12.05.1981
Neðri deild: 92. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4266 í B-deild Alþingistíðinda. (4374)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. meiri hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það eru örfáar aths. við það sem hér hefur komið fram.

Ég held að það sé síst ofmælt að nota orðið sértrúarsöfnuður um þennan hóp manna sem mest hefur talað gegn því að kolinn í Faxaflóa verði nýttur á skynsamlegan hátt undir eftirliti. Það er þannig með menn sem hafa fundið sannleikann og ganga með hann í vasanum jafnan í formi einhverra einkennilegra kennisetninga ýmist í stjórnmálalegum eða trúarlegum efnum, að við þá er helst ekki hægt að rökræða nokkurn skapaðan hlut því þeir vita, hvað er rétt, og á þá bíta engin rök, enda skipta þau ekki máli, að því er virðist, í þeirra málflutningi.

Hv. 1. þm. Vesturl. hefur auðvitað talað langskynsamlegast í þessu máli af þeim sem hafa andmælt frv. vegna þess að hann segist vera hlynntur því, að áframhaldandi tilraunaveiðar megi fara fram, sem sagt takmarkaðar veiðar undir eftirliti. En ég tel það alveg óþarfa af hans hálfu að vera hér með spá um slælegt eftirlit, svo ég tali nú ekki um þegar farið er að tala um að þessir bátar kunni að fara út fyrir ákveðin svæði, eins og hann talar um, takmarkaða bletti. Sannleikurinn er sá, að þeir, sem stunda þessar veiðar, verða að halda sig á tiltölulega takmörkuðum svæðum, ósköp einfaldlega vegna þess að náttúran sjálf verndar flóann. Í flóanum er mikið af hraunum og þeim botni sem ekki er hægt að draga dragnót eftir. Þetta skiptir verulegu máli í raun og veru. En hvað varðar hv. þm. Karvel Pálmason t. d. um staðreyndir. Ég hef ekki orðið var við það.

Það er rétt, sem hv. þm. Alexander Stefánsson segir, að það er ekki skynsamlegt og eftir því hefur ekki verið leitað af hálfu SH og Sambandsfrystihúsanna að menn veiði mikinn kola, ósköp einfaldlega vegna þess að kolinn selst fyrir afar lágt verð ef hann er seldur heilfrystur, er ekki í háu verði. Hins vegar ef um er að ræða að selja kolann ísaðan á ferskfiskmörkuðum í Bretlandi og Þýskalandi, Danmörku og víðar, þá er á þeim fiski mjög hátt verð. Ég var á togveiðum s. l. sumar og var með í því að fiska í bát sem seldi í Bretlandi. Við fengum þetta frá 1300–1400 kr. og upp í 2000 kr. fyrir hvert kg upp úr skipi, enda var kolinn ferskur.

Það gegnir hins vegar allt öðru máli ef hægt er að flaka kolann og frysta hann með kæliblæstri, hvert flak fyrir sig, vélflaka og frysta. Slíkur koli er í háu verði. Ég þekki ekki nægilega vel til markaðsmála til þess að vera með stórkostlegar fullyrðingar, en það veit ég þó, að allar líkur benda til að sá markaður sé svo gott sem ótakmarkaður miðað við það magn sem við höfum hér fram að bjóða.

Það eru fleiri, sem sjá um að koma fiski á markað sem betur fer, heldur en SH. Þeir láta sig litlu skipta yfirleitt að fá til sín afla sem fer í annað en frystingu, söltun eða herslu. Allt annað er tiltölulega lítt velkomið og hefur þurft að berjast við þessa menn fyrir því að auka fjölbreytni í vinnslu sjávarafla á Íslandi. Það þekkja sjálfsagt Breiðfirðingar ekki síður en aðrir hversu tregir þessir aðilar eru í sambandi við þau atriði. Það veit auðvitað hv. þm. Karvel Pálmason ekkert um, enda hefur hann ekkert verið að flagga því að hann vissi það.

Ég held að við ættum að halda okkur við staðreyndir fyrst og fremst, en ekki spár, svo ég tali nú ekki um það þegar menn halda hér feiknalegar hávaðaræður eins og hrópandinn í eyðimörkinni og leggja út af málinu eins og það sé allt öðruvísi í pottinn búið en það er í raun og veru. Ég held að þessir hv. þm. ættu að lesa frvgr. Þar segir einfaldlega að það séu ekki aðrar veiðar leyfðar í þessa dragnót í Faxaflóa en skarkolaveiðar, — ekki aðrar veiðar leyfðar. Það eru sem sagt mjög takmarkaðar veiðiheimildir.

