11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Viðskrh. er erlendis eins og stendur. Ég gegni störfum hans. Í því felst það, að ég annast nú afgreiðslu þeirra starfa og erinda sem þarf að afgreiða í viðskrn. Hins vegar get ég ekki tekið að mér að svara fyrir þau ummæli sem hér hafa fallið í umr. og ég reyndar heyrði ekki vegna þess að ég var þá ekki viðstaddur.

Viðskrh. kemur heim á sunnudag, að ég ætla, og hann verður því væntanlega viðstaddur hér næsta þriðjudag. Ég held þess vegna að eðlilegt væri að fresta þessum umr. þangað til hann er viðstaddur og getur svarað þeim spurningum sem hv. þm. leikur svo mjög hugur á að fá svör við. Ég skýt því til forseta, hvort það væru ekki eðlileg vinnubrögð þar sem svona stendur á, að á næsta fyrirspurnadegi verður hæstv. viðskrh. að öllu sjálfráðu við. (EKJ: Hefur málið alls ekki verið rætt í ríkisstj.? Vita aðrir ráðh. en viðskrh. einn ekki nokkurn skapaðan hlut um þetta?) Það er best að hafa allt frá fyrstu hendi.