13.05.1981
Efri deild: 97. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4277 í B-deild Alþingistíðinda. (4391)

308. mál, lyfjadreifing

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það mun vera í þriðja skiptið sem frv. til laga um lyfjadreifingu er lagt fyrir Alþingi. Þetta frv. er nokkuð breytt frá þeim frv., sem lögð voru fyrir síðustu tvö þing, og er sumpart um nokkrar breytingar að ræða til bóta frá þeim frumvörpum. Það er ekki ætlunin, eftir því sem ég fæ komist næst, að afgreiða þetta mál á þessu þingi, og kannske ekki ástæða til að fjölyrða um það hér, sérstaklega þar sem þetta mál mun sennilega koma til n. sem ég á sæti í að óbreyttu. Ég vil þó mega gera örstuttar aths. við þetta frv. og þá stefnu sem í því felst.

Í frv. felast mjög mikilvægar stefnumarkandi breytingar og allar þeirra eða flestar eru í þá átt að auka afskipti ríkisins af lyfjadreifingu og auka bein afskipti Lyfjaverslunar ríkisins af lyfjadreifingu. Hér er sem sagt um að ræða ríkisafskiptastefnu og ég held að hún sé því miður, bæði í þessu efni og öðrum, ekki af hinu góða, enda auka sum ákvæði þessa frv. sjáanlega á milliliðakostnað við dreifingu lyfja í landinu.

Í 3. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir að það megi veita einstaklingum, Lyfsölusjóði og Háskóla Íslands lyfsöluleyfi, en ekki nægjanlega skýrt tekið fram að meginreglan skuli vera að lyfsöluleyfi verði veitt einstaklingum og séu á ábyrgð einstaklinga. Í 38. gr. er mjög aukið á verksvið Lyfjaverslunar ríkisins og Lyfjaverslunin gerð þar að aukamillilið. Í 39. gr. er nánast gert ráð fyrir að skerða viss grundvallarmannréttindi, þ. e. að ákveðnir hópar fólks megi ekki eiga hlutabréf í ákveðnum fyrirtækjum. Ég held að það sé algert nýmæli í íslenskri löggjöf ef 39. gr. verður samþykkt eins og hún er.

Í frv. úir og grúir af ákvæðum um að Lyfjaverslun ríkisins skuli gera þetta og hitt. Eins og ég hef þegar drepið á er með þessu verið að treysta Lyfjaverslun ríkisins í sessi, auka afskipti hennar af lyfjadreifingu í landinu og þar með afskipti hins opinbera af þeirri þjónustu sem lyfjadreifing er. Yfirleitt er Lyfjaverslun ríkisins gerð miklu atkvæðameiri með þessu frv. en er í dag. T. d. er kveðið svo á að hún skuli annast innkaup lyfja fyrir sjúkrahús nær einvörðungu.

Þá eru mjög mörg ákvæði í þessu frv. um nefndir og ráð. Eitt ákvæðið er um að það skuli vera þriggja manna nefnd sem gefur ráðh. umsögn um veitingu lyfsöluleyfa, en eins og sakir standa er þarna um tveggja manna fagnefnd að ræða, einn maður frá Apótekarafélaginu og einn frá Félagi lyfjafræðinga, að ég hygg, en þetta frv. gerir ráð fyrir að sérstakur eftirlitsmaður rn. verði skipaður í þessa nefnd og verði jafnframt formaður hennar.

Þá er gert ráð fyrir að koma á fót samstarfsnefnd Lyfjaverslunar ríkisins og sjúkrahúsa og apóteka. Þessi nefnd á að hafa hönd í bagga með margvíslegri starfsemi og verða eins konar miðstýringaraft í þessu kerfi.

Herra forseti. Ég sagði áðan að ég teldi ekki ástæðu til að fara um þetta frv. mörgum orðum að þessu sinni þar sem ekki mun ætlunin að það verði afgreitt frá hinu háa Alþingi á þessu þingi. En ég taldi ástæðu til að tíunda nokkur atriði, sem hafa grundvallarþýðingu í mínum huga um stefnuna í þessu frv., og örfá meginatriði, sem ég hef hnotið um við fyrsta yfirlestur. Ég vænti þess, að þetta frv. fái ítarlega meðferð í n. þegar þar að kemur og alla vega verði sniðnir af því verstu agnúarnir ef það verður samþykkt.