13.05.1981
Neðri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4320 í B-deild Alþingistíðinda. (4412)

320. mál, raforkuver

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Mér þykir hlýða að fara nokkrum orðum um frv. sem hér liggur fyrir. Þetta frv. hefði raunar átt að vera komið fram fyrir löngu, þannig að tími hefði gefist fyrir Alþingi að fjalla um það rólega yfirvegað og skoða það í samhengi við önnur orkufrv., sem löngu eru fram komin og raunar eru miklu betri en það frv. sem hér liggur fyrir, í stað þess að ætlast er til að þetta verði afgreitt í hálfgerðu flaustri.

Ég hef sitt hvað við þetta frv, að athuga og það mundi taka of langan tíma að tína það allt til. Ég mun því aðeins stikla á þeim liðum sem ég tel að mest stingi í augun.

Þar er þá fyrst til að taka að þessum þremur virkjunarkostum: Blönduvirkjun, Fljótsdalsvirkjun og Sultartangavirkjun, virðist ekki vera gert jafnhátt undir höfði þegar meta ber á hvaða valkosti sé heppilegast að byrja. Að vísu er þeim ekki raðað í sjálfu frv. En við lestur grg. kemur í ljós að Sultartangavirkjun er nánast afskrifuð þangað til einhvern tíma seinna, en það virðist vera um einhvers konar keppni að ræða milli málsvara hinna tveggja virkjananna að ræða og frv. eins konar málamiðlun milli þessara aðila. Ekki virðist vera reynt að leggja þjóðhagslegt mat á valkosti, eins og auðvitað á að gera, en í þess stað eru tilfinningar látnar ráða. Hér þarf að verða breyting á.

Annað atriði er það sem einnig er vert að gefa gaum, en það er virkjunaraðilinn. Landsvirkjun er að vísu talin fyrst sem virkjunaraðili, en einnig er gert ráð fyrir að Rafmagnsveitur ríkisins geti verið það. Ástæðan fyrir þessu er vandséð, nema ef vera skyldi að ætlunin sé raunverulega að fela Rafmagnsveitunum verkið, þar sem þær heyra beint undir iðnrn., og það gæti þá haft bein áhrif á framvindu mála. Það virðist vera yfirlýst stefna allra flokka að Landsvirkjun eigi að hafa með höndum allar meiri háttar virkjanir og stofnlínukerfi frá þeim. Enginn virðist ætla RARIK þetta hlutverk og er vandséð hvers vegna nú ætti að fara að fela fyrirtækinu þetta raunverulega gagnstætt vilja allra flokka. Ég hef því ákveðið að bera fram brtt. við þetta frv. þar sem m. a. er kveðið á um að Landsvirkjun fái ein heimild til þessara virkjunarframkvæmda. Við þetta vinnst að mínu mati eftirfarandi:

1. Sams konar mat verður lagt á þá virkjunarkosti, sem fyrir hendi eru, þar eð Landsvirkjun verður að fara þá leið, sem hagkvæmust er hverju sinni.

2. Landsvirkjun er sá aðili hér á landi sem hefur langmesta reynslu á þessu sviði. Hún hefur á að skipa fólki sem bæði hefur þekkingu og reynslu og unnið hefur saman að slíkum verkefnum undanfarandi ár. Það er áreiðanlega heppilegast að sú vinna slitni ekki sundur, en geti haldið óslitið áfram.

3. Það að fela Landsvirkjun þessi mál kallar á að gengið verði frá skipulagi raforkumála í landinu þannig að þau komist í fastara form en nú er. Aftur á móti get ég ekki komið auga á neina skynsamlega ástæðu til að fela RARIK þetta. Öllu fremur mælir allt á móti því.

Þriðja atriðið og ekki það veigaminnsta, sem ég mun nefna, er að ekki virðist vitað til hvers á að nota þá raforku sem fæst með þessum virkjunum. Rætt er í óljósum orðum um að eftir 15 ár verði til ráðstöfunar í stóriðju 1300–2400 gwst. á ári. Þetta samsvarar t. d. 1–2 álverum eða 2–4 járnblendiverksmiðjum. En er þetta nú nógu gott? Ég hélt að áður en hafist er handa um virkjanir í svo stórum stíl er hér er um rætt verði að liggja fyrir til hvers á að nota orkuna. Við virkjun ekki bara til þess að virkja.

Fleira mætti tína til. Ég læt þetta nægja að sinni, en get þó ekki látið hjá líða að benda á nokkur atriði sem ekki virðist hafa verið tekið nægilegt tillit til varðandi Sultartangavirkjun:

1. Undirbúningur Sultartangavirkjunar er nánast á lokastigi, en undirbúningur Blöndu og sérstaklega Fljótsdalsvirkjunar er mun styttra kominn. Þegar verið er að bera þessa kosti saman er verið að bera saman kosti sem eru á mismunandi hönnunarstigi og því ósambærilegir í reynd.

2. Ekki er metið að virkjunin við Sultartanga gæti verið unnin í beinu framhaldi af Hrauneyjafossvirkjun og þar sem fyrir hendi er miklu betri aðstæður en á hinum stöðunum, svo sem vega- og línulagnir, húsakynni o. fl.

3. Örðugleikar vegna fjarlægðar Blönduvirkjunar og Fljótsdalsvirkjunar frá Reykjavík hafa verið vanmetnir og einnig að Blanda er 500 m yfir sjó og Fljótsdalsvirkjun 600 m. Sultartangi er aðeins 300 m yfir sjó. Þetta mun skapa örðugleika. Sérstaklega má búast við því, að vinnutíminn á hverju ári verði að sjálfsögðu miklu styttri. Flutningar efnis og mannskaps frá Reykjavík verða að sjálfsögðu miklu kostnaðarsamari. Hætt er við að hinn mikli — raunar yfir 40% — munur, sem landbrh. gat um hér áðan í ræðu sinni, milli Blöndu og Sultartanga færi að lækka þegar þetta væri allt raunverulega metið á réttan hátt.

Ýmislegt fleira mætti tína hér til. Ég held að þegar þessi atriði og ýmis fleiri eru skoðuð af sanngirni komi í ljós að Sultartangavirkjun sé sá valkostur sem ráðast beri í fyrst, en að sjálfsögðu hinar virkjanirnar í beinu framhaldi og jafnhliða ef nægur markaður er fyrir orkuna. En meginatriðið er að þjóðhagslega hagkvæmasti virkjunarkosturinn verði valinn fyrst.