13.05.1981
Neðri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4326 í B-deild Alþingistíðinda. (4414)

320. mál, raforkuver

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það hafa að vonum verið miklar umr. um orkumálin á þessu þingi, og eins og hefur komið fram fyrr í þessari umr. væntu menn þess, að það kæmi frá ríkisstj. mjög stefnumarkandi frv. í þeirri málum. Þó er eitt sem hefur gefið dálítið bakslag í þeim umr. sem orðið hafa um orkumál hér á þingi, og það er það viðhorf sem þráfaldlega hefur komið fram í máli hæstv. orku- og iðnrh., að ekki lægi mjög á með virkjanir fallvatna. Nærri hefur manni skilist að það væri ekki úr svo miklu að moða að ekki væri unnt að koma þeirri orku í lóg sem fælist í afli fallvatnanna.

Út af þeim hugleiðingum hef ég haft ánægju af því að gera mér grein fyrir því, hvaða möguleikar eru þá t. d. á einu takmörkuðu vatnasvæði, þ. e. Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Þegar ferðast er yfir Suðurland blandast náttúrlega engum hugur um að í Þjórsár- og Tungnaársvæðinu eru mikil orka og mikið afl óbeisluð. En hvað er það þegar miðað er við allt það sem er í öðrum stórfljótum á Suðurlandi sem koma alla leið undan jöklunum miklu? Ef farið er inn á þá leið að nýta það sem þetta takmarkaða svæði gefur sem ég minntist hér á, þá gæfi t. d. vatnsmiðlun í Stórasjó orkuvinnslugetu í virkjunum neðar í ánni um 280 gwst. á ári. Vatnsmiðlun Þórisvatns — og auknir möguleikar þar með á stækkun Sigöldu-, Búrfells- og Hrauneyjafossvirkjunar mundi auka orkuvinnslugetu virkjananna um 1070 gwst. á ári. Ef farið væri í Sultartangavirkjun, sem er með 50 gígalítra uppistöðu, mundi það auka orkuvinnslugetuna um 725 gwst. á ári. Ef farið er í virkjun við Bjalla mundi þau auka orkuvinnslugetuna um 385 gwst. Ef virkjuð er Búðarhálsvirkjun mundi það auka orkuvinnslugetuna um 580 gwst. á ári. Ef farið væri í það að virkja við Vatnsfell mundi það auka orkuvinnslugetuna um 435 gwst. á ári. Og ef farið væri í það að virkja svokallaða Króksvirkjun, sem er í Efri-Þjórsá, með 430 gígalítra uppistöðulóni mundi það auka orkuvinnslugetuna um 1140 gwst. á ári. Alls gæfu þessar virkjanir 4615 gwst á ári. Ef maður lítur á þetta takmarkaða svæði og hvílík gífurleg tækifæri það gefur til að efla atvinnulíf landsmanna finnst mér að við megum ekki setja okkur það að fara hægt í þessum málum. Við þurfum að vinna hratt, við þurfum að hugsa það stórt að það verði árangur af þessum framkvæmdum á þeim dögum sem núverandi kynslóð er að starfi, því að það mun vera mála sannast að við eigum erfitt með að finna atvinnufyrirtæki fyrir allar þær hendur sem fram koma til vinnu á næstu árum ef við förum ekki í eitthvað stærra í sniðum en við höfum verið með eða aukum við það sem stórt er.

Í framhaldi af þessu vil ég gagnrýna það, sem gerst hefur í tíð þeirrar ríkisstj. sem núna situr og hefur trúlega verið lagður grundvöllur að í fyrri vinstri stjórn, ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, að á þeim tíma var rofin sú undirbúningsvinna sem stóriðjunefnd hafði lagt grundvöllinn að meðan hún var að starfi. Það er öllum ljóst, sem að þessum málum vinna og um þau hugsa, að við getum ekki farið í stórvirkjanir að verulegu ráði nema við getum selt þá raforku sem hún aflar, — selt hana á þann hátt að við mögnum upp atvinnutækifæri fyrir fólkið í landinu. Það er öllum ljóst líka, sem um þessi mál hugsa, að það þarf tíma til að undirbúa slíkt og það er mikill ábyrgðarhluti að hafa gert sig sekan um að rjúfa þessi vinnubrögð á sínum tíma. Það tekur langan tíma að afla þeirra tækifæra sem þarna þarf til, og þess vegna er það höfuðmál að gengið sé til þess á nýjan leik að koma þessari vinnu af stað, eins og sjálfstæðismenn og stjórnarandstöðuflokkarnir tveir hafa raunar gert tillögur um í sérstöku tillöguflutningi hér á Alþingi í vetur.

