08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4155 í B-deild Alþingistíðinda. (4284)

297. mál, tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég hef áhuga á að segja um þetta efni örfá orð, ekki síst,fyrir þá sök að þetta mál kom mjög seint fram í þingi og með eðlilegum hætti hefur ekki verið unnt að skýra það jafnvel fyrir mönnum, sem ókunnugir eru, og eðlilegt hefði verið og sjálfsagt að gera ef tækifæri hefði gefist til þess.

Að mínum dómi er með þessu frv. farið inn á leið sem ég held að ætti að nýta í miklu ríkari mæli í sambandi við rannsókna- og tilraunastarfsemi í landinu í heild, þ. e. að fá þá, sem fyrst og fremst njóta rannsóknanna og tilraunanna, til að leggja nokkuð af mörkum og bera ábyrgð á þeim rekstri sem er samfara rannsóknastarfseminni. Þannig hefur verið starfað að þessu á Tilraunastöðinni að Laugardælum að undanförnu að ábyrgðin hefur að öllu leyti verið á hendi Búnaðarsambands Suðurlands. Þeir hafa líka af þeim sökum haft tiltölulega sjálfstæða stjórn á tilraunaverkefnunum, þeirra áhugaefni hafa gengið fyrir.

Með samræmingu þeirri, sem er ætlast til að ganga til með þessu nýja frv., er gert ráð fyrir að þetta falli saman við þá heildarstjórn sem er á tilraunastarfsemi í landinu. Til þess að það megi verða er eðlilegt að Búnaðarsambandið fái til þess fjármuni að framkvæma m. a. þær tilraunir sem það hefur ekki beint áhuga á að leggja í hverju sinni. Á því hefur byggst sá styrkur sem það hefur fengið að undanförnu þegar farið hefur verið í lík verkefni sem núna. Þegar þetta er fellt saman fer ekki hjá því að það kostar ríkið eitthvað.

Ég harma að ekki hefur verið unnið að því í þessu frv. frekar en flestum öðrum, sem koma hér á borð hjá þm., að gera grein fyrir hver fjármagnskostnaður er samfara því að samþykkja frumvörp eins og þetta. En það gefur nokkra vísbendingu að í fjárlögum fyrir árið 1981 get ég nefnt tvær hliðstæðar tilraunastöðvar. Önnur er á Suðurlandi og hin á Norðurlandi. Laugardælastöðin er með styrk að upphæð 110 þús. kr., en álíka tilraunastarfsemi í stöð norður í Eyjafirði er algerlega rekin af ríkinu og hún er með 800 þús. kr. á fjárlögum. Ég er ekki þar með að segja að þessi munur muni haldast, en það fer ekkert milli mála að þarna hlýtur að verða mikill munur á rekstrarkostnaðarlega fyrir ríkið eins og þetta er hugsað og uppbyggt.

Ég ætla ekki að eyða dýrmætum tíma deildarinnar með því að fara miklu lengra út í þetta málefni, en ég held að mér sé óhætt að fullyrða að þegar þetta frv. er samþykkt er ekki verið að fara óvarlega með fjármuni skattborganna, heldur miklu fremur verið að reyna að finna leið til þess að þeir nýtist sem best. Það er mitt mat á málinu.