13.05.1981
Neðri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4303 í B-deild Alþingistíðinda. (4409)

320. mál, raforkuver

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., frv. til laga um raforkuver, er frv. sem lengi hefur verið á dagskrá og þess hefur lengi verið beðið hér á hv. Alþingi að slíkt frv. yrði lagt fram af hálfu ríkisstj. Raunar hafa menn misserum saman hlýtt á yfirlýsingar hæstv. iðnrh. og fleiri ráðh. um nauðsyn ákvörðunar um næstu virkjun eða virkjanir fyrir ákveðin tilgreind tímamörk, en þrátt fyrir það hefur hver mánuðurinn á eftir öðrum liðið og hvert misserið á eftir öðru liðið án þess að ákveðin stefna væri mörkuð eða reynt væri að taka ákvörðun um næstu virkjanir. Við þm. höfðum þess vegna fastlega reiknað með því, og studdumst þar við yfirlýsingar hæstv. ráðh., að áður en þessu þingi lyki gæti Alþingi tekið til ítarlegrar meðferðar ákveðna stefnu um næstu átök í virkjunarmálum. Menn biðu því þessa frv. með mikilli eftirvæntingu og ekki síst þegar menn hlýddu á þá yfirlýsingu hæstv. iðnrh. í hádegisútvarpi í fyrradag að mikilla tíðinda væri að vænta á Alþingi þá síðar um daginn þegar frv. yrði lagt fram, en að öðru leyti vildi hæstv. ráðh. ekki tjá sig um efni þessa frv. (Iðnrh.: Það var nú raunar skáldskapur.) Þessi yfirlýsing kom fram í hádegisútvarpinu af hálfu hæstv. ráðh.

Hæstv, forsrh. ræddi um orkumálin í fréttaþætti í Ríkisútvarpinu, í þættinum „Á vettvangi“, 1. apríl s. l. og tilefnið var frv. það sem þm. Sjálfstfl. í Ed. höfðu flutt með stuðningi þm. flokksins í Nd. Hæstv. forsrh. var spurður um efni þessa frv. í þessum fréttaþætti. Hann taldi að um það frv. mætti margt gott segja, en hins vegar gengi það ekki nógu langt. Hann rakti síðan þá helstu kosti sem væru til virkjana, rakti þær þrjár meginvirkjanir, sem oftast eru nefndar, og auk þess Kvíslaveitu og stíflu við Sigöldu, en lauk síðan máli sínu með þessum orðum:

„Áður en þingi lýkur, þá mun ríkisstj. beita sér fyrir því að samþykktar verði nauðsynlegar lagaheimildir í þessu skyni og röðin ákveðin.“

Þetta var skýr yfirlýsing hæstv. forsrh. í Ríkisútvarpinu 1. apríl 1981. Jafnvel fyrir nokkrum dögum, 6. maí, var viðtal við hæstv. iðnrh. í Morgunblaðinu og þar segir, með leyfi forseta:

Hjörleifur Guttormsson iðnrh. sagði í viðtali við Morgunblaðið miðvikudaginn 6. maí s. l. að frv. yrði lagt fram á Alþingi öðru hvoru megin við helgina. Ekki vildi hann tjá sig um hvort í því yrði ákvarðað um röðun hinna þriggja virkjana. „Það kemur í ljós“ sagði hann, „en það er ekkert sem segir að frv. geti ekki orðið stefnumótandi um röðun.“

Þrátt fyrir allt þetta er nú lagt hér fram á Alþingi frv. sem í rauninni er hvorki fugl né fiskur að þessu leyti. Í frv. birtist ekki stefna ríkisstj. um framkvæmdaröð, og það er ljóst að þrátt fyrir að reynt hafi verið til síðasta dags, eins og sjá má af þeim ummælum sem ég rakti áðan, að ná samkomulagi um stefnu í þessum efnum innan hæstv. ríkisstj. tókst það ekki þannig að sú leið var valin að síðustu að leggja fram frv. sem ekkert segir um þetta efni. Raunar er þetta frv. þannig úr garði gert að það skiptir engu máli hvort það verður samþykkt á þessu þingi eða ekki. Í því eru engar nýjar heimildir fyrir hæstv. ríkisstj. eða aðra aðila til framkvæmda á þessu ári. Frv. veitir að vísu heimildir til ákveðinna virkjana og ákveðinna aðgerða í virkjunarmálum, en í 2. gr. 2. málsgr. segir: „Ákvarðanir um framkvæmdir í virkjunarmálum, þ. á m. um framkvæmdaröð, skulu staðfestar af Alþingi.“ Hæstv. iðnrh. sagði að hann gæti hugsað sér að það gæti gerst í sambandi við afgreiðslu fjárlaga eða lánsfjárlaga á næsta þingi eða m. ö. o. að það gæti dregist um ár að tekin yrði ákvörðun um næstu stórvirkjun hér á landinu. Við vitum að það er ekki langt síðan við afgreiddum lánsfjárlög á Alþingi. Þessi fyrirvari af hálfu hæstv. iðnrh. um það, hvenær ákvarðanir verða teknar um næstu virkjun, bendir til þess, að hæstv. ráðh. vilji enn afla sér allt að eins árs frests til að taka ákvörðun í þessu mikilvæga máli. Þrátt fyrir þetta frv. er málið því jafnóljóst sem fyrr, vandanum er enn skotið á frest og þrátt fyrir yfirlýsingar um það, bæði í grg. og af hálfu hæstv. iðnrh. hér á hinu háa Alþingi, setur þessi töf auðvitað í hættu þær framkvæmdir sem stefnt er að að leggja í og menn eru sammála um að nauðsynlegt sé að byrja á.

