12.05.1981
Neðri deild: 92. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4264 í B-deild Alþingistíðinda. (4372)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Þegar frv. þetta kom til 1. umr. hér í hv. d. gerði ég grein fyrir afstöðu minni til þess. Ég sýndi fram á að þetta væri ekki stjfrv., heldur frv. sem fyrst og fremst er borið fram af einum hæstv. ráðh. Ég lýsti andstöðu minni vegna þess að ég hef fylgst með þessu máli áratugum saman. Ég fylgdist nokkuð með baráttu þeirra manna sem beittu sér fyrir verndun Faxaflóa frá dragnótaveiðum. Ég man þá tíð þegar þessar veiðar höfðu nær gjöreytt öllu lífi í flóanum. Þegar loksins tókst að friða flóann eftir langa og stranga og harða baráttu fyrir u. þ. b. einum áratug hrósuðu menn að sjálfsögðu sigri og þóttust sjá fram á bjartari daga. Sú von brást ekki því að á þessum árum, sem flóinn hefur notið friðunar, hefur líf í honum glæðst ár frá ári og hann færst stöðugt í hið fyrra horf sem ein af mestu auðsuppsprettum til sjávarins hér við land. Þetta held ég að allir hljóti að vita sem vilja. En þegar menn sjá að líf er farið að glæðast í flóanum vaknar náttúrlega veiðihugur sumra sem ekki mega sjá neitt kvikt sem hægt er að koma höndum yfir, enda er það svo að síðan frv. þetta kom fram hafa borist mörg mótmæli úr ýmsum áttum gegn samþykkt þess. Ég hygg að þau séu byggð á svipuðum rökum og ég byggi mína afstöðu á, þeim að sporin hræða. Sporin hræða í þessu máli og þeir, sem hafa séð líf dafna og færast í vöxt í flóanum á undanförnum árum, fyllast nú ugg og ótta og mótmæli berast úr öllum áttum.

Ég er dálítið undrandi á afstöðu hv. þm. að norðan, austan og sunnan sem greiða atkv. þessu máli að því er virðist með köldu blóði. Ég veit ekki hvort þeir hafa hreinlega áttað sig á þessu máli, áttað sig á því, að við þurfum að umgangast auðlindir Íslands, hvort sem eru til lands eða sjávar, með mikilli gát og umgangast þær auðlindir með hugarfari ræktunarmannsins. Því miður virðist mér að í þessari hv. d. njóti rányrkjan of mikils fylgis. Ég vil mega vænta þess, að hv. þm., — og þá skírskota ég sérstaklega til þessara manna, vina okkar að norðan, austan og sunnan sem e. t. v. hafa ekki kynnst þessu máli til hlítar, — ég skírskota til þeirra og spyr hvort þeir vilji ekki taka sér ögn lengri umhugsunarfrest í þessu máli.

Þetta efni hefur nú verið töluvert rætt þannig að ég hygg að það hafi flest kurl komið til grafar og flest rök verið til tínd. Eigi að síður gefst enn þá færi á að fella frv. Það er enn þá eftir að greiða atkv. eftir þá umr. sem nú fer fram, og ég vonast til að sem flestir af hv. þm. þessarar deildar íhugi málið betur, nái áttum, endurmeti afstöðu sína og tileinki sér hugarfar ræktunarmannsins frekar en mér hefur virst að þeir hafi sýnt að undanförnu,

Ég tel ekki ástæðu til að orðlengja þetta miklu meir, en legg enn sem fyrr til að frv. þetta verði fellt.