12.05.1981
Neðri deild: 91. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4259 í B-deild Alþingistíðinda. (4363)

2. mál, skráning á upplýsingum er varða einkamálefni

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um kerfisbundna skráningu á upplýsingum er varða einkamálefni, hið svonefnda tölvufrv. Frv. þetta, ef að lögum verður, tekur til hvers konar kerfisbundinnar skráningar á upplýsingum varðandi einkamálefni einstaklinga svo og fjárhagsmálefni einstaklinga, stofnana, fyrirtækja eða annarra lögpersóna sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Hér er um að ræða nýtt svið að því er varðar löggjafarmálefni, en þykir mjög brýnt að um þetta verði settar ákveðnar reglur. Frv. er samið af sérstakri nefnd sem hafði m. a. til hliðsjónar nýlega löggjöf á Norðurlöndum um þessi efni. Nefndin einfaldaði þá löggjöf mjög og í því formi var frv. lagt fyrir Ed. Það er 2. mál Þingsins. Eigi að síður þótti hv. þm. Ed. frv. of viðamikið í ýmsum greinum, en um það hefur verið fjallað mjög rækilega af hálfu allshn. Ed. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að ástæða væri til að einfalda frv., raunar mjög mikið.

Ég hef síst á móti því, að löggjöf sé einfölduð og gerð skýrari og styttri ef unnt er, og hef þess vegna ekki sérstakar aths. við meðferð n. á þessu frv. að gera. Ég vænti þess, að hv. allshn. Nd., sem fær þetta mál til umfjöllunar, athugi það samt vandlega í samráði við höfunda þess. Ef hún kemst að þeirri niðurstöðu, að unnt sé að afgreiða það með forsvaranlegum hætti í hinni einfaldari og styttri mynd, þá hef ég í sjálfu sér ekkert við það að athuga. Frv. þessu var a. m. k. í upphafi markaður ákveðinn aldur af því að hér er um nýtt efni að ræða. Það er gert ráð fyrir að lögin verði endurskoðuð eftir 4. ár.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en legg til að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.