08.05.1981
Neðri deild: 90. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4170 í B-deild Alþingistíðinda. (4302)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Jósef H. Þorgeirsson:

Herra forseti. Það liggur við að hvarfli að manni að vekja athygli á því, herra forseti, hve það virðist næsta tilgangslaust að vera að ræða þetta mál hér því að hér eru aðeins einir sex þm. í salnum og auðvitað vantar flm. málsins og það vantar framsögumenn nál., það er hvorugur þeirra í salnum. Ég mælist nú til þess, herra forseti, að við hinkrum aðeins með framhaldið. (Forseti: Starfandi sjútvrh. er bundinn við viðtal við sjónvarpið eins og stendur, en hlýtur að vera væntanlegur á hverri stundu. Aðalsjútvrh. er tepptur úti í Englandi.) Herra forseti. Þetta, sem forsetinn sagði nú síðast, undirstrikar enn betur en þegar hefur fram komið í dag hversu tilgangslaust er í raun og veru að vera að ræða þetta mál. Flm. málsins er víðs fjarri, staðgöngumaður hans er víðs fjarri, varaþingmaður hans er víðs fjarri, einn af talsmönnum sjútvn., sem skilaði séráliti, er víðs fjarri. Allt þetta undirstrikar hversu óþingleg sú meðferð forseta var á því máli fyrr í dag að synja um frestun á þessum umr. Þrátt fyrir þetta vil ég halda áfram máli mínu og koma þá fyrst að þeim atriðum sem stundum hefur verið vikið að í þessum umr. og snerta sögu dragnótaveiða í Faxaflóa.

Því hefur verið haldið fram af hálfu meðmælenda dragnótaveiða í Faxaflóa að þeir, sem hafa beitt sér gegn dragnótaveiði í Faxaflóa, tali af lítilli þekkingu og tali jafnvel af misskilningi ef þeim eru ekki jafnvel ætlaðar enn lægri hvatir. Ég vil þess vegna fara yfir það í örfáum orðum hvernig veiðum hefur að þessu leyti verið háttað í Faxaflóa á undanförnum áratugum.

Eins og kunnugt er var Faxaflóa lokað árið 1952 fyrir dragnótaveiðum og botnvörpuveiðum, en á því ári var svo komið að meira en 90% af þeirri ýsu, sem aflaðist í Faxaflóa, var þriggja ára eða yngri og þessi ýsa var að meðaltali, hver fiskur, aðeins 300 g og þaðan af minni. Eftir að lokunin 1952 átti sér stað fóru farsæl áhrif friðunar mjög fljótlega að segja til sín og þegar á árinu 1955 eru um 80% af ýsuaflanum í Faxaflóa orðin fimm, sex og sjö ára fiskur og 15% af ýsuaflanum var á því ári fjögurra ára fiskur. Að því er varðar meðalstærðina hafði orðið á sú breyting, að í stað þess, að á árinu 1952 veiddist eingöngu um 300 g ýsa, var meðalþungi ýsunnar árið 1955, sem veiddist í Faxaflóa, orðinn nær 2 kg eða allt að því sjö sinnum meiri en meðalþunginn var á árinu 1952.

Nú hefði margur haldið að þessi einföldu rök hefðu átt að nægja til þess að menn hefðu haldið áfram friðun Faxaflóa og ekki opnað hann aftur fyrir dragnótaveiði, en þetta fór á aðra lund. Það voru höfð uppi ósköp svipuð rök fyrir dragnótinni og nú eru höfð uppi um að þetta væri sárasaklaust veiðarfæri, um að það væri bráðnauðsynlegt að nýta skarkolann í Faxaflóa, þar yrði skarkolinn ellidauður og að það væri þrefelt lag af skarkola í Faxaflóa. Allur þessi rökstuðningur leiddi til þess, að á árinu 1960 voru dragnótaveiðar leyfðar aftur í Faxaflóa. Um það mál urðu á þeim tíma allveruleg átök, en niðurstaðan hér í þinginu varð samt sú, að dragnótaveiðar í Faxaflóa voru leyfðar. Og hver urðu svo áhrifin?