Með allt þetta í huga er það ekki að ófyrirsynju að orkumál hafi mikið verið á dagskrá á þessu þingi. Orkumálin tengjast að sjálfsögðu stefnu okkar í iðnaðar- og stóriðjumálum. Þessi umræða hér á Alþingi hófst í upphafi þings með því að fluttar voru tvær þáltill. um stóriðjumál; önnur af hálfu þm. Alþfl., hin af hálfu þm. Sjálfstfl. Þær hafa verið til meðferðar í allshn. Sþ. og hafa nú verið sameinaðar í eina till. sem bíður afgreiðslu, en viðbrögð hv. þm. stjórnarliðsins benda ekki til þess, að hæstv. ríkisstj. eða hv. þm. ríkisstj. vilji hafa nokkurt samstarf eða samvinnu við stjórnarandstöðuna í þessu mikilvæga hagsmunamáli þjóðarinnar.

Sjálfstæðismenn í Ed. fluttu frv. um ný raforkuver, sem ég gat mjög lauslega um áðan. Að því frv. standa raunar allir þm. flokksins að ráðherrum undanskildum. Þá hafa þm. Sjálfstfl. í Ed. flutt frv. um skipulag orkumála og þm. Alþfl. hafa einnig flutt frv. um framkvæmdir í raforkumálum. Það er því ljóst að til þessa hefur allt frumkvæði í þessum mikilvæga málaflokki komið frá stjórnarandstöðunni, enda er langlundargeð manna löngu þrotið. Ég vil aðeins skjóta því hér inn til fróðleiks, en það er þó nokkur vitnisburður um hvernig staðið er að iðnaðarmálum hér á hv. Alþingi af hæstv. ríkisstj.

Ég á sæti í iðnn. Nd. og ég verð að viðurkenna að þegar ég hlustaði á hæstv. iðnrh. í upphafi þessa þings flytja mikla ræðu um iðnaðarmál og boða mikið samstarf við iðnn. þingsins um þennan mikilvæga málaflokk hugði ég gott til glóðarinnar að starfa í þessari nefnd og hlakkaði til að eiga þátt í því að mega starfa með bæði fulltrúum ríkisstj. og öðrum þingmönnum að þessum mikilvæga málaflokki. En þessi hv. nefnd hefur nánast aldrei komið saman á þessu þingi. Hún hefur tvisvar komið saman til formlegs fundar. Annar fundurinn var haldinn í tíu mínútur til að kjósa formann, varaformann og ritara. Hinn fundurinn var haldinn hér inni í hliðarherbergi og stóð í tíu mínútur einnig, var haldinn rétt fyrir jól til þess að setja stimpil nefndarinnar á frv. um framlengingu verðjöfnunargjalds. Síðan var nefndin boðuð að koma á fund í iðnn. Ed. fyrir nokkrum dögum til að hlýða þar á umr. um þau þrjú frv. sem hæstv. iðnrh. hefur flutt um verksmiðjur. Þetta er allt starf iðnn. Nd. Ég ásaka á engan hátt meðnm. mína, hvorki formann né aðra fulltrúa stjórnarinnar í þessari nefnd, en ég ásaka að sjálfsögðu hæstv. iðnrh. fyrir þann algjöra skort á frumkvæði í iðnaðarmálum sem birtist í því, að þessi mikilvæga þingnefnd þessarar hv. deildar skuli ekki hafa fengið eitt einasta verkefni enn þá á þessu þingi til að fjalla um. Þannig er ljóst að allt frumkvæði hefur skort í þessum málum frá hæstv. ríkisstj. og því miður bætir þetta frv., sem nú hefur verið lagt fram, engu þar við.

Ég gat þess áðan að tvö önnur frv. um virkjunarmál lægju hér fyrir hv. Alþingi. Mér finnst rétt við þessar umr. að bera nokkuð saman þessi frv. og greina frá því í hverju munur þeirra liggur helst. Ég vil þá í fyrsta lagi fjalla um til hvaða framkvæmda þessi einstöku frv. ná.

