12.05.1981
Efri deild: 96. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4232 í B-deild Alþingistíðinda. (4337)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Eins og alkunna er búa íslenskir atvinnuvegir um þessar mundir við mikla erfiðleika, flestir eða allir, og kannske mál landbúnaðarins einna alvarlegust og er það af ýmsum sökum. Ég ætla ekki í umr. um landbúnaðarmálin að upphefja neina almenna pólitíska umræðu, heldur reyna að einbeita mér að því að grafast fyrir um málefni landbúnaðarins sérstaklega og hvað þar gæti orðið til úrbóta, og er mjög ánægjulegt að slík umræða geti farið hér fram.

Ég held að allir þeir, sem eitthvað þekkja til landbúnaðarmálanna, viti að það er mikill uggur í mönnum varðandi framleiðslumálin og þá kannske ekki síst vegna hins svokallaða kvótakerfis sem raunar virðist erfitt að framkvæma. A. m. k. í sumum héruðum vita menn ekkert um hvernig niðurstaðan af því öllu saman verður, og hygg ég að miklir erfiðleikar hafi verið hjá samtökum bænda við að undirbúa það mál allt saman. Mér segir svo hugur um að það verði aldrei framkvæmt, eða a. m. k. geti það ekki orðið til lengdar, því að það mundi verða mjög skaðvænlegt heilbrigðri þróun íslensks landbúnaðar.

Ég á raunar von á að hæstv. landbrh. muni greina okkur frá gangi þeirra mála hér á eftir, en sérstaklega veit ég að hann mun svara fsp. mínum varðandi beinar greiðslur til bænda og ræða þau mál og við í sameiningu hér, Ed.-þingmenn, reyna að komast að einhverri niðurstöðu um hvað helst geti orðið til bóta í landbúnaðinum og hvort við getum í okkar löggjafarstörfum eða hér á Alþingi sameinast um einhverjar þær leiðir sem gætu bjargað landbúnaði eða bætt hag bænda, sem vissulega er ekki vanþörf á. Ég ætla ekki, eins og ég sagði áðan, að fara út í að eltast við orsakir þess vanda, heldur reyna að einbeita mér að því að gera grein fyrir aðgerðum sem ég held að gætu sannarlega orðið til bóta.

Þar er þá fyrst til að taka að Alþingi samþykkti, eins og kunnugt er, 22. maí 1979 þál. um beinar greiðslur til bænda. Sú. þál. hljóðar á þessa leið, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að settar verði reglur um rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins sem tryggi að bændur fái í hendur þá fjármuni, sem þeim eru ætlaðir, um leið og lánin eru veitt.“

Og síðari mgr.:

„Jafnframt láti ríkisstj. fara fram athugun á því, hvernig heppilegast sé að koma við breytingum á greiðslum útflutningsbóta og niðurgreiðslna þannig að þær nýtist betur.“

Um fyrri lið þessarar þál. hafa verið talsverðar umr. nú alveg nýverið og þar gerði viðskrh. í lok umr. grein fyrir því, að hann mundi láta vinna að framgangi þessa máls, væntanlega alveg á næstunni, þó að það hefði verið dregið fram til þessa. Þar var upplýst að Seðlabankinn bendir á augljósa og einfalda leið til þess að koma fjármunum bænda til þeirra í samræmi við eindregna og ákveðna ályktun Alþingis þannig að ríkisstj., hver sem hún er, geti ekki skotið sér undan að framkvæma fyrri lið þál., og á ég von á að viðskrh. muni nú gera gangskör að því að sjá til þess, að ályktunin verði framkvæmd, og ég efast ekki um að hæstv. landbrh. muni leggjast á þá sveifina, enda var bréfið frá Seðlabankanum, sem týnt var talið, sent í landbrn., en ekki viðskrn., hinn 15. jan. 1980, og það var áður en núv. hæstv. landbrh. tók við þeim störfum sínum, en hann hefur áreiðanlega, a. m. k. nú eftir að umr. hófust um málið, kynnt sér það og séð þá eins og allir aðrir að það er mjög auðvelt að framkvæma beinar greiðslur á afurða- og rekstrarlánum til bænda og auðvitað engin hæfa að einhverjir aðrir séu að valsa með fé bænda.

