13.05.1981
Efri deild: 97. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4278 í B-deild Alþingistíðinda. (4393)

321. mál, almannatryggingar

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það frv., sem við þm. Alþfl. í þessari hv. deild flytjum á þskj. 787, fjallar um breytingar á lögum um almannatryggingar og tilgangur þess er að jafna kostnað af sjúkraflutningum og læknisvitjunum þannig að dreifbýlisfólk í vissum hlutum þessa lands njóti heilbrigðisþjónustu með svipuðum hætti og aðrir eftir því sem unnt er eða a. m. k. að þessu fólki sé ekki íþyngt sérstaklega eins og nú er.

Þær reglur, sem gilda um þessi efni, eru í 43. gr. almannatryggingalaganna, í stafliðum h og i. Í núgildandi ákvæðum segir að óhjákvæmilegan ferðakostnað samlagslæknis til þeirra samlagssjúklinga, sem ekki eru ferðafærir sökum sjúkdóms, skuli greiða ef um lengri vegalengd er að ræða en 10 km á landi eða nota verði skip eða flugvélar við flutningana, hann skuli greiddur að hálfu ef læknir notar eigin farartæki, en ella að 3/4 hlutum. Samkv. þessu greiðir sjúklingur úti á landi t. d. helming af ferðakostnaði læknis sem hann verður að fá til sín í sjúkravitjun, og það getur numið umtalsverðum fjárhæðum. Sá, sem býr í þéttbýli hér á Reykjavíkursvæðinu, greiðir 16 kr., eftir því sem best er vitað, og það innifelur ferðakostnað læknisins. Nú eru þess dæmi úti á landi að samlagslæknir verði að aka 100 km til þess að komast til sjúklinga sem eru ekki ferðafærir sökum sjúkdóms. Ef svo er getur gjaldið, sem sjúklingurinn þarf að greiða fyrir vitjun af þessu tagi, numið 250 kr. eða 25 þús. gkr. Það verður að teljast ansi dýrt fyrir ýmsa, sem læknisþjónustunnar þurfa að njóta, að þurfa að greiða svo háa fjárhæð.

Í i-lið þessarar sömu 43. gr. er fjallað um flutningskostnað sjúks manns á sjúkrahús og þar gilda svipaðar reglur, nefnilega þess efnis í aðalatriðum, að hann greiði fjórðunginn af þeim kostnaði sem af sjúkrafluginu leiðir. En í þessu sambandi er rétt að hafa það í huga, að sjúkraflug t. d. milli Norðurlands, Austurlands og Vestfjarða annars vegar og Reykjavíkur hins vegar mun kosta 3000–5000 kr. fyrir ferðina. Í flestum tilvikum greiðir sjúklingur 1/4 hluta þessa eða allt að 1250 kr. fyrir að komast í sjúkrahús eða 125 þús. gkr. Þó er ekki öll sagan sögð með þessu því að þess eru dæmi, að sjúklingar hafi orðið að greiða allan kostnaðinn, allt að 5000 kr. eða 500 þús. gkr., í sambandi við sjúkraflug af þessu tagi. Þetta felur greinilega í sér mjög mikla mismunun og þá einmitt á því sviði sem síst skyldi því að enginn á auðvitað að þurfa að kvíða því að geta ekki notið sjúkraþjónustu af efnahagslegum sökum. Ég held að það væri athyglisvert fyrir alþm. að bera þessar fjárhæðir, sem hér hafa verið nefndar, 250 kr. fyrir sjúkravitjun, 1250 kr. fyrir sjúkraflug í flestum tilvikum, en allt að 5000 kr., — bera þar saman við ellilífeyrisgreiðslur. Þá held ég að menn hljóti að sjá að þetta geta verið mjög tilfinnanleg og óréttlát útgjöld.

Eins og ég gat um áðan er með frv. þessu gert ráð fyrir að sjúklingur þurfi ekki að bera kostnað af því tagi sem stafar af læknisvitjun í heimahús þegar hann er ekki ferðafær sakir sjúkdóms síns. Þetta er kostnaður sem stafar einungis af því, hversu fjarri sjúklingum samlagslæknirinn býr. Það stríðir vitaskuld gegn eðlilegu jafnrétti að þeir, sem búa við erfiðastar aðstæður til að njóta læknisþjónustu allajafna, skuli gjaldteknir umfram aðra þegar þeir verða að fá læknisvitjun í heimahús af því að þeir eru ekki ferðafærir fyrir sjúkdóms sakir.

