14.05.1981
Neðri deild: 94. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4374 í B-deild Alþingistíðinda. (4438)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt þó að menn, þegar rætt er um skattamál, freistist til að fara nokkrum orðum um efnahagsmál almennt, svo mikilvæg eru skattamálin í lífi alls almennings á Íslandi og svo mikil áhrif hafa aðgerðir stjórnvalda í skattamálum á afkomu hvers einasta manns í þessu landi. Ég ætla þó, vegna þess hve langt er liðið á starfstíma Alþingis, ekki að fara mörgum orðum um efnahagsmálin almennt, annað en leyfa mér að benda á að sá flokkur, sem fer nú með skattamál og ríkisfjármál í þessari hæstv. ríkisstj., hefur valið sér það hlutverk í íslenskri pólitík að standa þversum fyrir öllum hugmyndum um að reyna eitthvað nýtt eða breyta til í því skyni að reyna að rífa efnahagslíf landsins upp úr þeim farvegi óðaverðbólgu sem það hefur fallið í á hinum svonefnda áratug Framsfl.

Það má segja að það megi ekki orða neina nýja hugsun eða koma með till. um neina nýja framkvæmd í návist Alþb. Pólitískt hlutverk þessa flokks, sem einu sinni kallaði sig frumkvöðul byltingar á Íslandi, er nú að vera á móti öllum hugmyndum um allar nýjungar og allar tilraunir til þess að gera eitthvað nýtt. Þessi flokkur er á móti öllum hugmyndum sem fram hafa komið, og till. um að reyna nýjungar í skattamálum. Þessi flokkur setur sig á móti öllum tilraunum til þess að reyna að skjóta frekari stoðum undir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf með því að nýta þá náttúruauðlind sem Íslendingar eru nú þjóða ríkastir af þar sem er okkar orka. Jafnvel þó að menn horfi upp á það að íslenskir launþegar hafi í lífsgæðakapphlaupinu verið að dragast aftur úr launþegum í nágrannalöndunum, þó að almenn lífsgæði séu hér mun lakari fyrir jafnlangan vinnudag en sambærilegir aðilar lifa við hér í nágrannalöndunum, þá stendur Alþb. þvert gegn því, að reynt sé að nota þau tækifæri sem Ísland á til þess að vinna launafólk út úr þessum vanda. Afstaða Alþb. í hæstv. ríkisstj. er sú að setja sig þvert gegn öllum skiln. um allar nýjungar, sama á hvaða sviðum það er. Alþb. er orðið afturhaldssamasti flokkur á Íslandi. Það má aldrei í návist Alþb. orða nokkra nýja hugsun. Þá er svarið ávallt: nei, nei, nei. Völd Alþb. í þessari ríkisstj. koma nú árum saman í veg fyrir að hægt sé að leita nokkurra nýrra leiða til þess að lyfta íslensku launafólki upp á þann stall sem íslenskt launafólk stóð þó á fyrir röskum áratug þegar Ísland var þriðja ríkið talið ofan frá í þjóðarframleiðslu á hvern íbúa og íslenskur almenningur, miðað við almenning í nágrannalöndunum, hélt sannarlega sínu í almennum lífsgæðum.

Það er orðið nokkuð lærdómsríkt fyrir allan almenning að rifja upp þau ummæli sem ég á enn þá á segulbandi og mun geyma lengi, þegar fulltrúi Alþb., einn af mörgum í stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sagði að það skipti ekki miklu máli, hvað fólkið í þeim samtökum og almenningur á Íslandi byggi við í launakjörum miðað við það mikla misrétti sem Frakkinn Patrick Gervasoni væri beittur af íslenskum stjórnvöldum. Þetta er eitt dæmi af mörgum um það, hvaða atriði eru nú farin að ráða mestu hjá þessum flokki sem einu sinni kenndi sig við þjóðfélagsbyltingu á Íslandi og kennir og enn þá við verkalýð og verkalýðshreyfingu. (Gripið fram í.) Já, það virðist nú vera, hv. þm., að það sé talsverður áhugi á því hjá núv. forráðamönnum Alþb. að krækja sér í einhvern alþjóðlegan samnefnara. Fyrir þremur árum man ég eftir því, að þáverandi forustulið Alþb., m. a. núverandi formaður þess flokks, skrifaði margar greinar um það í Þjóðviljann, að Alþb. væri sá flokkur í Evrópu sem fundið hefði upp á svonefndan Evrópu-kommúnisma. Það var vegna þess að þá héldu þeir, að franskir og ítalskir kommúnistar væru í miklum uppgangi, og höfðu mikinn áhuga á að fá að hengja sig aftan í þann vagn. Nú er ekki lengur því að heilsa. Nú er ástandið á Alþb.-heimilinu þannig að formanni flokksins finnst mikil ástæða til þess að senda formanni franska jafnaðarmannaflokksins sérstaka bróðurkveðju frá sér vegna þess að nú er sá flokkur í uppgangi á sama tíma og Evrópu-kommúnistarnir í flokki franskra kommúnista eru á undanhaldi.

Þannig er verið að reyna að leita að einhverjum samnefnara fyrir þennan flokk. Í dag er það þessi, á morgun er það hinn, eftir því hvernig allt velkist og veltist í evrópskri pólitík.