Ég tel að sá nýi háttur, sem nú verður upp tekinn á greiðslu rekstrar- og afurðalána beint til bændanna, muni mjög bæta þeirra hag, því að það er ekki ónýtt að fá lán á 29% vöxtum, hygg ég að þau séu, þegar vextir almennt í þjóðfélaginu eru komnir upp fyrir 50%. Í 50–60% verðbólgu skiptir auðvitað meginmáli hvort menn fá fé í hendur strax og þeir eiga að fá það eða á því er setið kannske mánuðum saman, ef það þá einhvern tíma kemst að fullu til skila, — og auðvitað aldrei að fullu því það rýrnar í meðferðinni þó ekki væri af neinu öðru en verðbólgunni.

En það er ekki aðallega þessi þáttur þál. sem ég hér vil ræða, heldur seinni liðurinn. Það má segja um seinni lið ályktunarinnar, að hann er kannske ekki eins afgerandi og sá fyrri, því að þar er talað um láta fara fram athugun á því, hvernig heppilegast verði að koma greiðslum þessum til bænda, þeim greiðslum sem frá ríkissjóði koma. Það vissu auðvitað allir, þegar ályktunin var samþykkt, hvað við væri átt. Það var að koma peningunum fram hjá afurðasölufélögunum og beint til bændanna að verulegum hluta a. m. k. Það hefur verið meginhugsunin að bændurnir fengju þessa vaxtalausu peninga, eigin fjármuni, beint í hendur, en þeir væru ekki á flækingi einhvers staðar annars staðar svo og svo lengi og verðbólgan æti þá upp að verulegum hluta.

Inn í þessar umr. blönduðust svo hugleiðingar um það, hvort ekki væri hægt að nota þessa aðferð, beinu greiðslurnar, líka til þess að stjórna framleiðslumagni, þ. e. að draga úr framleiðslu að einhverju marki þegar um offramleiðslu væri að ræða. Um það hafa samtök bænda fjallað og mikið verið fjallað hér á hinu háa Alþingi. Ég leyfi mér að benda á það, þó ég hafi gert það áður hér á þinginu, að á Búnaðarþingi 1979 var gerð svofelld ályktun með 24 shlj. atkv., með leyfi forseta:

„Búnaðarþing telur að enn liggi ekki fyrir nægar upplýsingar til þess að unnt sé að taka efnislega afstöðu til þeirra hugmynda sem í till. felast, en óskar eftir því við stjórn Stéttarsambands bænda, að hún láti fara fram frekari könnun á málinu.“

Og fyrirsögnin er: „Tillaga Eyjólfs Konráðs Jónssonar um að hluti niðurgreiðslna og útflutningsbóta verði greiddur beint til bænda.“

Greinargerðin er örstutt og hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Ýmsir hafa leitt hugann að því, hvort það fjármagn, sem hið opinbera ver til niðurgreiðslna og útflutningsbóta búvara, kynni að nýtast betur í öðru formi en því sem beitt hefur verið. Hér er um háar fjárhæðir að ræða og full ástæða til þess að gaumgæfa vel alla möguleika um hagkvæmari notkun þess fyrir landbúnaðinn og þjóðarheildina. Ljóst er að hugmyndin um að greiða hluta framleiðsluverðsins beint til bænda með þessu móti krefst ítarlegrar skoðunar á mörgum þáttum framleiðslu- og sölukerfisins. M. a. munu hugmyndir Eyjólfs Konráðs Jónssonar vera í frumathugun hjá Stéttarsambandi bænda, og því er ekki tímabært fyrir Búnaðarþing að taka endanlega afstöðu til málsins.“

Þessu máli var sem sagt mjög vel tekið á Búnaðarþingi 1979. Það var þar nýtt mál, en engu að síður fær það svona jákvæða afgreiðslu, að það beri að kanna það nánar. Raunar mun það eitthvað hafa verið kannað þá fyrst í stað eftir að Búnaðarþingi lauk, en niðurstaðan af því er m. a. sú, að í reglugerð við lögin um Framleiðsluráð landbúnaðarins, sem dagsett er 22. ágúst 1979, er í 2. gr. d-lið vikið að því, með hvaða hætti megi nota beinu greiðslurnar sem stjórnunartæki að því er varðar framleiðslumagn. Í a-lið er fjallað um aðrar leiðir og þá fyrst og fremst kvótakerfið. En síðan kemur b-liður sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Að greiða með samþykki ríkisstj. hluta af niðurgreiðslum til framleiðenda í samræmi við framleiðslumagn að ákveðnu marki, en síðan stiglækkandi eftir því sem framleiðslan vex.