Varðandi greiðslu á sjúkraflutningum er það að segja, að ákvæði þeirrar greinar hljóðar svo, að óhjákvæmilegan flutningskostnað sjúks manns í sjúkrahús innanlands skuli greiða að 3/4 hlutum, enda sé flutningsþörf svo bráð og heilsu hins sjúka svo varið að hann verði ekki fluttur eftir venjulegum farþegaflutningsleiðum. Frá kostnaði af þessu tagi dregst þó kostnaður við fyrsta 10 km, ef um er að ræða flutning á landi, og eins er flutningur innanbæjar ekki greiddur með þessum hætti. Síðan segir að sé fylgd nauðsynleg greiðist 3/4 hlutar af fargjaldi fylgdarmanns þótt um áætlunarferð sé að ræða. Ég vil vekja athygli á því, að hér er einungis verið að tala um flutning í sjúkrahús. Síðan kemur seinna ákvæði þessarar greinar og verður að teljast mjög athyglisvert því að þar segir að um kostnað flutnings milli sjúkrahúsa fari eftir því sem kveðið kann að verða á um í lögum um heilbrigðisþjónustu. Þessi lög hafa verið sett áður en lögin um heilbrigðisþjónustu voru sett, en nú vill svo til að í lögum um heilbrigðisþjónustu eru engin ákvæði um þetta efni. Það er þess vegna lítið hald í þessu lagaákvæði. Það er ekkert hald í því. Vegna þessa ákvæðis eða ákvæðisleysis var leitað samkomulags milli sjúkrahúsanna um að það sjúkrahús, sem sendi sjúkling, skyldi greiða flutningskostnaðinn. Það hefur þó komið á daginn að sjúkrahúsin í Reykjavík hafa tregðast við að greiða slíkan kostnað af heimsendingu sjúklinga. Þess vegna eru þess dæmi að sjúklingar hafa orðið að greiða hann að fullu sjálfir. Ég minni hér á þá fjárhæð sem í húfi er: 5000 kr. eða 500 þús. gkr.

En það er fleira í þessum efnum sem rétt er að líta á. Gildandi reglur fela í sér margs konar misrétti og óréttlæti. Tökum sem dæmi að sjúklingur sé fyrst lagður inn á sjúkrahús á Egilsstöðum og síðan fluttur til Reykjavíkur. Þá ber hann engan kostnað af flutningunum. En sá, sem sjúkur verður á Djúpavogi og eins stendur á um, að hann þarf að nýta sjúkraflug, hlýtur að greiða fjórðung af kostnaðinum af því að það er ekkert sjúkrahús á Djúpavogi til að leggja hann fyrst inn á. Þetta er náttúrlega hrópandi óréttlæti. Sjúklingur utan af landi, sem þarf eða óskar að komast heim til sín og verður að nota sjúkraflug af því að hann getur ekki heilsu sinnar vegna notað venjulegar farþegaflutningaleiðir, má allt eins búast við því að bera allan kostnað af sjúkrafluginu, allt að 5000 kr., en Reykvíkingur, sem eins stæði á um, en hefði lent á sjúkrahúsi úti á landi, getur vænst þess að þurfa ekki að bera neinn kostnað. Ferðir um fjallvegi með snjóbílum geta líka orðið ámóta dýrar og sjúkraflug. Sömuleiðis geta flutningar með sjúkrabílum um langar vegalengdir orðið mjög dýrar, t. d. frá Vík í Mýrdal eða Borgarnesi til Reykjavíkur eða frá Reykjavík á þessa staði.

Samkv. því lagafrv., sem við mælum hér fyrir, eru sett lagaákvæði um að allur flutningskostnaður milli sjúkrahúsa sé greiddur af því sjúkrahúsi sem sendir sjúklinginn, nema í þeim innanbæjarferðum sem sjúklingur getur heilsu sinnar vegna notað venjulegar samgönguleiðir. Jafnframt mundi samkv. þessu frv. okkar gilda það sama við heimsendingu sjúklings með sérstöku sjúkraflugi. Og það er náttúrlega kaldhæðni örlaganna að maður, sem ákveður að fara heim til sín, vill fara heim til sín, á ekki frekari úrbóta að vænta á sjúkrahúsi, geti lent í því að þurfa að greiða allan kostnaðinn af heimflutningnum eða heimsendingunni á sama tíma og hann er í rauninni að létta kostnaði af sjúkrahúsakerfinu. Það verður að teljast ótækt með öllu.

