13.05.1981
Neðri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4287 í B-deild Alþingistíðinda. (4408)

320. mál, raforkuver

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um raforkuver, en það var lagt fram á þskj. 784 í hv. Nd. í fyrradag. Frv. þetta ásamt grg. felur í sér stefnumótun um byggingu raforkuvera í landinu á næstu 10–15 árum, allt að 820 mw. að afli, þar af 720 mw. í vatnsaflsvirkjunum, 50 mw. í jarðvarmavirkjunum og 50 mw. í varastöðvum, auk heimildar til að reisa og reka orkuveitur til að tengja þessi orkuver við núverandi landskerfi og styrkja landskerfið að því marki sem nauðsynlegt er talið til að flytja orkuna til afhendingarstaða út frá því.

Hér er um að ræða víðtækustu heimildir sem leitað hefur verið eftir í sambandi við uppbyggingu raforkskerfisins. Umfang þeirra framkvæmda, sem fyrirhugað er að ráðast í, sést best af samanburði við núverandi uppsett afl í raforkukerfinu, en það nam samtals um 680 mw. í árslok 1980. Þar af eru 542 mw. í vatnsaflsstöðvum, um 20 mw. í jarðvarmastöðvum, að raforkuveri Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi meðtöldu, og 116 mw. í olíustöðvum, sem fyrst og fremst eru nú notaðar sem varaaflsstöðvar. Þannig er hér leitað heimilda fyrir meira en tvöföldun á uppsettu afli í landskerfinu eða úr 680 mw. í rúm 1500 mw. Slíkar afltölur segja vissulega ekki alla sögu og meira má lesa út úr fyrirhugaðri aukningu á orkuvinnslugetu raforkukerfisins í krafti umræddra virkjana og annarra aðgerða sem fyrirhugaðar eru til að auka hana, einkum á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu með svonefndri Kvíslaveitu og stækkun miðlunar í Þórisvatni. Miðað við fyrirliggjandi verkfræðiáætlanir ykist orkuvinnslugetan um 3785 gwst. á ári úr 3140 gwst. á ári, eins og hún var metin í árslok 1980, í samtals 6925 eða rétt tæp 7000 gwst. á ári og er þá ekki meðtalin aukin orkuvinnslugeta vegna þriðju aflvélar Hrauneyjafossvirkjunar. Þessi aukning á orkuvinnslu gæti komið í gagnið á 10–15 árum eða lengri tíma samkv. hugmyndum sem settar eru fram í grg. með frv., en þar eru eðlilega settir fram ýmsir fyrirvarar varðandi framkvæmdahraða og nýtingu þeirra heimilda sem hér er leitað eftir.

Áður en lengra er haldið að rekja efni frv. tel ég rétt að líta ögn til baka og fjalla um heimildir vegna raforkuvera á síðasta áratug og aðdraganda þeirra tillagna sem hér eru fram settar.

Tíu ár eru nú liðin síðan samþ. voru á Alþingi meiri háttar heimildarlög fyrir nýjar vatnsaflsvirkjanir, en það voru lög nr. 37/1971 um Hrauneyjafoss- og Sigölduvirkjun, hvora með allt að 170 mw. afl, og var í þeim lögum ekki kveðið á um röðun eða hvor virkjunin skyldi fyrr reist. Í reynd var það Sigölduvirkjun sem byggð var á árunum 1973–1978 með 150 mw. afli í þremur vélasamstæðum, en síðan tóku við framkvæmdir við Hrauneyjafossvirkjun samkv. heimild ríkisstj., sem veitt var um áramótin 1976–1977, og hófust framkvæmdir við Hrauneyjafossvirkjun sumarið 1978 og standa enn yfir sem kunnugt er. Virkjunarheimildin samkv. lögunum, sem til var vitnað, tekur til 170 mw. afls þannig að 40 mw. vantar á til að tilskilin heimild sé fyrir þriðju aflvél virkjunarinnar sem æskilegt er talið að komist í gagnið að 2–3 árum liðnum.

Af öðrum lagaheimildum um raforkuver, sem samþykktar hafa verið og reynt hefur á á þessu tímabili, ber einkum að nefna heimildarlög nr. 21 frá 1974 um 60 mw. jarðvarmavirkjun við Kröflu þar sem framkvæmdir standa enn yfir og lög nr. 26/1980 um 6 mw. viðbót við jarðvarmavirkjun á vegum Hitaveitu Suðurnesja sem komst í gagnið í lok síðasta árs eftir óvenjustuttan framkvæmdatíma eða aðeins um einu ári eftir að ákvarðanir voru teknar um að ráðast í þá virkjun. Á nokkur heimildarlög, sem Alþingi hefur samþykkt á liðnum 10 árum, hefur ekki reynt í framkvæmd, svo sem heimildarlög um Bessastaðaárvirkjun, 32 mw. að afli, frá árinu 1974, og um 13.5 mw. orkuver við Kljáfoss í Hvítá í Borgarfirði sem heimildarlög voru samþykkt um á árinu 1977. Að undirbúningi Bessastaðaárvirkjunar var raunar unnið á árunum 1975–1979, en þá var tekin stefna á að tengja virkjunina stærri virkjunarhugmynd á Austurlandi, þ. e. Fljótsdalsvirkjun með virkjun Jökulsár í Fljótsdal auk nýtingar á vatnasviði Bessastaðaárvirkjunar.

Meginröskunin á framkvæmdaáætlunum stjórnvalda á liðnum 10 árum varðar Kröfluvirkjun, svo sem óþarft er að rekja á þessum vettvangi, og einnig kom til verulegrar fyrirstöðu við áform um að ráðist skyldi í miðlungsstóra virkjun á Austurlandi, þ. e. Bessastaðaárvirkjun.

Á þessum tíma, sem hér er lítið til, hefur mikið verið rætt og deilt um einstakar framkvæmdir og framkvæmdastefnu og skipulag orkumála. Þótt hægar hafi miðað í þeim efnum en margir hefðu kosið hefur orðið veruleg viðhorfs- og afstöðubreyting í sambandi við uppbyggingu raforkukerfisins og möguleikar til nýrrar sóknar og nýrra áherslna á því sviði. Þar skiptir líklega mestu sú stefna, sem tekin var á árunum 1972–1973, að ráðast í samtengingu á hinum aðgreindu raforkusvæðum einstakra landshluta, og hrundið var í framkvæmd með undirbúningi að byggingu svonefndrar Norðurlínu á árinu 1974. Hefur síðan verið unnið sleitulaust að slíkri samtengingu milli landshluta með byggingu byggðalínanna með 132 kw. spennu. Með þessum samtengingum hefur raforkukerfi landsmanna smám saman verið að breytast úr einangruðum svæðum í samfelldan raforkumarkað og vantar nú ekki nema herslumuninn á að byggðalínuhringnum verði lokað með byggingu Suðurlínu sunnan jökla milli Hafnar í Hornafirði og virkjananna við Tungnaá. Þeim áfanga þarf að mínu mati að ná á næstu tveimur árum, en í stjórnarsáttmála er kveðið á um að stefna eigi að hringtengingu aðalstofnlina á næstu árum.

Jafnhliða samtengingu áður aðgreindra orkuveitusvæða hefur þeirri skoðun vaxið fylgi hin síðari ár að koma upp einu öflugu landsfyrirtæki er sjái um meginraforkuvinnslu og raforkuflutning og taki við virkjunarkostum á rannsóknarstigi og reisi og reki nýjar meiri háttar virkjanir. Hugmyndir um sérstök landshlutafyrirtæki í raforkuiðnaðinum voru um skeið allmikið til umræðu, en fengu takmarkaðan hljómgrunn. Þó má segja að af þeim hafi sprottið Orkubú Vestfjarða sem fól í sér ýmis athyglisverð nýmæli, og engan veginn er útilokað að svipað skipulag gæti hentað á einstökum afmörkuðum svæðum, eins og t. d. á Suðurnesjum. Meginstefnan hlýtur þó að verða útvíkkun Landsvirkjunar í aðalorkuöflunarfyrirtæki landsins alls, en mikilvægt skref í þá átt var stigið með ákvörðun um sameiningu Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar með samkomulagi eigenda þessara fyrirtækja 27. febr. s. l. Að þeim málum verður vikið nokkru nánar í sambandi við framkvæmdaaðila við þær virkjanir sem leitað er heimilda fyrir með því frv. sem hér er til umræðu.

