14.05.1981
Neðri deild: 94. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4394 í B-deild Alþingistíðinda. (4443)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem nm. hafa sagt, þakklæti til formanns fjh.- og viðskn., og sömuleiðis hefur Albert Guðmundsson, hv. 3. þm. Reykv., í leiðinni beðið mig að flytja jafnframt sitt þakklæti, og ég er viss um að nm. almennt eru ánægðir með það samstarf sem hefur verið í nefndinni við mjög erfiðar aðstæður. Það var lagt fram frv. frá ríkisstj. sem var meingallað og hefði kostað mikinn ófrið hér í þingi ef ekki hefði verið reynt að ná samkomulagi um tiltekin atriði, því að nógu mikið er samt eftir af þeirri hlið mála sem ekki næst samkomulag um og vitað var fyrir fram að samkomutag næðist ekki um.

Ég leyfi mér ásamt þremur öðrum þm. að flytja hér skriflega brtt., þeir eru ásamt mér Matthías Á. Mathiesen, Albert Guðmundsson og Sighvatur Björgvinsson, þessa efnis:

„1. Á eftir 13. gr. komi ný grein, svohljóðandi:

a. Á eftir 12. tl. 1. mgr. 31. gr. laganna komi 13. tl., svohljóðandi:

Tillög, sem skattskyldir aðilar samkv. 1. og 2. gr., sem eingöngu reka útgerð og fiskvinnslu, leggja í nýbyggingarsjóð.

Hámark nýbyggingasjóðstillags þessara aðila skal vera 25% af þeirri fjárhæð sem eftir stendur þegar frá tekjum samkv. II. kafla hafa verið dregnar þær fjárhæðir sem um ræðir í 1.–11. tl. þessarar mgr.

b. Í stað 2. mgr. sömu lagagreinar komi svohljóðandi mgr.:

Hvorki er heimilt að mynda rekstrartap né fresta yfirfærslu rekstrartaps frá fyrri árum með frádrætti samkv. 9.–13. tölul. 1. mgr.

2. Við ákvæði til bráðabirgða bætist:

Nú nýtur skattskyldur aðili samkv. 1. og 2. gr. og eingöngu rekur útgerð og fiskvinnslu frádráttar frá tekjum með framlagi í nýbyggingarsjóð, sbr. 1. mgr. 31. gr., 13. tölul., og skal sú upphæð, sem hann ráðstafar þannig, lögð inn á bundinn reikning í viðskiptabanka eða keypt fyrir það opinber verðbréf og þau falin banka til geymslu og skal það gert eigi síðar en 5 mánuðum eftir lok hvers reikningsárs.

Skattaðili ráðstafar sjálfur því fé er hann hefur lagt í nýbyggingarsjóð, en því má eingöngu verja til aukningar og endurnýjunar á framleiðslutækjum á sviði útgerðar, annaðhvort með nýbyggingu eða kaupum á nýjum fiskiskipum. Þó er heimilt að verja fé nýbyggingarsjóðs til að greiða tap ef aðrar eignir hrökkva ekki til fyrir því.

Sé fé nýbyggingarsjóðs ráðstafað á einhvern annan hátt en að framan greinir skal hið ráðstafaða fé hækkað upp um verðbreytingastuðul, sbr. 26. gr., og bætt við tekjur skattaðila ásamt 10% viðurlögum.“

Þessar till. eða tillögudrög voru send fjh.- og viðskn. með bréfi dags. í gær, en þá hafði n. lokið við afgreiðslu málsins fyrir 2. umr. og gengið frá sínum till. Ég hef sýnt flestum nm. eða ráðgast við þá um þetta erindi, en allir hafa þeir fengið það í sínar hendur. En formaður n. og fleiri nm. hafa ekki talið sér fært að gerast meðflm. að þessum till., hafa talið sig þurfa að kanna þær betur og hafa til þess góðan tíma. Um það er ekkert að segja. En við erum hér 4 nm. í fjh.- og viðskn. sem þrátt fyrir tímaskort höfum kynnt okkur efni þessara till. og erum reiðubúnir til að fylgja þessari breytingu á frv.

Það er eðlilegt að slík till. eða ábending til Alþingis komi fram frá Landssambandi ísl. útvegsmanna því að við vitum að það eru gildandi verulegar veiðitakmarkanir á nær öllum fiskstofnum í þeim tilgangi að byggja upp fiskstofnana til þess að þeir geti skilað hámarksafrakstri. Við þessar aðstæður hefur fiskiskipaflotinn reynst of stór og endurnýjun verið takmörkuð. Nokkrar úrbætur hafa verið gerðar í þessum efnum, m. a. með því að stofna Aldurslagasjóð og Úreldingarsjóð til þess að hætta útgerð gamalla og úreltra skipa í því skyni að taka þau skip úr notkun, sem eru óhagstæð, og jafnframt til þess að minnka fiskiskipaflotann.

