08.05.1981
Efri deild: 94. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4128 í B-deild Alþingistíðinda. (4251)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég skal ekki taka þátt í því að gera þessar umr. að almennum eldhúsumræðum um efnahagsmál og stjórnmál. Ég get samt ekki stillt mig um að minna hv. fyrirspyrjanda, hv. þm. Lárus Jónsson, á að á árunum 1959–1964 var alls engin verðbótavísitala í sambandi. Það eru fimm ár. Ekki varð ég var við að Sjálfstfl. kvartaði á þeim tíma.

Í öðru lagi varðandi verðstöðvunina. Ríkisstj. Sjálfstfl. setti á verðstöðvun í nóv. 1970 og þessi verðstöðvun er búin að standa eiginlega allar götur síðan. Um það mætti margt segja, en ég skal ekki gera það við þetta tækifæri.

En ég vildi að gefnu tilefni aðeins gera að umræðuefni, hvað hv. þm. varð tíðrætt um það sem hann kallaði „falsvinnubrögð ríkisstj.“, og benda honum á að það er ekki fyrr en á miðvikudaginn í þessari viku sem verðlagsráð heldur fund og samþykkir þær hækkanir sem ég gerði grein fyrir í svarræðu minni áðan. Þessar upplýsingar koma á borð ríkisstj. á fimmtudaginn, í gær, en þá vantaði viðbótarupplýsingar, sem ekki hafði unnist tími til að vinna úr, varðandi t. d. hvaða áhrif þessar samþykktir mundu hafa á vísitöluna. Þannig lágu alls ekki fyrir ríkisstj. í gær þær upplýsingar sem þurfa að liggja fyrir til þess að menn taki ákvarðanir af þessu tagi. Ég geri ráð fyrir að fjallað verði um þetta á þriðjudaginn, á næsta ríkisstjórnarfundi, með eðlilegum hætti. En ég held að það verði ekki hægt að saka ríkisstj. í sjálfu sér um að hún sé með nein falsvinnubrögð í þessum efnum.

Eins og ég tók fram áður er það fyrst og fremst bensínið sem þarna skiptir máli. Hitt skiptir sáralitlu máli. Mér finnst því ekki maklegt að vera að drótta því að ríkisstj. að hún sé með falsvinnubrögð í þessum efnum. En það getur vel verið að menn hafi hliðsjón af þessum upplýsingum þegar menn eru búnir að gera sér grein fyrir því, hvaða áhrif hækkanirnar kunni að hafa á vísitöluna. Ég skal ekkert um það segja. Ég hef aldrei verið talsmaður fyrir því vísitölukerfi sem gildir og skal ekki hefja umr. um það. Ég tel að það sé meingallað og þurfi að gera á því miklar breytingar þó að menn geti verið sammála um að halda vísitölu í gangi til að tryggja kaupmátt launa.

Að lokum vil ég svo segja það varðandi ráðstafanirnar um áramótin, að í áliti Þjóðhagsstofnunar kemur fram að ef ekki hefðu verið gerðar ráðstafanir um áramótin hefði verðbólgan siglt upp í a. m. k. 70%. Í staðinn fyrir það er nú stefnt í 40%. Hvernig ríkisstj. gengur á auðvitað eftir að sýna sig. En ég vil endurtaka að ég held að það sé ekki mögulegt nema með frekari efnahagsaðgerðum síðar á árinu að halda réttu striki.