Á síðasta áratug og raunar nokkru lengur hefur af hálfu Orkustofnunar verið unnið talsvert starf við rannsóknir á virkjunarstöðum utan Suðurlands, þ. á m. á stórum virkjunarmöguleikum á Norðurlandi sem um skeið beindust að virkjun Dettifoss í Jökulsá á Fjöllum, en síðar að Blönduvirkjun þar sem rannsóknir hófust að marki upp úr 1970, og um svipað leyti komu fram hugmyndir um virkjun Jökulsánna á Austurlandi sem haldið var áfram með forathugunum á árunum 1977–1978.

Þessar rannsóknir ásamt framkvæmdum við. samtengingu raforkuveitusvæða Norður- og Austurlands ýttu undir áhuga og styrktu hugmyndir um að raunhæft væri að stefna að byggingu stórra virkjana í þessum landshlutum með þeim augljósu kostum sem slíkri stefnu fylgja jafnt fyrir eflingu byggðar og atvinnulífs svo og öryggi í raforkukerfi landsins alls.

Við myndun núv. ríkisstj. var þessu verki lyft með ákvæði í stjórnarsáttmála þess efnis, að næsta virkjun vegna landskerfisins verði utan eldvirkra svæða og jafnframt skyldi gerð framkvæmdaáætlun um raforkuframkvæmdir til næstu 5–10 ára og mörkuð samræmd orkustefna til langs tíma. Er í því sambandi gjarnan horft fram til næstu aldamóta á svipaðan hátt og unnið hefur verið að á öðrum Norðurlöndum með mótun orkustefnu á vegum stjórnvalda. Sérstök orkustefnunefnd á vegum ríkisstj. og undir forustu iðnrn. vinnur að því verkefni samkv. skipunarbréfi sem birt er sem fskj. með þessu frv.

Rétt er að víkja hér nokkrum orðum að stöðu mála varðandi framkvæmdaundirbúning virkjana í ljósi stefnumiða ríkisstj. um það leyti sem ríkisstj. tók við í febr. 1980. Landsvirkjun hafði þá sem fyrr forustu um áætlanagerð varðandi virkjanir á orkuveitusvæði sínu og vann sérstaklega að undirbúningi svonefndrar Sultartangavirkjunar sem af hálfu Landsvirkjunar var talið að komast þyrfti í gagnið á árinu 1985 eða þar um bil, eins og það var túlkað fyrir einu ári. Rannsóknir við Blönduvirkjun voru á vegum Orkustofnunar sem taldi vettvangsrannsóknum lokið samkv. fyrirhugaðri virkjunartilhögun, en samningamál við rétthafa á virkjunarsvæðinu voru enn í hnút þrátt fyrir viðleitni liðinna ára til að finna á þeim farsæla lausn. Rannsóknir varðandi virkjun Jökulsár í Fljótsdal voru einnig á hendi Orkustofnunar og af talsmönnum hennar taldar 1–2 árum á eftir rannsóknum við Blönduvirkjun. Veturinn 1979–1980 var enn talið óljóst hvort stefna bæri að virkjun Jökulsár í Fljótsdal með svokallaðri Múlavirkjun með stöðvarhúsi í Suðurdal í Fljótsdal eða svonefndri Fljótsdalsvirkjun með veitum frá Eyjabakkalóni út Fljótsdalsheiði í áður fyrirhuguð miðlunar- og inntakslón Bessastaðaárvirkjunar. Í þessari stöðu ákvað iðnrn. í fyrsta lagi að fá skorið úr um virkjunartilhögun varðandi Jökulsá í Fljótsdal, þannig að markvisst mætti beina áframhaldandi rannsóknum að ákveðinni virkjunartilhögun. Úrslit í því máli fengust í byrjun apríl 1980 með skýrslu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens er taldi Fljótsdalsvirkjun álitlegri virkjunarkost en Múlavirkjun af ýmsum ástæðum, m. a. varðandi rekstraröryggi, og tóku Rafmagnsveitur ríkisins undir þá skoðun. Í öðru lagi ákvað rn. að unnið skyldi að lausn ágreiningsmála við Blönduvirkjun sem forgangsverkefni áður en ráðist yrði í endanlega verkhönnun. Til að greiða fyrir þessu og tryggja hliðstæð tök varðandi undirbúning beggja þessara vatnsaflsvirkjana, Blönduvirkjunar og Fljótsdalsvirkjunar, fól rn. Rafmagnsveitum ríkisins að gegna hlutverki virkjunaraðila við báðar þessar virkjanir og hafa forustu um virkjunarundirbúning, þar með talið lúkningu rannsókna og samningagerð við rétthafa á virkjunarsvæðum. Var Rafmagnsveitunum gert að hafa samráð við Orkustofnun, sem forustu hafði haft um rannsóknir fram að þessum tíma, svo og samráð við Landsvirkjun sem stærsta og reyndasta virkjunaraðila landsins. Var mynduð sérstök hönnunarstjórn þessara aðila, og jafnframt setti rn. á fót ráðgjafarnefnd vegna undirbúnings beggja þessara virkjana. Eiga í henni sæti Tryggvi Sigurbjarnarson verkfræðingur sem formaður af hálfu iðnrn., Jakob Björnsson orkumálastjóri, Jóhannes Nordal stjórnarformaður Landsvirkjunar og Kristján Jónsson rafmagnsveitustjóri ríkisins.

Samkv. kerfisrannsóknum Orkustofnunar, sem fram komu í maí 1980 varðandi samanburð virkjunarleiða, var talinn óverulegur kostnaðarmunur á þessum virkjunum, Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun, reiknað í krónum á kwst. á ári, og einnig lítill munur á heildarkostnaði raforkukerfisins, hvor þessara virkjana sem kæmi á undan í röðinni, og þá miðað við almennan markað. Ljóst var hins vegar að þessir útreikningar, sem kynntir voru af Orkustofnun nýlega með útgáfu og dreifingu á þremur skýrslum um samanburð virkjunarleiða, voru nokkurri óvissu háðir vegna ófullnægjandi rannsókna á Fljótsdalsvirkjun svo og vegna ágreinings og óvissu um virkjunartilhögun við Blöndu.

Sumarið 1980 var gert rannsóknarátak varðandi Fljótsdalsvirkjun með samvinnu Rafmagnsveitna ríkisins og Orkustofnunar jafnframt því sem Landsvirkjun lét vinna ötullega að nýrri mynsturáætlun fyrir virkjunarkosti og veitu á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Eru niðurstöður þeirrar áætlunar nýkomnar út í sérstakri skýrslu. Jafnframt var á vegum Landsvirkjunar unnið að vettvangsrannsóknum og verkhönnun vegna Sultartangavirkjunar. Frá því í fyrrasumar hafa Rafmagnsveitur ríkisins haft forustu um samningaviðræður við hagsmunaaðila á virkjunarsvæði Fljótsdals og Blönduvirkjunar með það að markmiði að leysa ágreiningsmál um virkjunartilhögun á þessum svæðum með sæmilegum friði. Hefur verið gert ráð fyrir að leitast við að bæta það tap á landi, sem fer undir vatn í miðlunarlónum, með uppgræðslu eða ræktun og ná samningum um sanngjarnar bætur fyrir það sem sannanlega er af hendi látið af landnytjum og vegna óhagræðis með tilkomu virkjananna. Þessi viðleitni hefur alveg nýlega leitt til samkomulags vegna Fljótsdalsafréttar eystra, eins og fram kemur á fskj. á bls. 49–50 með frv., og samningum er vel á veg komið við rétthafa á Múlaafrétt austan Jökulsár í Fljótsdal þar sem gert er ráð fyrir bótum í svipuðu formi, þ. e. með túnrækt í byggð.

Við Blönduvirkjun hafa mál skýrst til muna og ljósara er en áður hvað á milli ber í aðalatriðum. Á þessu virkjunarsvæði Blönduvirkjunar er hins vegar um flóknara mál að fást en eystra þar sem mörg sveitarfélög hafa hagsmuna að gæta, þannig að engan þarf að undra þótt tíma taki að leysa þau með samkomulagi og sæmilegum friði. Áfram verður lögð á það áhersla að finna lausn á þessari viðkvæmu deilu undir forustu samninganefnda á vegum virkjunaraðila og heimamanna, en iðnrn. og ríkisstj. munu fylgjast með framvindu málsins og fjalla um einstaka þætti þess eftir því sem tilefni verður til.