Full greiðsla skal ná til 400 ærgildisafurða, eins og þær voru viðmiðunarárin, sbr. a-lið, samkvæmt landsmeðaltali, en greiðslan lækkar um 5% fyrir umframafurðamagn á hverju 100 ærgilda bili, þó aldrei meira en 25%. Hæsta skerðing kemur á framleiðslu þeirra framleiðenda, er ekki búa á lögbýlum, nema þeir hafi meiri hluta tekna sinna af búvöruframleiðslu. Um greiðslu til félagsbúa fer samkv. 7. málsgr. a-liðar og þessum ákvæðum eftir því sem við á. Afurðaverð til framleiðenda samkvæmt verðlagsgrundvelli breytist til samræmis við þessa beinu greiðslu eftir því sem um er samið við ríkisstj. Samkomulag um þessa greiðslu skal gert til minnst eins árs í senn.

Greiðslur skulu sendar framleiðendum eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Heimilt er Framleiðsluráði að greiða á bankareikning eða til verslunaraðila eftir tilvísun viðkomandi framleiðenda.“

Þetta er sem sagt fest í reglugerð 22. ágúst 1979, en hefur þó ekki verið notað eins og þar er ráð fyrir gert að unnt sé a. m. k. Og í framleiðsluráðslögunum sjálfum og einnig því frv., sem nú liggur hér fyrir til umr., er í þessu sambandi getið um að unnt sé að notast við þessar aðferðir, og þar segir, með leyfi forseta, orðrétt:

„Að greiða hluta af niðurgreiðslum til framleiðenda í samræmi við framleiðslumagn allt að ákveðnu marki, en síðan stiglækkandi eftir því sem framleiðslan vex þar fyrir ofan. Heimilt er að ákveða rétt frumbýlinga í samræmi við bústofn þeirra.“

Þetta er meira og minna í samræmi við þær athuganir sem Stéttarsamband bænda lét gera veturinn 1979 og skilaði grg. í bréfi sem Arni Jónasson undirritar 6. mars 1979 og er stílað til mín. Þar bendir hann á ýmiss konar leiðir til þess að hafa stjórnunaráhrif á framleiðslumagn með þessum aðferðum, en að þurfa ekki að taka upp kvótakerfi sem virðist raunar vera andvana fætt. Og ég hygg að margir þeir séu í landbúnaðinum, sem jafnvel hafa látið það yfir sig ganga að reyna að fara inn á þessa kvótakerfisleið, sem sjái það nú og hafi kannske séð fyrir að þetta yrði meira og minna óframkvæmanlegt. A. m. k. minnist ég þess ekki, að núv. hæstv. landbrh. hafi mælt þessu kerfi sérstaklega bót. Ég man ekki til þess að hafa heyrt hann mæla því sérstaka bót og hef þó heyrt hann alloft ræða landbúnaðarmálin bæði af reynslu og þekkingu. En ég held að það sé tímabært orðið núna að snúa við blaðinu og hugsa um það, hvort ekki megi kasta þessu kvótakerfi fyrir róða í eitt skipti fyrir öll og reyna heldur að nota þá leið sem bæði er í lögum og reglugerð nú þegar. Kannske þyrfti einhverja breytingu reglugerðarinnar, hún er kannske of nákvæmlega útfærð. Ég held að það mætti hafa þessar prósentur eitthvað öðruvísi og kannske breytilegar frá ári til árs miðað við aðstæður, og nú hefur náttúrlega mjög dregið úr landbúnaðarframleiðslunni þannig að það þarf kannske engar harðar aðgerðir þetta árið. Það vita aðrir menn sjálfsagt betur en ég, hver spáin sé um framleiðslumagn nú á næstunni. En jafnvel þó það væri svo að þessar nýju aðferðir um beinar greiðslur til bænda væru ekki nema í einhverjum litlum mæli notaðar sem stjórnunaraðgerð, þá er hitt alveg ljóst, að bændur eiga heimtingu á að fá þessa peninga. Þeir eiga þá og engir menn aðrir. Þess vegna á að greiða þá til þeirra, en ekki einhverra annarra, og það er auðvitað það sem ályktun Alþingis gengur út frá. Ég leyfi mér að treysta því, að hæstv. landbrh. geri nú gangskör að því að framkvæma þessar lagaheimildir og reglugerðarákvæði og þingsályktanir með einhverjum hætti. Ég ætla ekki að gefa honum neina forskrift í því efni. Hann mun sjálfsagt ráðgast við sína sérfræðinga um það og styðjast þá auðvitað við reglugerðarákvæðin eða þá breyta þeim að einhverju leyti, en að það dragist þó alls ekki lengur en orðið er að bændur fái að verulegum hluta greiðslur sendar beint heim til sín. Ég mundi halda að eðlilegast væri að það væru mánaðarlegar greiðslur, a. m. k. upp í einhverja ákveðna bústærð, en prósenttölur í þessu efni skal ég ekki þreyta ykkur á að nefna.

