08.05.1981
Efri deild: 94. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4130 í B-deild Alþingistíðinda. (4253)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það eru kokhraustir ráðh. sem stíga hér í stólinn í dag. (Gripið fram í: Það er annað en stjórnarandstaðan.) Það er nú upplýst hér í fyrsta skipti að 7% kaupskerðingin, sem reið yfir almenning á þessu landi, sé að sérstöku frumkvæði Alþb. Ég held að það sé fróðlegt fyrir menn að vita það og þá einkum og sér í lagi með tilliti til þess, hver málflutningur Alþb. hefur verið á undanförnum árum. Þetta sannar nefnilega að það eina, sem vakir fyrir Alþb.-mönnum, er að hanga í stjórn. Það er stjórnaraðstaðan sem skiptir máli fyrir þá, en ekki hvað þeir hafa sagt eða hverju þeir hafa stefnt að. Það skiptir engu máli. Það gerir auðvitað reginmun að geta látið sér í léttu rúmi liggja ekki einungis hver árangurinn er, heldur einnig hvernig fólkið í landinu fer út úr ákvörðunum þeirra stjórnvalda sem eru hverju sinni.

Það er einkar athyglisvert, að á sama tíma og hæstv. viðskrh. talar hástöfum um hvað aðstæður séu góðar, ytri skilyrði séu góð hér, bendir á að í rauninni fáum við 7.5% hærra verð núna fyrir afurðir okkar en um áramót vegna gengisbreytinga sem orðið hafa án okkar tilverknaðar, — á sama tíma og gengi annarra Evrópumynta sé okkur hagstætt í verðlagsmálum talar formaður Alþb., hæstv. félmrh., sérstaklega um, að kjörin verði ekki verri á þessu ári en hinu síðasta, og talar um það sem sérstaka stefnu Alþb. að þegar ytri skilyrði eru einkanlega góð skuli kjörin þó ekki vera verri en árið á undan. Hann talaði líka fjálglega um að það væri langtum betri vísitala sem væri í sambandi núna en sú sem var áður. Það skyldi þó ekki vera að þessir hæstv. stjórnarherrar væru svona fegnir því að einmitt vegna þeirra breytinga, sem hafa orðið á ytri skilyrðum, að viðskiptakjörin hafa batnað með þessum hætti, þurfi ekki að greiða laun með tilliti til viðskiptakjaraviðmiðunar? Kannske það sé það sem þeir eru svona ánægðir með? Kannske að það sé það sem er svona miklu betra?

En kokhreysti viðskrh. var ekki minni en kokhreystin í hæstv. félmrh. Ráðh. eru alveg sérstaklega ánægðir með sjálfa sig, en mér þótti þó keyra úr hófi fram þegar hæstv. viðskrh. var spurður um stefnu ríkisstj. Hvað gerði ráðh. þá? Hann las upp úr fundasamþykktum Framsfl. Ég hélt að hæstv. viðskrh. vissi það manna best, að við höfum reynslu fyrir því, hversu mikils virði samþykktir Framsfl. eru framsóknarþingmönnunum sjálfum og ráðh. hans í ríkisstj. Við höfum mjög nýlegt dæmi. Það var samþykkt á hátíðarsamkomu í Framsfl. að það skyldi byggð flugstöð. Síðan kom þetta mál til afgreiðslu hér í þinginu og þá hljóp allur Framsfl., nema tveir, frá fundarsamþykktinni. Einn stóð við hana, en einn hljóp úr landi. Þetta er frammistaðan hjá þm. Framsfl. þegar að því kemur að standa við stefnu flokksins. Ég held að það keyri nú alveg um þverbak þegar viðskrh. vitnar sérstaklega í þá stefnu. Ég held að það fari að verða nokkuð öruggt að það, sem samþykkt er sem stefna Framsfl., verði ekki ofan á, það verði þveröfugt sem verði gert.

Ég get tekið fleiri dæmi. Það var stefna Framsfl. að verðbólgan á þessu ári yrði 18%. Ég get ekki séð að hún sé á neinni leið að verða 18%. Það var stefna Framsfl., að um leið og hann kæmist í núv. ríkisstj. skyldi hafin niðurtalning verðbólgunnar. Það, sem ráðh. hafa núna helst til þess að hrósa sér af, er að sú verðbólgugusa, sem þeir bjuggu til sjálfir, skyldi ekki skella yfir. Þannig er nokkuð ljóst að það, sem er stefna Framsfl., gerist ekki og þm. flokksins standa einmitt að þveröfugri stefnu.

En það er athyglisvert í sambandi við þessar umr. og þessa kokhreysti ríkisstj., að hún hrósar sér stórlega af því að verðbólgan skuli ekki vera 70–80% núna. Þegar núv. ríkisstj. tók við var verðbólguhraðinn 42%. Nú er hið háleita markmið ríkisstj. að verðbólguhraðinn verði sá sami og þegar hún tók við. Ekki sýnist mér að þetta sé að setja markið hátt. Sannleikurinn er sá, að þegar maður hlustar á hæstv, talsmenn ríkisstj. núna getur manni ekki dottið annað í hug en hundur sem er búinn að bíta í skottið á sér. Svo gersamlega hefur ríkisstj. snúist í hring í efnahags- og verðlagsmálum á því rúma ári sem hún hefur setið við völd að það minnir ekki á neitt annað.

