breska útvarpið, BBC, lét gera um menningarlegt hlutverk þeirrar stofnunar á Bretlandseyjum og er stórmerkileg skýrsla og segir mjög vandaða sögu af því hlutverki sem þeirri stofnun er ætlað, þ. e. ekki eingöngu að vera dægradvöl fólksins í landinu, heldur fræðandi stofnun, menntandi og hafa m. a. kennsluhlutverki að gegna, eins og sjónvarpinu var í upphafi ætlað, en hefur orðið harla lítið úr, því miður.

Þá held ég að það væri mjög mikilsvert að ræða örlítið dagskrárgerð þessara tveggja stofnana og hvert við raunverulega stefnum með þeirri dagskrárgerð sem við nú göngum frá og send er út, hvort við eigum ekki að hugleiða örlítið meira en við höfum gert hvaða áhrif við ætlum þessari stofnun að hafa úti í þjóðfélaginu og á þjóðina. Ég er þeirrar skoðunar, að í þeim efnum hafi Ríkisútvarpið farið talsvert á skakk hin síðari árin við þann tilgang sem því var ætlaður í upphafi. Þetta hefur m. a. gerst fyrir síauknar kröfur um að Ríkisútvarpið, bæði sjónvarp og útvarp, sé meira dægradvöl, tæki til þess að, geta látið stundir liða án umhugsunar, mikillar a. m. k. Nú er ég ekki að gera kröfu til þess að Ríkisútvarpið verði einhver skoðanamyndandi stofnun sem troði upp á þjóðina einhverjum skoðunum, of einlitum eða of einhliða. Útvarpið á fyrst og fremst að vera spegilmynd af því lífi, sem þjóðin lifir, og spegilmynd þeirrar menningar, sem ástunduð er í landinu.

Ég hef áður gert það að umræðuefni í þessu sambandi að stjórnun Ríkisútvarpsins þurfi að fá nokkra endurskoðun. Þetta er ekki sagt vegna þess að ég telji ekki að Ríkisútvarpinu hafi verið allþokkalega stjórnað, heldur vegna þess að mér finnst, og það er mín staðföst skoðun, að verkefni útvarpsráðs, eins og það er nú, sé nokkuð misskilið. Ég hef t. d. lítið á það sem afkáralegan leik, að útvarpsráð skuli sitja, jafnvel svo klukkustundum skiptir, við að fara yfir einstök dagskráratriði útvarps og sjónvarps og að menn skuli hefja þar oft á tíðum miklar deilur um hvernig það efni eigi að vera. Ég held að það eigi að treysta dagskrárstjórn útvarpsins fyrir því að verulegum hluta og miklum meiri hluta hvernig efnið verði, en hlutverk útvarpsráðs yrði fyrst og fremst að gæta þess, að óhlutdrægni yrði gætt í starfi stofnunarinnar.

Enn fremur hef ég verið þeirrar skoðunar, að embætti útvarpsstjóra ætti að efla þannig að hann yrði óháðari stjórnmálaflokkunum í öllu sínu starfi og stjórnmálaöflunum í landinu. Ég tel að það yrði mjög til bóta. Einnig þyrfti að athuga það í mikilli alvöru, hvort núverandi fyrirkomulag á kosningu útvarpsráðs sé heilbrigt og eðlilegt kerfi. Ég held að það sé ekki.

Ég gæti svo sem þusað um þetta æðilengi, en ætla ekki að þreyta þá fáu þm., sem nenna að hlusta á umræðu um merkustu menningarstofnun þjóðarinnar, á því að tala of lengi um þetta, enda ástæðulaust, svo mikið hefur verið sagt og margt af viti líklega. Ég vil eingöngu í lok orða minna, herra forseti, draga fram þessi þrjú atriði sem ég nefndi í upphafi: Að í þessa skýrslu og raunar í ræðu hæstv. menntmrh. skortir hugleiðingar hans um menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins. Þá vil ég nefna það sem annað atriði, að það hefði verið nauðsynlegt að ræða talsvert miklu meira um þátt Ríkisútvarpsins í almannavörnum, vegna þess að þar er pottur svo rækilega brotinn að það stendur varla steinn yfir steini. Ríkisútvarpið hefur t. d. ekkert samband við miðstöð Almannavarna nema um síma. Mér er ekki kunnugt um að Almannavarnir gætu komið boðum til Ríkisútvarpsins ef t. d. yrði símasambandslaust í Reykjavík á neyðarstundu. Engin fjarskipti eiga sér stað á milli þessara tveggja stofnana, t. d. fréttastofu útvarps og miðstöðvar Almannavarna. Þegar talað er um að Ríkisútvarpið eigi að gegna veigamiklu hlutverki þegar náttúruhamfarir ganga yfir landið eða einhver alvarleg slys verða, þá er það auðvitað grín á sama tíma og langlínumöstrin á Vatnsendahæð eru að hrynja og geta dottið hvenær sem er. Þetta er eitt af þeim atriðum og raunar annað atriðið sem ég nefndi.

