13.05.1981
Neðri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4329 í B-deild Alþingistíðinda. (4415)

320. mál, raforkuver

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég fagna því að hér er komið fram frv. um stjórnvirkjanir í þessu landi, og ég vil taka undir að það á vissulega eftir að hafa áhrif á okkar lífskjör hvort við berum gæfu til að standa skynsamlega að þeim málum. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að nokkurt skæklatog er um hvar menn vilja láta virkja næst. Því miður virðast kjördæmasjónarmið vera allsráðandi í þeirri umr. Ég tel aftur á móti að við Íslendingar stöndum á ákaflega örlagaríkum tímamótum í orkumálum.

Það fer ekki á milli mála að stjórnendur höfuðborgar Íslands sýndu framsýni á sínum tíma þegar þeir gerðust stórvirkir aðilar að virkjunarmálum. Hitt hlýtur þó að vera umhugsunarefni, hvar athafnasvæði hvers sveitarfélags sé. Ég býst við því, að það þætti dálítið skrýtið ef Austurland færi að reka stórfyrirtæki hér í Reykjavik, t. d. bora eftir heitu vatni eða eitthvað því um líkt. Ég býst einnig við að það þætti skrýtið ef Norðlendingar tækju upp á slíku. Þetta segi ég ekki einum eða neinum til hnjóðs. Þetta er spurning um hvernig við teljum eðlilegast að stjórnskipulagi í þessu landi sé háttað.

Ég vil vekja á því athygli, að nú er Landsvirkjun sameignarfyrirtæki Reykjavíkurborgar, Laxárvirkjunar og ríkisins. Við erum sennilega flestir sammála um að orkan sé mesti auður þessa lands ásamt fiskimiðunum og hinu græna belti upp frá ströndinni. Erum við alfarið reiðubúin að standa þannig að þessum málum að við afhendum fyrst og fremst tveimur sveitarfélögum á Íslandi helmingsrétt til orkuöflunar í þessu landi? Er þetta alveg í takt við þá kenningu, sem mjög hefur dunið á mönnum að nú þurfi að minnka kosningarrétt dreifbýlisins? Ég fæ ekki séð að þetta gangi upp. Annars vegar er verið að sækja þar fram og heimta jafnræði. Nú er sótt fram á orkuvígstöðvunum og heimtaður tvöfaldur réttur handa hinum fjölmennu sveitarfélögum.

Það var mikið gæfuspor á Alþingi þegar menn árið 1000 vildu hafa ein lög og einn sið í þessu landi og tryggðu þannig friðinn, og það er gott að búa í landi þar sem skotvopn eru ekki borin á þjóðhöfðingja og þeir geta gengið um og ferðast um án þess að hafa lífverði. En réttlæti er undirstaðan ef friður á að haldast. Það réttlæti er annars vegar jafn eignarréttur Íslendinga yfir orkuauðlindum landsins og í beinu framhaldi af því sama verð fyrir orkuna hvar sem er í þessu landi.