Þegar ríkisstj. tók við var verðbólguhraðinn 42% og það hafði tekist sæmilega góð samstaða um allsamstæðar aðgerðir til að draga úr verðbólguhraðanum. Það dugði auðvitað ekki fyrir hæstv. viðskrh. og fyrir ríkisstj. að láta málum vera þannig háttað. Þá hét þetta „geymdur vandi“ og það var gusað út verðhækkunum. Hver er svo árangurinn af því? Árangurinn af því var að það stefndi í 70–80% verðbólgu samkv. upplýsingum viðskrh. sjálfs, en þegar ríkisstj. sá hvað henni hafði orðið herfilega á í messunni greip hún til aðhaldsaðgerða sem áttu fyrst að heita verðstöðvun, en reyndust engin verðstöðvun því árangurinn af því varð svipaður og af þeim aðhaldsaðgerðum sem beitt hafði verið áður en ríkisstj. kom til valda.

Þetta er sannleikurinn í þessu máli. Ég vísa því algerlega á bug að um sérstakan geymdan vanda hafi verið að ræða þegar núv. ríkisstj. tók við völdum, en ég óttast að harkalegar aðgerðir ríkisstj. núna, en þó kannske fyrst og fremst stefnuleysi hennar, hafi orðið til að vinna stórkostleg spjöll í efnahagslífinu og stefna ýmsum málum í langtum meiri voða en ætti að vera að réttu lagi.

Hæstv. viðskrh. gerði það sérstaklega að umtalsefni áðan, að þau mörk, sem yrðu ákveðin í verðlagsmálum, mundu taka mið af því, hver vísitöluhækkunin yrði núna, auðvitað hlyti það að hafa áhrif, það væri samband þarna á milli. Ég held að ég verði að minna hæstv. viðskrh. á umr. sem hér fóru fram fyrir réttu ári. Ég varaði þá núv. hæstv. ríkisstj. við því að gusa út verðlagshækkunum að tilefnislausu vegna þess að þær mundu gefa tilefni til annarra verðhækkana. Ég varaði ríkisstj. sérstaklega við því vegna'þess að í stjórnartíð Alþfl. hafði verið undirbúið að hægt væri að fara inn á raunhæfa niðurtalningarleið. Þá vildi hæstv. viðskrh. ekkert við það kannast að þarna væri samband á milli og þær verðhækkanir, sem hefðu komið út í verðlagið, hefðu áhrif á þær verðhækkanir, sem fram undan yrðu og væru sjálfar tilefni til frekari verðhækkana. Mér þykir vænt um að hæstv. viðskrh. hefur þó lært á þessum tíma að þarna er samband á milli. En heilt ár hefur glatast hjá ríkisstj. í verðlagsmálunum. Hennar háleita markmið er að verðbólgan verði í kringum 40%, en þó treysti hæstv. viðskrh. sér ekki til annars en viðurkenna að það geti vel verið að hún verði 45–50%, eins og kemur fram í gagnmerkri skýrslu sem búið er að vitna mjög til áður.

Það er einkar athyglisvert að ytri skilyrði þjóðarbúsins eru mjög góð um þessar mundir. Hæstv. viðskrh. rakti það, að viðskiptakjörin hefðu batnað og það ekkert smáræði, 7.5% styrking á dollar. Það eru ekkert lítil áhrif í íslensku efnahagslífi á sama tíma og aðrar myntir hafa staðið nokkurn veginn í stað. Það hafa líka verið gerðar býsna góðar sölur á saltfiski, fengist 20% hærra verð en í fyrra, og það er ekki inni í þjóðhagsáætluninni nema að mjög takmörkuðu leyti. Það hafa líka verið gerðar býsna góðar sölur á skreið og það er ekki inni nema að takmörkuðu leyti í þjóðhagsáætluninni. Þessi ytri skilyrði ættu að gefa einstakt tækifæri til að ná raunverulegum árangri í verðlagsmálum og í því að koma efnahagslífinu á réttan kjöl, en ef sá hringlandaháttur skal vera uppi, sem verið hefur að undanförnu, rennur það auðvitað allt saman út í sandinn. Það var til marks um það, að þegar gengið var eftir því, hver stefna ríkisstj. væri, vitnaði hæstv. viðskrh. ekki bara í stefnu Framsfl., sem allir vita að er orðin öfugmælavísa í öllum efnum, heldur tókst honum að segja sjö sinnum í ræðu sinni að ekki hefðu verið teknar ákvarðanir, að ekki væri búið að ákveða neitt og að það væri óvíst hvernig þær ákvarðanir yrðu. Þetta er stefnan í reynd: Engar ákvarðanir, óvissa, upplausn.