Frv. þm. Sjálfstfl. fjallar um að reist skuli 330 mw. raforkuver við Jökulsá á Fljótsdal, 180 mw. raforkuver í Blöndu í Austur-Húnavatnssýslu og 130 mw. raforkuver í Þjórsá við Sultartanga, enn fremur um stækkun Hrauneyjafossvirkjunar um allt að 70 mw., úr 140 í 210, en það er raunar í samræmi við hönnun virkjunarinnar, og framkvæmdir allar við Hrauneyjafoss miðast við að þetta verði endanleg stærð virkjunarinnar. Frv. Alþfl. fjallar um sömu virkjanir, en til viðbótar stækkun Búrfellsvirkjunar úr 210 mw. í 310 með því að setja upp þrjár vélasamstæður til viðbótar þeim sem fyrir eru. Frv. ríkisstj. fjallar um sömu virkjanir og í frv. Sjálfstæðismanna, en til viðbótar er heimild til 40 mw. virkjunar Héraðsvatna við Villinganes. Hins vegar er þar ekki fjallað um stækkun Búrfellsvirkjunar, eins og fram kemur í frv. hv. þm. Alþfl., og ég tel að það beri mjög gaumgæfilega að athuga, ef samþykkt er eins víðtækt heimildarfrv. og hér er um að ræða, hvort ekki eigi að fella inn í það stækkun Búrfellsvirkjunar því það kann vel að vera að það geti verið hagkvæmt á ákveðnum stigum að skjóta ákveðnum áföngum við stækkun Búrfellsvirkjunar inn á milli þeirra stóru áfanga sem hér um ræðir. Jafnframt er spurning hvort ekki eigi að heimila þegar aukið afl Sigöldu- eða Hrauneyjafossvirkjunar, eins og fram kemur í grg. með frv. hæstv. ríkisstj. þar sem segir á þá leið, að það komi vel til álita að stækka þessar virkjanir, aðra hvora eða báðar, í framhaldi af Kvíslaveitu.

Um aðrar framkvæmdir í þessum frv. en beinar virkjunarframkvæmdir vil ég segja að í frv. hæstv. ríkisstj. er ákvæði í 1. gr. um að ríkisstj. geti heimilað Landsvirkjun að gera ráðstafanir sem nauðsynlegar þykja til að tryggja rekstur orkuveranna á Þjórsársvæðinu og koma vinnslugetu þeirra í eðlilegt horf, m. a. með Kvíslaveitu, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og stíflu við Sultartanga. Frv. Alþfl. hefur einnig ákvæði um þetta efni, en um þetta er ekki ákvæði í frv. sjálfstæðismanna, enda má segja að þessi ákvæði séu óþörf. Það sakar að sjálfsögðu ekkert að þau séu fyrir hendi, en núverandi lagaheimildir um þetta eru mjög rúmar, eins og ég skal aðeins víkja að hér á eftir.

Kvíslaveita, sem er komið að bæði í frv. hæstv. ríkisstj. og hv. þm. Alþfl., er mjög mikilvæg framkvæmd, og ég held að það sé nauðsynlegt að unnið sé að þeim framkvæmdum eins og reyndar þegar er byrjað á. Í grg. með frv. hæstv. ríkisstj. segir um þetta efni:

„Undanfarið hafa verið uppi hugmyndir um veitu af vatnasviði Efri-Þjórsár við Þórisvatn, einkum til að tryggja betur fyllingu miðlunargeymisins í slæmum vatnsárum. Nú hafa áætlanir sýnt að slík veita, sem nefnd hefur verið Kvíslaveita, sé álitlegur þáttur í heildarnýtingu orku á vatnasviði Þjórsár.

Með Kvíslaveitu er ráðgert að veita úr Þjórsá, þar sem hún er í nálægt 610 m hæð yfir sjó austan undir Hofsjökli og kvíslum, sem falla í Þjórsá að austan, Hreysiskvísl, Eyvindarkvísl, Þúfuverskvísl, Svartá og Grjótakvísl. Hluti veitunnar hefur þegar verið gerður, þ. e. veita úr syðri grein Svartár og Grjótakvísl í Illugaverskvísl, sem fellur í, Köldukvísl ofan við Sauðafell.

Til þess að veitan komi að fullum notum er nauðsynlegt að auka miðlunarrými í Þórisvatni mjög verulega eða úr 1000 gígalítrum í 1765 gígalítra með stífluhækkun og dýpkun á útrennsli úr vatninu í Vatnsfellsskurði.

Í framhaldi af því kemur til álita að bæta við vélarafl í Sigölduvirkjun og Hrauneyjafossvirkjun um samtals 120 mw., en ekki er á þessu stigi talin ástæða til að afla heimilda í því skyni.

Með nefndum framkvæmdum er talið að orkuvinnsluaukning eftir Hrauneyjafossvirkjun og stíflugerð við Sultartanga geti numið 760 gwst. á ári.

Hugmyndir um Kvíslaveitu hafa verið lagðar fyrir Náttúruverndarráð og hefur það ekki lagst gegn framkvæmdunum, enda er með þeim tryggð veruleg nýting á rennsli Efri-Þjórsár, þrátt fyrir friðlýsingu Þjórsárvera sem nú hefur verið ákveðin.“

Það er sem sagt tvennt sem hér er á dagskrá: Það er annars vegar Kvíslaveita og svo stífla við Sultartanga, en sú stífla er talin sérstaklega hagkvæm vegna þess að hún minnkar mjög ísskolunarþörf við Búrfell og er talið að það eitt svari til aukinnar orkuvinnslugetu um 130–150 gwst. á ári. Þessi stífla hefur enn fremur þann kost að hún getur fallið inn í væntanlega Sultartangavirkjun og verið hluti af henni.

