13.05.1981
Neðri deild: 93. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4344 í B-deild Alþingistíðinda. (4418)

320. mál, raforkuver

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að upplýsa hv. deild um að það er ekki skipulagt málþóf sem við framsóknarmenn höfum hér í frammi þó að svo vilji til að við komum fjórir í ræðustól hver á eftir öðrum. Ég skal reyna að stytta mál mitt. Ég hef iðulega talað hér um orkumál og ég get m. a. stytt mál mitt þess vegna, en kunni þó ekki við að láta þessa umr. alveg fram hjá mér fara án þess að taka nokkurn þátt í henni.

Þetta er stórtækt frv. sem hér liggur fyrir, og það er mikið færst í fang með því að nýta allar þær heimildir sem hér er beðið um.

Það er mikill auður sem við Íslendingar eigum í fallvötnum okkar, og við eigum mikið undir því að okkur lánist að nota hann skynsamlega, þ. e. byggja skynsamlegar virkjanir og í sambandi við þær skynsamleg iðnfyrirtæki. Flas er ekki til fagnaðar yfirleitt og allra síst er óðagot í orkumálum farsælt. Við höfum fyrir okkur sorgleg dæmi um það, t. d. Kröfluvirkjun. Fyrir svo sem 7-8 árum voru menn búnir að æsa sig upp í það að orkuskorturinn væri orðinn svo ofboðslegur á Norðurlandi að það yrði að leysa sama vandann á tvennan hátt, bæði með orkuveitulínu norður og eins með jarðgufuvirkjun í Kröflu, sem einnig var höfð allt of stór, því að menn voru orðnir hræddir um að orkuskorturinn væri geigvænlegur. Ég ætla ekki að rekja þá sorgarsögu lengur. Og óðagot í orkunotkun er engu betra. Hér höfum við fyrir augum okkar rafmagnssölusamninginn við álverið. Þar voru menn í óðagoti að koma í verð — eða það sem þeir héldu að væri nokkurt verð- rafmagni frá Búrfellsvirkjun, en það tókst ekki nógu heppilega. Þetta verður allt saman að undirbúa vandlega. Hæstv. iðnrh. hefur verið legið á hálsi fyrir það, hvað hann hafi haft langan meðgöngutíma að þessu frv., en sannarlega er þó betra að það skuli vera sæmilega úr garði gert en ef hann hefði verið eins og með kálfsótt í vetur og frv. borið brátt að.

Það er hér talað um fjórar vatnsaflsvirkjanir og þeim er ekki raðað, enda eru stöðugt að berast nýjar og nýjar upplýsingar. Myndin er alltaf að skýrast. En það eru ekki öll kurl komin til grafar enn þannig að ástæða sé til að raða þessum virkjunum. Það hefur staðið yfir deila um eina þeirra, þ. e. Blönduvirkjun. Þessa deilu er unnt að leysa og við erum miklu nær því núna að leysa þessa deilu en við vorum í haust.

Það hefur verið mikil umræða um þetta mál í vetur, og ég get leyft mér að fullyrða að það stendur ekki á landeigendum að þessi deila leysist. Boltinn er hjá viðsemjendum bænda, en ekki bændum sjálfum. Og ef þetta mál strandar, ef þetta mál fær ekki farsælan endi innan skamms, strandar það á þverúð örfárra viðsemjenda okkar, en ekki bændum. 1975 létum við strax í ljós að við vildum ekki fallast á fyrirkomulag, sem uppi var haft, og settum fyrir okkur víðáttu miðlunarlóns á Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði. Við báðum um breytingar á þessu fyrirkomulagi, en okkur var ekki svarað fyrr en loksins í vetur. Þá var farið að nefna af viðsetjendum okkar tilhögun sem við getum sætt okkur við; þ. e. að stífla ána við Sandárhöfða, og það er lykillinn að lausninni. Þannig er hægt að bjarga 46% af gróðurlendi Auðkúluheiðarmegin. Þar er agnúi á að ef geymdir væru 400 gígalitrar við Sandárhöfða er það nokkru dýrari geymsla en ef þeir væru geymdir við Reftjarnarbungu, eins og upphafleg hugmynd orkumanna stóð til, þ. e. að á móti því, að orkueiningin kostaði 0.935 við Reftjarnarbungu, mundi hún kosta 1.023 við Sandárhöfða. En síðan hefur komið í ljós að það eru möguleikar til þess að komast af með minna vatn í miðlun án þess að virkjunin yrði óhagkvæmari, óhentugri eða aflminni. Ég vil leyfa mér að benda á bréf frá Verkfræðistofu Helga Sigvaldasonar, sem birt er á bls. 77, og leyfa mér að lesa hérna nokkrar línur, með leyfi forseta:

„Miðlunarstig vatnsorkukerfis er hér skilgreint sem hlutfallið á milli orkuinnihalds fullra miðlana kerfisins og orkuvinnslugetu þess. Í töflu 1 er miðlunarstig kerfisins sýnt eftir einstakar virkjanir í virkjunarleið 02.

Miðlunarstig núverandi kerfis er um 0.16 og verður um 0.18 með tilkomu Hrauneyjafossvirkjunar. Miðlunarstig af þessari stærð verður að teljast frekar lágt. Athuganir á orkuvinnslugetu virkjana inn á þetta kerfi hafa leitt í ljós, að mikil arðsemi næst við að auka miðlanir, en lítil við að koma á fót virkjunum án miðlunar.

Stækkun Þórisvatns og fyrstu tveir áfangar Fljótsdalsvirkjunar, þar sem gert er ráð fyrir 475 gígalitra miðlun í Eyjabakkalóni, 50 gígalítrum í Gilsárlóni og 18 gígalítrum í Hólmalóni, auka miðlunarstigið verulega eða í 0.30.“ Það mun vera heppilegt miðlunarstig.

„Næsta virkjun á eftir fyrstu tveimur áföngum Fljótsdalsvirkjunar er Blönduvirkjun, samkv. fyrrnefndri virkjunarleið. Athugað hefur verið, hvaða orkuvinnslugetu Blönduvirkjun gefur inn á þetta kerfi og einnig hvaða áhrif breytt miðlunarstærð hefði. Niðurstöðurnar eru sýndar á mynd 1. Þar kemur fram, að orkuvinnslugeta virkjunarinnar án miðlunar er um 650 gwst. á ári og eykst síðan með aukinni miðlun í um 775 gwst. á ári við 435 gígalítra miðlun eins og núverandi áætlanir gera ráð fyrir. Á myndina eru einnig dregnar upp niðurstöður fyrri athugana, sem birtust í skýrslunni: „Vinnsla og flutningur raforku til aldamóta. „II Orkuver“, sem unnin var á Verkfræðistofu Helga Sigvaldasonar hf. og gefin út af Orkustofnun í febr. 1981. Með samanburði á kúrfunum kemur í ljós, að orkuvinnslugeta virkjunarinnar er nú mun meiri án miðlunar og ávinningurinn af stækkun miðlunar mun minni en áður. En miðlunin er t. d. 290 gígalítrar, þ. e. 20 gígalítrar í inntakslóni og 270 gígalítra lón við Reftjarnarbungu, fást 750 gwst. í orkuvinnslugetu, sem er aðeins 25 gwst. minna en fæst ef miðlað væri í 435 gígalítra.