Að öðru leyti vil ég segja það um frv. sem hér liggur fyrir til umr., að ég átti von á því dálítið ákveðnara frá hendi ríkisstj. en fram kemur þegar lítið er yfir það. Það má segja að það sé þægilegt að fá heimildarlög, og sennilega er hægt að taka undir það líka með ríkisstj. að þægilegt sé fyrir hana að fá rúm heimildarlög þannig að hún geti tekið á málunum eftir atvikum á hverjum tíma. En eitt af því, sem mér þykir vera heldur leiðinlegur þefur af í þessu frv., er að svo virðist sem það eina stefnumið, sem stjórnin stendur að ákveðið, sé það stefnumið sem einhvern veginn þvældist inn í málefnasamning ríkisstj., að ekki skyldi vera virkjað á hinu eldvirka svæði, eins og það er orðað. Ef á það er lítið er þó tekið fram, og var tekið sérstaklega fram í ræðu hæstv. iðnrh. áðan, að frv. miðaði að því að veruleg trygging fengist á nýtingu þeirra orkuvera sem nú eru í gangi á Þjórsársvæðinu, ef ég hef tekið rétt eftir. Til þess að það geti orðið verður að sjálfsögðu að fara í þær vatnsmiðlanir sem mögulegt er að ná til og að sjálfsögðu eru á eldvirka svæðinu.

Ég minnist þess úr umr. frá því í vetur um orkumálin að þá benti ég á að Sultartangavirkjunin væri utan eldvirka svæðisins. Að vísu mundi eystri endi stíflugarðsins við Sultartanga ná yfir á eldvirka svæðið og yfir á hraunasvæðið. Mér sýnist að það sé í raun og veru búið að sætta sig við það í iðnrn. að sá stíflugarður verði byggður. En það á ekki að fara í Sultartangavirkjunina sjálfa, sem er þó, eins og allir menn vita, utan við hraunasvæðið og lendir á gömlum miklu eldri jarðlögum en eru austan Þjórsár. Ég vil benda á það sérstaklega, að ef Sultartangavirkjunin er gerð er loksins búið að ganga frá vatnsmálunum og byggja fyrir ísvandamálin svo vel sem menn geta vænst að gert verði, en fyrr ekki. Þó að stíflugarðurinn sé gerður við Sultartanga mun hann að sjálfsögðu hafa mikla þýðingu fyrir það uppistöðulón, sem þarna kemur, og þá ísmyndun, sem þar stöðvast. En því miður fellur Þjórsá þaðan í það breiðum farvegi að þar verður veruleg ísmyndun og ekki síst á þeim tíma þegar skafrenningur er mestur. Þá er geysileg ísmyndun á þessu svæði frá Sandafelli og niður að Búrfellsvirkjun. Ef virkjunin er hins vegar byggð jafnframt er þessi leið í fyrsta lagi stytt verulega mikið og í öðru lagi er gert ráð fyrir að frárennslið frá virkjuninni fari í tiltölulega þröngum skurði út í Þjórsá við Klofaey og er þá ekki nema stuttur spölur eftir niður að Búrfellsvirkjuninni.

Ég tel ekki ástæðu til að ræða um þetta frekar, en ég á von á því, að ef þessari ríkisstj. verður einhverra lífdaga auðið og hæstv. iðnrh. fær að ráða framgangi mála í virkjunarframkvæmdum komist hann á þá skoðun áður en langur tími líður að þessa virkjun þurfi einnig að fara í og það muni vera ódýrast til að fá ódýra uppbyggingu orkuveranna og fulla nýtingu þeirra í framtíðinni.

Ég ætlaði ekki að tala langt mál um þetta efni að þessu sinni, en ég vil þó aðeins koma hér að nokkrum atriðum í viðbót.

Hér er talað um í frv. og gert ráð fyrir að ríkisstj. verði heimilt að virkja eða láta virkja við Blöndu og Jökulsá í Fljótsdal. Ég hygg að ég hafi tekið rétt eftir því í ræðu hæstv. iðnrh. áðan, að hann sagði að hér væri í fyrsta skipti leitað heimildar til meiri háttar virkjana utan Suðvesturlandsins. Það má vera að það sé hægt að komast svo að orði. En heimilda hefur verið aflað til að virkja annars staðar og vil ég minna í því efni bæði á Kröfluvirkjun og Laxárvirkjun þó að svo hafi skipast þau mál að hvorug virkjunin hefur náð því að verða stórvirkjun, eins og þó var ætlast til að yrði þegar til þeirra var stofnað.