Ég gat um að núverandi lagaheimildir væru mjög rúmar og því væri í raun og veru ekki ástæða til að setja nú sérstök lög um þessar aðgerðir. Í 6. gr. núverandi landsvirkjunarlaga segir, þegar búið er að telja upp virkjanir, með leyfi hæstv. forseta:

„Landsvirkjun er jafnframt heimilt að gera þær ráðstafanir á vatnasvæðum ofan virkjana sinna í Tungnaá og milli þeirra og Búrfellsvirkjunar sem nauðsynlegar þykja til að tryggja rekstur þessara virkjana á hverjum tíma. Nær heimildin m. a. til stíflugerðar við Þórisós og Köldukvísl og að veita Köldukvísl um skurð í Þórisvatn og þaðan um skurð í Tungnaá. Enn fremur er Landsvirkjun heimilt að reisa eldsneytisaflstöðvar þær sem fyrirtækið telur rétt að koma upp.“

Eins og menn sjá er hér um mjög rúma lagaheimild að ræða til handa Landsvirkjun nú þegar, og því er ekki ástæða til að setja sérstök lög hér á hv. Alþingi um þetta efni þó að auðvitað saki ekki að fella það inn í slík lög ef samþykkt verða. Framkvæmdir við þessar veitur hófust á s. l. sumri og var það talið í fullu samræmi við þær lagaheimildir sem ég gat um, en þær framkvæmdir fólust í því í fyrsta lagi að gerð var stífla í Vonarskarði og veitt um 100 gígalítrum árlega af vatni, sem annars rynni norður og sameinaðist Skjálfandafljóti, og í öðru lagi stífla í Grjótakvísl og hluta Svartár og veitt um 40 gígalítrum meðalársvatns í Þórisvatn. Þessar framkvæmdir á s. l. sumri juku um 70 gwst. við orkuveitukerfi Landsvirkjunar. Landsvirkjun hefur reyndar þegar tekið ákvörðun um að haldið verði áfram með Kvíslaveitu á næsta sumri.

Þá er í frv. hæstv. ríkisstj. heimild til allt að 50 mw. virkjunar jarðvarmaveitu, en í 1. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

„Einnig getur ríkisstj. heimilað Landsvirkjun, Rafmagnsveitum ríkisins, Hitaveitu Suðurnesja og/eða öðrum aðilum er standa að virkjun jarðvarma, að reisa og reka jarðvarmavirkjanir til raforkuframleiðslu á háhitasvæðum eða stækka slík orkuver, sem fyrir eru, um samtals 50 mw., enda fullnægi aðill skilyrðum sem ríkisstj. kann að setja fyrir slíkum heimildum í því skyni að tryggja hagkvæman heildarrekstur raforkukerfisins.“

Eins og fram kemur í þessari frvgr. og reyndar í grg. með þessu frv. virðist lítið búa að baki þessu ákvæði, engar ákveðnar framkvæmdir hafðar í huga. Auðvitað er ekkert við því að segja að setja slíkt almennt ákvæði í lög til öryggis. Hins vegar er ekkert sem gefur sérstakt tilefni til þess að setja um það lög nú og lítið virðist búa að baki þessu, en tilgangur þessa ákvæðis er fyrst og fremst sá að setja örlítið meira kjöt á þá beru beinagrind sem þetta frv. er — sem sagt reyna að gera það örlítið efnismeira.

Þá er enn í frv. ríkisstj. heimild til að reisa varastöðvar með samtals allt að 50 mw. afli á næstu 10 árum. Þetta er nú, a. m. k. gagnvart Landsvirkjun, óþarfi vegna þess að í 6. gr. Landsvirkjunarlaganna, sem ég las upp áðan, segir, með leyfi forseta: „Enn fremur er Landsvirkjun heimilt að reisa eldsneytisaflstöðvar þær sem fyrirtækið telur rétt að koma upp.“ A. m. k. gagnvart Landsvirkjun er hér um óþarft ákvæði að ræða þó að ég segi um þetta það sama og ég hef sagt um önnur ákvæði þessa frv., að auðvitað sakar ekkert að setja slíkt í lög. En það er ekkert sem gefur tilefni til þess að því sé sérstaklega flýtt nú.

Ég vil þá næst bera saman þessi frv. að því er snertir virkjunaraðila. Frv. þm. Sjálfstfl. kveður á um að virkjunaraðilar skuli vera Landsvirkjun eða landshlutafyrirtæki. Það hefur verið stefna Sjálfstfl. að halda opnum möguleikum á stofnun landshlutafyrirtækja, og í því sambandi má minnast á Orkubú Vestfjarða, eins og hæstv. iðnrh. gerði í ræðu sinni áðan. Meginhugsunin á bak við þessa stefnu var að fá fram vissa valddreifingu í þessum málaflokki, samanburð milli fyrirtækja og síðast en ekki síst að tryggja vissa stjórnunaraðild heimamanna þar sem stórvirkjanir væru byggðar. Auðvitað ræður vilji sveitarfélaga og heimamanna mestu hverju sinni um hvort slík landshlutafyrirtæki eru byggð. Það verður að segjast eins og er, að ekki virðist vera mikill áhugi á því úti um land að stofna slík landshlutafyrirtæki til virkjana, þó að e. t. v. sé meiri áhugi á að stofna fyrirtæki til þess að annast um dreifingu innan svæðanna. En að slíkum fyrirtækjum frágengnum, ef þau verða ekki stofnuð, sem ekki eru líkur á eins og mál horfa nú, er það skoðun sjálfstæðismanna að Landsvirkjun eigi að vera virkjunaraðili í þessu sambandi og að því leyti fellur frv. okkar saman við frv. hv. þm. Alþfl.

