08.05.1981
Efri deild: 94. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4137 í B-deild Alþingistíðinda. (4256)

319. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég er átalinn fyrir þau vinnubrögð að bera frv. svo seint fram og það er kannske ástæða til að gera það, en ég hef þá afsökun að það var ekki hægt að gera það fyrr eins og á stóð. Það tók ótrúlega langan tíma að yfirfara þetta frv. og ljúka endurskoðuninni í tæka tíð og einnig að kynna þetta frv. fyrir ýmsum sem láta sig það varða og ég taldi rétt að bera það undir áður en það yrði flutt, þannig að það var ekki gott viðgerðar í þessu. Eigi að síður held ég nú, eins og ég sagði í frumræðu minni, að það sé búið að undirbúa þetta mál og kynna svo vel á undanförnum árum að menn þekki nú orðið nokkurn veginn til þessa máls og hafi orðið afstöðu gagnvart sinfóníuhljómsveit, með eða á móti, þannig að ég held að það þurfi ekki ákaflega mikla og nákvæma kynningu á þessu. Þetta mál hefur verið í meginatriðum borið undir þingið áður og rætt hér í þingnefndum og m. a. s. rætt af talsverðum hita og þunga eitt sinn a. m. k., í Nd. Alþingis fyrir nokkrum árum, þannig að málið er vel þekkt.

Það, sem ég held að hafi fram að þessu stöðvað málið og gerði það alveg áreiðanlega vorið 1979, voru þær deilur sem upp komu um að lögfesta skylduaðild tiltekinna sveitarfélaga. Það hafði mjög mikil áhrif á afstöðu margra þm. hér þannig að málið komst ekki lengra. En hitt er rétt, að þær aths., sem hv. þm. Eiður Guðnason var að koma hér með áðan, hafa heyrst áður margar hverjar, þó engan veginn allar.

Mér fannst gagnrýni hv. þm. á 3. gr. að ýmsu leyti ekki mikils virði, t. d. nagg hans um að það skuli ekki vera alveg á hreinu að fleiri sveitarfélög standi að rekstrinum en raun ber vitni. Það er margbúið að kanna í viðtölum við þessi sveitarfélög hvort þau vilji taka þetta að sér og hefur ekki tekist að ná slíku samkomulagi. Ég get ekki séð að það sé nokkur vitglóra í því að halda áfram að dekstra þessi sveitarfélög til þessa og láta málið stöðvast þess vegna.