Í haust var að því stefnt að leggja frv. varðandi virkjunarmálin fyrir yfirstandandi þing fyrr en tekist hefur, en margir þættir við undirbúning þessara mála reyndust taka meiri tíma en vænst hafði verið. Það er hins vegar misskilningur, sem fram hefur komið, að rn. og ríkisstj. hafi gert ráð fyrir að leggja þessi mál fram til ákvörðunar fyrir síðustu áramót, hvað þá að unnt væri að taka á þeim fyrr. Það, sem tímafrekast hefur reynst, er úrvinnsla úr rannsóknum s. l. sumars og verkfræðivinna í framhaldi af því, þ. á m. samræming á kostnaðartölum, sbr. bréf verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens til Rafmagnsveitna ríkisins frá 13. apríl 1981 sem birt er sem fskj. á bls. 8–10 ásamt grg. um einstakar virkjanir og veitur sem leitað er heimilda fyrir í þessu frv. Endanlegir kostnaðarútreikningar miðað við núverandi stöðu rannsókna bárust rn. raunar fyrir fáum dögum og voru þá felldir inn í þau fskj. sem hér eru birt ásamt upplýsingum um einstakar virkjanir í grg. með frv.

Þá er þess að geta, að umsögn Náttúruverndarráðs varðandi Fljótsdalsvirkjun lá fyrst fyrir um mánaðamótin mars — apríl og staðan í samningaviðræðum við rétthafa á virkjunarsvæðum hefur verið óljós og er það sumpart enn, eins og fram hefur komið. Æskilegt er að slíkir þættir liggi sem skýrast fyrir áður en bindandi ákvarðanir eru teknár um stórmál eins og hér er á dagskrá, svo ekki sé minnst á nauðsyn þess að öllum slíkum undirbúningi sé lokið áður en gengið er frá framkvæmdaundirbúningi og lagt út í kostnaðarsamar framkvæmdir.

Á vegum orkuspárnefndar hefur á síðustu misserum verið unnið að endurmati á raforkuspá þeirri sem gefin var út í nóv. 1978. Þessi nýja raforkuspá var fyrst frágengin fyrir tæpum mánuði og gefin út nú fyrir örfáum dögum í skýrsluformi og dreift til hv. alþm. Hún hefur reynst gagnlegur bakgrunnur í sambandi við undirbúning að þessu frv. og þeirri stefnumörkun sem í grg. þess felst. Margháttaðar aðrar upplýsingar og gögn hafa verið í vinnslu til skamms tíma, eins og m. a. má sjá af ýmsum fskj. sem birt eru með frv. Rn lagði drög að frv. fram í ríkisstj. 14. apríl s.1., en endanlega var frá því gengið í síðustu viku og á ríkisstjórnarfundi s. l. laugardag, 9. maí, var samþykkt að leggja það fyrir Alþingi í þeim búningi sem það birtist hér sem stjfrv.

Ég hef hér skýrt aðdragandann að frv., en mun nú víkja að efni frv. sjálfs nánar og þeim stefnumarkandi atriðum er felast í grg. með því svo og í aths. um einstakar greinar.

Í 1. gr. frv. er leitað heimilda fyrir fjórum nýjum vatnsaflsvirkjunum. Eru það Blönduvirkjun með allt að 180 mw. afli, Fljótsdalsvirkjun með allt að 330 mw. afli, Villinganesvirkjun með allt að 40 mw. afli og Sultartangavirkjun með allt að 130 mw. afli. Að auki er svo leitað heimildar fyrir stækkun Hrauneyjafossvirkjunar í 210 mw., þar eð nokkuð vantaði á að lagaheimild væri fyrir þriðju aflvél virkjunarinnar. Samtals eru þetta, eins og áður greinir, 720 mw. í vatnaflsvirkjunum. Segja má að þar sé um hámarkstölur að ræða þar eð núverandi verkfræðilegar áætlanir gera ráð fyrir nokkru minna afli í hverri þessara virkjana sem hér er leitað heimilda fyrir, nema í Hrauneyjafossvirkjun. Þannig er nú gert ráð fyrir Blönduvirkjun. með 160 mw. afli í tveimur aflvélum, Fljótsdalsvirkjun með 290 mw. afli í þremur eða fjórum aflvélum, Villinganesvirkjun með 36 mw. afli og Sultartangavirkjun með 120 mw. Samtals væri því um að ræða 606 mw. nettó í þessum nýju vatnsaflsvirkjunum samkv. fyrirliggjandi verkfræðiáætlunum, auk 40 mw. viðbótarheimildar vegna Hrauneyjafossvirkjunar, samtals tæp 650 mw.

Þá er leitað heimildar til að gera ráðstafanir sem nauðsynlegar þykja til að tryggja rekstur orkuveranna á Þjórsársvæðinu og koma vinnslugetu þeirra í eðlilegt horf, m. a. með svonefndri Kvíslaveitu, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og stíflu við Sultartanga sem bæta á verulega rekstrarstöðu Búrfellsvirkjunar og draga úr þeim vandamálum sem skapast hafa oft og tíðum vegna ís- og krapamyndunar í Þjórsá. Áætlað er að þessar veituaðgerðir án aflaukningar í virkjununum á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu auki orkuvinnslugetu virkjana á þessu svæði og í landskerfinu um 570 gwst. á ári, en með hugsanlegri viðbót síðar í afli í Sigöldu og Hrauneyjafossvirkjun gæti þessi tala hækkað um a. m. k. 200 gwst. Auk þessa er um að ræða aukna orkuvinnslugetu vegna byggingar Sultartangastíflu um nálægt 150 gwst. Hér er í senn um umfangsmiklar og jafnframt mjög arðbærar framkvæmdir að ræða til að bæta stöðu núverandi orkuvera og má segja að á heildina lítið séu þær ígildi meðalstórrar virkjunar.

Í aths. við 1. gr. frv. er mörkuð meginstefna um framkvæmdaröð varðandi þær virkjanir og veitur, sem leitað er heimilda fyrir samkv. frv., og sú stefna sett fram á eftirfarandi hátt:

„1) Hrauneyjafossvirkjun verði byggð í fulla stærð á næstu árum með 3. vélasamstæðu, sem hér er leitað heimildar fyrir, en 40 mw. vantar til að fullnægjandi heimild sé fyrir 210 mw. virkjun.

2) Hafist verði handa um að auka orkuvinnslugetu og að tryggja rekstur raforkuveranna við Þjórsá og Tungnaá með vatnaveitum til Þórisvatns (Kvíslaveita), aðgerðum til að auka miðlunarrými þess og gerð stíflu við Sultartanga. Slíkar aðgerðir kæmu til framkvæmda á næstu 4–5 árum.

3) Undirbúningi vegna Fljótsdalsvirkjunar og Blönduvirkjunar verði lokið sem fyrst og framkvæmdir við fyrri áfanga Fljótsdalsvirkjunar og við Blönduvirkjun skarist nokkuð. Verði við það miðað að önnur þessara virkjana geti hafið rekstur á árunum 1986–1987, en hin um 1990 eftir því sem markaðsaðstæður leyfa.

4) Framkvæmdir við síðari áfanga Fljótsdalsvirkjunar, við Sultartangavirkjun og Villinganesvirkjun hafa ekki verið tímasettar, en orkuvinnslugeta þeirra til viðbótar gæti rúmast innan efri marka orkuspár á næstu 15 árum. Ákvarðanir um framkvæmdir hljóta hins vegar að ráðast af aðstæðum í landskerfinu og markaði er þar að kemur.“

Með þessu er mörkuð um það stefna að í framhaldi af byggingu Hrauneyjafossvirkjunar og annarra aðgerða á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og jafnhliða þeim verði ráðist í tvær stórvirkjanir utan Suðurlands og að því stefnt að þær komist í gagnið innan 10 ára. Með frv. er þannig í fyrsta sinn leitað heimilda fyrir meiri háttar virkjunum utan Suðvesturlands og mörkuð sú stefna að dreifa virkjunum um landið og virkja utan eldvirkra svæða í samræmi við stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. Slík dreifing virkjana býður upp á aukið öryggi fyrir hina ýmsu landshluta og traustari rekstur kerfisins en ríkir við núverandi aðstæður þar sem allar helstu virkjanir landsins eru á tiltölulega litlu svæði sunnanlands. Með slíkri dreifingu virkjana gefst einnig færi á að nýta mismunandi rennsliseiginleika íslenskra fallvatna eftir landshlutum þar eð lágrennslistímabil fylgjast yfirleitt ekki að um allt land vegna mismunandi veðráttu. Hin samtengdu raforkuver, sem dreifð eru um landið, geta einnig samanlagt unnið meiri raforku en væru þau einangruð eða öll í sama landshluta, vegna þess að rennslissveiflur jafnast nokkuð út yfir landið í heild. Á mikilvægi þessa atriðis vorum við rækilega minnt á s. l. vetri.

