11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Mér finnst það ansi lítilvæg ástæða sem forseti byggir á úrskurð sinn um að taka þetta mál út af dagskrá að ósk hæstv. utanrrh. um að málið verði tekið út af dagskrá á grundvelli þess, að hæstv. viðskrh. komi heim á sunnudaginn og verði hér við n.k. þriðjudag. Nú vita allir hv. þm. að þessi hæstv. ráðh. er hið mesta fjarri þingsölum, þannig að við getum alveg eins búist við að hann verði aftur farinn í hina áttina frá Íslandi strax á mánudagskvöld. Við höfum enga fullvissu um að hann verði á þriðjudaginn kemur hér í þinginu.

Hins vegar finnst mér á margan hátt vera óþarfar spurningar, sem lagðar eru fyrir ráðh., sérstaklega viðskrh., og hinar vitlausustu dagsetningar notaðar í því sambandi, og þá á ég bæði við 1. des. og þann dag sem þingið verður sent í jólahlé. Það er vitað mál af hverju ekkert er látið uppi um fyrirhugaðar efnahagsráðstafanir ríkisstj. Það eru ekki þessar dagsetningar sem þar koma við sögu. Það er önnur dagsetning. Það er dagsetningin á því þegar Alþýðusambandsþing hefst. Það er einmitt það sem veldur því að ráðherrar Alþb. eru logandi hræddir við að láta nokkuð uppi um það sem hefur verið rætt í ríkisstj. og þeim vinnunefndum sem ríkisstj. hefur skipað, sem óhjákvæmilega mun verða til þess að skerða enn frekar kaupmátt íslenskra launþega heldur en þegar hefur verið gert á valdatíma hæstv. ríkisstj.