Að vísu fór dragnótaveiðin hægt af stað eftir 1960 og hin hagstæðu áhrif friðunar frá 1952 héldust til 1962, en þá urðu algjör þáttaskil, enda höfðu þá dragnótaveiðar aukist mjög verulega í Faxaflóa. Sem dæmi um það, hve þessar dragnótaveiðar voru miklar, skal þess getið, að á árinu 1960 voru heildarveiðar dragnótabátanna í Faxaflóa 4923 tonn, en tveimur árum síðar var aflamagnið komið upp í 10 539 tonn og nær þá hámarki. Síðan minnkar afli dragnótabátanna ár frá ári og 1966 var hann kominn niður í 6500 tonn og hann fór niður í 684 tonn á árinu 1968, m. ö. o.: sagan endurtók sig. Eftir að dragnótaveiðar voru leyfðar í Faxaflóa á árinu 1960 hrundi ýsustofninn sem hafði tekið ákaflega vel við sér eftir friðunina á árinu 1952.

Til frekari glöggvunar á því, með hvaða hætti þetta hrun í ýsuveiðunum varð eftir að dragnótaveiðar voru leyfðar í Faxaflóa á árinu 1960, skal þess getið, að á árinu 1962 eða haustvertíðinni á Akranesi á árinu 1962 var meðalýsuafli í róðri 3.7 tonn. Þessi ýsuafli minnkaði ár frá ári meðan dragnótaveiðar voru leyfðar í Faxaflóa eftir 1960 og var svo komið á haustvertíðinni á Akranesi á árinu 1970 að meðalýsuafli í hverjum róðri var aðeins 0.7 tonn á árinu 1970. Á árinu 1970 var hins vegar aftur bannað að veiða með dragnót í Faxaflóa, og það var eins og við manninn mælt að fljótlega eftir það fór ýsuaflinn að aukast og hann hefur nær látlaust haldið áfram að aukast síðan. Það var svo komið á haustvertíð Akranesbáta á árinu 1980 að ýsuaflinn var í hverjum róðri kominn upp í liðlega 2 tonn. — Ég hygg að þetta séu meginrök þeirra manna sem halda því fram að það sé háskalegt að heimila dragnótaveiðar í Faxaflóa.

Það er staðreynd að Faxaflóinn er mikilsverð uppeldisstöð ungfiska og hann er einkar mikilvæg uppeldisstöð fyrir ýsustofninn í landinu. Það var um áratugaskeið skoðun Íslendinga, fiskifræðinga sem annarra, að brýna nauðsyn bæri til að friða Faxaflóa fyrir öllum botnveiðarfærum, og um margra áratuga skeið börðust menn fyrir því, að slík friðun kæmist á. Hún komst ekki á fyrr en á árinu 1952. Það voru í upphafi landhelgisdeilu okkar Íslendinga við Breta mikilvæg rök af okkar hálfu hve nauðsynlegt væri að útiloka allar togveiðar í Faxaflóa, og þeim rökum var óspart beitt af hálfu Íslendinga til að sanna ágæti þess málstaðar að Íslendingar þyrftu að færa út landhelgi sína m. a. til að geta hagað veiðum með tilliti til þess, hvað væri hagkvæmast og heppilegast fyrir uppeldisstöðvar nytjafiska í landinu. En það eru fleiri rök, sem mæla með því að banna dragnótaveiðar í Faxaflóa, en þau rök sem dregin verða af því, hvernig háttað er samspili þessara dragnótaveiða við þann afla sem berst á land í verstöðvum við Faxaflóa. Það er vitað og viðurkennt að á þeim árum, sem síldin var og hét hér við Suðvesturlandið, var algengt að veiðarfæri eins og dragnót kæmu upp loðin eftir að hafa farið í gegnum þau svæði þar sem síldin klakti út. Einnig er vitað að dragnót er ákaflega líkleg til að veiða lúðu, en lúða er einn af þeim fiskstofnum sem allir eru sammála um að sé nú um sinn ofveidd.