Eins og komið hefur fram í máli mínu vil ég halda því fram og hef rökstutt það bæði fyrr og nú að nokkru, að það er ekki vegur til þess að mínum dómi að fara nægilega fljótt í þessar tvær stórvirkjanir sem gert er ráð fyrir að fara í utan Suðvesturlandsins. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að það verði ekki hikað við að virkja áfram það sem tilbúið er að virkja. Og ég hef þá trú að við Íslendingar eigum að virkja það hratt að við hikum ekki við að halda áfram á Þjórsársvæðinu með það, sem þar er tilbúið, og láta þessa vinnu og framkvæmdir skarast eftir því sem þörf er á og fara í virkjanirnar við Blöndu og Fljótsdal, hvor sem fyrr verður tilbúin, um leið og það er hægt.

Ég fagna því, að það er þó gert ráð fyrir að strax verði vissar framkvæmdir t. d. við Blöndu sem koma til góða við frekari virkjun. Það er að vísu ekkert annað en það sem alltaf verður að gera þegar verið er að kanna möguleika til virkjunar. Þar á að fara í nokkra vegagerð. Það verður ekki hægt að kanna möguleikana á Blönduvirkjun að neinu ráði nema í þessar framkvæmdir verði ráðist. Ég er það kunnugur því, hvernig gengið er að þeirri könnun, að mér er ljóst að það er undirstöðuatriði að hægt sé að ferðast um það land, sem á að kanna, og ferðast um það með ýmis tæki sem verða að fara eftir vegum. Ég minnist þess t. d. að þegar Landsvirkjun lagði veg inn eftir afrétti Gnúpverjahrepps varð það til þess að gera rannsóknir í sambandi við virkjun Efri-Þjórsár sem er ekki enn í sjónmáli að virkja. En Landsvirkjun hefur haft þann hátt á að vera með framsýni í þessum efnum. Og til viðbótar þessu, að ég lýsi því hvernig hefur verið gengið til þessara rannsókna þarna inn frá með því að gera færan veg inn á könnunarsvæðin, þá hafa þeir einnig, um leið og gengið hefur verið til þess að gera einhverja rannsókn eða könnun á virkjunarsvæðum, gengið til viðræðna og samráðs við heimamenn um fyrirkomulag og réttindi þar sem á hefur skort að þeir hefðu þau tiltæk. Slíkt er mjög nauðsynlegt að sé í gangi og sé snemma í gangi. Því aðeins er hægt að vinna virkjanirnar áfram með eðlilegum hætti að undirbúningi hafi ekki verið áfátt í þessu efni. Því miður, vil ég segja, hefur ekki verið starfað með þessum hætti að virkjunarrannsóknum t. d. við Blöndu og mun það því tefja framgang þeirrar virkjunar verulega. Ég sé ekki betur. Ég er ekki að spá að tilefnislausu neinum töfum. Ég held að það leiði af sjálfu sér að það muni tefja verulega fyrir.

Það hefur verið bent á hér áður að við sjálfstæðismenn höfum á þingi — okkar menn í Ed. — flutt frv. um ný orkuver sem mér sýnist að sé miklu aðgengilegra frv. og ákveðnara í öllum greinum en það frv. sem ríkisstj. leggur hér fram. Ég vil ljúka máli mínu með því að segja, að ef Alþingi vill ganga til þessara mála með forsjálni og ákveðni eigum við að sameinast um að koma fram því frv. sem verulega er þó komið af stað og hefur fengið hinar bestu umsagnir hjá þeim aðilum sem leitað hefur verið umsagnar hjá. Það frv., sem Þorv. Garðar Kristjánsson og fleiri sjálfstæðismenn hafa flutt í Ed., eigum við að sameinast um og koma því frv. í gegnum þingið. Það á að vera hægt á þeim stutta tíma sem enn er eftir. En það er vafamál að hægt verði með eðlilegum hætti að koma frv., sem ríkisstj. hefur lagt hér fram, í gegnum þingið á svo skömmum tíma ef á að vinna það með þeim hætti sem Alþingi á að gera í stórmáli sem þessu.