12.05.1981
Neðri deild: 91. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4259 í B-deild Alþingistíðinda. (4358)

50. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. sjútvn. fyrir afgreiðslu þessa máls. Lagabreytingin, sem frv. gerði ráð fyrir, er ekkert aðalatriði, heldur hitt, að örugg hreyfing komist á málið, eins og mér sýnist að verði með afgreiðslu hv. n. Eins og hv. 4. þm. Suðurl. kom inn á rúma heimildir núgildandi laga þessa starfsemi þó að þeim hafi ekki verið beitt fram að þessu.

Auðvitað hefði ég kosið að lengra hefði verið gengið strax á fyrsta stigi til að hrinda þessum málum í framkvæmd. En ég vona að mjór sé mikils vísir. Aðalatriðið er að hefja verkið, afla upplýsinga og ráðast í rannsóknir. Áframhaldið vona ég að komi af sjálfu sér þegar menn gera sér almennt ljóst hve mikið hér er í húfi.

Ég endurtek þakklæti mitt til hv. sjútvn.