08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4155 í B-deild Alþingistíðinda. (4285)

297. mál, tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands

Frsm. (Þórarinn Sigurjónsson):

Herra forseti. Það er bara leiðrétting á nokkrum orðum sem hv. 4. þm. Suðurl., Garðar Sigurðsson, viðhafði áðan. Ég held að hann hafi mismælt sig þegar hann sagði að það hefði verið eitthvert samvinnufyrirtæki á Suðurlandi sem hefði leigt Búnaðarsambandinu jörð með afarkostum eða slæmum kjörum. Kaupfélag Árnesinga hefur leigt Búnaðarsambandinu jörðina, en ekki með afarkostum eða slæmum kjörum. Það er alrangt. Jörðin hefur verið leigð með mjög góðum kjörum til Búnaðarsambandsins, enda kemur það fram í grg. með frv. Vil ég leiðrétta það hér með. Búnaðarsambandið hefur greitt mjög hagstæða leigu þau ár sem það hefur búið í Laugardælum þessu tilraunabúi. En þar sem það hefur nú fengið gefins jörð, Stóra-Ármót í Flóa, óskar það eðlilega eftir að flytja starfsemi sína þangað. Þessar jarðir liggja saman og er því stutt að flytja, en gert er ráð fyrir að það taki 5–10 ár að flytja þessa starfsemi.