12.05.1981
Neðri deild: 92. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4269 í B-deild Alþingistíðinda. (4375)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Jósef H. Þorgeirsson:

Herra forseti. Ég var að vonast til að 1. landsk. kæmi frá Strasbourg til þess að taka þátt í þessum umr. En svo mun ekki vera.

Það er oft undarlegt að hlusta á ræðuhald 4. þm. Suðurl. um dragnót. Hann ásakar þá, sem mæla á móti dragnót, um að þeir séu meðlimir í einhverjum sértrúarsöfnuði og þeir hafi þóst hafa fundið hinn eina sannleika, sem eigi sér þó enga stoð í vísindalegum rökum eða vísindalegum þankagangi sem hv. 4. þm. Suðurl. telur að hann einn hafi tamið sér af mikilli snilld.

Við skulum fara yfir þetta mál í örstuttu máli enn þá einu sinni.

Skoðanir þeirra manna, sem mæla gegn því að leyfðar séu dragnótaveiðar í Faxaflóa, eru byggðar á reynslu, — ekki aðeins reynslu örfárra manna og ekki reynslu til örfárra ár, þetta er niðurstaða af áratugareynslu sjómanna við Faxaflóa. Þegar Faxaflóa var lokað á árinu 1952 var svo komið að í flóanum var næstum ördeyða.

En fljótlega eftir lokunina 1952 fór aflagegnd í flóanum vaxandi og ýsuafli í Faxaflóa fór stöðugt vaxandi allt til þess að flóinn var aftur opnaður fyrir dragnótaveiðum á árinu 1960. Á árinu 1962 dró úr ýsuaflanum í Faxaflóa og hann minnkaði árlega allt til ársins 1971, en þá var flóanum aftur lokað fyrir dragnótaveiðum. Eftir 1971 hefur ýsuaflinn í Faxaflóa vaxið á svo til hverju einasta ári. Það eru einmitt þessi rök og þessi reynsla sem hefur sannfært menn um að dragnót í Faxaflóa er hættulegt veiðarfæri, spillir flóanum og spillir uppeldisstöðvum nytjafiska. Þess vegna er það að menn víðs vegar við Faxaflóa eru andstæðir því, að dragnótaveiðar séu leyfðar í flóanum. En sjútvn. þessar deildar hafði ekkert fyrir því að kynna sér skoðanir manna sem hafa hagsmuni af því að stunda veiðar við Faxaflóa. Þetta frv. um dragnótaveiðar var ekki sent til umsagnar, ekki einum einasta aðila. Og það eitt út af fyrir sig er ákaflega ámælisverð vinnubrögð að senda ekki frv. til umsagnar hjá sveitarfélögum og félagasamtökum sem eiga mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við dragnótaveiðar. Hins vegar hafa margir af þessum mönnum, sem hagsmuna hafa að gæta, látið í sér heyra, og það liggja hér í lestrarsalnum bunkar af mótmælum gegn þessu frv. Þau mótmæli eru öll af hálfu manna sem hafa hagsmuni af því, hafa lífshagsmuni af því að geta stundað veiðar í Faxaflóa.

Hv. 4. þm. Suðurl. benti mönnum nokkrum sinnum í ræðu sinni á að lesa frvgr., við ættum að lesa það að frv. fjallaði eingöngu um að veiða skarkola. Manni skildist á honum að af því að þetta orðalag væri í frv. væri tryggt að enginn annar fiskur kæmi í þetta veiðarfæri, auðvitað mundu fiskarnir haga sér eftir því hver textinn væri í lagagreininni. En ég hef vikið að því áður úr þessum ræðustól, að því miður haga fiskarnir sér ekki þannig. Þeir fiskar, sem verða á vegi dragnótarinnar, fara í dragnótina og skipið, sem dregur dragnótina, kemur með þessa fiska að landi, enda er það svo, að það fer alfarið eftir árstíma og fiskigegnd hvaða afli kemur í dragnótina. Ég gat um það við 2. umr. þessa máls, að t. d. í júlímánuði veiðist óvenjulegt magn af þorski í þetta veiðarfæri og svo mikið að u. þ. b. þriðjungur af aflanum í júlímánuði var þorskur. Þessi þorskur virðist sem sagt ekki hafa farið að ráðum hv. 4. þm. Suðurl. og ekki lesið frvgr. sem kveður á um að aðeins skarkoll eigi að fara í dragnót.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessar umr. Ég vil aðeins undirstrika það, að þeir, sem mæla á móti dragnótaveiðum í Faxaflóa, gera það vegna þess að reynslan hefur kennt okkur að dragnótin er stórhættulegt veiðarfæri einmitt hér í Faxaflóa. Hún hefur spillt fiskislóðum í Faxaflóa og fiskgegnd aftur og aftur. Fyrir því er margendurtekin reynsla. Þess vegna eigum við að greiða atkv. á móti því að heimila dragnótaveiðar í Faxaflóa. Við eigum ekki að setja í hættu hagsmuni þess mikla fjölda manna sem stunda smábátaútgerð frá Faxaflóa og vinnur við afla sem litlir bátar koma með að landi hvarvetna við flóann. Það eru þessir hagsmunir sem eru settir í hættu ef dragnótaveiðar eru leyfðar í Faxaflóa, og þeir hagsmunir eru miklu víðtækari en hagsmunir þeirra manna sem e. t. v. fá leyfi til að stunda dragnótaveiðar í Faxaflóa á fjórum til sjö bátum.