12.05.1981
Neðri deild: 91. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4252 í B-deild Alþingistíðinda. (4349)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Þetta var ákaflega sérkennileg ræða sem hv. þm. Matthías Bjarnason flutti áðan — mjög óvenjuleg ræða vil ég segja. (Gripið fram í.) Já, það kemur í sjálfu sér ekkert á óvart að hv. þm. flytji óvenjulega ræðu hér. Hann er fyndinn og frumlegur maður og dettur margt skemmtilegt í hug, tekur upp á ýmsu.

Í þingsköpum er sérstaklega tekið fram að mönnum sé heimilað að biðja um orðið, jafnvel þó þeir eigi ekki rétt á því, til þess að bera af sér sakir. En í þetta skipti virðist hann hafa kvatt sér hljóðs hér í öðrum tilgangi, þ. e. að játa á sig sakir. Það er kannske ekki alveg út í bláinn vegna þess að við afgreiðslu þessa þingmáls viðhafði hv. þm. Matthías Bjarnason þau vinnubrögð sem ég taldi við umr. í Ed. að væru lítt til fyrirmyndar og tel enn, og ég sé nú ástæðu til að hrósa hv. þm. alveg sérstaklega fyrir að gera sér það ómak að vekja athygli á þessu máli hér í Nd., vekja athygli á mistökum sínum í þessu máli. Ég þakka honum fyrir það og tel það hrósvert.

Ef rifjuð er upp saga þessa máls, þá er þar fyrst til að taka að flutt er hér frv. af nokkrum þm. hv. d., eins og lög gera ráð fyrir, ekkert við það að athuga. Síðan líður tíminn, eins og hv. þm. rakti áðan, og þar kemur sögunni að gefið er út nál. eins og vera ber. Og þetta mál rennur hér í gegnum 2. umr. á u. þ .b. hálfri mínútu, frsm. n. segir örfá orð, málið er samþykkt hér og síðan tekið til 3. umr. og afgreitt umræðulaust nokkrum dögum seinna.

Af afgreiðslu þessa máls hér í Nd. hefði mátt ætla, ef menn hefðu ekki aðrar staðreyndir fyrir framan sig, en að algjör samstaða hefði ríkt um þetta mál, þetta væri einhvers konar samkomulagsmál sem allir flokkar og allir þm. væru innilega sammála um og það að sjálfsögðu einnig ríkisstj. og þeir aðilar sem samráð hefur verið haft við. Þarna er um að ræða mál sem kostar ríkissjóð nokkrar milljónir á hverju ári eða mælt í gkr. nokkur hundruð milljóna á hverju ári. Og það er kannske ekki óeðlilegt að menn álykti sem svo, að fjmrn, hafi væntanlega verið samþykkt þessu og allir aðilar lagt blessun sína á þessa afgreiðslu úr því að hún var með þessum hætti. En svo var ekki. Það var einmitt það sem ég var að vekja athygli á í Ed.

Hver var þá afstaða fjmrn. til þessa máls? Jú, afstaða fjmrn., sem hafði verið beðið af n. að gefa umsögn um málið, kemur skýrt fram í bréfi, sem rn. sendi til n. 24. febr. 1981. Þar er bent á að samþykkt frv. geti haft ýmsar óþægilegar afleiðingar, skapað misræmi, það sé erfitt um eftirlit með ákvæði af þessu tagi, og undir lok bréfsins segir skýrt og skorinort: „Með vísan til þess, sem að framan segir, getur rn. ekki mælt með að umrætt frv. nái fram að ganga.“

Ég held að það hefði verið ómaksins vert og í fullu samræmi við þingvenjur að þess hefði verið látið getið, að fjmrn. hefði gefið algjörlega neikvæða umsögn um málið. Mér finnst það ekki til of mikils mælst í slíkum tilvikum að svo sé gert. Ég veit að það er oft sem það er ekki gert og þetta er ekkert einsdæmi hvað það snertir.

Það, sem var sérstakt við þetta mál, var að frsm. n. lét sér ekki aðeins sæma að sleppa því að láta þessa getið með öllu, heldur laumar hann því að með afskaplega vel úthugsuðum orðum að samráð hafi verið haft við fulltrúa frá fjmrn. — punktur, basta — að samráð hafi verið haft við fulltrúa frá fjmrn. (HBl: Ráðherrann kannast við samráðið við verkalýðshreyfinguna). Ég kannast vel við samráð við verkalýðshreyfinguna og þau hafa verið með ýmsum hætti. En það vil ég leyfa mér að fullyrða, að ef um væri að ræða mál hér í þingi sem t. d. varðaði hagsmuni ASÍ og málið hefði verið rætt við forsvarsmenn Alþýðusambandsins, þá hefði ekki neinum þm. dottið í hug að leyfa sér að orða það svo, að samráð hefði verið haft við ASÍ — og punktur, basta, ef fyrir lægi í málinu að Alþýðusambandið hefði verið algjörlega mótfallið viðkomandi frv. Það sjá auðvitað allir að með því að taka til orða á þennan hátt og segja ekkert meir um afstöðu þess, sem samráð er haft við, er auðvitað verið að gefa annað í skyn en efni máls standa til. Það var þetta sem ég benti sérstaklega á í Ed. þegar málið kom þar til 1. umr., að svona lægi í málinu, það hefði ekki legið fyrir samþykki fjmrn., heldur hefði það þvert á móti verið algjörlega ósammála um þessa breytingu. (GJG: Ráðh. á sæti í Nd. og hefði getað komið leiðréttingum fram þar.) Þetta er hárrétt hjá hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni sem er vís til að koma með góðar ábendingar í þessu sambandi. Það er hárrétt að ég á sæti í þessari deild. En ég verð að játa það á mig, að ég var ekki staddur hér inni í deildinni þessa hálfu mínútu sem málið rann í gegn hér við 2. umr., tók ekki eftir að það væri þetta mál sem hefði verið hér afgreitt við 2. umr., og síðan þegar kom að 3. umr. vissi ég ekki um hvaða mál var að ræða fyrr en út í atkvgr. var komið og umr. var lokið. Ég greiddi því ekki atkv. með þessu frv., en taldi sjálfsagt að sjónarmið mín kæmu fram í Ed., og það lét ég ekki vanta þegar þangað kom.

Í þessu sambandi tók ég þannig til orða í hv. Ed., að um væri að ræða ótvíræða blekkingu hvað varðar afstöðu fjmrn. í þessu máli, og við það skal ég standa hvar og hvenær sem er. Ég taldi óhjákvæmilegt að vekja athygli á hvaða forsögu þetta mál hefði haft hér í Nd.

Að lokum vil ég ítreka þakkir mínar til hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar fyrir að gefa mér tækifæri til þess að koma þessum sjónarmiðum á framfæri hér í Nd.