11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Þvert á skoðanir þeirra, sem hér hafa talað frá hendi stjórnarandstöðunnar, vil ég lýsa stuðningi við úrskurð hæstv. forseta. Mér þykir eðlilegt vegna fjarveru hæstv. viðskrh. að umr. verði frestað til þriðjudags. Hann er eini hæstv. ráðh. í þessari ríkisstj. sem virðist hafa skoðun og kjark til þess að tala um þær efnahagsaðgerðir sem gera þarf í tilefni af gjaldmiðilsbreytingunni, og þar sem hæstv. utanrrh., sem nú gegnir störfum fyrir hönd hæstv. viðskrh., hefur lýst því yfir, að þessi ágæti maður, hæstv. viðskrh., sé væntanlegur til landsins um helgina, þá skora ég á hæstv. utanrrh. að biðja hann um að koma hér í pontu á þriðjudaginn kemur, þegar þetta mál verður tekið aftur inn á dagskrá, og svara skýrt og skorinort fyrir hönd hæstv. ríkisstj. til hvaða aðgerða ríkisstj. ætlar að grípa og hvenær þær muni eiga sér stað.