08.05.1981
Efri deild: 94. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4126 í B-deild Alþingistíðinda. (4250)

Umræður utan dagskrár

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Það var einmitt ætlunin með þessum spurningum að a. m. k. kjarni þeirra væri um atriði sem þyrfti ekki að spinnast úr almenn eldhúsdagsumræða. Það kom fram í máli ráðh. og skiptir meginmáli að ríkisstj. hefur ekki ákveðið að þær verðhækkanir, sem hafa beðið afgreiðslu síðan í byrjun mars og eru í rauninni þegar orðnar vegna kostnaðarhækkana atvinnuveganna, mælist í framfærsluvísitölu jafnvel þó að þær verði ákveðnar einum eða tveimur dögum eftir að framfærsluvísitalan hefur verið reiknuð. Það er þetta sem ég hefði gjarnan viljað spyrja hæstv. ráðh. Alþb. hvort þeir leggi blessun sína yfir.

Hæstv. heilbr.- og trmrh., Svavar Gestsson, sat hér lengi inni í deild áðan og greip fram í fyrir mönnum þegar þeir voru að tala, en hann er einhvers staðar frammi núna. Hæstv. ráðh. mundi kannske gera mér þann greiða að koma aðeins hingað inn. (Forseti: Óskar hv. þm. eftir að ráðh. verði við í deildinni?) Já. — Hæstv. ráðh. er kominn hér og ég vildi gjarnan beina örstuttri fsp. til hans, ef hann hefði tíma til að svara, út af þessum umr. utan dagskrár, sem eiga ekki að taka langan tíma.

Hér hefur verið fjallað um meðferð ríkisstj. á verðlagsmálum og útreikning á framfærsluvísitölu og kaupgjaldsvísitölu. Það hefur komið hér fram, að fyrir ríkisstj. og verðlagsyfirvöldum hafa legið beiðnir um verulegar verðhækkanir vegna kostnaðarhækkana atvinnuveganna. Þær hafa ekki fengið afgreiðslu og verðlagsráð ekki komið saman síðan í byrjun mars. Nú hefur verðlagsráð samþykkt sumar þessar hækkanir, en ríkisstj. ekki tekið afstöðu til þess. Þessa daga er verið að vinna að útreikningi framfærsluvísitölu og þar með verðbótavísitölu 1. júní. Nú er alveg ljóst að ef ríkisstj. tekur ekki afstöðu til þessara verðhækkana þessa daga, en kannske eftir 10 daga eða svo, mælast þessar hækkanir ekki í verðbótavísitölu fyrir 1. sept. í haust, og spurning mín er: Álitur hæstv. ráðh. að þetta séu heiðarleg vinnubrögð gagnvart launþegum í þessu efni? (Félmrn.: Hvað séu heiðarleg vinnubrögð?) Að fresta þessum verðhækkunum kannske í örfáa daga fram yfir ákvörðun framfærsluvísitölunnar. — Það kom hér fram að ríkisstj. hefur ekki tekið afstöðu til þessara verðhækkana. Verðlagsráð er búið að samþykkja þær. Verðlagsráð telur að þær séu óhjákvæmilegar. Spurningin er þessi: Verða þær teknar inn í mæli þann sem mælir mönnum verðbætur á laun eða er hér um dulbúna skerðingu á kaupgjaldsvísitölu að ræða? Ég held að hæstv. ráðh. hljóti að geta skilið þetta. (Félmrh.: Ef spurningin er sett þannig fram að hún sé skiljanleg.) Var þetta skiljanlegt, hæstv. ráðh.? (Félmrh.: Þakka þér fyrir, hv. þm., já.)

Ég held að það hafi komið mjög greinilega fram í máli hæstv. viðskrh., að ríkisstj. hefur ekkert ákveðið um hvort þessar hækkanir komi yfirleitt fram í hækkun vísitölunnar. Ég vil taka skýrt fram í sambandi við þetta atriði að ég tel það mjög gagnrýni vert ef menn geta ekki gengið hreint til verks ef þeir telja að það þurfi að skerða vísitölu. Það hefur oft verið gripið til þess ráðs og hæstv. núv. ríkisstj. hefur t. d. gripið til þess ráðs að skerða verðbótavísitölu. En vinnubrögð sem þessi, að leggjast á verðhækkanir vitandi vits á þeim tíma sem verið er að reikna verðbótavísitöluna og ætla með þeim hætti með feluleik og falsi — að lækka vísitöluna, tel ég gagnrýni verð. Ég hef marglýst þeirri skoðun minni, að þegar til lengdar lætur hafi slíkir feluleikir ekki nokkurn skapaðan hlut að segja í sambandi við glímuna við verðbólguna. Það hefur komið fram. Reynslan hefur sýnt þetta. Við erum að glíma við nákvæmlega það sama núna og í fyrra. Verðbólguhraðinn var nákvæmlega sá sami í fyrra og hann er nú, eins og allar opinberar skýrslur sýna, þrátt fyrir allar verðstöðvanir og raunar þrátt fyrir skerðingu vísitölunnar 1. mars, sem í rauninni gerði ekkert annað en kippa til baka grunnkaupshækkunum sem urðu á s. l. árum.