Frv. hæstv. ríkisstj. setur Landsvirkjun einnig sem fyrsta kost, en ef samningar takist ekki verði Rafmagnsveitur ríkisins virkjunaraðill. Ég vil lýsa því sem minni skoðun hér a. m. k. að ég er andvígur því síðarnefnda, er andvígur því að Rafmagnsveitur ríkisins verði virkjunaraðill, og tek því Landsvirkjun fram yfir Rafmagnsveitur ríkisins að þessu leyti.

Ég kem þá að þriðja þættinum, sem er framkvæmdaröðin, en ekkert hinna þriggja frv. kveður í sjálfum lagatextanum eða frv.-textanum á um röð framkvæmda. Ef borin eru saman frumvörpin og greinargerðir eru þó vissar hugmyndir settar fram í þeim öllum. Frv. hæstv. ríkisstj. tekur t. d. ákveðnast af skarið um að Sultartangavirkjun skuli ekki verða meðal næstu tveggja virkjunarkosta. Það kemur fram í aths. við 1. gr. frv. á bls. 13, sem hæstv. iðnrh. las orðrétt upp hér áðan og ég skal ekki endurtaka hér, en þar er í stórum dráttum röðin sú, að Hrauneyjafossvirkjun verði. byggð í fulla stærð, eins og þegar er hafist handa við, Kvíslaveita verði gerð og stífla við Sultartanga, en síðan verði undirbúningi Fljótsdalsvirkjunar og Blönduvirkjunar lokið sem fyrst og framkvæmdir við fyrri áfanga Fljótsdalsvirkjunar og Blönduvirkjun skarist nokkuð. Verði við það miðað að önnur þessara virkjana geti hafið rekstur á árinu 1986–1987, en hin um 1990, eftir því sem markaðsaðstæður leyfa. Þetta er sú tímaröð sem þarna er ákveðin, en síðan segir að Sultartangavirkjun og síðari áfangi Fljótsdalsvirkjunar og Villinganesvirkjun hafi ekki verið tímasettar, en þær rúmist innan þess 15 ára marks sem sett hefur verið. Frv. hæstv. ríkisstj. tekur því mjög af skarið um þetta efni.

Í frv. sjálfstæðismanna er gefin allmikil vísbending um virkjanaröð, en í 4. gr. þess frv. segir, með leyfi forseta: „Undirbúningi að byggingu orkuveranna svo og framkvæmdunum sjálfum skal hraðað svo sem kostur er. Ekki er kveðið á um röðun framkvæmda, enda mega þær ekki hefjast nema fyrir liggi nákvæmar áætlanir um orkuverin, skilyrðum samkv. 1. gr. hafi verið fullnægt og tryggt hafi verið nægilegt fjármagn til framkvæmdanna.“

Þetta er nánar skýrt í grg. frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Hér er svo lagt fyrir að hraða skuli öllum undirbúningi og framkvæmdum. Er það þá markmiðið að búið verði að taka í notkun öll orkuverin samkv. 1. gr. áður en þessum áratug er lokið.

Til þess að þetta megi verða er nauðsynlegt að hefjast þegar handa og hvar sem við verður komið. Þarf því að ráðast til atlögu við öll viðfangsefnin í senn. Þetta þýðir að strax verði efnt til sjálfra framkvæmdanna þar sem því verður við komið. En þar sem því er ekki að heilsa verði strax unnið að því að skapa þau skilyrði, sem eru nauðsynlegur undanfari framkvæmda, svo sem ákvörðun um stóriðju á Austurlandi og að réttindi verði tryggð á Blöndusvæðinu.

Ekki er kveðið á um forgang framkvæmda, áfangaskipti eða röðun orkuvera samkv. 1. gr. Gert er ráð fyrir að hagkvæmni- og öryggissjónarmið ráði gangi framkvæmda og þau vinnubrögð verði viðhöfð, að þeim verði öllum lokið á framkvæmdatíma heildaráætlunar um byggingu allra virkjana.“

M. ö. o. er það ljóst, að samkv. þessari lýsingu, sem hér er fram sett, er gert ráð fyrir að áfram verði unnið á Þjórsársvæðinu í beinu framhaldi af Hrauneyjafossvirkjuninni við Sultartanga, en þar er ekkert því til fyrirstöðu að hefjast handa. Reynt verði til hins ítrasta að ná samkomulagi um Blönduvirkjun og framkvæmdir hefjist strax og það samkomulag næst. Um það liggur ekki fyrir niðurstaða enn þá og þar hafa fáir menn æðimikil völd og geta ráðið hvort samkomulag næst ekki eða hvort breytt verður um virkjunartilhögun, sem einnig hefur komið á dagskrá. Ég skal ekki segja hver verður niðurstaðan hér, en ég held að það sé alveg ljóst að ef breytt verður um virkjunartilhögun við Blöndu hlýtur sú virkjun að dragast, og það má nefna í því sambandi að það muni tefja undirbúning um 1–2 ár. Við teljum að jafnframt Fljótsdalsvirkjun verði að taka ákvörðun um stóriðju og taka eigi strax ákvarðanir um að reisa stóriðjufyrirtæki og ganga frá samningum þar að lútandi og þá um leið sé hægt að hefjast handa við þá virkjun.

