13.05.1981
Efri deild: 97. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4273 í B-deild Alþingistíðinda. (4384)

36. mál, tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu hv. þm. Guðmundar Bjarnsonar varð ekki samkomulag um þetta mál í nefndinni. Málið er þannig til komið að hæstv. núv. ríkisstj. gaf út brbl. sem heimiluðu sérstakt tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex, undir því yfirskini að verið væri að vernda innlendan iðnað á þessu sviði. En þegar til þings var komið á s. l. hausti fann hæstv. ríkisstj. út að þessi iðnaður væri vel á vegi staddur og lagði á hann sérstakan skatt. Þetta er því einn liður í þeim gegndarlausu álögum sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur viðhaldið frá fyrri vinstri stjórnum og verður að skoðast sem bein fjáröflunarleið, en ekki til þess fyrst og fremst að stuðla að bættum hag þessarar iðngreinar.

Það mætti náttúrlega segja eitt og annað um þetta atriði, en ég ætla ekki að fara að fjölyrða um það þó að ástæða væri til. Hér er um fáheyrt mál að ræða, jafnvel þótt tekið sé mið af núv. hæstv. ríkisstj. Hún grípur til aðgerða sem hún segir að séu til stuðnings þessari ákveðnu iðngrein, en síðan leggur hún sérstakan skatt á sömu iðngrein sem íþyngir henni mjög. Hvort tveggja þetta, bæði innflutningsgjaldið og skatttekjurnar af þessum sérstaka skatti, er einvörðungu fjáröflun í ríkissjóð, en ekki er einu sinni um það talað að þetta fé skuli sérstaklega renna til að efla iðnþróun í landinu, eins og var t. d. með aðlögunargjaldið, en alla vega var það látið í veðri vaka, þó að það fé yrði seint notað og nýttist því illa í þeirri verðbólgu sem við búum við.

Herra forseti. Með því, sem ég hef sagt um þetta mál, vil ég ítreka það sem kemur fram í nál. okkar, að við erum andvígir þessu máli og mælum með því að frv. verði fellt.