Samkv. því frv., sem við flytjum, yrði sjúkraflutningur í sjúkrahús greiddur að fullu af almannatryggingum í stað þess að nú greiðir sjúklingurinn fjórðung af slíkum flutningskostnaði.

Loks gerum við ráð fyrir að fargjald nauðsynlegs fylgdarmanns yrði sjúklingi að kostnaðarlausu í stað þess, eins og nú er, að sjúklingur greiði fjórðung slíks fargjalds. Það er torvelt að sjá réttlæti þess, að þeir, sem eru svo illa haldnir að þeir verði að hafa fylgdarmann, skuli greiða helmingi meira, eins og nú er, en þeir sem geta farið fylgdarlaust. Í hvoru tveggja tilfelli, þegar verið er að fara á sjúkrahús, er gert ráð fyrir að sjúklingurinn greiði fjórðung og það leggst saman samkv. þeim ákvæðum sem nú eru í gildi. Ég sé ekki að það geti talist neitt réttlæti í þessu.

Enn fremur gerir lagafrv. þetta ráð fyrir að fella niður gjaldtöku af sjúklingi vegna flutnings innanbæjar og á fyrstu 10 km flutningaleiðar, enda setur þetta frv. fram þá meginreglu, að sjúklingar greiði ekki kostnað af ferðum í sjúkraflutningum né heldur að þeir beri kostnað af því að fá til sín lækni, kostnað sem eingöngu stafar af því, hversu fjarri samlagslæknirinn býr sjúklingnum. En varðandi þá meginreglu að sjúklingur greiði ekki kostnað af ferðum í sjúkraflutningum er rétt að benda á að jafnvel þótt sjúklingi yrði gert að greiða fyrir innanbæjarflutning eða fyrstu 10 km væri auðvitað stórt skref stigið í réttlætisátt.

Það er líka rétt að láta það koma fram, að flm. hefur verið bent á að varðandi flutninga á sjúkrahús komi sú regla til álita að almannatryggingar greiði flutningskostnað að því marki sem hann er umfram fargjald með áætlunarferð milli viðkomandi staða, en þó aldrei minna en 3/4 hluta. En við flm. teljum þessa reglu ekki fullnægja þeim réttlætiskröfum, sem eðlilegt sé að gera, og telja verði sanngjarnt að sjúklingur beri engan kostnað af sjúkraflutningum, — kostnað sem eingöngu stafar af því hvar hann er búsettur eða kannske réttara sagt hvar læknisþjónustan hefur verið sett í landinu.

Við flm. teljum að enginn eigi að þurfa að kvíða því vegna efnahags síns að fá ekki notið bestu sjúkraþjónustu sem völ er á í landinu. En eins og nú standa sakir er fyllsta ástæða til að ætla að gamalt fólk t. d. á Austurlandi verði að kvíða því sérstaklega af efnahagslegum orsökum að það geti ekki fengið að njóta sjúkraþjónustu eins og þessi mál eru í pott búin. Í sannleika sagt eiga auðvitað allir að hafa sama rétt til læknisþjónustu og hjúkrunar án tillits til efnahags eða búsetu, og að því verður að stefna af fremsta megni. Þessi markmið, svo sjálfsögð sem þau eru, verða að teljast fjarri því að vera uppfyllt í okkar landi og eitt hrópandi misréttið í þessum efnum birtist í h- og i-lið gildandi laga um almannatryggingar, sbr. það sem hér er rakið. Með samþykkt þessa lagafrv., sem ég mæli her fyrir, yrði dregið verulega úr órétti á sviði heilbrigðismála og reynt að koma í veg fyrir að varðandi þau atriði, sem hér eru talin, þyrfti t. d. gamalt fólk að kvíða því að það geti ekki fengið að njóta læknisþjónustu eins og aðrir fyrir efnahagslegar orsakir.

Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til heilbr.- og trn., og vænti þess, að það fái greiða fyrirgreiðslu því að hér er að mínum dómi um mikið réttlætismál að ræða. Það ætti reyndar líka að geta orðið til þess að treysta byggðina í þessu landi þar sem hún er hvað veikust fyrir.