Það er því ekki Alþfl. einn sem hefur áhuga á pólitískum samnefnara við aðra flokka. Við höfum haldið þeim samböndum við evrópska jafnaðarmenn sem við höfum haft frá stofnun Alþfl. Það mætti kannske segja svolítið annað um forráðamenn Alþb. sem skipst hafa á um að vera gistivinir Moskvu-valdsins í Rússlandi. Pekingsvaldsins í Kína, gist Kúbu og þykjast nú helst sjá sig í fylgd með hinum nýkjörna forseta Frakklands sem er aðili að Alþjóðasambandi jafnaðarmanna eins og við Alþfl.-menn, þangað sem Alþb.- mönnum hefur aldrei verið boðið inn fyrir dyr og mun aldrei verða. En þetta er nú útúrdúr.

Ég vil aðeins taka það fram í þessu sambandi, að auðvitað er með þessi mál, skattamálin, eins og allt annað, að þar setur þessi flokkur sig upp á móti öllum hugmyndum um að reyna eitthvað nýtt til þess að koma til móts við launafólkið í þessu landi og lyfta lífskjörum þess eitthvað upp á við. Ég vil aðeins minna menn á það, að Alþb. er nú búið að sitja í ríkisstj. samfellt síðan eftir kosningarnar 1978, og ég leyfi mér að spyrja, herra forseti: Hvað hefur Alþb. gert í þessum ríkisstjórnum, sem það hefur átt sæti í, sem hægt er að segja að sé öðruvísi en gömlu íhaldsúrræðin? Hvar eru nú spor Alþb. í íslensku þjóðfélagi eftir bráðum þriggja ára valdasetu? Hvar eru nú nýju hugmyndirnar? Hvar eru hin stórkostlegu framfaraspor sem þessi byltingasinnaði, nýjungagjarni flokkur að eigin sögn hefur skilið eftir sig?

Er að finna stað fyrir því t. d. í frv. hæstv. fjmrh. þar sem meginstefnumarkandi atriðið var að afnema gjöld af atvinnurekendum í eigin atvinnurekstri? Var það kannske hið stefnumarkandi framlag Alþb. til þessara mála? Hvar sér þess merki, herra forseti, að þessi flokkur verkalýðshreyfingar, þjóðfrelsis og ég veit ekki hvað og hvað hafi setið í ríkisstj. í þrjú ár? Hvergi. Hvergi nokkurs staðar nema í einu — og hvað er það? Jú, þessi flokkur hefur beitt áhrifum sínum í ríkisstj., neitunarvaldinu sem hv. formaður flokksins hefur, til þess að stöðva í ríkisstj. allar hugmyndir manna, sem þar eru frá öðrum flokkum, um einhverjar nýjungar, t. d. í íslensku atvinnulífi. Það eru einu sporin sem eftir þennan flokk standa. Hann hefur beitt áhrifum sínum í ríkisstj. til þess að koma í veg fyrir framgang hugmynda manna þar t. d. um nýtingu hinnar miklu íslensku orku til þess að undirbyggja okkar atvinnulíf með frekari atvinnustarfsemi. Þetta eru einu sporin sem þessi flokkur hefur skilið eftir sig á þessum tíma sem hann hefur setið í ríkisstj. Allt, sem flokkurinn hefur látið frá sé.r fara hefur verið það sem einu sinni var kallað „gömlu íhaldsúrræðin“: Vísitölufalsanir með þriggja til sex mánaða millibili, kauplækkun um 7%, skattahækkanir o. fl., o. fl., o. fl. Það mætti halda að ráðherrar Alþb. hefðu í skúffunum í rn. sínum fundið hernaðaráætlanir Geirs Hallgrímssonar sem skildar voru eftir þegar íslenskir kjósendur felldu ríkisstj. íhaldsins og Framsfl. vorið 1978, og hefði gert þessar hernaðaráætlanir að sínum, vegna þess að ég er sannfærður um að hver einasti alþýðumaður, sem kaus þennan flokk, sér engan mun í raun og veru, hvort sem hann vill viðurkenna það opinberlega eða ekki, á því, sem þessi ríkisstj. er að gera og hefur verið að gera, og ríkisstj. var að gera sem við Alþb.-menn og Alþfl.-menn felldum saman í kosningum vorið 1978. Og það virðist vera alveg sama hvað á gengur í þjóðfélaginu. Það virðist vera alveg sama hvaða aðgerðir eru orðaðar við Alþb., hvort það er kauplækkun með lögum eða annað, hvort það er brot á samningum, sem ráðherrar Alþb. skrifa sjálfir undir eigin hendi, með einhliða valdbeitingu nokkrum vikum eftir að undir þá samninga er ritað. Það er alveg sama hvað við þessa menn er orðað, ávallt skulu þeir meta meira áframhaldandi setu sína í stjórnarstólum heldur en hagsmuni þeirra sem þeir þóttust vera að vernda í síðustu kosningum.