Það kom hér fram hjá iðnrh. að hann teldi að það þyrfti að ná jöfnun heildsöluverðs í áföngum. Gott og vel. Hvað segir þetta í reynd? Ef við flettum í bls. 132 í þessu frv, sjáum við hver staðan er í þessum málum. Sannleikurinn er sá, að Rafmagnsveitur ríkisins eru að selja sína orku á 24% hærra verði og þær gera þetta þrátt fyrir að það er 19% verðjöfnunargjald. Þetta er ég ekki að segja hæstv. iðnrh. til hnjóðs því að ég lít svo á og tel mig hafa rök fyrir því, að innst inni sé hann stuðningsmaður verðjöfnunar á raforku í þessu landi. Það hefur verið hægt að rökstyðja það austur á fjörðum, meðan dísilvélar voru kyntar, að verðið á raforkunni þyrfti að vera hærra þar, en ég á eftir að sjá að það sé auðvelt verk hjá þm. Austurlands, þegar Fljótsdalsvirkjun verður virkjuð, að halda því fram að þá sé það eðlilegt náttúrulögmál að raforkuverð á Reyðarfirði til hins almenna neytanda sé hærra en á höfuðborgarsvæðinu. Ég hefði gaman af að fá það á borðið eftir hvaða rökum þá verður boðað að slíkt óréttlæti eigi að vera. Ég býst við að menn, hvar í flokki sem þeir væru, séu reiðubúnir að standa upp og halda því fram að það eigi að greiða sama tímakaup hvar sem er á Íslandi, hvort sem það er í Reykjavík eða á Reyðarfirði. En við erum ekki að greiða sama tímakaupið ef við seljum orkuna á misjöfnu verði. Þessu verða menn að gera sér grein fyrir. Það er ekkert náttúrulögmál að bensín sé selt á sama verði hvar sem er á Íslandi. Það er ekkert náttúrulögmál að olía sé seld á sama verði hvar sem er á Íslandi. Og hvernig ætlum við að verja það fyrir komandi kynslóðum ef við stöndum nú þannig að þessum málum á þessari örlagastundu að við teljum sanngjarnt og eðlilegt að raforka sé seld á misjöfnu verði í þessu landi? (Gripið fram í.) Það er náttúrulögmál, hv. 10. þm. Reykv., að það er hlýrra í Reykjavík en á Vestfjörðum. Það er jafnframt náttúrulögmál að það er meiri jarðhiti hér en á Vestfjörðum. Og það er einnig náttúrulögmál að það eru auðugri fiskimið út af Vestfjörðum en hér.

Það er nú svo varðandi fiskimiðin, að hún er ansi lítil, sú landhelgi sem Vestfirðingar einir fá að veiða í út af Vestfjörðum. Það væri sérstakur kapítuli sem mætti taka til athugunar. Hins vegar fór ég í heimsókn á spítala í gær og sá þar níræðan mann sem missti á sínum tíma föður sinn í landhelgisbaráttu Vestfirðinga við Breta, og ég veit ekki til að mannfall hafi orðið hér á þessu svæði í þeirri orrustu að heimta þau réttindi okkur til handa. En það má vel vera að menn vilji ekki ræða þessi mál. Það má vel vera að menn vilji ekki byggðastefnu í þessu landi. Það getur vel verið að það sé fyrst og fremst rétt að flytja hér tillögur um að það eigi að koma upp iðnaði úti á landi, að það eigi að koma upp þjónustu. En hvernig haldið þið að fara eigi að því að framkvæma þetta ef orkuverðið er ekki það sama? Hvernig hyggst t. d. hv. 6. þm. Suðurl. verja það fyrir sínum kjósendum að raforkuverð í smásölu verði annað á bökkum Bolafljóts en á þessu svæði?

Það er kannske tímanna tákn í þessu sambandi að verið er að leggja Hitaveitu Borgarfjarðar og Akraness. Samkv. reglunum, sem hér eru látnar gilda, ætti vatnið að vera ódýrara í Borgarnesi og selt á lægra verði þar. Svo er ekki. Það dettur engum í hug annað en þar skuli vera verðjöfnun. En á hvorum staðnum skyldi stærri aðilinn vera? Stærri aðilinn í þeim samningum er úti á Akranesi. Það er þess vegna sem réttlætið á að ríkja. En halda menn að þetta hefði verið jafnauðsótt mál ef meiri fjölmenni hefði verið í Borgarnesi en á Akranesi?

Ég verð að lýsa því yfir, að ég get ekki stutt þær hugmyndir að veita Landsvirkjun virkjunarréttinn nema eignaraðild ríkisins verði jafnframt aukin að þeirri virkjun. Ég tel að það sé ekki hægt á þessari stundu, þegar verið er að afhenda yfirráðin fyrir aðalauðlindum þessa lands, að horfa fram hjá því að við erum ein lítil þjóð úti í Atlantshafi og við þurfum að stefna að því að lífskjörin í þessu landi séu sem jöfnust hvar sem menn búa. Það verður ekki ef raforka er seld 24% dýrar á svæði Rafmagnsveitna ríkisins. Það verður ekki ef við þurfum að halda uppi verðjöfnunargjaldi sem á það undir pólitísku veldi landsbyggðarinnar hvort það fer í gegn á hverjum tíma í Alþingi Íslendinga. — Það er 19% í dag. Það voru ekki allir spenntir fyrir að styðja það.