Til viðbótar þessu mun fylgja byggingu umræddra virkjana og veitumannvirkja um tvöföld á miðlunarforða eða miðlunarstigi að baki raforkuvera landsins, en það er að sjálfsögðu stórfellt öryggisatriði. Þar munar mestu um fyrirhugaða Fljótsdalsvirkjun með allt að 745 gígalitra miðlun, sem felur í sér yfir 1000 gwst. orkuforða á ári, og til samanburðar má nefna að í núverandi Þórisvatnsmiðlun er fólgin um 700 gwst. orkuforði yfir árið, orkuforði í heild reiknað, ekki tímabundið út af fyrir sig. Um þetta segir m. a. í grg. með frv.:

„Miðlunarstig Fljótsdalsvirkjunar fullgerðrar er ráðgert um 75%, en um 70% í fyrri áfanga. Miðlunarstig Blönduvirkjunar með 435 gígalítra miðlum er því 38%. Enn hefur ekki farið fram nákvæm úttekt á hagkvæmasta miðlunarstigi íslenska raforkukerfisins í framtíðinni, en búist er við að það sé milli 30 og 40%. Núverandi miðlunarstig kerfisins í heild er um 16%. Það hækkar í um 21% með lúkningu Hrauneyjafossvirkjunar og þeim aðgerðum á Þjórsársvæðinu sem gert er ráð fyrir í frv. og sem gerðar yrðu samhliða byggingu næstu meiri háttar virkjunar. Það mundi síðan hækka í 23–24% með Blönduvirkjun (290–430 gígalítra miðlun), sem næstu virkjun á eftir Hrauneyjafossi, en með Fljótsdalsvirkjun á undan Blönduvirkjun mundi það hækka í 30–33% (543–745 gígalítra miðlun). Er þá miðlunarstigið farið að nálgast hagkvæmustu stærð, en sem stendur er íslenska raforkukerfið stórlega vanmiðlað. Frv. þetta miðar þannig að verulegum bótum í þessu efni.“

Um þessi efni er nánar fjallað í fskj. á bls. 77–87 með frv. þar sem er að finna útreikninga og yfirlit frá verkfræðingum um áhrif mismunandi virkjunarleiða á miðlunarstig og orkuvinnslugetu umræddra virkjana.

Í framhaldi af þessu tel ég rétt að víkja nánar að undirbúningi framkvæmda við næstu vatnsaflsvirkjanir og að áætluðum framkvæmdahraða og fyrirhuguðum ákvörðunum um framkvæmdaröð. Um þessi efni segir í grg. með frv. í kafla um virkjunarframkvæmdir á bls. 5–6 eftirfarandi:

„Fljótlega þarf að taka ákvörðun um byggingu næstu vatnsaflsvirkjunar í samræmi við ákvæði í stjórnarsáttmála. Er við það miðað að undirbúningi vegna Blönduvirkjunar og Fljótsdalsvirkjunar verði lokið sem fyrst og að framkvæmdir við þær skarist nokkuð.

Gerð verður áætlun um sl~ca framkvæmdatilhögun þannig að undirbúningi og framkvæmdum við þá virkjunina, er síðar kæmist í gagnið, yrði dreift á allmörg ár eftir því sem hagkvæmni frekast leyfir. Við byggingu þessara virkjana þarf að taka tillit til aðstæðna í viðkomandi landshlutum og að virkjanaframkvæmdirnar verði til að efla atvinnustarfsemi í þeim byggðarlögum er næst liggja.

Með hliðsjón af því, sem að framan greinir mun ríkisstj. í ár beita sér fyrir eftirfarandi varðandi frekari undirbúning Blönduvirkjunar og Fljótsdalsvirkjunar:

— Að hraðað verði verkhönnun við Blönduvirkjun.

— Að lokið verði rannsóknum vegna Fljótsdalsvirkjunar og hafin verkhönnun hennar.

— Að hafnar verði tilraunir með uppgræðslu og gróðurbætur á virkjunarsvæði Blöndu í samráði við sérfræðinga og heimamenn og ráðist í vegagerð á virkjunarsvæðinu.

— Að samhliða þessu verði leitast við að ná sem fyrst samningum við hagsmunaaðila vegna Blönduvirkjunar. Á þennan hátt verði tryggt að ekki verði tafir á undirbúningi næstu vatnsaflsvirkjunar þótt ákvörðun um hana verði tekin á síðari hluta ársins og leitað staðfestingar Alþingis á haustþingi. Við þá ákvörðun mun ríkisstj. taka mið af þjóðhagslegri hagkvæmni svo og öryggi í raforkukerfi landsins.

Eftir að frv. þetta yrði að lögum verða þegar hafnir samningar við Landsvirkjun sem væntanlegan virkjunaraðila samkv. 1. gr. og reynt að koma því máli í höfn sem fyrst.

Fyrir liggur að auðvelt og hagkvæmt virðist að skipta Fljótsdalsvirkjun í áfanga þannig að rösk 200 mw. yrðu virkjuð í fyrri áfanga, en allt að 100 mw. í hinum síðari. Verði að því stefnt að önnur þessara virkjana geti hafið rekstur á árunum 1986-1987 og hin um 1990 eftir því sem markaðsaðstæður leyfa“. — Þ. e. Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun.

„Framkvæmdir við 2. áfanga Fljótsdalsvirkjunar, við Sultartangavirkjun og Villinganesvirkjun hafa ekki verið tímasettar og hljóta að ráðast af aðstæðum í landskerfinu er þar að kemur. Við þær framkvæmdir getur einnig komið til skörunar eins og við aðrar virkjanir.

Hér er um að ræða framkvæmdaáætlun til 10–15 ára, en hraði framkvæmda mun þó óhjákvæmilega ráðast mjög af þeim orkunýtingarkostum sem að yrði stefnt og hagkvæmir teljast miðað við þær forsendur sem skýrt er frá í grg. þessari. Í þessu sambandi er einnig vert að gefa gaum að árferðissveiflum og áföllum af völdum tíðarfars sem minnt hafa óþyrmilega á sig á þessum vetri.

Reynslan sýnir að vandaður undirbúningur dregur úr kostnaði mannvirkja og einnig að ætla þarf rúman tíma til að unnt sé að standa vel að málum. Skipuleggja þarf virkjunarframkvæmdir langt fram í tímann og mun lengra en tíðkast hefur hér á landi til þessa. Að því leyti er frv. þetta nýmæli. Á hinn bóginn er það vitaskuld ekki hugmyndin að reisa virkjanir óháð þróun orkumarkaðarins. Slíkt væri mjög varhugavert og gæti m. a. leitt til þess, að bjóða þyrfti orku á eins konar útsölu. Virkjanir hljóta því að haldast í hendur við orkumarkaðinn. Undirbúnings- og framkvæmdatími þeirra getur hins vegar verið lengri en iðjuvera sem nota orkuna og því þarf að skipuleggja þær með góðum fyrirvara. Þeirri meginstefnu er fylgt í þessu frv. Að hinu ber svo einnig að hyggja, að iðnaður, sem byggir á nýrri tækni og aðlaga þarf íslenskum aðstæðum, á sér langan aðdraganda og því þarf jafnframt að huga að iðnaði sem byggir á gamalkunnri tækni.