Ef lágmarksmiðlun er til staðar fyrir alla hluta virkjanakerfisins, nægjanlegt afl er í virkjunum og næg flutningsgeta eftir flutningslínum frá þeim, er orkuvinnslugeta kerfisins fyrst og fremst háð heildarmiðlun þess, en staðsetning miðlunarlóna skiptir minna máli. Ef möguleikar á að byggja miðlanir annars staðar á landinu eru fyrir hendi, væri því hægt að hugsa sér að minnka Blöndumiðlun og stækka aðrar miðlanir til að vega þar upp á móti. Hvers vegna erum við þá að sökkva grónu landi við Reftjarnarbungu, ef hægt er að byggja miðlanir nánast á eyðimörk eins og t. d. Stórasjávarmiðlun í Tungnaá? Svar við svona spurningu er mjög erfitt að gefa svo einhlítt sé, en nokkur atriði má hugleiða hér til nánari glöggvunar:

Samkv. töflu 1 má gera ráð fyrir því, að ef Blöndumiðlun er ekki byggð í fulla stærð um leið og virkjunin, þá frestast stækkun miðlunarinnar a. m. k. aftur fyrir síðustu virkjunina í virkjunarleiðinni, enda helst miðlunarstig kerfisins alltaf fyrir ofan 0.30.“

Þessari skýrslu fylgir bréf Orkustofnunar, undirritað af Jakob Björnssyni, frá 13.4. 1981, en þar segir, með leyfi forseta:

„Miðlunarstig kerfisins verður svipað eftir að Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun eru komnar í gagnið, hvort heldur miðlunarlónið við Blöndu er 290 gígalítrar eða 435.“

Við hugsum okkur að koma báðum þessum virkjunum í gagnið innan 10 ára og 10 ár eru ekki lengi að líða. Hins vegar er eilífðin löng og Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun koma til með að vinna saman um ókomin ár. Það getur ekki verið neitt takmark í sjálfu sér að sökkva landi og allra síst grónu og góðu landi. Ég trúi ekki öðru en allir sæmilegir menn andi léttara ef þeir sjá fram á möguleika til að vernda 46% af gróðurlendi á Auðkúluheiði sem annars eyddist, — og vel að merkja: með ódýrari leið til að vinna kwst. úr vatni Blöndu, ekki 0.935, eins og ég sagði áðan, með stíflu við Reftjarnarbungu, heldur 0.928 með stíflu við Sandárhöfða. Ég endurtek: ódýrari leið. Raunar gefa allar þær tilhaganir, sem rætt hefur verið um við Blönduvirkjun, lægra orkuverð á orkueiningu en Fljótsdalsvirkjun, hvað þá Sultartangavirkjun. Samt dettur engum í hug annað en virkjað verði bæði í Fljótsdal og við Sultartanga. Samkv. skrá frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens, dags. 6. 4. 1981 var orkuvinnslugeta Blönduvirkjunar með 420 gígalítra miðlun við Reftjarnarbungu 791 gwst. á ári og kostaði 740 millj. kr. Stofnkostnaður á orkueiningu yrði þá, eins og ég sagði áðan, 0.935. Blönduvirkjun með 220 gígalítra miðlun við Sandárhöfða gefur 740 gwst. á ári. Stofnkostnaðurinn er ekki nema 687 millj. kr. og stofnkostnaður á orkueiningu 0.928. Blönduvirkjun með 400 gígalítra miðlun við Sandárhöfða gefur 749 gwst. á ári og kostar 793 millj. kr. eða 1 023 á orkueiningu, er a. m. k. 10–15% ódýrari en Fljótsdalsvirkjun — eftir síðustu útreikninga vel að merkja, þegar þeir fundu upp á því að hækka Eyjabakkastífluna. Sá galli er á stíflu við Sandárhöfða, ef þar eru geymdir 400 gígalitrar af vatni, að nokkru meira land fer undir vatn á Eyvindarstaðaheiði en með 400 gígalítra stíflu við Reftjarnarbungu. Hins vegar er 200 gígalítra stífla við Sandárhöfða á Eyvindarstaðaheiði ekki óhagstæðari en 400 gígalítra stífla við Reftjarnarbungu.