Herra forseti. Að lokum vil ég í þessu sambandi aðeins benda á eina mjög athyglisverða staðreynd: Alþb. hefur nú setið í nokkrum ríkisstj. á Íslandi. En það hefur aldrei í öll þau skipti komið fyrir, að Alþb.-menn hafi risið á fætur þegar átt hefur að láta þá samþykkja hluti, sem hafa gengið gegn hagsmunum umbjóðenda þeirra, og sagt: Nei, við metum trúnaðinn við kjósendur okkar meira en áframhaldandi valdasetu. — Það hefur aldrei gerst, að Alþb. hafi farið úr ríkisstj. á Íslandi vegna þess að það hafi ekki fengist til þess að samþykkja kjararán og aðrar aðgerðir sem gegn hagsmunum umbjóðenda þess hafi gengið. Og það sem meira er: Alþb. hefur aldrei haft við orð að ganga úr ríkisstj. af þeim sökum. Flokkurinn hefur ávallt metið meira áframhaldandi valdasetu sína heldur en að varðveita trúnað við kjósendur sína. Og svo langt er þetta gengið að formaður þingflokks Alþb. hefur það nú við orð við herstöðvarandstæðinga, sem eru meðal helstu fylgismanna hans í mörg ár, að það sem í gangi sé af hálfu hins vestræna kapítalisma í sambandi við hugsanlegar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, sé samsæri gegn Alþb., það séu hugmyndir um framkvæmdir sem séu eingöngu til þess ætlaðar að hrekja Alþb. úr ríkisstj. á Íslandi og þessu eigi Alþb. auðvitað að bregðast við af hinni mestu hörku og láta ekki þetta samsæri hins vesturheimska kapítalisma ná fram að ganga. Hvernig á Alþb. að bregðast við? Jú, með því að samþykkja þetta allt saman og láta hinn vesturheimska kapítalisma ekki ná þeim árangri að hrekja Alþb. úr ríkisstj. vegna slíkra framkvæmda á flugvellinum.

Svona afsakanir, sem engum manni gæti dottið í hug nema Alþb.-manni eru hafðar uppi gagnvart kjósendum og flokksfólki Alþb. þegar ráðherrar og þm. Alþb. eiga um það að velja annars vegar að varðveita trúnað við kjósendur sína, flokksstefnu og yfirlýsingar og hins vegar að varðveita trúnaðinn við eigin metnað. Og hvernig, herra forseti, halda menn að ýmsum ágætum óbreyttum þm. Alþb. sé farið að líða, mönnum sem eiga að sækja fylgi sitt t. d. á almenna vinnustaði hér í Reykjavík, hafa verið þar tíðir gestir og hafa í gegnum árin barist á þessum vinnustöðum fyrir því sem hefur verið sannfæring þeirra og þeir hafa haldið að væri stefna flokks þeirra? Hvernig halda menn að þessum mönnum sé farið að líða nú, mönnum eins og t. d. hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni? Halda menn að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson finni ekki fyrir því, hvers konar andi er orðinn á vinnustöðunum gegn hinum svokölluðu verkalýðsforingjum Alþb.? Haldið þið að hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni sé t. d. ekki kunnugt um skoðun hins gamla foringja Alþb., Lúðvíks Jósepssonar, á veru Alþb. í þessari ríkisstj. og framferði Alþb. þar?

Ég ætla ekki, herra forseti, að leggja hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni nein orð í munn í þessu sambandi. En menn, sem eitthvað þekkja til hans, þurfa ekkert að velkjast í vafa um hans hugleiðingar í þessu sambandi. Og ætli það séu ekki fleiri menn sem hafa sömu áhyggjur og hv. þm., — menn sem sóttir hafa verið t. d. á haf út og sóttir sérstaklega í bátabylgjuna til þess að lesa yfir alls konar skammir, vammir og svívirðingar af þessum nýju forustumönnum Alþb. sem ráða nú öllum ríkjum af hálfu flokksins, m. a. hér í þinginu? Ætli niðurstaða þeirra innra með sér sé nú ekki ósköp svipuð og niðurstaða hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar þó að þeir hafi ekki enn þá haft orð um það.

Þess vegna segi ég þetta, herra forseti, að mér er kunnugt um að ýmsir þm. Alþb. eru sömu skoðunar og við Alþfl.-menn, að í verðbólguástandi eins og verið hefur í okkar landi, þar sem er næsta algengt að verðhækkanir séu um 40–60% frá upphafi til loka árs, sé tómt mál að tala um að það sé hægt að varðveita peningalaunahækkanir, sem menn fá eftir erfiða samninga, lengur en e. t. v. í nokkrar vikur. Þetta vitum við allir, þ. á m. ýmsir þm. Alþb., hvort sem menn vilja viðurkenna það eða ekki. Þó svo menn fái 10, 15 eða 20% hækkun á peningalaunum sínum eftir erfiða samninga sem kannske standa mánuðum saman, þá ganga menn raunverulega út frá því sem gefnu, og það er blindur maður sem er ekki farinn að sjá það, að slíkar peningalaunahækkanir eru innihaldslausar, færa enga raunverulega kjarabót því að verðbólgan verður búin að taka þessar hækkanir aftur allar saman og jafnvel meira til á nokkrum vikum.

Það er langt síðan Alþfl.-menn, bæði á Alþingi og í verkalýðshreyfingu gerðu sér þetta ljóst. T. d. um kjarasamninga, sem gerðir voru síðasta haust, höfðum við þá skoðun og þeirri skoðun var fylgt mjög eftir af forustumönnum Alþfl. í verkalýðshreyfingunni, að það væri miklu nær og miklu líklegra til árangurs varðandi kjarabætur fyrir allan almenning í landinu að fá fram verulegar umbætur á skattamálum og verulegar skattalækkanir fyrir almennt launafólk frekar en innihaldslitlar peningalaunahækkanir, sem ríkisvaldið tæki síðan aftur með einhliða aðgerðum nokkrum vikum síðar.