Væru þær vatnsaflsvirkjanir, sem hér er leitað heimilda fyrir, virkjaðar á næstu 15 árum yrði um að ræða nálægt 2400 gwst. aukningu í raforkuframleiðslu í landskerfinu umfram þarfir almenns markaðar og núverandi orkufreks iðnaðar samkv. fyrirliggjandi efri mörkum orkuspár.“

Að þessum þáttum, orkuspá og orkunýtingu, mun ég víkja nokkuð hér á eftir, en um leið og ég undirstrika þann sveigjanleika, sem þarf og hlýtur að vera í áætlunum sem þessum, tel ég ekki óraunsætt að ætla að finna megi skynsamlega nýtingu fyrir orku frá Blönduvirkjun, Fljótsdalsvirkjun og Sultartangavirkjun á næstu 10–15 árum og raunar fyrr en seinna á því bili þannig að í reynd gæti hér orðið um 12 ára framkvæmdatíma að ræða. Hef ég þá einnig í huga þau skilyrði sem fram eru sett í sambandi við uppbyggingu orkufreks nýiðnaðar með virkum íslenskum yfirráðum yfir framleiðslu, tækniþróun og markaðsstefnu, eins og að er vikið á öðrum stað í grg. með frv.

Fyrir utan vatnsaflsvirkjanirnar og veituaðgerðir í þágu þeirra samkv. 1. gr. frv. er leitað heimildar til að koma upp jarðvarmavirkjunum með samtals 50 mw. afli til viðbótar þeim sem fyrir eru, enda fullnægi aðilar, sem slíkar virkjanir reisa, skilyrðum sem ríkisstj. kann að setja fyrir slíkum heimildum í því skyni að tryggður verði hagkvæmur heildarrekstur raforkukerfisins. Í aths. við 1. gr. er í þessu sambandi gert ráð fyrir að slíkar jarðvarmavirkjanir tengist að jafnaði annarri nýtingu jarðvarma á viðkomandi svæði, svo sem vegna hitaveitu og/eða iðnrekstrar. Slíkum jarðvarmavirkjunum má koma á fót með styttri fyrirvara en vatnsaflsvirkjun, ef jarðvarmi er tryggður, og þannig væri hægt að bregðast við breyttum aðstæðum í raforkukerfinu, svo sem auknu álagi og varaaflsþörf, sbr. uppsetningu 6 mw. jarðvarmavirkjunar hjá Hitaveitu Suðurnesja á árinu 1980 sem áður var að vikið.

Af öðrum svæðum, þar sem til álita kemur að setja upp litlar jarðvarmavirkjanir á næstu árum, má nefna Reykjanes í tengslum við sjóefnavinnslu, Ölfusdal eða Hengilssvæðið í tengslum við ylrækt, sykurhreinsun eða annan iðnað, svo og Bjarnarflag, þar sem lítil jarðvarmavirkjun hefur verið staðsett síðan 1969 — raunar hin fyrsta af slíku tagi hérlendis.

Til viðbótar þessu et leitað heimildar til að reisa varastöðvar á vegum Rafmagnsveitna ríkisins, Landsvirkjunar og Orkubús Vestfjarða með samtals allt að 50 mw. afli á næstu 10 árum í því skyni að tryggja viðunandi öryggi notenda gagnvart bilunum. Sérstök úttekt fer nú fram á varaaflsþörf í landskerfinu á næstu árum með hliðsjón af áformum um byggingu vatnsafls- og jarðvarmavirkjana í einstökum landshlutum.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að ákvæðum 2. gr. frv., en samkv. henni er ríkisstj. heimilt að láta ljúka undirbúningi og hönnun þeirra mannvirkja til úfboðs, er um getur í 1. gr., og að ábyrgjast á árinu 1981 lán eða taka lán og endurlána virkjunaraðila allt að 50 millj. kr. til undirbúnings ofangreindra virkjana umfram það fjármagn, sem þegar hefur verið ákveðið í þessu skyni, en það nemur um 8 millj. kr. samkv. fjárlögum og lánsfjárlögum ársins 1981 undir liðnum „virkjunarrannsóknir“. Við undirbúning fjárlaga og lánsfjárlaga var hins vegar út frá því gengið að bæta þyrfti við verulegu fjármagni í þessu skyni í tengslum við ákvarðanir um næstu skref í virkjanamálum og áframhaldandi undirbúning, og er til þess vísað í texta með lánsfjáráætlun að tekin verði ákvörðun hér í þinginu um viðbótarfjárútvegun til undirbúnings og áframhaldandi rannsókna í tengslum við þessi mál.

Varðandi nýtingu á þessu fjármagni vísa ég til þess sem áður sagði um áframhaldandi undirbúning vegna Blönduvirkjunar og Fljótsdalsvirkjunar, en unnið er nú að nánari áætlun um rannsókn á undirbúningskostnaði á þessu ári og verður að sjálfsögðu ekki gengið lengra í að nýta þessa heimild en skynsamlegt þykir að vel athuguðu máli. Nokkrir óvissuþættir eru enn um hversu langt sé skynsamlegt að ganga við undirbúning, m. a. varðandi könnunarjarðgöng að fyrirhuguðu stöðvarhússtæði þeirrar virkjunar sem ákveðið yrði að ráðast í siðar á árinu. Slíkt verk má hins vegar allt eins vinna að vetrarlagi sem sumarlagi þannig að kostnaður gæti að hluta skipst milli ára.

Þá er kveðið á um það í 2. gr. lagafrv., að ákvarðanir um framkvæmdir í virkjunarmálum, þ. á m. um framkvæmdaröð, skuli staðfestar af Alþingi. Eins og áður er vitnað til í grg. er gert ráð fyrir að slíkrar staðfestingar verði leitað á komandi haustþingi varðandi næstu vatnsaflsvirkjun. Gæti það m. a. tengst afgreiðslu fjárlaga og/eða lánsfjárlaga. Þykir ríkisstj. eðlilegt að hafa ákvæði sem þetta í lögunum þannig að ljóst sé að Alþingi hafi síðasta orðið um þetta efni þótt slík áhrif þingsins eigi raunar að vera tryggð með öðrum hætti, m. a. með fjárveitingavaldinu.

Þá er kveðið á um í 2. gr. að fjáröflun til einstakra framkvæmdaþátta í sambandi við virkjanamál sem og önnur orkumál ákvarðist frá ári til árs með lánsfjárlögum. Þar er enn fremur kveðið á um lánsábyrgðarheimildir ríkissjóðs vegna fyrirhugaðra stórframkvæmda samkv. 1. gr. Heildarkostnaður við vatnsaflsvirkjanirnar er samtals talinn nema röskum 4000 millj. kr. á verðlagi 1. jan. 1981, og gert er ráð fyrir heimild ríkisstj. til að ábyrgjast lán fyrir hönd virkjunaraðila eða taka lán og endurlána honum allt að 2 þús. millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Er hér um að ræða helming áætlaðs kostnaðar við vatnsaflsvirkjanirnar eða ríflega fyrir áætluðum heildarkostnaði þeirrar stærstu, þ. e. Fljótsdalsvirkjunar, en stofnkostnaður hennar er áætlaður um 1760 millj. kr. í heild. Er þessi ábyrgðarheimild sett inn í lagafrv. vegna rammasamninga sem nauðsynlegir kunna að vera varðandi lántökur til þessara virkjunarframkvæmda á næstu árum. Voru hliðstæð ákvæði í lögum um fyrri stórvirkjanir, svo sem í heimildarlögum um Hrauneyjafoss- og Sigölduvirkjun á árinu 1971.

Svo að litið sé áfram á lagatexta frv. er í 3. gr. að finna heimild til að fella niður söluskatt, tolla og önnur sambærileg gjöld af efnum vélum og tækjum til virkjana og orkuveitna samkv. 1. gr. Þetta er sambærileg heimild og í öðrum heimildarlögum um virkjanir, t. d. í lögum nr. 59 frá 1965, um Landsvirkjun, og lögum nr. 60 frá 1965, um Laxárvirkjun.

Í 4. gr. er kveðið á um að virkjunaraðili sé undanþeginn tekjuskatti, stimpilgjöldum, aðstöðugjaldi og öðrum gjöldum til ríkis, sýslusjóða og sveitafélaga, en hann skuli þó greiða fasteignagjöld. Þetta er einnig sambærilegt ákvæði og í lögum um Landsvirkjun. Hins vegar eru Rafmagnsveitur ríkisins undanþegnar fasteignagjöldum og koma þær samkv. þessu til með að þurfa að greiða þau gjöld ef svo fer að þær verði framkvæmdaaðili við einhverjar umræddra virkjana. Hafa þessi atriði komið til umræðu í samningaumleitunum við hagsmunaaðila í héraði og má í því sambandi vísa til samkomulags Rafmagnsveitna ríkisins og Fljótsdalshrepps á bls. 49–50 í fskj. með frv.