Frv. Alþfl. tekur í grg. nokkuð af skarið um framkvæmdaröð þegar frv. er lesið saman við grg., en þar er gert ráð fyrir að framkvæmdir við Sultartangavirkjun verði hafnar strax í sumar og í beinu framhaldi af vinnu við Hrauneyjafossvirkjun og sú virkjun verði tilbúin 1985. Hafinn verði undirbúningur að framkvæmd við Blönduvirkjun strax og samkomulag næst við landeigendur, þó eigi síðar en 1982–1983, sú virkjun verði tilbúin 1987. Haldið verði áfram rannsóknum og undirbúningi Fljótsdalsvirkjunar, hafnar framkvæmdir eigi síðar en 1984 og sú virkjun verði tilbúin 1989.

Ég vil þá aðeins víkja að framkvæmdatímanum, en í frv. Sjálfstfl. segir í grg. við 4. gr. að það sé markmið frv. að búið verði að taka í notkun öll orkuverin áður en þessum áratug er lokið, þ. e. 1990. Frv. Alþfl. gerir ráð fyrir sama framkvæmdahraða varðandi stóru virkjanirnar þrjár. Frv, ríkisstj. gerir ráð fyrir allt að 15 ára framkvæmdatíma eða nokkru lengri en í frv. Alþfl. og Sjálfstfl. Ég tók hins vegar eftir því, að hæstv. iðnrh. nefndi sérstaklega 12 ár í sinni ræðu, en ég hygg að þá verði að taka betur til höndum í sambandi við framkvæmdir og undirbúning en gert hefur verið hingað til og alla vega megi það ekki dragast um heilt ár enn, eins og hæstv. iðnrh. lét að liggja í ræðu sinni, að teknar verði ákvarðanir um næstu virkjun.

Ég vek sérstaka athygli á að í þessum þremur frv. er verulegur áherslumunur á því, hversu ákveðin fyrirmæli hæstv. ríkisstj. fái í sambandi við virkjunarmálin. Frv. ríkisstj. er heimildarákvæði, en tekið sérstaklega fram að allar ákvarðanir um einstakar framkvæmdir verði síðar að leggjast fyrir Alþingi til staðfestingar. Frv. Alþfl. felur í sér heimild til Landsvirkjunar að ráðast í þessar framkvæmdir, en síðan gert ráð fyrir leyfi ráðh., eins og kveðið er á um í núverandi Landsvirkjunarlögum, og því ekki lagt til að því ákvæði verði beitt. En frv. sjálfstæðismanna er sýnu ákveðnast að þessu leyti því að þar segir að ríkisstj. skuli feta Landsvirkjun eða landshlutafyrirtækjum þær framkvæmdir sem þar um ræðir. Við höfum talið nauðsynlegt að taka alveg af skarið í þessum efnum, að Alþingi gefi ríkisstj. þau fyrirmæli að þetta skuli gert. Ástæðan er einfaldlega sú, að við sjáum hvernig málin eru látin velkjast mánuðum saman, jafnvel árum saman, án þess að á þeim sé tekið af þeirri ákveðni sem þarf, og því sé nauðsynlegt að Alþingi taki mjög ákveðið af skarið í þessu efni.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því í sambandi við þetta frv., að það er ekki í því að finna ákveðinn — og þá tala ég um grg. og fskj.— kostnaðarsamanburð einstakra virkjunarkosta miðað við hinar ýmsu leiðir sem til greina koma í sambandi við virkjunarröð. Ég vil vekja athygli á því, að við þm. fengum í hendur ekki alls fyrir löngu þrjár ítarlegar skýrslur frá Orkustofnun um vinnslu og flutning raforku til aldamóta, og fyrsta heftið var um samanburð virkjunarleiða, niðurstöður og heildarsamanburð. Þar er nokkuð ítarleg greinargerð um hagkvæmni virkjunarkosta með og án stóriðju og enn fremur eftir staðsetningu stóriðju. Það voru mjög mismunandi niðurstöður sem komu út úr þessari grg. Orkustofnunar. Þar kom t. d. glöggt fram að fjárhagsleg hagkvæmni virkjana ræðst mjög af staðsetningu stóriðju og hvenær hún kemur. Þetta á sérstaklega við um Fljótsdalsvirkjun, en samkv. grg. Orkustofnunar er Fljótsdalsvirkjun hagkvæmasti byrjunarkosturinn ef stóriðja er staðsett á Reyðarfirði, en í öðrum tilvikum er það Blanda eða Sultartangi eftir því hvernig málum er raðað upp. Ég minni hins vegar á að í þessari skýrslu er ákveðinn fyrirvari sem ég vil leyfa mér að lesa upp, með leyfi forseta, en þar segir:

„Enn bendir ekkert til að rannsóknir við Fljótsdal og Sultartanga sumarið 1980 muni raska þeim forsendum um virkjanir þar, sem gengið var út frá í athugun þessari, en þess ber að geta að úrvinnslu þeirra er ekki að fullu lokið enn þá. Komi eitthvað í ljós við fullnaðarúrvinnslu, sem tilefni þykir gefa til að endurmeta forsendur fyrir virkjunaráætlun, verður kannað, hvaða áhrif það hefur á samanburðinn.“