Rökin fyrir því, að ekki eigi að veiða með dragnót í Faxaflóa, eru því mörg og margvísleg, en þau byggja fyrst og fremst á þeirri reynslu sem fjölmargir sjómenn við Faxaflóa hafa öðlast við það að stunda veiðar frá verstöðvum við Faxaflóa um áratugaskeið. Það skýtur því verulega skökku við þegar ýmsir menn koma hér upp í ræðustól og halda því fram, að varnaðarorð þeirra, sem vilja friða Faxaflóann fyrir dragnótaveiði, séu tal manna sem tilheyri einhverjum trúarsöfnuði, þessi orð séu byggð á vanþekkingu og misskilningi. Jafnframt geta þessir ræðumenn þess, að það fari ekkert á milli mála að þeir einir viti hvaða veiðarfæri henti í Faxaflóa því að þeir hafi svo og svo lengi stundað sjó. En það vill nú svo til að fjölmargir sjómenn hafa látið frá sér heyra um þetta mál einmitt nú á þessu ári. Á lestrarsal Alþingis eru þykkir bunkar af símskeytum sem sjómenn við Faxaflóa hafa sent. Þessi símskeyti eiga sér það sammerkt að þau eru eindregin og ákveðin varnaðarorð gegn því að upp séu teknar dragnótaveiðar í Faxaflóa. Ég efast ekki um að ýmsir af þeim þm., sem tala fyrir dragnótaveiði úr þessum ræðustól, séu hinir ágætustu menn, þeir hugsi rökrétt og reynsla þeirra af sjómennsku sé mikil og góð. En ég verð jafnframt að láta í ljós þá skoðun, að það eru fleiri sjómenn sem hafa ágæta reynslu og langa reynslu í starfi. Mér er nær að halda að margir af þeim sjómönnum, sem hafa látið til sín heyra í símskeytum sem liggja hér á lestrarsal, séu allt að því eins rökvísir og hv. 5. þm. Suðurl. og hv. 1. landsk. þm. Jafnvel leyfi ég mér að ætla að sumir af þessum mönnum séu allt að því eins gáfaðir og þessir tveir ágætu menn og þess vegna sé full ástæða til að taka tillit til varnaðarorða sem starfandi sjómenn hafa látið frá sér fara.

Það hefur komið fram í þessum umr. að dragnót sé sárasaklaust veiðarfæri, henni sé eingöngu ætlað að veiða skarkola og það sé meira að segja ákvæði í þessu frv. um að dragnótin eigi bara að veiða skarkolann. Nú efast ég ekkert um að rétt sé frá skýrt og hef reyndar lesið þetta sjálfur, en hins vegar kann víst dragnótin ekki að lesa og alls ekki fiskarnir sem synda í sjónum. Það vill nú svo til að oft og tíðum slæðist annar fiskur í þetta veiðarfæri og þó að það sé misjafnt eftir árstíma getur það á stundum orðið allverulegt magn sem læðist inn í dragnótina með skarkolanum. Ég hef hérna fyrir framan mig skýrslu eða skrá um afla þriggja báta sem lönduðu á s. l. sumri í Keflavík, og ef við lítum á hvernig veiði þessara báta var saman sett í júlímánuði kemur í ljós að einn þessara báta, sem heitir Gullþór KE 85, veiddi 107.3 tonn í júlímánuði. Af þessum 107.3 tonnum voru 73.69 koli, en þorskur var 20.65. Annar þessara báta heitir Ólafur RE 49. Hann veiddi 74.9 tonn í júlímánuði, þar af var koli 53.26 tonn, en þorskur var 12.65 tonn. Þriðji báturinn heitir Baldur KE 97. Þessi bátur veiddi 88.96 tonn í júlímánuði. Af þessu magni voru 63.79 tonn koli, en 20.64 tonn þorskur. (Gripið fram í.) Það er gripið fram í og spurst fyrir um hvernig þetta hafi verið í ágúst. Það er rétt að þá minnkaði þorskurinn í aflamagni þessara báta verulega, en það breytir ekki þeirri staðreynd, að hættan á að annar fiskur en skarkoll fari í dragnótina er fyrir hendi og það fer svo eftir árstíma og fiskgengd hvaða fiskur fer í dragnótina.