Loks segir í 5. gr., að heimilt sé að taka eignarnámi þau réttindi er nauðsynleg eru vegna virkjunarframkvæmdanna. Sambærilegar heimildir eru þegar í vatnalögum, í orkulögum og í lögum um Landsvirkjun. Rétt þótti hins vegar að hafa á einum stað í frv. þær heimildir sem átt geta við virkjanir samkv. 1. gr. Í þessu sambandi skal þó vitnað til þess sem fram kemur í grg., þar sem segir: „Það er stefna ríkisstj. að leita eftir samkomulagi um virkjanir þessar, og réttindi sem þeim tengjast, við þá sem lögmætra hagsmuna eiga að gæta, áður en framkvæmdir hefjast.“

Beiting eignarnámsheimilda hlýtur að teljast þrautalending sem ekki verði látið reyna á nema við sérstakar aðstæður og þá með víðtækri pólitískri samstöðu þeirra er að slíkum ákvörðunum standa.

Ég mun þá víkja að þeim þætti er varðar virkjunaraðila við umræddar virkjanir samkv. 1. gr., en þar er gert ráð fyrir að leitað verði samninga við Landsvirkjun um að reisa og reka þær vatnsaflsvirkjanir sem um getur í frv. og nú eru utan orkuveitusvæðis Landsvirkjunar, en aðeins þurfi að koma til heimildir varðandi þær virkjanir sem þegar eru á orkuveitusvæði Landsvirkjunar, þ. e. Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Takist slíkir samningar ekki við Landsvirkjun varðandi virkjanir utan núverandi orkuveitusvæða fyrirtækisins verði Rafmagnsveitur ríkisins virkjunaraðili.

Ég hef áður vikið að viðleitni stjórnvalda til að færa út orkuveitusvæði Landsvirkjunar og minnst á þann þýðingarmikla áfanga sem náðist að frumkvæði stjórnar Laxárvirkjunar og eftir samningaviðræður milli eigenda Laxárvirkjunar og Landsvirkjunar um sameiningu fyrirtækjanna á grundvelli laga nr. 59 frá 1965, um Landsvirkjun, en þeim viðræðum lauk með samkomulagi um sameiningu, sem dags. er 27. febr. 1981. Er það samkomulag birt sem fskj. á bis. 135–142 með frv. og hefur það nú hlotið staðfestingu allra eignaraðila. Það er viðhorf ríkisstj. að í framhaldi af þessari útvíkkun Landsvirkjunar sé eðlilegt að athugaðir séu möguleikar á að ná samningum við Landsvirkjun um að fyrirtækið taki að sér að reisa Fljótsdalsvirkjun og Blönduvirkjun og aðrar meiri háttar virkjanir í landinu. Með því mundi nýtast sú þekking og reynsla, sem Landsvirkjun býr yfir á þessu sviði, og komist yrði hjá kostnaði við að byggja upp annan aðila til forustu á þessu sviði. Jafnframt yrði leitað samkomulags við Landsvirkjun um frekari skref í þá átt að fyrirtækið taki við þessum virkjunum og meginstofnlínum landsins sem eignar- og rekstraraðili, enda verði sama heildsölugjaldskrá hjá fyrirtækinu hvarvetna á landinu. Síðast nefnda atriðið er að sjálfsögðu afar þýðingarmikið í þessu samhengi og fyrir hagsmuni þjóðarheildarinnar og fólk í einstökum landshlutum.

Ég hef þá trú, að vaxandi skilningur og vilji sé fyrir hendi innan Landsvirkjunar til að þessi stefna megi ná fram að ganga þótt í áföngum verði. Í þessu felst engan veginn vantraust á getu Rafmagnsveitna ríkisins til að hafa forustu um stórframkvæmdir. Rafmagnsveiturnar hafa að mínu mati staðið mjög vel að verki sem virkjunaraðili við undirbúning Fljótsdals- og Blönduvirkjunar að undanförnu, og takist ekki samningar við Landsvirkjun um að reisa og reká umræddar virkjanir er kveðið skýrt á um það í 1. gr. frv., að Rafmagnsveitur ríkisins verði virkjunaraðili. Í stórmáli sem þessu er hins vegar nauðsynlegt að menn leiti að þeirri skipan sem hagkvæmust getur talist fyrir þjóðarheildina og best getur tryggt samstillingu framkvæmda og rekstrar á þessu undirstöðusviði raforkumálanna, þ. e. í raforkuöflun og um meginflutning raforku. Slíkt þarf hins vegar ekki að útiloka að litlar virkjanir verði reistar af öðrum aðilum, þ. á m. jarðvarmavirkjanir, enda sé fyrir fram tryggður hagkvæmur heildarrekstur raforkukerfisins við tilkomu þeirra.

Eins og margítrekað er í grg. frv. getur það ekki verið stefna út af fyrir sig að virkja og framleiða orku, heldur þarf orkuöflun að haldast í hendur við þróun markaðar. Í þeim forsendum, sem fram eru settar varðandi hraða virkjunarframkvæmda, er sleginn skýr varnagli um þetta atriði. En við stefnumótun í þessu efni var m. a. haft í huga vaxandi gildi orkulinda okkar sem vænlegs bakhjarls fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu, m. a. í ljósi þróunar orkumála á alþjóðavettvangi og þeirrar samkeppnisstöðu sem náttúrlegar orkulindir landsins, vatnsafl og jarðvarmi, eiga að geta veitt í atvinnurekstri og þá einnig til útflutningsframleiðslu. Þetta á við þótt kröfur verði gerðar um tiltölulega hátt orkuverð, sem ekki aðeins standi undir fjárfestingu í viðkomandi virkjunum, heldur leggi einnig í bú fyrir framtíðina og skili arði til að standa undir kostnaði við framhaldsorkuöflun svo sem eðlilegt verður að teljast.

Í sambandi við orkunýtingu og áætlaðan framkvæmdahraða var höfð nokkur hliðsjón af raforkuspá, sem orkuspárnefnd hefur nú nýlega skilað af sér, en þar eru annars vegar settar fram áætlanir um raforkuþörf hins almenna markaðar, sem svo er nefndur, fram til ársins 2000, en einnig settar fram hugmyndir um þróun í uppbyggingu nýs orkufreks iðnaðar, miðað við tilteknar forsendur um þróun atvinnuvega og þörf á nýjum störfum í iðnaði, jafnt almennum iðnaði sem nýjum orkufrekum iðnaði.

Í hinni almennu orkuspá er raunar gert ráð fyrir að raforkuþörf hins almenna iðnaðar verði meiri en ráð var fyrir gert í eldri spá þar eða nú er reiknað með fleira starfsfólki í iðnaði á næstu árum og áratugum en fyrr. Hins vegar er gert ráð fyrir heldur minni vexti í orkunotkun á hinum almenna markaði í heild fram til aldamóta frá því sem ráð var fyrir gert í spánni frá 1978 eða sem nemur 6%. Samkv. hugmyndum orkuspárnefndar gætu efri mörk orkuspár, sem taka mið af uppbyggingu orkufreks iðnaðar, þ. á m. hugsanlegri framleiðslu innlends eldsneytis á spátímabilinu, svarað til um 500 gwst. árið 1985, allt að 1500 gwst. nálægt árinu 1990 og 2400 gwst. 5 árum síðar, þ. e. árið 1995, við lok þess 15 ára tímabils sem hugsanlegt er talið sem framkvæmdatími við þær virkjanir sem hér er leitað heimildar fyrir, enda finnist hagstæðir nýtingarkostir sem væri á færi landsmanna sjálfra að standa að og hafa ákvarðandi forræði yfir. Miðað við sveigjanleika í hraða virkjanaframkvæmda og varðandi þróun markaðar gæti þannig viðbótarorkuöflun í þágu orkufrekrar iðju numið á bilinu 1300–2400 gwst. á ári eftir 15 ár. Í þessu sambandi er rétt að benda á þann möguleika að hagkvæmt reynist að framleiða hér innlent eldsneyti í stað innflutts bensíns, en slík framleiðsla mundi krefjast um 1600 gwst. á ári af raforku miðað við 110 þús. tonna ársframleiðslu. Slíkt hlyti að hafa veruleg áhrif á hraða virkjunarframkvæmda. Hafa ber einnig í huga að orkunotkun fiskiskipastólsins á ári svarar til um 2200 gwst., umreiknað í raforku.