Ýmsir af forustumönnum Alþb. í verkalýðshreyfingunni, þ. á m. hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, hafa lengi verið sammála þessu. En þeir eru í minni hl. í sínum flokki og meðal forustumanna verkalýðshreyfingarinnar þannig að peningalaunastefnan, hin innihaldslausa stefna peningalaunahækkana sem jafnóðum brenna upp á verðbólgubálinu, varð ofan á í þessari samningagerð. Og hver varð niðurstaðan? Niðurstaðan varð sú, að með brbl. sínum frá því á gamlársdag tók ríkisstj. allar þessar kjarabætur aftur, felldi nánast samningana úr gildi með einu pennastriki og þær peningalaunahækkanir, sem samið var um í kjarasamningum s. l. haust, eru nú að engu orðnar og öll sú barátta hefur verið unnin fyrir gýg. Skyldi nú ekki hafa verið betra að fallast á tillögur okkar Alþfl.-manna þá, að verkalýðshreyfingin í þessu sambandi legði meiri áherslu á raunhæfar kjarabætur, t. d. í formi stórlækkaðra skatta, heldur en innihaldslausar peningalaunahækkanir? Ætli reynslan sé ekki enn búin að sannfæra okkur um það? En það er í þessum málum eins og öðrum, þó svo menn reyni að leggja fram nýjar hugmyndir á þessu sviði, á skattamálasviðinu, þá er það enn og aftur Alþb. sem er dragbíturinn á slíkt. Það er flokkurinn sem stendur gegn öllum breytingum í þá átt, og skiptir þá engu máli þó að vel metnir verkalýðsleiðtogar þar í flokki, eins og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson og fleiri, séu okkur Alþfl.-mönnum innilega sammála um að raunhæfustu aðferðirnar til þess að tryggja varanlegan kaupmátt launafólks séu á skattasviðinu. Afturhaldshyggjan er svo rík í Alþb. að jafnvel á þessa vel metnu flokksmenn þess flokks er ekki einu sinni hlustað.

Herra forseti. Lögin nr. 40 frá 1978, sem hafa nú verið til framkvæmda við álagningu tekju- og eignarskatts í heilt ár, eru á margan hátt mjög merkileg lagasetning. Hér er um mörg nýmæli í lögum að ræða og tilraun sem ég veit ekki til að gerð hafi verið annars staðar, a. m. k. í nálægum löndum, til að samræma skattaálagningu tekjuskatts og eignarskatts þeirri óðaverðbólgu sem landlæg er á Íslandi þannig að menn geti ekki notað þessa óðaverðbólgu til þess að auka enn frekar mismun skattlagningar á milli einstaklinga heldur en þó skattalögin áður höfðu heimilað. Það er búið að gera margar tilraunir til þess að lappa upp á gildandi tekju- og eignarskattskerfi. Það er nokkuð síðan við Alþfl.-menn komumst að þeirri niðurstöðu, að þessar tilraunir til að lappa upp á þetta kerfi, sem er bæði dýrt og flókið, mundu aldrei svara kostnaði, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mundi aldrei takast að stoppa svo upp í götin á tekjuskattskerfinu að það byði ekki ávallt upp á bæði löglega og ólöglega mismunun í skattamálum sem gerði skattalegt misrétti milli þegna þjóðfélagsins sífellt meira. Niðurstaða okkar fyrir einum tólf árum, Alþfl., var sú, að þessar uppálappingar væru tilgangslausar og reynslan hefði sannað að tekjuskattskerfið væri ekki lengur það tæki til tekjujöfnunar, sem því var ætlað að vera, og skipti ríkissjóð tekjulega séð í raun og veru litlu máli svo það væri rétt að hverfa frá tilraunum til sífelldra uppálappinga upp á þetta gallaða kerfi, en taka heldur upp þá stefnu að fella niður tekjuskatt af almennum launatekjum, en leggja þeim mun meiri áherslu á skattlagningu eyðslunnar sem tekjuöflunartæki fyrir ríkissjóð.

Ef svo ólíklega vill til, sem ekki eru nú mörg dæmi um, að menn, sem hafa verulegar tekjur, verji þeim ekki í eyðslu, þá er það vissulega dyggð sem þjóðfélaginu ber að verðlauna. En það er skoðun okkar Alþfl.-manna og sannfæring mín, að með því að leggja áherslu á eyðslu einstaklingsins sem skattstofn fremur en tekjur hans sé hægt að ná mun réttlátara skattálagningarkerfi heldur en með þeim aðferðum sem menn hafa reynt og reyna enn með skattlagningu á framtöldum tekjum manna, þar sem vitað er að menn hafa ýmis úrræði, bæði lögleg og ólögleg, til þess að komast hjá slíkri skattlagningu.

Út af fyrir sig, herra forseti, eru þetta engin nýmæli okkar íslenskra Alþfl.-manna sem ég í þessu sambandi er að ræða um. Fyrir allmörgum árum kom þáv. formaður norska jafnaðarmannaflokksins, Trygve Bratteli, hingað til Íslands og flutti erindi um skattamál á vegum Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur þar sem hann lýsti að norskir jafnaðarmenn hefðu komist að sömu niðurstöðu og íslenskir í þessum málum.