Þá held ég einnig að það væri rétt að víkja örlítið að 4. gr. 4. gr. þessa frv. fjallar nefnilega um ákaflega merkilegt mál og það mættu þm. hinna orkuauðugu svæða þessa lands hugleiða. Ég er ekki þm. fyrir slíkt svæði. En á hvaða forsendum og eftir hvaða réttlæti skulu útsvör í Hafnarfirði lækka vegna þess að auðæfi Suðurlandsins fara þar út um höfnina, en aftur á móti er skattheimta Suðurlandsins, sveitafélaganna, ekki í neinu samræmi við þau mannvirki sem þar standa? Telja menn ekki að um leið og þeir eru að taka orku frá þessum svæðum án þess að skilja þar eftir uppbyggingu hafi þeir einhverjar skyldur við þessi svæði? Telja menn það sanngjarnt, t. d. á Suðurlandi, að vinnuflokkarnir, sem hafa unnið við að koma upp virkjunum, verði að kveðja það svæði, yfirgefa það og halda svo suður eftir að búið er að fullvirkja? Er þetta stefnan sem þm. Sunnlendinga ætla að vinna að? Það hljóta þeir að gera upp við sig nú. Það er of seint að semja um þessi mál á eftir. Atvinnutækifæri Suðurlandsins hafa verið flutt burt með orkunni. Því verða menn að gera sér grein fyrir. Ég tel ekki réttlætanlegt að standa þannig að skattheimtu virkjunaraðila og slíkra að hugsað sé um það eitt að koma í veg fyrir að þeir greiði gjöld til sveitarfélaga og til sýslufélaga. Mér finnst að íslenska þjóðin skuldi þessum svæðum uppbyggingu.

Að lokum þetta: Hefur verið lagt á útsvar umfram þarfir á Akureyri og í Reykjavík til að eignast þessa miklu aðild að Landsvirkjun? Hafa íbúar þessa svæðis þurft að bera þungar byrðar fjárhagslega til þess að þetta væri fært? Ég segi nei. Það var Marshall-fé annars vegar og það voru víkjandi lán hins vegar og það var hin háa gjaldskrá, sem dreifbýlið hefur orðið að bera uppi, ásamt framsýni þeirra manna sem sáu til þess að komið er sem komið er. Ég tel þess vegna að með stórkostlegri eignaaukningu Landsvirkjunar yfir aðalauðæfum þessa lands sé eðlilegt að ríkisvaldið bæti sinn hlut stórkostlega í eignaraðild að þessu fyrirtæki. Náist þeir samningar ekki hlýtur að verða að setja bremsurnar við og segja: Hvert sveitarfélag á Íslandi á að haga sínum störfum innan þess svæðis sem því að lögum er ætlað að vinna. Hitt er nýlendustefna, að hrifsa auðæfin úti um allt land og safna þeim saman á einn stað. Það er sama nýlendustefnan og Vesturlönd hafa gefist upp á gagnvart hinum þriðja heimi, en hann er eftir í flakandi sárum. Ef þessi stefna fæst ekki viðurkennd hér á landi hlýtur það að leiða til þess fyrr eða síðar að það verður borgríki sem stendur eftir, en lýðveldið Ísland er ekki til í þeirri merkingu. (Gripið fram í.) Halldór Blöndal, þú hefur tekið meiri tíma en nokkur annar maður hér í ræðustól til leiðinda fyrir þing og þjóð og ég vænti þess að þú sért til friðs þessa stuttu stund.

Ég veit að þetta eru viðkvæm mál. Mér er ljóst að sumir eiga erfitt með að sitja þegjandi undir umr. sem þessum. En á hitt mun reyna mjög fljótlega, hver stefna Alþingis Íslendinga er í þessum málun. Það liggur alveg ljóst fyrir að ef stefnan er sú, að það sé réttlætanlegt að afhenda fyrirtæki með 50% eignaraðild Reykvíkinga og Akureyrarbæjar allan virkjunarrétt í þessu landi og jafnframt ganga þannig frá þeim málum að smásöluverð á Íslandi á raforku verði misjafnt um ókomna framtíð, þá heldur hinn ójafni atkvæðisréttur ekki fyrir mér svefni.