Í grg. með frv. er sett fram það sjónarmið, að eðlilegt sé að landsmenn setji sér það markmið að jafna orkureikninginn gagnvart útlöndum fyrir lok aldarinnar, sumpart með framleiðslu á eldsneyti hér innanlands eftir því sem hagkvæmt getur talist og með tilliti til öryggis í orkumálum svo og með útflutningi orkufrekra afurða til gjaldeyrisöflunar. Fellur slík stefna ekki fjarri efri mörkum samkv. spá orkuspárnefndar sem gerir ráð fyrir allt að 3700 gwst. til viðbótar til orkufrekrar iðju nálægt aldamótum, en mér reiknast svo til að jöfnun á orkureikningunum miðað við tilteknar forsendur svari til nálægt 4000 gwst. orkunotkun á ári til orkufrekar iðju umfram það sem nú er, miðað við næstu aldamót.

Heimildir þær, sem hér er leitað eftir, og hugsanlegur framkvæmdahraði byggjast m. a. á því viðhorfi, að eðlilegt sé að hafa verulegt svigrúm í framkvæmdastefnu varðandi virkjanir næstu ára og áratuga, ekki síst með tilliti til þess, að virkjanir eru tímafrekar framkvæmdir sem þurfa langan undirbúningstíma. Það er þannig mjög erfitt eða jafnvel ógerlegt að mæta með stuttum fyrirvara þörfum sem ekki voru séðar löngu fyrir, ef virkjað er naumt eftir orkuspá. Aftur á móti er tiltölulega auðvelt að hægja á ef þarfirnar ætla að reynast minni en spáð var. Á vegum iðnrn. er nú í samvinnu við innlendar stofnanir og fleiri aðila unnið að athugun á ýmsum iðnaðarkostum sem krefjast umtalsverðrar orku, og er gerð lausleg grein fyrir þeim þáttum í greinargerð með frv. Reynist slík iðnaðaruppbygging hagkvæm og ráðleg við nánari athugun er því aðeins unnt að ráðast í hana að virkjunaráætlanir séu sæmilega rúmar. Í sambandi við slíka uppbyggingu orkufreks iðnaðar og nýtingu innlendrar orku í iðnaði, þar sem nú er notað umtalsvert innflutt eldsneyti, koma mörg atriði til álita.

Varðandi orkufrekan nýiðnað og staðsetningu slíkra iðjuvera er í grg. m. a. bent á forsendur, svo sem kröfur um virk íslensk yfirráð yfir framleiðslu, tækniþróun og markaðsstefnu, kröfu um arðsemi, bent á þýðingu nálægðar við helstu virkjunarstaði, umhverfisvernd, byggðasjónarmið, staðhætti, þar með talin röskunarhætta á byggð og atvinnustarfsemi sem fyrir er, svo og að markaður fyrir afurðir sé tryggur. Allir þessir þættir eiga að hafa áhrif í mótun iðnaðarstefnu og þegar nýjum iðjuverum er komið á fót og þeim ákveðinn staður. Að athugunum vegna staðarvals fyrir orkufrekan iðnað og meiri háttar nýiðnað er nú unnið á vegum sérstakrar nefndar sem iðnrn. skipaði s. l. haust, og orkustefnunefnd ríkisstj. fjallar m. a. um nýtingarkostinn.

Að sjálfsögðu þarf að taka tillit til annars atvinnulífs í landinu þegar metnir eru iðnaðarkostir. Einhliða áhersla á iðnað og þá einnig orkufrekan iðnað getur ekki talist vænleg, heldur verður að liggja fyrir heildarmynd þar sem dregnir séu fram álitlegir þróunarmöguleikar í öðrum atvinnugreinum, og orkuöflunar- og orkunýtingarstefnuna þarf að fella að efnahagsgetu þjóðarbúsins og víðtækum þjóðhagsáætlunum. Því er í grg. með frv. gert ráð fyrir að farið verði með gát í uppbyggingu orkufreks nýiðnaðar og áhersla lögð á að tryggt verði virkt íslenskt forræði, m. a. með því að leggja í fyrstu áherslu á þá kosti að öðru jöfnu sem minni eru í sniðum og viðráðanlegastir. Höfuðáhersla verði lögð á slíka miðlungsstóra iðnaðarkosti eða sem svarar til 400–500 gwst. í orkunotkun fram undir lok þessa áratugar. Verði síðan til álita að ráðast í stærri fyrirtæki, en þá verður sérstaklega að gæta að traustum markaði og staðgóðri tækniþekkingu sem við Íslendingar getum haft vald á. Einnig þarf að huga að minni orkufrekum iðnfyrirtækjum, svo að hægt sé að ná fram æskilegri dreifingu iðnaðar af þessu tagi, og ekki þarf síður að vinna að og hafa auga á þróun úrvinnslu úr afurðum orkufreks iðnaðar hér innanlands.

Frv. og sú stefna, sem mörkuð er í grg. með því, felur þannig ekki aðeins í sér dreifingu virkjana um landið til að auka öryggi og jafnræði meðal landsmanna, heldur er lögð áhersla á að iðnaðarkostir, þar með talinn orkufrekur iðnaður, dreifist á landshlutana með tilliti til atvinnuástands, byggðaþróunar og öryggis í orkumálum. Þannig styðji hvað annað: uppbygging orkuvera og atvinnulífs er byggi á orkulindum landsins í meira eða minna mæli. Taka þarf og tillit til þess við áætlanir um uppbyggingu raforkukerfisins og er að sjálfsögðu mikilsvert að fyrir liggi stefnumörkun um slíka dreifingu iðnaðar á einstaka landshluta í viðráðanlegum áföngum.

Þegar þannig er mörkuð stefna eins og með þessu frv. um byggingu stórra virkjana norðanlands og á Austurlandi og jafnframt er gert ráð fyrir að þróa hagkvæm fyrirtæki sem Íslendingar geti staðið að einir í flestum tilvikum þótt ekki sé útilokuð samvinna við útlenda aðila um vissa þætti ef aðstæður bjóða, þá hlýtur að verða til álita að koma upp slíkum fyrirtækjum í viðkomandi landshlutum. Þetta á ekkert skylt við þær hugmyndir sem stundum heyrast m. a. hér á hv. Alþingi, að ekki sé skynsamlegt eða hagkvæmt að ráðast í stórvirkjanir eins og þær, sem hér er leitað heimildar fyrir, nema þeim fylgi orkufrekur iðnaður í verulegum mæli. Slík nauðhyggja er í senn fávísleg og engum til góðs því að öllum ber saman um að hér sé um að ræða álitlegustu virkjunarkosti landsmanna hvað hagkvæmni snertir þótt aðeins sé hugsað um framleiðslu fyrir hinn almenna markað. Á hitt hljótum við hins vegar að líta fordómalaust, hvort ekki sé fært að efla og auka fjölbreytni íslensks atvinnulífs með tilstyrk orkulindanna og þá jafnt vatnsafls sem jarðvarma.

Þær athuganir, sem iðnrn. stendur nú fyrir, eru ekki komnar á það stig að fullyrt verði um hagkvæmni eða rekstrarforsendur einstakra iðnfyrirtækja þótt sumir þessara kosta virðist álitlegir og lofa góðu. Iðnrn. hefur að undanförnu látið athuga og kynnir þessa dagana stöðu athugana á þessu sviði því að skylt er og eðlilegt að þing og þjóð fái að fylgjast með framvindu mála og undirbúningi í þessu efni á sama hátt og varðandi aðra mikilvæga þætti í okkar atvinnuuppbyggingu.

