08.05.1981
Efri deild: 94. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4147 í B-deild Alþingistíðinda. (4261)

2. mál, skráning á upplýsingum er varða einkamálefni

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Allshn. bárust nokkrar athugasemdir við frv. til l. um kerfisbundna skráningu á upplýsingum, er varða einkamálefni. Hefur n. tekið tillit til þeirra flestra og flytur hér brtt. á þskj. 761. Mun ég nú gera stuttlega grein fyrir þeim.

1. brtt. er við 2. málsgr. 5. gr. Þar er um mjög einfaldar orðalagsbreytingar að ræða. Það stendur hér, með leyfi forseta, í frv. eins og það er nú: „án þess að skýra viðkomandi frá þessu“. Orðinu „þessu“ er sleppt, og síðar í greininni er orðinu „þessu“ breytt í: því. Er talið að betur fari á því að orða þetta með þeim hætti sem n. leggur til.

2. brtt. er við 2. málsgr. 7. gr. sem n. leggur til að orðist svo: „Afmá skal skráðar upplýsingar, sem vegna aldurs eða af öðrum ástæðum hafa glatað gildi sínu“ o. s. frv. Þetta er ekki efnisbreyting, heldur eingöngu orðalag fært til þess sem talið er til betri vegar í þessu tilviki.

3. brtt. er við 4. málsgr. 21. gr. Þar leggur n. til að bætt verði inn orðunum: að fenginni umsögn tölvunefndar, sem sagt að dómsmrh. getur að fenginni umsögn tölvunefndar ákveðið í reglugerð o. s. frv. Ráðh. er gert skylt að leita umsagnar tölvunefndar þarna.

Í fjórða lagi leggur n. til breytingu á 1. málsgr. 22. gr. Þar stendur í frv. að einn nm. skuli vera sérfróður um tölvu- og skráningarmálefni. Allshn. leggur til að bætt verði inn þar á eftir: Hann skal tilnefndur af Skýrslutæknifélagi Íslands.

Í fimmta og síðasta lagi gerir allshn. till. um að nokkur breyting verði gerð á 27. gr. frv., sem játað skal að er fremur óljós, — ekki kannske óljós, en ekki heldur mjög ákveðið eða skýrt afmarkað efni hennar eins og það er í frv. nú. Þar segir að tölvunefnd gefi út öðru hverju skýrslu um starfsemi sína, nefndin geti enn fremur birt almenningi umsagnir og álitsgerðir svo og tillögur er hún hefur látið uppi samkv. lögum. Allshn. leggur til að þessu verði breytt í þá veru, að nefndin skuli árlega birta skýrslu um starfsemi sína. Í skýrslunni skuli birta þau starfsleyfi, sem nefndin hefur veitt, þær reglur, sem hún hefur sett, og þá úrskurði, sem hún hefur upp kveðið. Í ársskýrslu tölvunefndar skuli og greina frá þeirri starfsemi nefndarinnar annarri er ætla má að almenningur láti sig varða eða hafi hagsmuni af að vita. — Það var samdóma álit nm. að þessi breyting væri til verulegra bóta, enda er hér kveðið langtum fastar að orði og skýrar á um hvernig tölvunefnd skuli greina frá sínum störfum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri og legg til að þessar brtt. allshn., sem n. stendur öll að, verði samþykktar.