Það er ýmislegt fleira í sambandi við landbúnaðarmálin sem vafalaust blandast inn í þessar umr. hér og nú. Eitt er það sem nokkrir bændur hafa hreyft við mig. Það er að flytja frv. um að 1% stofnalánadeildarframlagið verði niður fellt þar sem lán Stofnlánadeildar eru nú yfirleitt orðin markaðslán, þau eru verðtryggð og með svipuðum vaxtakjörum og á hinum almenna markaði og þess vegna óþarft og kannske óeðlilegt að taka 1%, að mér skilst, af brúttóframleiðslu til þess að greiða í þennan sjóð, hann eigi að geta starfað sjálfstætt án þess að bændur séu skattlagðir með þessum hætti. Ég hef enn ekki lagt slíkt frv, fram, enda er það nú nýverið, eftir að ég kom til landsins, sem þetta var sérstaklega við mig orðað. En ég held að þetta sé ein leið til að létta byrðum af bændum, sem vissulega eiga í miklum erfiðleikum um þessar mundir, og væri gaman að heyra álit annarra manna á því, ekki síst hæstv. landbrh. ef hann hefur hugsað það mál. Ég hef sem sagt hugleitt að flytja um það sérstakt frv., hvort sem verður unnt að koma því í gegn á þeim fáu dögum, sem eftir eru af þingi, eða ekki, en alla vega er rétt að þessi hugmynd komi hér fram, því að það munar talsvert um þessi útgjöld hjá bændum sem berjast í bökkum.

Ég vil sérstaklega undirstrika efni bréfs Seðlabankans frá 15. jan. 1980 þar sem hann bendir á leiðir til þess að koma afurða- og rekstrarlánunum beint til bænda. Það er augljóst öllum þeim, sem þetta mál hugsa, að það er ekkert auðveldara en að koma fjármununum til bændanna. Þetta eru yfirleitt ekki neinar smáfjárhæðir, og menn hafa stundum verið að gantast með að það væri kannske innlag frá fimm eða sex aðilum í fjölskyldu, það væri slátrað einu lambi sem barnið ætti o. s. frv. En þetta eru ekkert litlar upphæðir þar og eru þar lagðar inn miklu smærri upphæðir en það, reikningar t. d. barna þegar er verið að reyna að ala þau upp í því að sýna sparsemi. Það er auðvitað enginn banki sem mundi telja eftir sér að sjá um þetta, miklu frekar mundi auðvitað vera slegist um að fá nýja viðskiptavini.

Það er sem sagt alveg ljóst mál, og það hef ég frá mörgum bankamönnum, að það er ekki nokkur minnsti vandi að framkvæma þetta hvort tveggja, bæði rekstrar- og afurðalánin og eins beinu greiðslurnar, enda hefur ríkisvaldið sjálft og það stjórnmálaandstæðingur minn sett um þetta reglugerð. Það var Steingrímur Hermannsson sem var landbrh. þegar reglugerð þessi er út gefin. Þar er alveg skýlaust tekið fram hvernig eigi að framkvæma þetta. Þar er miðað við 400 ærgildisafurðabú. Ég miðaði í mínum fsp. til Stéttarsambandsins við 500 ærgildabú. Auðvitað er það allt saman matsatriði, en leiðin til að framkvæma þetta er alveg augljós og mjög einföld í sniðum, og þess vegna leyfi ég mér að treysta því, að hæstv, landbrh. gefi okkur hér og nú yfirlýsingu um að hann muni beita sér fyrir einhverri slíkri framkvæmd.