Ljóst er að við getum komið umtalsverðu magni af raforku í gagnið í núverandi iðnaði í stað olíu ef rétt er að málum staðið og minni nýiðnaðarverkefni, svipuð og þau sem frv. liggja fyrir um hér í þinginu nú, munu kalla á raforku umfram það sem orkuspá gerir ráð fyrir til almenns iðnaðar. Er ekki fjarri lagi að áætla að þetta hvort tveggja: útrýming olíu í núverandi iðnaði og minni iðnaðarkostir, kalli á um 500 gwst. orkunotkun á ári a. m. k. á næstu 10-15 árum, en um svipaða orkunotkun væri að ræða í iðnfyrirtækjum, þ. e. pappírsverksmiðju, magnesíumvinnslu og kísilmálmverksmiðju, svo nefndir séu nokkrir þeir þættir sem til athugunar eru og greint hefur verið frá að undanförnu. Eðlilega er bent á hagkvæmni þess að nýta aðstöðu við þau stóriðjuver sem þegar eru risin í landinu, svo sem hafnaraðstöðu og raftínur. Þetta varðar m. a. aðstöðu við álverið í Straumsvík. En ljóst má vera að ýmsum grundvallarforsendum þarf að breyta frá því sem nú er áður en til álita kæmi að stækka það fyrirtæki sem þar er nú í rekstri. Nægir í því sambandi að minna á ályktanir og samþykktir ríkisstj. þar að lútandi frá des. s. l. um endurskoðun raforkuverðs og fleiri þætti.

Herra forseti. Sú stefna, sem hér er fram sett um uppbyggingu virkjana og hugsanlega orkunýtingu, er sett fram undir kjörorðinu: „Íslensk orkustefna“. Hagur Íslendinga byggist öðru fremur á lífrænum auðlindum og hagnýtingu þeirra svo og orku fallvatna og jarðhitasvæða. Þá undirstöðu má nýta til fjölþætts iðnaðar og öruggrar afkomu ef vel er á haldið. Fáar þjóðir eiga að tiltölu yfir að ráða slíkri gnótt af virkjanlegri vatns- og varmaorku sem Íslendingar. Það er mikilvæg auðlind í heimi þar sem menn eiga við sívaxandi orkuvandamál að etja og stöðugt hækkandi orkuverð.

Nú stendur yfir lokaátak við að koma innlendum orkugjöfum í gagnið í upphitun húsa í landinu og á öðrum sviðum, eftir því sem hagkvæmni og núverandi tækni leyfir. Enn munum við þó um hríð þurfa að flytja inn röskan þriðjung þeirrar orku, sem við notum, í formi fljótandi eldsneytis. Öflun þess og endurgjald varðar í senn efnahagsþróun þjóðarinnar, íslensks þjóðarbúskapar, og öryggi. Eðlilegt er að við stefnum markvisst að því, eins og áður var nefnt, að jafna metin með afurðum er við framleiðum til útflutnings í eigin fyrirtækjum í krafti innlendrar orku. Á meðan við erum ekki sjálfum okkur nógir á þessu sviði hljótum við að freista þess að tryggja viðskiptalega hagsmuni okkar og öryggi í olíuinnflutningi sem best. Gagnkvæm skipti á innfluttri orku og útfluttum orkuiðnaðarafurðum með einum eða öðrum hætti hljóta að teljast áhugaverð stefnumið. Að þeirri mynd falla gagnkvæm samskipti við grannþjóðir, er hafa olíu á boðstólum, sem og aðra trausta viðskiptaaðila.

Vatnsorka mun fyrirsjáanlega standast samanburð við aðra orkugjafa varðandi framleiðslukostnað um langa hríð og vinnslu hennar fylgir engin umhverfismengun ef rétt er á haldið. Enn er mikill hluti fallorkunnar óvirkjaður og nýting jarðvarma til raforkuvinnslu er á byrjunarstigi. Ráðstöfun þessara orkulinda er eitt örlagaríkasta mál þjóðarinnar og ákvarðanir þar að lútandi geta skipt sköpum um efnahagslegt og stjórnarfarslegt sjálfstæði hennar. Þess vegna ber að leggja höfuðáherslu á íslenskt forræði í öllum meginþáttum orkuframleiðslu og orkunýtingar: virkjunum, iðnaðarfyrirtækjum og markaði. Hér er um stórbrotið þróunarátak að ræða, verðugt viðfangsefni fyrir innlendar rannsóknar- og verkfræðistofnanir og þekkingu uppvaxandi kynslóða. Hagnýtingu þessarar dýrmætu auðlindar þarf að tengja eflingu annarrar atvinnustarfsemi í landinu. Ljóst er að vaxandi áhugi hlýtur að verða á næstu árum á nýtingu orkulindanna, og því er brýn nauðsyn að þjóðarsamstaða takist um íslenska orkustefnu, jafnt um orkuvinnslu sem orkunýtingu til frambúðar.

Nýtingarstefnu varðandi orkulindirnar þarf jafnframt að fylgja verndarstefna þar sem hugað er að íslensku umhverfi, verndun þess, sem mestu máli skiptir, og ströngum kröfum gegn mengun náttúru svo og varðandi mengun á vinnustöðum. Nýleg friðlýsing Gullfoss og Þjórsárvera eru dæmi um eðlilegt tillit gagnvart gersemum íslenskrar náttúru, sem við höfum fullt efni á að sýna tillitssemi. Sérstök samstarfsnefnd iðnrn. og Náttúruverndarráðs hefur starfað frá árinu 1972 að telja, og að því er stefnt að móta áætlun um verndun þeirra svæða og náttúrufyrirbæra er verðmætust eru talin og snerta hugsanlega hagnýtingu orkulinda landsins umfram það sem þegar hefur verið gert.

Í grg. þeirri, sem fylgir þessu frv. til laga um raforkuver, eru dregin fram nokkur almenn grundvallaratriði sem ríkisstj. telur að leggja beri áherslu á við mótun íslenskrar orkustefnu, en að tillögum um fleiri þætti og langtímastefnumörkun í þessum mikilvæga málaflokki er unnið. Afrakstur af því starfi mun koma fram á næstu árum og á næstu mánuðum og misserum umfram það sem hér liggur fyrir.

Herra forseti. Ég vísa að öðru leyti til grg. með frv. og margra fskj. sem hafa að geyma í senn fróðleik um þau mannvirki, sem hér er leitað heimilda fyrir að ráðast megi í, svo og um orkulindir landsins og fleira er snertir þennan þýðingarmikla málaflokk.

Ég vil að endingu aðeins vekja athygli á síðasta fskj. með frv., en það eru tölulegar upplýsingar, mat Þjóðhagsstofnunar, sem fyrir liggur að beiðni iðnrn., varðandi hugsanlega framkvæmdaáætlun er miðar við tilteknar fjárfestingar í orkumálum og uppbyggingu orkufreks iðnaðar sem svarar til um 1800 gwst. framleiðslu umfram þarfir almenns markaðar að 10 árum liðnum. Svarar þetta framkvæmdalega til fskj. 1 með frv., en þó er raunar gert ráð fyrir nokkurri skörun við Sultartangavirkjun á síðustu árum þessa tímabils. Þær tölur, sem þar eru fram reiddar, sýna að mínu mati að hér er ekki verið að reiða fram áætlanir sem séu ofvaxnar íslenskum þjóðarbúskap og efnahagslegri getu okkar Íslendinga. Við getum staðið að einir og óstuddir. Í þeim dæmum, sem þar eru nefnd, er við það miðað að stofnkostnaður í iðjuveri sé að meðaltali um 1.5 millj. nýkr. á ári fyrir hverja gwst. sem notuð væri. Miðað við tvennar forsendur, um hagvöxt á næstu 10 árum og fjárfestingu til að nýta umrætt orkumagn, 1800 gwst. á ári, en það er tala sem kemur fram í 1. fskj. með frv., væri um svipað fjárfestingarhlutfall að ræða af vergri þjóðarframleiðslu til orkuframkvæmda og orkufreks iðnaðar á komandi 10 árum og varið hefur verið til þessara þátta á síðustu 10 árum.

Vissulega skulum við gæta þess að sníða okkur stakk að vexti, og út af fyrir sig er það ekki markmið að hagnýta auðlindir landsins á sem stystum tíma. Þar verður að taka tillit til fjölmargra þátta og hafa vel í huga að ekki er allt gull sem glóir. Það skulu vera mín síðustu orð í framsögu fyrir þessu frv.

Ég vænti þess, að hv. alþm. og iðnn. þessarar deildar, er fær málið til meðferðar að lokinni þessari umr., sjái sér fært að fjalla um frv. þetta og afgreiða það á þeim skamma tíma sem gert er ráð fyrir að sé eftir til þingloka. Við undirbúning þessa frv. var leitast við að taka tillit til margra sjónarmiða, og ég vænti þess, að sú viðleitni eigi eftir að greiða götu þessa þýðingarmikla máls í gegnum þingið.