08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4158 í B-deild Alþingistíðinda. (4293)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Árni Gunnarsson:

Þá er það í þriðja skipti að forseti mælist til þess, að ég stytti mát mitt.

Ég verð nú að segja það, herra forseti, að ég tel þennan úrskurð ekki þinglegan, og það segi ég vegna þess að í fyrsta lagi er 1. flm. málsins ekki viðstaddur umr. Í öðru lagi er maður, sem þarf að mæla fyrir nál., ekki heldur viðstaddur og þó svo að hans nál. fjalli um að hann sé á móti frv. þarf hann að fá að gera grein fyrir því áliti sínu. Það hefði ég talið mjög þinglegt að hann fengi að gera. Og ég sé ekki að það sé verið, eins og hæstv. forseti heldur fram, að reyna að koma þessu máli fyrir kattarnef hér þó að það yrði dregið fram í næstu viku að ræða það í þinginu. Annað eins hefur gerst hér í þingsölum. Tel ég þess vegna alveg ástæðu og ærna ástæðu til að doka aðeins við með afgreiðslu eða umr. um þetta mál.