Þessi endurskoðun liggur ekki fyrir, en það má hins vegar ljóst vera, ef þessi skýrsla er borin saman við þær tölur sem nú liggja fyrir um hina einstöku virkjunarkosti og fram komu m. a. í skýrslu verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens sem liggur fyrir í þessu frv., að þarna hafa tölur nokkuð breyst frá því að þessi skýrsla Orkustofnunar var gefin út, og því hefði verið mjög æskilegt að það hefði fylgt þessu frv. þannig að við hefðum getað áttað okkur á slíkum samanburði. Það er ekki nægilegt, þegar meta skal hagkvæmni einstakra virkjana, að taka eingöngu stofnkostnað virkjana á orkueiningu við stöðvarvegg. Stofnkostnaðurinn núna á gwst miðað við stöðvarvegg er 1.34 á Sultartangastíflu, Kvíslaveitu 0.89, stækkun Þórisvatns 0.25 eða samtals þessar aðgerðir 0.61, og er því sýnu hagkvæmast, ef þetta mat er lagt á, Blönduvirkjun 0.96, Fljótsdalsvirkjun 1.19, Sultartangavirkjun 1.36, en þá án stíflu. Ég tek það skýrt fram að þetta er alls ekki einhlítur samanburður. Þarna kemur margt annað til. Bæði hefur flutningskerfið mikið að segja, hvernig markaðurinn vex, hvaða átök eru gerð í sambandi við iðnaðarstefnu, stóriðju o. s. frv.

Mér finnst líka skorta á í þessu frv. að ekki er gerð nánari grein fyrir þeirri áfangaskiptingu Fljótsdalsvirkjunar sem er gert ráð fyrir í þessu frv. Það er engin grein gerð fyrir kostnaðarlegri óhagkvæmni af því að skipta Fljótsdalsvirkjun í tvo áfanga á þann hátt sem gert er í frv. ríkisstj. Sannleikurinn er sá, að mikið af grunnframkvæmdum tilheyrir 1. áfanga eða fyrri áfanga þannig að hún hlýtur að verða því óhagstæðari því minni sem áfanginn er. Fyrir þessu er ekki gerð grein í frv., en það hefði að sjálfsögðu verið mjög æskilegt.

Frv. sjálfstæðismanna tekur mjög af skarið um stóriðju á Austurlandi. Ég vil í því sambandi minna á það frumkvæði sem hv. 4. þm. Austurl., hæstv. forseti þessarar deildar, hefur haft í því máli með þáltill. sinni sem samþ. var á Alþingi 1975 og markaði raunverulega ákveðna stefnu í sambandi við virkjunarmál á Austurlandi. En ég vil líka minna á mjög ákveðna og eindregna samþykkt sveitarstjórna á Austurlandi í júní 1979 sem kvað mjög sterkt á um nauðsyn stóriðju á Reyðarfirði og reyndar gerði það nánast að skilyrði fyrir stórvirkjun þar. Mér finnst það þess vegna koma úr hörðustu átt þegar hæstv. iðnrh. talar um það sem nauðhyggju að menn skuli sérstaklega vilja berjast fyrir stóriðju á Austurlandi og tengja hana þeim virkjunarkostum sem þar eru fyrir hendi. Auðvitað á að stefna að því að koma upp stóriðju á Austurlandi í tengslum við þá stóru og tiltölulega hagkvæmu virkjun sem þar er möguleiki að byggja. Hins vegar er því ekki að neita, að frv, hæstv. ríkisstj. dregur mjög fæturna að þessu leyti. Í grg. með frv, á bls. 11 segir svo, með leyfi forseta:

„Ekki er talið tímabært á þessu stigi að taka ákvarðanir um einstaka kosti í orkufrekum nýiðnaði.“

Síðar segir: „Með hliðsjón af framanrituðu og að teknu tilliti til allra þeirra sjónarmiða, sem rakin voru, er eðlilegt að ganga út frá eftirtöldum megindráttum:

Farið verði með gát í uppbyggingu orkufreks nýiðnaðar og tryggt verði virkt íslenskt forræði, m. a. með því að Íeggja í fyrstu áherslu á þá kosti að öðru jöfnu sem minni eru í sniðum og viðráðanlegastir. Höfuðáhersla verði lögð á slíka miðlungsstóra iðnaðarkosti (400–500 gwst.) fram undir lok þessa áratugar.

Síðar kemur einnig til álita að ráðast í stærri fyrirtæki. Þar ber sérstaklega að leggja áherslu á traustan markað, staðgóða tækniþekkingu og hátt raforkuverð.

Almennum iðnfyrirtækjum og smáum orkufrekum fyrirtækjum verði komið upp í öllum landshlutum eftir því sem hagkvæmt þykir.

