08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4150 í B-deild Alþingistíðinda. (4266)

180. mál, meðferð mála vegna rangrar notkunar stöðureita

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Í 12. gr. þess frv. til l., sem hér er til umr., er kveðið svo á, með leyfi forseta:

„Eigi má framkvæma aðalskoðun ökutækja eða umskráningu nema gjöld þau, sem á hafa verið lögð samkv. lögum þessum, ásamt kostnaði og dráttarvöxtum, er skráð hafa verið á hina sérstöku skrá samkv. 8. gr. c, hafi verið greidd.“

Þetta er að minni hyggju alveg sjálfsögð og nauðsynleg leið að fara til að auðvelda að þessar skuldir séu greiddar. Hins vegar er eðlilegt að ökumenn óttist að þetta auki enn það umstang sem menn verða að hafa í frammi þegar um er að ræða að undirbúa sig fyrir bílaskoðun, jafnvel hef ég heyrt ofan í þann ótta manna, að því meira sem þetta skoðunarumstang verði, því meiri hætta sé á að því lengur láti menn dragast að láta skoða bíla sína. Því kann auðvitað að fylgja annars konar hætta ef menn eru að aka á óskoðuðum bílum. Þess vegna vil ég koma því á framfæri í sambandi við þessa grein, að það má vel hugsa sér þá framkvæmd hennar að þeim, sem með þessi mál hafa að gera, sé gert, t. a. m. um hver áramót, að senda ökumönnum kvittun, sem þeir fá heim til sín, eða þeim sem skráðir eru fyrir bifreiðunum, þar sem fram er tekið að þeir séu skuldlausir. Þessari kvittun, sem þeir fá þá heim til sín, geta þeir svo framvísað þegar um skoðun er að ræða. Þessi framkvæmd yrði hugsuð til að spara mönnum spor, firra menn óþægindum, sem þeir annars hefðu, og gera alla framkvæmd þessarar greinar liðlegri. Auðvitað er skiljanlegur sá ótti manna, eftir því sem að fleiri kvittanir eða pappíra þarf að ná í áður en bifreiðar eru skoðaðar, þeim mun oftar eigi það sér stað að menn dragi að láta skoða. Það er auðvitað alfarið af hinu illa. — M. ö. o.: um leið og á það skal lögð áhersla að raunar er ekki hægt að fara aðra leið, og það er út af fyrir sig ekkert við það að athuga að þetta sé tengt skoðun bíla, verður að koma í veg fyrir að einstaklingar hafi af þessu óþægindi. Mér sýnist að í framkvæmd sé mjög auðvelt að koma málum þannig fyrir að þessi regla og þessi lagagrein verði framkvæmd án þess að ökumaðurinn hafi af því frekari óþægindi.