08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4153 í B-deild Alþingistíðinda. (4281)

297. mál, tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Minn fyrirvari við samþykkt þessa frv. var vegna þess til kominn, að ég vildi áskilja mér allan rétt til að fylgja brtt. sem fram kæmu, en í frv. kemur ekkert fram um hvað þetta muni kosta ríkissjóð mikið. Ég geri ráð fyrir að um það geti farið líkt og ég hef hér nokkur dæmi um og gott að hæstv. heilbrrh. skuli vera hér við til að hlusta á þá ábendingu mína.

Ég var að fá í hendur rétt í þessu umslag sem sent er frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins. Það kostar í frímerkjum 370 kr. vinna við að koma þessu í þetta umslag, loka og koma því í póst. Er því vart undir 500 kr. að koma þessum prentaða bækling frá þessari ríkisstofnun til eins þm. og hér eru a. m. k. 60 sem fá þetta í hendur. Þetta er eitt lítið dæmi um hvernig ekki aðeins þm., heldur rn., opinberar stofnanir og allt saman undir stjórn viðkomandi ráðh., sem bera ábyrgð á þessum málum, leyfa sér að haga sér með fé almennings, þann skattpening sem kreistur er undan nöglum okkar.

Ég hafði þennan fyrirvara gagnvart því mali, sem hér er til umr., m. a. vegna þess, að frá hv. stuðningsmönnum frv. liggur ekkert fyrir um fjármögnun nema vitað er að það muni verða einhver aukinn kostnaður úr ríkissjóði við þessa nýju starfrækslu og breytingu. Það liggur hins vegar ekkert fyrir um hvað það kostar skattborgarana margar krónur.