Ég skal ekki lengja mál mitt um þetta atriði og ekki fara mjög mörgum orðum um svör hæstv. ráðh. Aðeins vil ég þó víkja að tvennu í máli hans þar sem hann kom inn á skýrslu Þjóðhagsstofnunar.

Í fyrsta lagi taldi hann að það hefði náðst geysilegur árangur með efnahagsráðstöfunum um áramótin og skerðingu kaupgjaldsvísitölunnar um 7%. Í kveri Þjóðhagsstofnunar segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar á heildina er lítið ætti með þessum aðgerðum“ — það er verið að tala um aðgerðirnar sem gripið var til — „að takast að koma í vega fyrir að verðbólgan taki nýtt stökk upp á við úr því fari sem hún hefur verið í síðustu þrjú árin. Án frekari aðgerða er hins vegar ljóst að næstu misserin verður verðbólga vart minni en sem svarar 45–50%“ — þ. e. í því fari sem hún var þegar hæstv. ríkisstj. settist að völdum.

Það hefur því í rauninni ekkert annað skeð en að ríkisstj. hefur hagað þannig málum að vísitalan hefur rokið upp. Síðan hefur hún kippt hækkuninni til baka með því að skerða verðbætur á laun og bætur almannatrygginga í þessum efnum.

Það væri freistandi að fara út í miklu fleiri atriði sem hæstv. ráðh. kom inn á. Ég vil enn og aftur vara við þeirri oftrú sem hæstv. ríkisstj. virðist hafa á verðlagshöftum og ekki síður á því að halda gengi kyrru eða niðri á sama tíma sem innlendar kostnaðarhækkanir eru verulegar. Það þarf ekki annað en að vísa í reynsluna í þessum efnum. Það vill svo til að þetta var gert síðast á árinu 1979 og í byrjun árs 1980. Og hvaða afleiðingar hafði þetta? Þetta hafði þær afleiðingar, að íslenskir atvinnuvegir lentu í verri samkeppni við innflutning en ella og útflutningsatvinnuvegirnir voru reknir með stórhalla, eins og hæstv. ráðh. kom raunar inn á. Ég vil enn vísa í skýrslu Þjóðhagsstofnunar um reynsluna af stefnunni í gengismálum sem hæstv. ráðh. kom hér inn á. Ég skal ekki fjölyrða um þetta, en ég vísa í þessa skýrslu. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Um vörukaup má nefna að kaup á innlendum vörum virðast hafa dregist saman en innflutningur aukist að sama skapi, enda breyttust verðhlutföll innlendrar framleiðslu og innflutnings innlendu framleiðslunni í óhag á árinu.“ Og svo stendur hér ljósum og skýrum stöfum: „Þessarar þróunar gætti mjög í lok ársins 1979 og fyrstu mánuði ársins 1980. Þá hélst gengisskráningin lítið breytt og innflutningsverð hækkaði mun minna en verð á innlendri framleiðslu.“

Það er þetta sem núna er verið að gera með gengisbrellunni. Það er verið að gera útlendingum auðveldara með samkeppni við innlendar framleiðsluvörur, og það er verið að gera útflutningsatvinnuvegunum erfitt fyrir.

Menn segja, þegar verið er að tala um þetta: Viljið þið þá láta gengið rjúka upp? Hvaða áhrif hefur það á verðbólguna? Menn verða að gera sér grein fyrir því, að það verður að byrja á réttum enda í þessum efnum eins og jafnan og það er ekki hægt að halda gengi stöðugu ef atvinnulífið á að ganga í landinu þegar kostnaðarhækkanir eru feiknalegar. Þá verða atvinnuvegirnir að fá þann kostnað uppi borinn. Þetta er tiltölulega auðvelt að skilja, jafnvel fyrir þá menn sem ekki láta sig varða miklu hag atvinnuveganna.

Það sem upp úr stendur eftir þessa umræðu, er að hæstv. ríkisstj. vinnur að því leynt og ljóst að fresta því að taka óumdeilanlegar verðhækkanir inn í vísitöluna. En hvað þýðir það fyrir launþega og hvað þýðir það fyrir þá sem lifa á bótum almannatrygginga? Ég get upplýst hæstv. ráðh. um það, að frestur um þrjá mánuði á að eitt verðbótavísitölustig reiknist þýðir fyrir alla launþega í landinu um 8 milljarða gkr. á ársgrundvelli, en um 2 milljarða í þrjá mánuði. Ef menn taka lífeyrisþega með, sem fá venjulega hækkun eftir verðbótavísitölu, er um það að ræða að launþegar og lífeyrisþegar eru með þessum hætti sviptir 3 milljörðum gkr. Ég endurtek að menn geta komist að þeirri niðurstöðu að það sé eðlilegt í sambandi við víðtækar ráðstafanir í efnahagsmálum að skerða verðbótaþátt launa og verðbótaþátt annarra greiðslna í þjóðfélaginu, en að vinna þannig með falsi og feluleik að því að svipta launþega eðlilegum verðbótum án allra tilburða til að draga úr verðbólgunni á sama tíma tel ég ámælisvert.

Ég held að ég láti svo þessum umr. lokið frá minni hálfu að sinni.