Huga ber að þróun úrvinnslu úr afurðum orkufreks iðnaðar í landinu.“

Í rauninni er hér ekki um neina stefnu í stóriðjumálum að ræða af hálfu hæstv. ríkisstj. aðra en þá að fara með gát og fara sér hægt. Auðvitað ber að fara með gát og það er sjálfsagt að við Íslendingar förum með fullri gát við uppbyggingu stóriðju. En ég tel að við eigum að vera alveg óhræddir að gera samninga við útlendinga á sviði markaðsmála, jafnvel einhverrar eignaraðildar, eins og við höfum dæmi um, og tel að við eigum hiklaust að fylgja fram slíkri stefnu. Í þessu frv., eins og það liggur fyrir er í rauninni hafnað þeirri stóriðjustefnu, sem leiddi af sér byggingu álvers og járnblendiverksmiðju á sínum tíma, og allt mjög óljóst um hvað eigi að koma í staðinn. Þrátt fyrir að lagðar séu fram margar og miklar skýrslur af hálfu hæstv. iðnrh. hér á þingi og víðar um ýmiss konar iðnaðarkosti sem fyrir hendi eru, er ljóst að allur undirbúningur stóriðjuframkvæmda er mjög aftarlega á merinni hjá ríkisstj. og nær raunverulega ekki lengra en í þá bæklinga sem við höfum fengið, og auðvitað liggur mikil vinna í þeim, en t. d. hefur ekkert verið gert raunhæft í sambandi við markaðsmál. Það vakti t. d. verulega athygli í sambandi við umr. um steinullarverksmiðju í iðnn. Ed. einn morguninn nú í vikunni þegar einn helsti sérfræðingur, sem um það mál hefur fjallað, kom á fundinn og ræddi sérstaklega um markaðsmálin. Hann sagði: „Engin nefnd, hversu góð sem hún er og hversu góðir menn sem þar eru, getur komist að nokkurri raunhæfri niðurstöðu um markaðsmál varðandi slíkan varning. Það er raunverulega ekki fyrr en menn geta komið og sagt: Ég hef þessa vöru að bjóða, hvað viljið þið borga, að við getum farið að semja af einhverju viti og raunsæi um slíka þætti.“

Þessi þáttur hefur verið algerlega vanræktur og er það mjög ámælisvert af hálfu hæstv. ríkisstj., en ber þó glöggt vitni þeirri stefnu sem framfylgt er af hálfu ríkisstj.: stefnu hiks og aðgerðaleysis í þessum efnum. Við höfum nefnilega ótrúlega möguleika á því, eins og fram kemur réttilega í grg. með frv., að ef þær vatnsaflsvirkjanir, sem leitað er heimilda fyrir í þessu frv. ríkisstj., verða byggðar á segjum næstu 15 árum, eins og stefnt er að af hálfu hæstv: ríkisstj., yrði um nálægt 2400 gwst. aukning í raforkuframleiðslu landskerfisins umfram þarfir almenns markaðar og núverandi orkufreks iðnaðar. Við skulum taka sem dæmi að álverið notar eitthvað um 1307 gwst. og Grundartanginn 270 þannig að við höfum þarna geysimikla möguleika sem sjálfsagt er að nýta.

Ég hef nú gert grein fyrir nokkrum atriðum varðandi frv, hæstv. ríkisstj. og borið það saman við þau frv. sem liggja fyrir hér á Alþingi. Ég segi það alveg eins og er, að ég held að það sé enginn vafi á að besti kosturinn, sem nú liggur fyrir hv. Alþingi, sé að samþykkja það frv. sem þm. Sjálfstfl. hafa lagt fram, enda hefur æðimikið verið unnið í því frv. þegar í hv. Ed. og vafalaust er hægt að ná samkomulagi um einhverjar breytingar á því, t. d. varðandi þær virkjanir, sem önnur frv. fjalla um, en ekki er fjallað um í frv. sjálfstæðismanna, og önnur slík atriði.

Herra forseti. Ég fer nú senn að ljúka máli mínu, en ég vil minna á að viðreisnarstjórnin, sem hér sat, markaði tímamót í atvinnu- og iðnaðarsögu landsmanna með því að móta stórhuga stefnu í orku- og iðnaðarmálum stefnu sem leiddi af sér byggingu Búrfellsvirkjunar stefnu sem leiddi af sér byggingu Hrauneyjafossvirkjunar og byggingu Sigölduvirkjunar og þau stóriðjuver sem fylgdu í kjölfarið. Sú stefna mótaðist af þeirri staðreynd, að orku- og iðnaðarmál eru að verða stærstu hagsmunamál þjóðarinnar og á þeim málum þarf að taka af stórhug og bjartsýni. Við tölum núna aðeins um 3–4 stór raforkuver og mér finnst stundum að þegar hæstv. iðnrh. talar um þessi mál sé hann að tala um síðustu vatnsdropana sem hægt sé að virkja hér á Íslandi, en því fer fjarri. Við höfum mjög mikla möguleika í þessum efnum, eins og sést á því að í fskj. með grg. fyrir þessu frv. kemur fram að við eigum vel nýtanlegar um 50–60 terawattstundir í virkjanlegu vatnsafli og síðan kemur jarðvarminn þar á ofan.

Þessar þrjár virkjanir, sem við erum hér að tala um, gefa okkur að vísu möguleika á stórkostlegu átaki í iðnaðar- og atvinnumálum og geta gefið okkur umfram annað mikil tækifæri til mikilla lífskjarabóta hér á landi. En í framtíðinni eigum við enn þá meiri möguleika, miklu fleiri möguleika ónýtta, eins og ég gat um áðan, og það er íslensk orkustefna sem felst í því að hraða sem mest byggingu þeirra stórvirkjana, sem þegar eru komnar á undirbúningsstig, og ganga jafnframt ötullega fram í því að stofna iðnaðar- og iðjufyrirtæki hér á landi til að nýta orkuna úr þeim. En til þess þarf stórhug, djörfung og festu sem þessi hæstv. ríkisstj. býr ekki yfir.