12.05.1981
Neðri deild: 92. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4264 í B-deild Alþingistíðinda. (4373)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef litlu við að bæta það sem kom hér fram við 2. umr. þessa máls. En ég get ekki stillt mig um að koma hér aðeins inn á örfá atriði, og ég vil staðfesta það sem hv. 6. landsk. sagði áðan í sambandi við afgreiðslu málsins í Ed. þegar heimilað var að hefja tilraunaveiðar í Faxaflóa sem staðið hafa tvö sumur, þó fyrst og fremst á s. l. sumri.

Það er ekki hægt að neita því, að það vakti vissulega athygli þegar skyndilega kom í ljós í þeim skýrslum, sem þm. hafa fengið frá fiskifræðingum, að það hefði verið farið algjörlega þveröfugt við það sem Alþingi lagði fyrst og fremst áherslu á í sambandi við þessar tilraunaveiðar þar sem heimilað var að veiðarnar færu aðeins fram með 170 mm möskvastærð. Fiskifræðingar höfðu lagt til og látið framkvæma tilraunaveiðarnar með 155 mm möskva og þannig hafa þær farið fram til þessa. Þetta er náttúrlega algjört brot á því samkomulagi sem var gert hér á hv. Alþingi, og ber að harma að svo skuli farið að.

Við umr. hér í hv. d. við 2. umr. lýsti ég yfir að ég teldi að það væri ástæðulaust að breyta þessu formi nú. Það væri hægt að fallast á að þessi tilraunveiði héldi áfram í því formi sem hún hefði verið, með fjórum bátum, og vinnslan færi fram í þessum tveimur hraðfrystihúsum sem hafa flökunarvélar og hafa öruggan markað á kolaflökum í þessu magni sem fiskifræðingar telja að sé hámark að taka úr Faxaflóa, þ. e. 1000–1500 tn.

Ég vakti einnig athygli á því, að sölusamtökin í landinu, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Samband ísl. samvinnufélaga, hafa ekki viljað stuðla að því, að fiskvinnslustöðvar á þeim svæðum við landið, þar sem dragnótaveiði er leyfð og þar sem kolamið eru, tækju til við þessa vinnslu með flökunarvélum vegna markaðsmálanna. Fiskifræðingar segja að það sé eðlilegt að taka um 10 000 tn. af þessari fisktegund að skaðlausu, en sölusamtökin eru ekki tilbúin til þess að stuðla að markaðsöflun nema fyrir þessi 1000–1500 tn. Þetta er staðreynd sem er á borðinu, vegna þess að allir vita að heilfrystur koli er ekki sú markaðsvara sem menn sækjast í og fiskvinnslustöðvarnar hafa ekki áhuga á að heilfrysta skarkola. Það endar venjulega með því að heilfrystum kola, sem er búinn að bíða of lengi í frystiklefum, er hent.

En það, sem mér finnst furðulegt í sambandi við þetta frv., er hvernig menn hugsa sér það ástand sem verður hér við Faxaflóann þegar Alþingi er búið að samþykkja þetta frv., sem allar líkur eru til að verði miðað við þá atkvgr. sem hér var í dag, hvernig menn hugsa sér að rn. fari að þegar auglýst verður eftir umsóknum um þessar veiðar sem eiga að vera svona takmarkaðar, aðeins 1000–1500 tn., og það berast 50–100 umsóknir. Það er útilokað að það sé nokkur skynsemi í því að hafa við þetta fleiri skip en í mesta lagi fjóra til fimm báta. Þá er kominn þarna inn þrýstingur sem verður smátt og smátt til þess að það hlýtur að verða slakað á þessum takmörkunum og eftirlitið verður náttúrlega í samræmi við það. Hver á að stjórna því og hafa eftirlit með því, að fiskimenn á þessum bátum verði á einhverjum takmörkuðum bletti með sitt veiðarfæri? Þetta er algjör barnaskapur og ég er alveg undrandi á því, að menn skuli láta sér detta í hug að þetta sé hægt. Það er alveg útilokað.

Ég held að þetta hafi ekki verið hugsað til enda, og ég er ekki í neinum vafa um að þetta frv., ef að lögum verður, á eftir að skapa mjög mikil vandamál sem viðkomandi rn. mun komast í. Ég held enn fremur að það sé alveg nýtt í málinu ef á að fara að treysta á að Hafrannsóknastofnunin sem slík eigi að fara að vera mælikvarði á það eða umsagnaraðili um það, hvaða bátar fái að veiða á þessu sviði.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram, og þarf ekki að bæta neinu við það sem ég hef áður sagt við þessar umr., að það hefði átt að flýta sér hægt í þessu máli. Við ættum að hagnýta þá reynslu sem komin er nú s. l. tíu ár, en leyfa takmarkaðar veiðar undir eftirliti sem rannsóknarveiðar. Það get ég fallist á. En umfram allt er viðurkennd staðreynd að Faxaflóinn er uppeldisstöð fyrir nytjafiska og við eigum þess vegna að ganga um þetta svæði með varúð og halda þeirri friðun sem hér hefur verið í gildi, og þess vegna er ég andvígur þessu frv.