Um mál hæstv. dómsmrh. held ég að sé óþarfi að fjölyrða út af fyrir sig. Hann hefur verið á móti þessu máli alla tíð og getur auðvitað haft þá skoðun fyrir mér. En því miður sýnist mér að það sé einnig á röngum forsendum. Menn hafa verið að gera grín að því hér og halda því fram, að ég þættist vita allt í þessum efnum, ég hafi verið svo og svo lengi til sjós og allt þar fram eftir götunum. Það kemur málinu ekkert við. Ég get ósköp vel sagt það hér, fyrst menn eru að velta því upp, að ég hef aldrei verið á veiðum hér í Faxaflóa og þaðan af síður á dragnót og veit ekkert um það af eigin reynslu hvernig það er að skera kola hér í Faxaflóa. En ég hef blessunarlega verið með í því að drepa mikið af honum annars staðar. Og það er það sem við þurfum líka að gera. Við þurfum að drepa þessi kvikindi út af suðurströndinni. Þar er gífurlega stór kolastofn sem enginn hirðir og kemur ekki í nein veiðarfæri vegna þess að hann sleppur í gegnum 155 mm, svo rækilega að það eru ekki nema örfá dýr sem eftir eru í trolli. (Gripið fram í) Nei, vegna þess að þar er um annan kola að ræða heldur en rauðsprettuna. (Gripið fram í: Er hann betri?) Miklu betri. Þessi koli er auðvitað sælgæti og það dýrt sælgæti og sjálfsagt að ná í það og selja það.

Ég veit ekki hvers konar búskap menn vilja stunda eiginlega hér á Íslandi ef þeir vilja ekki veiða fisk án þess að skaða annað. Þarna er alls ekki um rányrkju að ræða. Hvaða rányrkja er það í raun og veru? Hvernig stendur á því, að menn leyfa sér að nota svona orð? Þarna er verið að leyfa að veiða í mesta lagi 1500 lestir, Hver var heildarafli Íslendinga úr sjó á síðasta ári? Ég man það ekki. Eitthvað talsvert á aðra milljón lesta. Talsvert mikið á aðra milljón lesta. Og þegar menn eru að fjasa út af því, að þarna sé um rányrkju að ræða, þá er miklu fremur eins og þarna sé um búskap að ræða. Þarna er verið að grisja stofn sem við vitum að þolir miklu meiri veiðar, aðeins að taka 1500 lestir við bæjardyrnar með litlum tilkostnaði. Þetta eru óskaveiðar í raun og veru, tiltölulega lítill útgerðarkostnaður, lítill sem enginn olíukostnaður hér í flóanum og mikið verð fyrir þennan afla sem veitir auk þess talsverða arðbæra vinnu.

Herra forseti. Mér er annt um ýsustofninn eins og sjálfsagt flestum öðrum sjómönnum í þessu landi. Menn hafa talsvert verið að flagga því, hversu illa hann fór á vissu árabili, og segja: Þarna sjáið þið. Dragnótin drap ýsuna — eða hvað? Hún varð víst svo lítil 1970, ýsan í flóanum, og lítið í hverri veiðiferð að það þurfti að loka flóanum fyrir þessu veiðarfæri. Það veiðarfæri var auðvitað allt öðruvísi en það veiðarfæri sem er verið að tala um núna. Nú er að sjálfsögðu miklu stærri möskvi sem drepur ekki smáfisk. En við skulum aðeins athuga hvernig ýsustofninn er núna í Faxaflóanum, tíu árum síðar, því að við höfum allar aflatölur frá bátunum sem stunduðu þessar takmörkuðu kolaveiðar í fyrra. Og það eru röksemdir andstæðinga þessa frv. sem ég ætla að fá að minna á hér.

Hv. þm. Jósef H. Þorgeirsson las upp fyrir okkur afla eins báts og fleiri báta trúlega, eins báts sem Gullþór heitir í júlí á árinu í fyrra. Hann mun hafa fengið liðlega 100 tn. Ég hef ekki tölurnar, þær voru liðlega 100 tn. — 103 eða 104 tn., enda skiptir það engu máli. (Gripið fram í.) Þar skipta þessi 4% ekki eins miklu máli og þegar er verið að tala um vísitöluna, sem betur fer. Þetta má vera rambandi eitthvað fram og til baka vegna þess.

En hvernig var svo afli þessa báts? Hann fékk sem sagt liðlega 100 tn., þar af voru 74 tn. af kola, 20 tn. af þorski, eitthvað þar um, nokkur steinbítskvikindi og um 300 kg af ýsu — ekki í róðri, heldur yfir mánuðinn. Ekki virðist ýsan hafa verið gráðug þar. Það er ekki að sjá. Svo reka menn hér upp ramakvein yfir þessu eins og grátkonur í Ísrael, að það sé verið að drepa ýsuna.

Við skulum hugsa aðeins til ársins 1970. Hvernig var ástandið hér í hafinu við Ísland nokkur þá undanfarin ár: 1967, 1968 og 1969? Afar erfið ár fyrir sjávarlífið kringum Ísland. Þau voru mjög köld. Það var talað um kalárin í sjónum. Norðlendingar minnast þess og við allir. Það kom niður á öllum afla, öllu ungviði. Skyldi nokkur þurfa að vera undrandi á því, þó það sé ekki gráðug ýsa í flóanum eftir slík ár.

