08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4156 í B-deild Alþingistíðinda. (4290)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Áður en forseti kveður upp úrskurð sinn í sambandi við þetta mál vil ég að það sjónarmið komi fram, að ég tel algerlega ástæðulaust að fara að fresta þessu máli nú. Ég taldi raunar í gær að það væri fullkomlega ástæðulaust að fresta því þó svo að hæstv. sjútvrh. væri fjarverandi, af þeirri einföldu ástæðu, að þegar mál er komið út úr nefnd er það auðvitað frsm. n. sem fyrir málinu talar og situr fyrir svörum sem slíkur. Ég vil eindregið mótmæla því, að farið verði að fresta málinu núna. Það háttaði einnig svo til í gær, að sá hv. þm., sem í gær óskaði eftir að málinu væri frestað, hv. þm. Karvel Pálmason, vissi mætavel að málið yrði þá tekið fyrir í dag og þó svo hann sé nú fjarverandi verður að hafa það. Rök koma fram og menn þekkja hin almennu rök í þessum efnum, herra forseti, en ég vil mótmæla því, að þessu máli verði frestað enn. Það var um miðjan mars sem þetta mál kom út úr nefnd. Það er engin ástæða til þess og nálgast það að vera fullkomin frekja að ætlast til þess eina ferðina enn að þessu máli sé frestað, enda liggja ekki á bak við það þau rök að það sé æskilegt málsins vegna, heldur er það leið til að tefja og reyna að drepa þetta mál. Ég mótmæli af þessum ástæðum.