Þetta held ég að sanni fyllilega að dragnótaveiðar í Faxaflóa eru, þó ekki sé sterkar að orði kveðið, stórhættulegar og þær eru líklegar til að spilla fyrir fiskgengd í Faxaflóa og þær spilla fyrir hagsmunum þeirra fjöldamörgu manna sem stunda útgerð á smáum bátum frá verstöðvum víðs vegar við Faxaflóann. (Gripið fram í: Hvaða verstöðvum?) Þannig var tekið til orða í einhverri ræðu hér áðan, að 15 trillukarlar af Akranesi hefðu fengið að ráða því hvort dragnótaveiðar væru stundaðar við Faxaflóa eða ekki. En hér eru miklu meiri hagsmunir í húfi en að tengja megi þá við 15 trillukarla á Akranesi þó að auðvitað séu þeirra hagsmunir mikils virði líka. Það vill þannig til að við Faxaflóa eru skráðir 283 opnir, smábátar eða svokallaðir B-bátar. Þessum bátum er haldið til fiskveiða frá verstöðvum víðs vegar við Faxaflóa og ég fæ ekki séð að það sé nein skynsemd fólgin í því, með hagsmuni allra þessara bátseigenda í húfi, að setja þá á vonarvöl fyrir hagsmuni 6–8 dragnótabáta. Ég efast ekki um að hagsmunir þeirra manna, sem gera út og eiga þessa 283 smábáta við Faxaflóa, séu miklu meira virði en hagsmunir þeirra, sem koma til með að gera út 6–8 dragnótabáta, eða hagsmunir þeirra, sem við þá kunna að vinna.

Því var haldið fram hér í ræðu áðan, að nauðsynlegt væri að leyfa dragnótaveiðar til að nýta þann vélakost sem hefur verið fenginn í tvö frystihús við Faxaflóa, svokallaðar kolaflökunarvélar. Þetta er ekkert sjónarmið. Kolaflökunarvél mun kosta eitthvað um 30 millj. gkr. Vitanlega eru þau fyrirtæki fjöldamörg, bæði hér við Faxaflóa og annars staðar á landinu, sem geta komið sér upp kolaflökunarvél ef á þarf að halda. Þess vegna er engin ástæða til að haga veiðum í Faxaflóa með tilliti til þess, hvort einhver við Faxaflóa á kolaflökunarvél eða ekki.

Frsm. meiri hl. sjútvn. lét þess getið í ræðu sinni fyrr í dag, að okkur bæri skylda til að stunda útgerð með sem hagkvæmustum hætti. Undir þessi orð hans get ég fyllilega tekið, en ég efast hins vegar um, og þykist hafa leitt að því nokkur rök í þessari ræðu, að það sé skynsamleg veiðiaðferð að stunda skarkolaveiðar í Faxaflóa. Ég held að það fari ekki á milli mála að reynsla undangenginna áratuga sanni það svo ekki verði um villst, að í hvert skipti sem skarkolaveiðar hafa verið leyfðar í Faxaflóa hefur mjög fljótlega eftir að sú ákvörðun var tekin dregið verulega úr fiskgengd í Faxaflóa. Það hefur á stundum legið við að kalla mætti Faxaflóann eyðimörk í stað þess að áður var hann oftast nær nefndur gullkista.

Valið að mínu viti í þessu máli stendur um hvort við eigum að leyfa veiðarfæri í Faxaflóa sem margendurtekin reynsla sannar að stórlega spillir flóanum sem veiðisvæði og dregur stórlega úr afla í Faxaflóa. Í mínum huga er þetta val ekkert erfitt. Ég álít að það eigi ekki að leyfa dragnótaveiðar í Faxaflóa og að þeir menn, sem fyrir því standa að leyfa að taka upp dragnótaveiðar í Faxaflóa, séu að taka á sig gífurlega ábyrgð gagnvart öllum þeim mikla fjölda manna sem hefur hagsmuni af því að stunda fiskveiðar í Faxaflóa, ekki aðeins yfir sumartímann, heldur allt árið um kring, og gegn hagsmunum þeirra manna sem atvinnu hafa af því að vinna við fiskvinnslu í verstöðvunum við Faxaflóa víðs vegar.