Þriðja atriðið, sem ég hefði viljað fjalla hér talsvert miklu meira um, er stjórnunarþátturinn hjá Ríkisútvarpinu, þ. e. vald einstakra embættismanna annars vegar og vald útvarpsráðs hins vegar. Þar held ég að kerfið sé orðið býsna steinrunnið og þyrfti að gera umtalsverðar breytingar á.

Ég vil aðeins, úr því að ég fór nú að upphefja þessa umræðu hér út frá sjálfum mér, minnast á eitt atriði varðandi fjármál Ríkisútvarpsins, innheimtu afnotagjaldanna. Við, sem höfum haft nokkur kynni af Ríkisútvarpinu, höfum rekið okkur á það, að ár eftir ár eru eftirstöðvar af innheimtum afnotagjöldum allháar upphæðir. Þetta hefur lagast mjög í seinni tíð vegna aukinnar hörku í innheimtuaðgerðum, en ég held að þetta mál verði aldrei leyst fyrr en nefskatti verður komið á, þ. e. afnotagjöldin verði innheimt af öllum því að nánast allir landsmenn eiga þess kost að hlusta á Ríkisútvarpið. Það eru undantekningar og auðvitað væri hægt að koma málum svo fyrir að það fólk yrði þá ekki rukkað.

Það er líka til önnur aðferð, sem Svíar hafa notað með góðum árangri, og það er að tengja innheimtu útvarpsgjalda innheimtu símagjalda. Símanum er þá lokað ef útvarpsgjöldin eru ekki greidd. Þetta er dálítið harkaleg aðgerð, ég játa það, og gengið inn á býsna alvarlegt svið, en með þessu móti hefur þeim líka tekist að innheimta sjónvarps- og útvarpsgjöld með mjög góðum árangri. Ég held að þarna sé um að ræða mál sem þurfi að skoða mjög vandlega. Þetta hefur oft verið rætt. Með því að koma á nefskatti er hægt að spara nokkurt starfslið hjá útvarpinu. Það er hægt, reikna ég með, að leggja niður innheimtudeildina, án þess að ég þekki það tæknilega.

Ég vil að endingu taka undir með þeim mönnum, sem hér hafa sagt það og það réttilega, að Ríkisútvarpið hafi á undanförnum árum og áratugum raunverulega verið rænt þeim fjármunum sem löggjafarvaldið hefur ætlast til að það fengi til þess að ráðstafa. Og auðvitað ber þessari stofnun hér skylda til að tryggja það að Ríkisútvarpið geti unnið sómasamlega. Það er svo fjarri því í dag, að það tekur því ekki að tala um þá stöðu, sem stofnunin er í, og þau vandræði, sem þar eru.

Ég get hins vegar sagt að það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að draga úr tilkostnaði, eins og nú hefur átt sér stað á erfiðleikatímum, þegar fjármagn er ekki fyrir hendi. Allt annað væri óeðlilegt. Sjálfir gerum við þá kröfu til einstaklingsins að hann dragi úr neyslu sinni þegar minna er af peningum í buddunni.

Ég vil þá hafa það sem mín lokaorð að skora á hæstv. menntmrh. að setja nú undir sig hausinn og keyra útvarpshúsið áfram og gera það af þvílíkum krafti að það tímabil, sem þessi stofnun verður að kúldrast í húsi Hafrannsóknastofnunar niðri við Skúlagötu, það tímabil styttist, — leysa þann vanda, sem hér hefur verið ræddur, að það þurfi að flytja eða bæta þá aðstöðu, sem nú er, þangað til útvarpið fær nýtt hús. Og ég segi það nú við hæstv. menntmrh., að hann á að láta úrtölumennina eiga sig og vera ekkert að hlusta á þá. Það er náttúrlega dæmalaust svartagallsraus sem menn hafa haft uppi um þessa gömlu, virðulegu stofnun, að geta ekki reist þak yfir höfuðið á henni á sómasamlegan hátt. Þetta er auðvitað þjóð til skammar og þingi líka.