Þrátt fyrir að það sé skoðun okkar, að reynslan muni leiða í ljós að ítrekaðar tilraunir Alþingis til þess að lappa upp á tekjuskattskerfið, m. a. til þess að reyna að draga úr hinu mikla misrétti sem þetta kerfi býður upp á, þrátt fyrir að það sé skoðun okkar, að þær tilraunir muni ekki takast og því sé réttara gagnvart öllum almenningi að ganga einfaldlega út frá því sem gefnu að almennar launatekjur séu ekki skattlagðar, en ríkið sæki tekjur sínar í skattlagningu á eyðslu, — þrátt fyrir það að þetta sé skoðun okkar og niðurstaða, þá teljum við engu að síður að tekjuskattslögin nr. 40 frá 1978 séu mjög merkileg tilraun til að reyna að aðhæfa skattlagningarreglur að mikilli óðaverðbólgu. Og það eru ýmis nýmæli í þessum skattalögum sem við teljum mjög til bóta og teljum forvitnilegt að sjá hvernig reynast muni í ljósi þeirrar álagningar sem fram hefur farið og fram mun fara. Þess vegna er út af fyrir sig ekki minna merkileg en samþykktin sjálf á lögunum, nr. 40 frá 1978, sú samstaða, sem tekist hefur hér í þinginu um afgreiðslu þeirrar merkilegu lagasetningar, og þær breytingar, sem síðan hafa verið á henni gerðar milli þingflokkanna, svo umdeild sem skattamálin eru. Og út af fyrir sig má næstum kalla það kraftaverk, að hér í þinginu skuli hafa verið hægt að ná sæmilegu samkomulagi milli allra flokka þingsins um afgreiðslu jafnmerkilegs skattamáls og lög nr. 40 frá 1978 eru og allar höfuðbreytingar sem á þeim hafa verið gerðar síðan.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesen áðan þegar hann færði formanni fjh.- og viðskn. þessarar deildar, hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni, sérstakar þakkir fyrir þátt hans í því máli. Hv. þm. hefur ekki aðeins átt hvað drýgstan þátt í því, að þetta samkomulag gat orðið núna á þessu þingi, hann átti ekki síður mikinn þátt í slíkri samkomulagsgerð á s. l. vetri, bæði í tíð minnihlutastjórnar Alþfl. og þeirrar ríkisstj. sem nú situr. Þó svo að þessi hv. þm. tilheyri andstöðuflokki mínum, sem er í ríkisstj., á meðan minn flokkur er í stjórnarandstöðu, þá finnst mér rétt að skýra frá því áliti mínu, að ég tel að enginn þingmanna né ráðh. eigi jafnmikinn þátt í því og hann, hv. þm., að samkomulag og samstaða skuli hafa tekist milli flokka þingsins um þetta mikla mál, og vil ég færa honum sérstakar þakkir fyrir hans þátt í afgreiðslu þessara skattamála.

Sama vil ég gjarnan mega segja um deildarstjóra í fjmrn., Árna Kolbeinsson, sem unnið hefur með nefndinni og lagt sig fram um að skila sínu mikla starfi þar með sem bestum hætti og ávallt verið okkur nm., jafnt stjórnarandstæðingum sem stjórnarsinnum, mjög nýtur og þarfur til allra ráðlegginga, hjálpar og aðstoðar sem við höfum þurft til hans að sækja.

Þessum tveimur mönnum, formanni nefndarinnar og Árna Kolbeinssyni, færi ég sérstakar þakkir og ég veit að ég tala þar fyrir hönd nm. allra.

Frv. það, sem lagt var fyrir Nd. Alþingis sem 290. mál þessa þings og við fjöllum nú um, skiptist í meginatriðum í fernt.

Í fyrsta lagi var þar um að ræða almennar leiðréttingar og umorðanir vegna reynslu sem fengist hafði af framkvæmd hinna nýju skattalaga.

Í öðru lagi voru þar ákvæði um talsverðar ívilnanir og leiðréttingar á skattlagningu, einkum og sér í lagi ákveðinna hópa. Sem dæmi um slíkar ívilnanir og leiðréttingar má nefna ákvæði 8. gr. frv. um niðurfellingu gildandi ákvæða um skattskyldan eignaauka af aukavinnu sem maður leggur fram utan venjulegs vinnutíma til að byggja eigið íbúðarhúsnæði, ákvæði 11. gr. um heimild til frádráttar á helmingi greiddrar húsaleigu vegna leigu á íbúðarhúsnæði til eigin nota, sem er nýmæli í lögum, og fleira af því tagi.

Meginatriði frv. voru hins vegar tvö: Annars vegar till. ríkisstj. um skattstiga og persónuafslátt í 24. og 25. gr. frv. Það var annað aðalefni frv. Hitt aðalefni þess voru till. ríkisstj. um fráhvarf frá einu af merkustu meginatriðum gildandi skattalaga. Er þar átt við till. ríkisstj. um niðurfellingu reiknaðra launa þeirra sem við eigin atvinnurekstur starfa eða sjálfstæða starfsemi hafa með höndum. Eitt merkasta nýmæli laga nr. 40 frá 1978, um tekjuskatt og eignarskatt, var tilraun sem gerð var í þeim lögum til þess að láta atvinnurekendur og aðra þá, sem hafa tekjur af sjálfstæðri starfsemi, borga opinber gjöld til jafns við einstaklinga og aðila sem vinna í sambærilegum störfum sem launþegar hjá öðrum. Nú er það alveg ljóst, hvort sem menn geta lagt á borðið sannanir fyrir því eða ekki, að talsvert hefur verið um það, að menn, sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri, hafi sloppið miklu betur frá skattgreiðslum heldur en skattborgarar sem sinnt hafa sambærilegum störfum, en verið launþegar hjá öðrum. Með ákvæði 7. gr. og 59. gr. í hinum nýju skattalögum frá 1978 var gerð meðvituð tilraun til að lagfæra þetta þannig að skattstjórum var gert skylt að miða við sérstök reiknuð laun hjá þessum aðilum sem væru af svipaðri fjárhæð og ætla mætti að þeir hefðu fengið sem launþegar ef þeir hefðu stundað sambærilega vinnu hjá öðrum en sjálfum sér.