Það, sem hv. þm. sagði um Ríkisútvarpið, er út af fyrir sig mál sem ég get á margan hátt tekið undir að vissu leyti. Eigi að síður er þessi afstaða hv. þm., þegar upp er staðið og allt er athugað, ekki sérstaklega raunsæ. Ég efa ekki að hv. 5. þm. Vesturl. ber hag Ríkisútvarpsins fyrir brjósti og það er vel, enda á hann sæti í útvarpsráði og hann þekkir vel þá erfiðleika sem eru í rekstri Ríkisútvarpsins. Við vitum báðir að Ríkisútvarpið þarf auknar tekjur, og það munu flestir eða allir fallast á, en hins vegar verð ég nú að segja að þrátt fyrir allt, þó að erfiðlega gangi hjá Ríkisútvarpinu, get ég ekki fallist á að Ríkisútvarpið verði nú skyndilega undanskilið þeirri skyldu að taka þátt í rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég get ekki fallist á að það sé eðlileg krafa, jafnvel þó að illa horfi í rekstri Ríkisútvarpsins. Ég get ekki tekið undir það. Sérstaklega er það vegna þess að slík tillaga mundi leiða til þess í reynd að grundvöllurinn undir rekstri hljómsveitarinnar hryndi. Ef þessi tillaga hv. þm. yrði samþykkt, að það ætti að kippa Ríkisútvarpinu algjörlega þarna út úr, þýddi það að grundvöllurinn undir rekstri hljómsveitarinnar bókstaflega hryndi. Ég held að þar sem hv. þm. hefur reynslu af því að vera formaður fjvn. og hefur þar af leiðandi mjög góða yfirsýn yfir fjármál ríkissjóðs og hvernig þeim er stjórnað og hvernig gengur að afla ríkissjóði tekna, þá hljóti hann að sjá það, þegar hann athugar sinn gang betur, að í raun mundi þetta verða mjög örðug leið. Það er alveg útilokað að það gerist á þessu þingi, og ég held að það muni ekki gerast á næsta þingi heldur, að ríkissjóður taki á sig þau 25% sem nú eru ætluð Ríkisútvarpinu. Ég held að það sé algjörlega óraunhæft að tala um það, og af þeim sökum er ég á móti því. Ég vil að þetta mál gangi fram og ég vil vinna raunhæft að þessu máli, en ekki óraunhæft. Ég viðurkenni hins vegar að það væri æskilegt fyrir hönd Ríkisútvarpsins að losna út úr þessu, þurfa ekki að hafa þennan rekstrarbagga á sér. Það viðurkenni ég fúslega. En ég held að við verðum eigi að síður að líta raunsætt á þessi mál. Ef við viljum að Sinfóníuhljómsveitin verði rekin áfram væri það hið versta lokaráð sem hægt er að hugsa sér ef við ákvæðum að Ríkisútvarpið færi út úr rekstrinum. Það væri sama og að kippa einni höfuðstoðinni undan rekstrinum. Það væri sama og að kippa einni höfuðstoðinni undan rekstri hljómsveitarinnar. Og ég vil minna á að Ríkisútvarpið hefur verið einn höfuðrekstraraðill Sinfóníuhljómsveitarinnar í 31 ár. Ég hygg að Ríkisútvarpið hafi kannske verið sá aðili sem. fyrstur tók á sig verulega kvöð um rekstur hljómsveitarinnar 1950 ásamt Reykjavíkurborg. Ríkið kom þar ekki til fyrr en tveimur árum síðar.

Menn tala hér um að Sinfóníuhljómsveitin sé ríkisfyrirtæki. Það má um það deila hvort svo er. Sannleikurinn er sá, að Sinfóníuhljómsveitin er ekki ríkisfyrirtæki. Hún er fyrirtæki sem ríkið hefur tekið þátt í að reka, en það er mjög vafasamt að kalla hana ríkisfyrirtæki vegna þess að ýmsir aðrir aðilar hafa tekið þátt í þessum rekstri, þ. á m. Reykjavíkurborg á myndarlegan hátt öll þessi ár og Ríkisútvarpið einnig. (Forseti: Vegna samkomulags við þingflokksformenn vil ég mælast til þess að annaðhvort frestuðum við umræðunni eða — ) Ég skal ljúka þessu á tveimur mínútum úr því sem komið er.

Ég skal ekki eyða meiri tíma, enda er ég búinn að svara því, sem fram kom, og bæti þar engu við. Ég ætlaði þó að benda á það að lokum, að það er ekki að öllu leyti rétt að mínum dómi að tala um að Ríkisútvarpið styrki Sinfóníuhljómsveitina alveg án þess að um nokkurt endurgjald sé að ræða. Það er ekki að öllu leyti rétt. (Gripið fram í.) Nei, það kann að vera, en ég ætla að benda á að hljómsveitin leggur Ríkisútvarpinu til dagskrárefni og því megum við ekki gleyma. E. t. v. er það framlag allt að því svo mikið að það nemi því sem Ríkisútvarpið er talið styrkja hljómsveitina. Ég held að það sé fyrst og fremst óraunhæft að tala um að Ríkisútvarpið hætti að styrkja Sinfóníuhljómsveitina og af þeim sökum get ég ekki fallist á það á þessu stigi. En ég endurtek það, að ég vona að hv. þd. hraði þessu máli sem verða má.