08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4153 í B-deild Alþingistíðinda. (4282)

297. mál, tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég vil flytja hv. landbn. þessarar deildar þakkir fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli.

Varðandi aths. hv. 1. landsk. þm. um, að ekkert liggi fyrir um hvaða aukinn kostnaður fylgi samþykkt þessa frv. fyrir ríkissjóð, vil ég taka það fram, að frv. ber með sér að þátttaka ríkissjóðs í rekstri er ákveðin á þann máta að við tilraunastöðina starfi sérfræðingur í fóðurfræði og rannsóknamaður. Hér er aukinn kostnaður ríkisins um einn starfsmann frá því sem verið hefur. Áður hefur sérfræðingur launaður af ríkinu starfað við Tilraunastöðina í Laugardælum. Að öðru leyti segir um hlutdeild ríkisins í rekstri og stofnkostnaði við þessa tilraunastöð að það skuli ákvarðast hverju sinni við afgreiðslu fjárlaga.

Á undanförnum árum hefur verið veittur nokkur styrkur til Tilraunastöðvarinnar í Laugardælum umfram laun þess starfsmanns sem áður er getið, og hefur Alþingi á valdi sínu hvort sá styrkur fer vaxandi og hversu mikið.

Ég vil taka þetta fram út af þessari aths., en jafnframt vil ég láta þess getið, að það er verulega mikils virði að tilraunastarfsemin í þessari tilraunastöð skuli að mestum hluta borin uppi af bændasamtökunum á Suðurlandi. Bæði mun það verða við þann flutning mannvirkja, sem hlýtur að verða að gera frá Laugardælum að Stóra-Ármóti, og eins að búnaðarsamtökin á Suðurlandi taka á sig að meginhluta ábyrgð á rekstri starfseminnar. Þetta tel ég mikils virði og ég lýsti því yfir við 1. umr. þessa máls, að það væri æskilegt ef unnt væri að útfæra slíka stefnu í ríkari mæli eftir því sem aðstæður leyfa í hverjum landshluta. En ljóst er vitaskuld að bændasamtökin á Suðurlandi eru sterkasti bróðirinn í hópi bændasamtaka sem eru í hinum ýmsu landshlutum.