Svo er enn annað sem ég held að menn hafi gleymt og hefur sjálfsagt haft miklu meiri áhrif á ýsustofninn heldur en þessi svokallaða uppeldisstöð í Faxaflóa, sem er orðalag sem hæfir best Heimilistímanum eða einhverju öðru, en ekki fiskifræði eða umræðum um sjávarútvegsmál. Það er kapítuli út af fyrir sig að athuga orðfærið hjá postulunum.

Á síldarárunum og eftir hin miklu síldarár höfðu aflamennirnir á síldarbátunum það fyrir sið margir hverjir að drepa ýsu í nót. Þið skuluð athuga hvers konar veiðarfæri það er. Það er veiðarfæri sem er nú kannske tæpur km á lengd og ætli það sé ekki eins og tveir Hallgrímskirkjuturnar á dýpt. Þessi veiðarfæri voru notuð til þess að veiða ýsu við suðurströndina, mörg hundruð tn., þúsundir tonna, og úr þeim sleppur ekki neitt. Þar er möskvinn ekki 155 mm, heldur örfáir millimetrar, kannske fimmtán. Mér er ekki grunlaust um að þær veiðar hafi haft býsna drjúg áhrif á ýsustofninn, enda hefur hann gengið í bylgjum og verið neðarlega víðar en í Faxaflóanum þar sem menn hafa aldrei kastað dragnót í sjó. Það er ekki hægt að fara víða í flóanum til þess að ná afla með dragnót. Langmestur hluti flóans er verndaður af náttúrunnar hendi eins og ég sagði.

Mönnum hefur orðið nokkuð tíðrætt um möskvastærðina, 170 mm. Það er rétt að menn ákváðu að hafa í tilraunaveiðunum 170 mm. Það var ekki ákveðið hér. Lögin um fiskveiðar í landhelginni fjalla ekki um möskvastærð, slík ákvæði eru ákveðin í reglugerð. En það kom í ljós, þegar menn höfðu reynt nokkra stund að veiða kola og þá einhvern annan fisk væntanlega í þessa dragnót með 170 mm möskva, að það fékkst ekkert í hana, ósköp einfaldlega vegna þess að möskvinn var allt of stór til þess að fiska með. Hann var of stór. Og ég held að það sé fráleitt að ætla að menn hafi farið niður í 155 mm af einhverjum illum hvötum. Þetta voru tilraunaveiðar og það þýðir ekki að gera tilraunir með veiðarfærum sem engin leið er að ná neinu í. Svo einfalt er málið. (Gripið fram í.) Þetta hlusta kolafriðunarmenn auðvitað ekki á fremur en annað og mér er svo sem alveg sama.

En orðalag eins og það að sleppa dragnótinni lausri, það er svo sem ekki í takt við frvgr. Það er ekki verið að sleppa henni lausri. Það á að láta takmarkaðan fjölda báta stunda þessar veiðar undir eftirliti. Og það er ekki rétt sem hv. 1. þm. Vesturl. sagði, að Hafrannsóknastofnunin ætti að útbýta þessum veiðileyfum og skera úr hver ætti að veiða og hver ekki. Það hefur verið fellt burt úr frv. meira að segja að hún ætti að ákveða bátafjöldann, enda er það ekki fiskifræðilegt atriði hversu margir bátar drepa fisk, heldur hversu mikið er drepið af honum samtals. Það er málið. Það eru stjórnvöld auðvitað sem eiga að taka slíkar pólitískar ákvarðanir, en ekki fiskifræðingar. Það kemur þeim ekkert við, það er ekki í þeirra kokkabókum.

Það er jafnfráleitt að nota orðalag af þessu tagi eins og að það sé verið að opna flóann. Það er alls ekkert um það að ræða. Það er aðeins verið að tala um að láta nokkra báta veiða tiltekið magn í Faxaflóanum. Og þar verður haft eftirlit. Það er ekki mikill vandi að hafa eftirlit með því. Víða er hægt að svindla í þessum efnum, en ég tel að það sé ansi erfitt að gera það í sambandi við þessar veiðar. Það er áreiðanlega mjög erfitt. Allt hitt svindlið, sem við þekkjum, er auðveldara að eiga við.

Herra forseti. Ég vil aðeins segja það að lokum, að ég vona að við getum fengið leyfi til þess að veiða þennan fisk á sem hagkvæmastan hátt og auk þess að við getum fengið leyfi til þess með tímanum og vonandi sem fyrst að veiða þykkvalúruna við Suðurland. En til þess að geta náð henni þar dugar okkur ekki dragnót með 155 mm möskva. Hún þarf að vera með smærri möskva. Hún tollir alls ekki í snurvoð með 155 mm möskva. Um þetta mætti auðvitað halda langar ræður og fara áfram og aftur á bak með þær röksemdir allar sem fram hafa komið í málinu. En ég held að það sé óþarfi að marglesa þetta yfir þm., þeir hafa flestir áttað sig á þessu. Hinir verða víst jafnnær hvort sem ég tala hér í fimmtán mínútur eða sextíu.