08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4150 í B-deild Alþingistíðinda. (4267)

180. mál, meðferð mála vegna rangrar notkunar stöðureita

Sigurgeir Sigurðsson:

Herra forseti. Það er enn fremur út af 12. gr. sem mig langar til að leggja nokkur orð í belg.

Ég er hræddur um að hv. deild og hv. Alþingi sé hér að búa til lagagrein sem verði gersamlega vonlaus í framkvæmd og geri það að verkum að þetta erfiða verk, sem bíleigendur ganga í gegnum ár hvert, að láta færa bíla sína til skoðunar og annað slíkt, verði enn þá erfiðara en verið hefur. Það er ekki vegna þess að bílar séu almennt oftar bilaðir eða verr undir skoðun búnir, heldur vegna þess að þarna er að bætast við eitt skriffinnskubáknið. Við skulum hugsa okkur bifreiðar sem eru með utanbæjarnúmerum. Þar er ég að tala um bíla sem kannske koma hingað til Reykjavíkur eða Akureyrar. Ég held að það séu einungis þau tvö sveitarfélög sem nýta sér gjaldskylda stöðureiti. Ég get vel ímyndað mér að þegar þessir aðilar fara að láta skoða í sinni heimasveit gætu þar legið ótal rukkanir, sem viðkomandi ökumenn hefðu ekki hugmynd um einu sinni að þeir skulduðu vegna þess að ekki hefði náðst til þeirra, og ég get séð í huganum hvaða ringulreið mundi skapast á skoðunarstað ef fógeti eða fulltrúi hans, sem ætti að innheimta gjöld þar, stæði uppi með nokkra sektarmiða í höndum. Viðkomandi mundi borga þá til þess að komast í gegnum skoðunina, væntanlega án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir að þeir væru réttir og án þess að geta leitað réttar síns eftir á, að ég hygg.

Ég vara mjög eindregið við þessari grein. Ég tel frv. í heild spor í rétta átt, því það er að sjálfsögðu ekkert vit í að menn geti komist upp með það árum saman að greiða ekki þessi gjöld, en þarna erum við, held ég, að hnýta okkur bagga sem erfitt verður að bera.