Eina skattalega nýmælið í frv. fjmrh. Alþb., sem lagt var fram hér í vetur, var að þessi ákvæði um skattlagningu á atvinnurekendur skyldu felld niður og innleitt á ný það sem almenningur hefur kallað „vinnukonuútsvörin“ á þessa menn. Það var eina meiri háttar stefnumótandi till. sem frá fjmrh. Alþb. kom og brá nú mörgum í brún. Við þm. Alþfl. héldum með okkur fund, um leið og frv. þetta kom fram, og samþykktum þar allir sem einn alfarið andstöðu gegn þessum hugmyndum fjmrh. Við vorum eini flokkur þingsins sem það gerði, sem frá upphafi hefur verið og er enn andvígur því, að þessi ákvæði um skattlagningu á reiknuð laun til þeirra, sem stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og hafa tekjur af eigin atvinnurekstri, skyldu felld niður. Þessari afstöðu okkar lýsti ég við 1. umr. um þetta mál í þessari deild, og ég ítreka: Alþfl. var eini flokkur þingsins sem var andvígur þessu. Okkur var kunnugt um að í ýmsum öðrum þingflokkum voru menn sem töldu mjög varasamt að fella þessi ákvæði úr gildandi lögum, og í fjh.- og viðskn. beggja deilda höfum við fulltrúar Alþfl. lagt okkur fram um að reyna að ná samkomulagi við nm. um að þessi ákvæði gildandi skattalaga fengju að standa, en yrðu ekki felld niður eins og ríkisstj. og fjmrh. lögðu til. Og það tókst samstaða um þetta. Það tókst samstaða milli fjh.- og viðskn.-manna í Nd. Alþingis um að leggja til að till. ríkisstj. um afnám reiknuðu launanna í gildandi skattlagningarákvæðum yrðu felldar og efnisatriði þessarar greinar yrðu látin standa í skattalögum, með sjálfsögðum breytingum sem gera þurfti vegna ýmissa framkvæmdamisbresta sem fram höfðu komið og var það ekki á nokkurn hátt meginefni ákvæðanna.

Við Alþfl.-menn, sem frá upphafi höfum haft ákveðna stefnu í þessum málum, erum að sjálfsögðu ánægðir með að samkomulag skuli hafa orðið um að þessi stefna, sem við lögðum áherslu á að varðveitt yrði, skyldi fá að standa að mestu óhögguð. Vil ég enn færa samnm. mínum þakkir fyrir það, að samkomulag skuli hafa tekist. Að sjálfsögðu erum við Alþfl.-menn ánægðir með það.

Þær brtt., sem gerðar eru á ákvæðum þessara greina og samstaða er um í fjh.- og viðskn., breyta á engan hátt eðli þeirra og inntaki. Það er varðveitt þannig að tryggilega ætti nú að vera frá því gengið, að aðaltilgangur þessara greina verði varðveittur í íslenskri skattalöggjöf a. m. k. um nokkra hríð. Hins vegar vil ég að fram komi að að sjálfsögðu var rétt í ljósi ýmissa upplýsinga um misbresti, sem orðið höfðu við framkvæmd þessarar greinar, að gera nokkrar breytingar á orðalagi þeirra sem breyta samt sem áður ekki neinu um efnisinntakið. Svo maður noti orðalag almennings er séð fyrir því, að „vinnukonuútsvörin“ eru ekki innleidd aftur.

Eins og fram kemur í sameiginlegu nál. fjh.- og viðskn. Nd. náðist ekki samkomulag í nefndinni um ýmis önnur atriði frv. Mikilvægust af þeim eru ákvæði 24. og 25. gr. um persónuafslátt og skattstiga. Ég flyt sérstakar till. um hvort tveggja þetta á sérstöku þskj.

Eins og kunnugt er og ég rakti áðan hefur það verið nú um nokkuð langan aldur stefna Alþfl., að afnema beri tekjuskatt af almennum launatekjum. Rökstuðningur okkar fyrir þessari afstöðu er löngu kunnur og þarf ekki að endurtaka hann hér. En sífellt fleiri hafa komist á þá skoðun, að þessi niðurstaða okkar Alþfl.-manna sé rétt, ekki síst sökum þess, eins og ég sagði áðan, að flestallar tilraunir til að lappa upp á tekjuskattskerfið og eyða þeirri grófu mismunun og misrétti, sem þetta kerfi býður upp á, hafa ekki tekist sem skyldi og alkunna er að tekjuskatturinn er ekki lengur það tæki til tekjujöfnunar sem honum er ætlað að vera. Þm. Alþfl. hafa á undanförnum árum gert ítrekaðar till. um breytingu á tekjuöflunarkerfi hins opinbera og útgjöldum ríkissjóðs í því skyni að afnema tekjuskatt á almennum launum í áföngum, koma á staðgreiðslu opinberra gjalda, breyta söluskatti á síðasta stigi viðskipta yfir í virðisaukaskatt og einnig til þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Nú síðast lagði Alþfl. fram till. sínar um þessi efni fyrir Alþingi í tíð ríkisstj. Benedikts Gröndals, veturinn 1979 og 1980, og einnig nú í vetur við afgreiðslu brbl. ríkisstj. frá gamlársdegi 1980.