Hvernig á þá að vinna að virkjunum? Svigrúm hefur skapast með vatnaveitum og stíflum hér syðra og ég held að við eigum að byrja bæði á Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun á skaplegum tíma. Svigrúm hefur skapast til að ljúka nauðsynlegum undirbúningsrannsóknum á báðum stöðum og byrja á marktækum framkvæmdum á báðum þessum stöðum, ekki láta þær skarast nokkuð, eins og segir hjá hæstv. ráðh., heldur skarast töluvert mikið. Kjósi menn að hraða meira framkvæmd við Fljótsdalsvirkjun færi að koma rafmagn þaðan árið 1986 og 2. áfanga væri lokið 1987 og frá Blönduvirkjun 1989 og 1990 væri henni lokið. En ef menn kysu að hraða Blönduvirkjun þannig að þaðan kæmi rafmagn 1986 þyrfti að ljúka Fljótsdalsvirkjun ári fyrr eða 1989 til að ná sama orkumagni og öryggi í raforkukerfinu. Ég held persónulega að það væri heppilegra fyrir íbúa Norðurlands vestra að marktækar virkjunarframkvæmdir stæðu í 8–10 ár en 4–5. Hér má ekki vera um að ræða ófjárhagsleg trúaratriði um það að verða fyrstur og skoða þetta sem eitthvert kapphlaup. Þannig má náttúrlega ekki vinna. Að vísu bætist fjármagnskostnaður, sem ekki nýtist strax, inn í þetta dæmi ef menn eru lengi að reisa virkjun. En þar á móti kemur að það er hægt að vinna verkið á hagkvæmari tíma. Það þarf ekki að vinna þar nótt með degi og á veturna nema skaplega. Þetta er atriði sem er afar erfitt að meta og afar erfitt að fullyrða um að sé óhagstæðara.

Ég vara enn og aftur við því, að menn gefi sér ekki tíma til að undirbúa verk sem hagfelldast. Það svigrúm, sem skapast við stíflur og veitur á Þjórsársvæðinu, er mjög auðvelt að nota til að breyta tilhögun við Blöndu og fá þar virkjun, sem allir eru ánægðir með, og ljúka rannsóknum við Fljótsdalsvirkjun. Þannig fást líka ódýrustu mögulegu orkueiningar, sem við getum fengið úr þessum tveimur vatnsföllum, og öruggt orkukerfi og auk þess hlífðum við með því landi sem enginn okkar getur búið til aftur hve margar landgræðsluáætlanir sem menn setja saman.

Ég vil nefna aðra virkjun sem getið er um í frv., Villinganesvirkjun, og fara um hana örfáum orðum. Ég hef reyndar talað mikið um hana fyrr og flutt um hana tvisvar tillögur. Ég þarf ekki að endurtaka þær ræður mínar nú. Það hefur sannast sem ég hélt þá fram um hagkvæmni og kosti þessarar virkjunar. Þær áætlanir, sem hér er byggt á, eru óþarflega varlegar því að virkjað rennsli samkv. þeim er talsvert neðan við þekkt lágmarksrennsli Héraðsvatna og það mætti framleiða meira rafmagn með stærri vél úr þessu vatnsmagni. En samt sem áður, þrátt fyrir þessa varlegu áætlun, er orkueining þarna ódýrari en úr Sigöldu.

Svo er einn kosturinn enn sem ekki er getið um í frv., en á virkjunarstað þarf nauðsynlega að reisa brú á Héraðsvötnin vegna samgangna um Skagafjarðarhérað. Þessi brú kostar á annan milljarð og hún er mikið óskamál Skagfirðinga, en hún kemur að sjálfu sér með þeim stíflugarði sem þarna verður reistur, og mætti hugsa sér að hafa það líka ríkt í minni við samanburð.

Eins og ég sagði í upphafi eigum við mikla auðlegð í orku. Við þurfum að afla hennar skynsamlega og með virðingu fyrir landinu, gögnum þess og gæðum, og gæta þess að eyðileggja ekki meira en við endilega þurfum. Þessari orku þurfum við síðan að ráðstafa skynsamlega og ætíð að fá greitt fyrir hana það sem hún kostar, því að það er til lítils að virkja og virkja ef raforkusalan verður baggi á fólkinu í landinu.