13.05.1981
Efri deild: 98. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4286 í B-deild Alþingistíðinda. (4403)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 11. landsk. þm., Egils Jónssonar, um skoðun okkar nm. í fjh.- og viðskn. varðandi gildistöku þessara laga held ég að hv. 2. þm. Reykn. hafi nú þegar tekið af mér ómakið í því sambandi og gefið þá skýringu kannske öllu skýrar en mér tókst í framsögu minni við þeirra túlkun sem ég held að við séum sammála um að felist í þessu frv., en þar segir í 4. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi og halda gildi sínu þar til framkvæmdum samkv. 1. gr. er lokið.“ — Ég held að þetta hljóti að vera nokkuð skýrt og eiga þar af leiðandi við þær greinar sem á undan standa í frv. og þar með 2. gr., sem fjallar um niðurfellingu á aðflutningsgjöldum og söluskatti við innflutning af þeim tækjum og búnaði sem þurfi að leggja til við úrvinnslu þessa verkefnis. Þá býst ég við að við séum líka sammála þeirri skýringu sem fram mun hafa komið í framsöguræðu hæstv. samgrh. fyrir frv. þessu.

Ég tel að ég þurfi ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég held að við séum allir sammála um skilning og túlkun á þessu ákvæði. Það kom einnig mjög skýrt fram hjá póst- og símamálastjóra þegar hann var á fundi hjá fjh.- og viðskn., að hann teldi að það væri þörf á því að vita með nokkuð góðum fyrirvara að hverju væri stefnt á næstu árum varðandi lagningu sjálfvirks síma um landið og þeir þyrftu nokkuð góðan fyrirvara til að undirbúa sig, bæði í röðun verkefna og ekki síður í útvegun þeirra tækja og þess efnis sem nota á. Þess vegna hlýtur þessi skilningur og þessi túlkun einnig að falla mjög vel að þeirra þörfum og hugmyndum um hvernig best sé að standa að þessu máli.