Í skattstigafrv., sem ég lagði fram í nafni minnihlutastjórnar Alþfl. árið 1980, var ráð fyrir því gert, að tekjuskattur af almennum launatekjum yrði felldur niður í tveimur jöfnum áföngum á tveimur árum. Með hliðsjón af upplýsingum Þjóðhagsstofnunar, sem okkur voru þá gefnar um meðaltekjur heimila kvæntra verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna á árinu 1979, var áætlað að meðallaunþegafjölskylda hefði á því ári haft u. þ. b. 7 millj. kr. í tekjur, og gerð var áætlun um líklega tekjuskiptingu milli hjóna. Samkv. till. í skattstigafrv. minnihlutastjórnar Alþfl. var gert ráð fyrir að slík meðallaunafjölskylda með 7 millj. kr. í tekjur á árinu 1979 yrði tekjuskattslaus í tveimur jafnstórum áföngum á tveimur árum, álagningarárinu í fyrra og álagningarárinu í ár. Hvor skattalækkunaráfangi um sig hefði kostað ríkissjóð um 9 milljarða kr. á þáverandi verðlagi og var ráð fyrir því gert í minnihlutastjórn Alþfl., að sú tekjuskattslækkun kæmi þar að fullu fram.

Frv. okkar um skattstiga var ekki samþykkt, heldur samþykkti Alþingi annað skattstigafrv. frá núv. ríkisstj. sem hafði í för með sér verulega hækkun skatta frá fyrra ári og mikla skattahækkun frá skattstigatillögum minnihlutastjórnar Alþfl. Er nú svo komið að skattbyrði beinna skatta, þ. e. álagðir skattar í hlutfalli af tekjum álagningarárs, varð meiri á s. l. ári en dæmi eru um frá fyrri árum og greiðslubyrði beinna skatta, þ. e. álagðir skattar í hlutfalli af tekjum greiðsluárs, hefur aðeins einu sinni á s. l. tveimur áratugum verið hærri en í fyrra.

Í sambandi við aðgerðir ríkisstj. Gunnars Thoroddsens í efnahagsmálum, þ. e. lækkun launa um 7% 1. mars s. l., hét ríkisstj. því að gera ráðstafanir í skattamálum sem lækkuðu skattlagningu frá skattlagningu ársins 1980 um sem nemur 1.5% í kaupi. Til þess að svo gæti orðið þyrfti ríkisstj. að lækka tekjuskatt og aðra beina skatta um 24–25 milljarða gkr. frá áætlun fjárlaga. Ríkisstj. hefur hins vegar ekki staðið við þetta fyrirheit sitt, heldur lækkað skattana frá áætlun fjárlaga um aðeins tæpan helming þeirrar upphæðar eða um 11 milljarða gkr., en það nægir aðeins til þess að tryggja að byrði beinna skatta verði ekki meiri 1981 en hún var 1980, en dugar ekki til að lækka þá skattbyrði. Þetta kemur m. a. fram í nýlegri áætlun Þjóðhagsstofnunar um breytingar á skattbyrði beinna skatta sem nm. í fjh.- og viðskn. hefur borist. Miðað við verðlagsforsendur ríkisstj. er þannig ekki gert ráð fyrir að greiðslubyrði beinna skatta í ár lækki svo nokkru nemi frá árinu í fyrra og yfirlýsing ríkisstj. um skattalækkun sem nemi sem svari 1.5% í kaupi er því fölsun. Greiðslubyrði beinna skatta á yfirstandandi ári verður sú sama og hún var á s. l. ári, og á s. l. ári var greiðslubyrði beinna skatta sú hæsta sem hún hefur orðið s. l. 20 ár.

Tillögurnar, sem ég hef gert til þess að reyna að mæta sjónarmiði Alþfl. og hugmyndum um breytingar á skattstigum og afnámi tekjuskatts af almennum launatekjum í áföngum, eru þær, að miðað við tekjur ársins 1980, þ. e. tekjur þær sem á verður lagt nú í vor, verði greiddar af skattskyldum tekjum í tekjuskatt sem hér segir: Af fyrstu 4 millj. 20%, af tekjum á bilinu 4–9 millj. 30%, tekjum 9–12 millj. 45% og tekjum yfir 12 millj. 50%. Persónuafsláttur verði 6600 nýkr. sem nýtist til greiðslu allra opinberra gjalda, og sá persónuafsláttur, sem þá kynni enn að vera ónýttur, greiðist út til gjaldanda, allt að 2200 kr.

Tilgangurinn með þessum till. er tvíþættur: Í fyrsta lagi að ná því yfirlýsta markmiði Alþfl. að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum í áföngum, og miðast till. mínar við að slíkt afnám tekjuskatts af almennum launatekjum verði í tveimur jöfnum áföngum á tveimur árum, í ár og á næsta ári, með sama hætti og til l. Alþfl. frá síðasta ári gerðu ráð fyrir. Í öðru lagi eru þessar till. miðaðar við að ónýttur persónuafsláttur skuli fyrst ganga upp í öll opinber gjöld skattþegns og maka hans nema fasteignagjöld, en ekki aðeins upp í hluta þeirra eins og till. ríkisstj. gerir ráð fyrir, og auk þess að ónýttur persónuafsláttur, sem þá kynni að verða eftir, verði greiddur út til fólks yfir 25 ára að aldri, allt upp í 2200 nýkr., en þó ekki til atvinnurekenda. Þessi till. um útborganlegan persónuafslátt er fyrst og fremst til hagsbóta fyrir lágtekjufólk, sjúklinga, námsmenn og aðra þá sem mjög litlar tekjur hafa og eiga í vök að verjast í hinu verðbólgusjúka þjóðfélagi okkar.