Því er ekki að reyna, að sérstaklega nú eftir hagstæða vertíð víðast hvar á landinu og alveg sérstaklega hér sunnanlands hefur áhugi á endurnýjun aukist verulega með smíði skipa innanlands og jafnframt og ekkert síður með innflutningi notaðra erlendra fiskiskipa sem fást mjög víða á mjög hagstæðu verði. Ef við ætlum okkur að byggja fiskstofnana upp og minnka veiðitakmarkanir frá því sem verið hefur og nú er má ekki auka fiskiskipaflotann verulega. Við sáum það í síðasta mánuði, þegar mikill afli barst á land þrátt fyrir veiðibannið sem gilti 7 daga í mánuðinum, að ekki verður um það deilt með neinum rökum að flotinn sé nægilega stór til þess að tryggja að við náum hámarksafrakstri með fiskveiðiflotanum eins og hann er núna. Með þessu er ég þó ekki að segja að það eigi ekki að endurnýja á vissum stöðum vissar stærðir skipa, þar sem þau eru orðin gömul og úrelt, með því að taka eldri skip úr notkun, eins og tilgangurinn var og er með Aldurslagasjóði og Úreldingarsjóði.

Með því að gera samþykkt líka þeirri, sem ég er hér að leggja til, er dregið úr þeim mikla fjárfestingaráhuga, sem nú er fyrir hendi, með því að heimila sjávarútveginum sjálfum eða hreinum fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækjum að leggja í nýbyggingarsjóð eins og gert er ráð fyrir með þessari till. Ég tel því að þessi till. sé skynsamleg, hún dragi úr þeim stundaráhuga sem er hjá þessum aðilum, þeir vilji hugsa sér frekar að geyma fjármagn til nokkurra ára og jafna þannig þann mikla áhuga sem nú er.

Einhver kann að segja: Er ekki rétt að þetta nái til allra atvinnugreina? Vissulega má halda því fram. En hinu er aftur við að bæta, að sjávarútvegurinn hefur sérstöðu. Vitaskuld eru fiskiskipin ekki eins varanlega eign og fasteignir í landi. Á þeim mæðir meira og endingartími þeirra er miklu minni en flestra eigna í öðrum atvinnugreinum og þá auðvitað um leið í fiskvinnslunni út af fyrir sig. Ég tel, að þetta geti verið byrjun á öðru meira þegar fram í sækir, og tel, að með samþykkt tillögu sem þessarar mundi Alþingi stíga veigamikið skref til þess að draga úr þeirri miklu spennu sem er, létta stjórnvöldum töluvert ákvarðanatöku, enda er eðlilegt að gefa aðilum, fyrirtækjum og einstaklingum, möguleika til þess sjálfir að byggja upp með eigin fjármagni, en ekki hrópa alltaf á upp í 90% fjármagn frá hinu opinbera, eins og er í sumum tilfellum við smíði fiskiskipa þegar miðað er við innanlandssmíði.

Eitt er það sem hefur ekki komið til umr. hér í dag eða í nefndinni og er fyrst og fremst ákvörðunarefni ríkisstj., en það er skýlaus samþykkt ríkisstj. um áform hennar í stjórnarsáttmálanum frá 8. febr. 1980, en þar segir í kaflanum um ríkisfjármál orðrétt: „Tekin verði upp staðgreiðsla skatta innan tveggja ára.“ Það er ekkert verið að klípa af því þarna í stjórnarsáttmálanum frá 8. febr. 1980, að það á að taka upp staðgreiðslu skatta innan tveggja ára. Nú er sem sagt árið 1980 liðið og á árinu 1981 erum við nú að ljúka þingi, og þá er sjáanlegt að í byrjun næsta árs ætlar ríkisstj. sér samkv. stjórnarsáttmála að taka upp staðgreiðslukerfi skatta. Nú liggur töluvert við að vita, — ef hæstv. ráðh. mega vera að því að sitja í stólunum sem vita um þetta, það er nú einn hérna og ekki sá minnsti, er sjálfur orkuráðh., — hvort hann geti gefið upplýsingar, fyrst fjmrh. er týndur í bili, um hvort þessi áform ríkisstj. standist ekki, að það eigi að taka upp staðgreiðslu skatta, en þá hlýtur það að taka gildi strax 1. febr. á næsta ári, fyrsti gjalddagi skatta vera þá, — eða hefur ríkisstj. lagt þetta áform sitt á hilluna? Hefur hún gengið frá stjórnarsáttmálanum hvað þetta snertir? Mér finnst að Alþingi megi nú ekki eingöngu óska eftir upplýsingum um þetta heldur eigi það skýlausa kröfu á að vita um það við afgreiðslu þessa máls, hvort við þetta á að standa eða ekki. Það er furðuhljótt yfir þessari ákvörðun, sem var tekin við myndun þessarar ríkisstj., í sambandi við þessar umr. Ég er ekki að álasa stuðningsmanni ríkisstj. sem mælti fyrir brtt. við þetta frv., þó að hann sé ekki að gefa einhverjar yfirlýsingar um þetta. Það er auðvitað ríkisstjórnarinnar sjálfrar, ráðh. hennar, að skýra frá því, hvort hér sé um einhverjar breytingar að ræða eða ekki.