Samkv. upplýsingum Reiknistofnunar Háskólans eru meðaltekjur hjóna ás. l. ári 105–115 þús. nýkr. og er þá átt við fjölskyldur af meðalstærð og meðalskiptingu á tekjuöfluninni milli manns og konu. Í till. okkar um tekjuskattstiga er gert ráð fyrir að meðalfjölskylda, sem hefur í tekjur það sem ætla má að séu almennar launatekjur, lækki í tekjuskatti um 1700–2400 nýkr. frá till. ríkisstj. vegna skattaálagningarinnar nú í vor og með samsvarandi ákvörðun skattstiga á næsta ári og till. er nú gerð um verði þessi meðalfjölskylda orðin tekjuskattslaus með þau laun sem hún hlýtur og teljast til meðalárslauna meðalfjölskyldna í ár samkv. upplýsingum Reiknistofu Háskólans.

Með þessum hætti er þannig ráðrúm til að ná tilgangi Alþfl. um niðurfellingu tekjuskatts af almennum launatekjum í tveimur áföngum á tveimur árum án þess þó að kostnaðurinn sé ofviða ríkissjóði. Munurinn á þessum skattstigatillögum okkar annars vegar og skattstigatillögum ríkisstj. hins vegar er ekki nema u. þ. b. 15 milljarðar gkr., en ég vil taka það fram, að við Alþfl.-menn höfum nú í vetur, t. d. við afgreiðslu fjarlaga, flutt till. um sparnað, frestun framkvæmda og niðurskurð útgjalda hjá ríkissjóði sem gera miklu meira en nema þessari upphæð sem yrði tekjutap ríkissjóðs vegna afnáms tekjuskatts af almennum launatekjum í tveimur áföngum. Með þessu höfum við enn einu sinni sýnt fram á að mætavel er unnt að afnema hinn rangláta tekjuskatt af öllum almennum launatekjum í áföngum í ár og á næsta ári án þess að það verði ríkissjóði fjárhagslega ofviða.

Auðvitað er, herra forseti, með ýmsum dæmum hægt að sýna fram á frekari mismun á skattstigatillögum okkar um afnám tekjuskatts af almennum launatekjum og tillögum ríkisstj. hins vegar, og er það gert í nál. mínu á þskj. 833. En ég vil ekki lengja þennan ræðutíma minn með því að nefna frekari dæmi þar um, annað en það eitt, að þetta þýðir það að skattsleysismörk venjulegrar launþegafjölskyldu með meðaltekjur hækka um u. þ. b. 1 millj. kr.

Á þskj. 817 flytjum við fjórir nm. í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar sérstakar brtt. við frv. ríkisstj. sem eru þess efnis, að eftir álagningu hverju sinni, eftir að hún hefur farið fram, skuli skattstjórar leggja fram skrá um álagningu allra opinberra gjalda í hverju sveitarfélagi og hafa þessar skattskrár liggjandi frammi hjá sér tilsettan tíma. Samkv. núgildandi lögum var þeirri reglu breytt, sem hefur verið lengi viðhöfð, að gefa út skattskrá strax að álagningu lokinni. Til þess var ætlast að skattskrá kæmi ekki út fyrr en ekki aðeins væri lokið við að leggja á, heldur einnig úrskurða um öll vafa- og kæruatriði. Skattskrá fyrir álagninguna, sem fram fór á s. l. vori, hefur enn ekki komið fram, og almenningur hefur þess vegna engar upplýsingar getað fengið, sem hann áður gat haft aðgang að, um hvernig sú álagning kom fram gagnvart viðkomandi og ýmsum öðrum aðilum.

Við getum fallist á það, flm. þessarar till., að það sé rétt að gefa út skattskrá þá fyrst þegar lokið er allri meðferð skattyfirvalda á vafaatriðum og kæruúrskurðum, þá fyrst verði hin raunverulega skattskrá gefin út eins og niðurstaðan er orðin að lokinni álagningu og að lokinni meðferð allra kærumála. Hins vegar finnst okkur rétt og sjálfsagt og í þágu almennings, m. a. varðandi almenna upplýsingastarfsemi og upplýsingaöflun, m. a. um eigin skattamál, að að álagningu lokinni leggi skattstjórar fram t. d. á skrifstofum sínum álagningarskrá, skrá yfir öll álögð opinber gjöld í hverju sveitarfélagi og þar geti menn, sem áhuga hafa á, gengið að þessum upplýsingum sem er sjálfsagt og eðlilegt að fram séu lagðar, en hin endanlega skattskrá verði síðan gefin út þegar lokið sé meðferð allra kærumála eins og í lögunum stendur.

Við flm. þessarar brtt. gerum okkur það ljóst, herra forseti, að vegna þess, hve seint skattamálin eru á ferðinni núna, það er verið að afgreiða skattstiga o. fl. nú í dag þegar kominn er 14. dagur maímánaðar og eðlilegur frestur löngu liðinn, þá gæti orðið erfitt að koma við framlagningu sérstakrar álagningarskrár við álagningu í vor vegna þess hve öll mál eru seint á ferðinni. Við gerum því till. um í 2. tölul. brtt. á þskj. 817 að þau ákvæði um framlagningu álagningarskrár, sem ég gerði að umtalsefni áðan, komi ekki til framkvæmda fyrr en við álagningu 1982 vegna tekna ársins 1981, gildistökuákvæðum verði frestað um eitt ár.

Herra forseti. Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir brtt., sem ég flyt á þskj. 831 um skattamálastefnu Alþfl., og í annan stað till., sem ég flyt á þskj. 817 ásamt hv. þm. Albert Guðmundssyni, Matthíasi Bjarnasyni og Guðmundi J. Guðmundssyni um framlagningu álagningarskrár.