Umr. í dag hafa ekki komið mér neitt á óvart að undanskilinni einni ræðu, en það var ræða hæstv. landbrh. Hún kom mér gersamlega á óvart þar sem hann lýsti yfir að hann væri mjög mótfallinn því, að við í fjh.- og viðskn. tækjum hér upp á því að leggja til að 59. gr. svokölluð yrði áfram í gildi, að vísu með mjög mikilvægum breytingum. Hann lýsti því mjög fjálglega, að hann væri á móti því, að tekjur væru áætlaðar á menn, og hann teldi, að hér hafi verið stigið skref aftur á bak, og það var ekki annað að heyra á honum en hann á margan hátt harmaði það samstarf, sem orðið hefur innan nefndarinnar, og þætti það miður. Ég vil nú benda hæstv. landbrh. á það, að þó að 59. gr. væri lögð niður, sem ég og fleiri fluttum frv. um sem vísað var til ríkisstj. og er tekið upp í þessu frv., þá má benda á ýmislegt annað sem ekki er betra en 59. gr., eins og t. d. 3. málsl. 25. gr. þessa frv., sem hljóðar svo: „Hjá mönnum, er vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, skal, áður en ákvæðum 2. mgr. er beitt, hækka tekjuskattsstofn þeirra um þá fjárhæð sem tekjur af þessum störfum eru lægri en ætla má að endurgjald þessara manna miðað við vinnuframlag hefði orðið ef þeir hefðu innt starfið af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila.“ Ég held að framkvæmdavaldinu sé fengið þarna mikið vald í hendur. En það skiptir kannske hæstv. landbrh. höfuðmáli að ekki sé til neitt sem heiti 59. gr., en það megi læða því inn á ýmsum öðrum stöðum. Og það eru fleiri greinar sem hafa verið heldur betur lagfærðar í meðförum nefndarinnar, og ég tel að hafi verið hyggilegt af okkur að ganga til samstarfs í nefndinni um að lagfæra öll þessi tæknilegu atriði í meðferð skattamála.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé óhyggilegt fyrir ríkisstj. og stuðningsflokka ríkisstj. á hverjum tíma að ætla að marka heildarlöggjöf í skattamálum í fullu stríði við stjórnarandstöðu. Ég hygg að það kunni ekki góðri lukku að stýra ef slík vinnubrögð eru viðhöfð, hverjir sem eru í stjórn og hverjir sem eru í stjórnarandstöðu. Það eru hyggilegri vinnubrögð að reyna að ná fram samstöðu, sérstaklega um tæknileg atriði skattamála, eins og hefur verið gert í þessu tilfelli. Hitt er annað mál, að það eru fjölmörg önnur atriði skattamála sem okkur greinir verulega á um, ekki næst samkomulag um og þýddi ekki að eyða tíma í að tala um því að þar er geigvænlegt bil á milli.

Hæstv. landbrh. lét að því liggja, að n. hefði orðið svo ásátt um þetta að eiginlega kæmist ekki hnífurinn á milli okkar, og hann vildi láta líta svo út að hann væri einn af þeim fáu, sem vildu fella niður 59. gr., og væri fyrst og fremst að hugsa um lágtekjufólkið, um smáatvinnurekendurna, sem má svo aftur bæta á í einhverri annarri grein og víðar. En samstaðan um þetta var ekki meiri en svo, að við hefðum getað verið sammála hæstv. ráðh. um að fella 59. gr., en þá hefðu ekki verið gerðar neinar aðrar breytingar. Þá hefðu þeir, sem atvinnurekstur stunda, ekki setið við sama borð og aðrir skattþegnar varðandi 10% frádráttinn. Það eru gerðar verulegar breytingar í 53. gr. til bóta fyrir atvinnurekendur í landinu.

Við segjum einnig í okkar viðbótarnál., sjálfstæðismennirnir: „Framkvæmd þessarar greinar“ — þ. e. 59. gr. — „hefur með margvíslegum hætti verið í mótsögn við þau áform sem vöktu fyrir þeim er að lögfestingu hennar stóðu.“ Margir skattgreiðendur hafa ómaklega orðið fyrir barðinu í framkvæmd þessarar greinar, eins og hv. 6. þm. Reykv., Birgir Ísleifur, lýsti áðan og ég þarf ekki að endurtaka.

Mér fellur að mörgu leyti illa þegar menn á þessum jafnréttistímum eru að tala um vinnukonuútsvör í einhverjum lítilsvirðingartón. Nú er þessi stétt eiginlega búin að vera og ekki lengur til, en talað er í einhverjum niðrunartón um vinnukonuútsvör eða vinnukonuskatta. Ég kann þessu illa og mér finnst ekki sæmandi, ekki þm. og því síður ráðh., að vera með þetta tal og tala jafnframt um að þeir, sem standa sig vel í atvinnurekstri, fari vel út úr núv. skattalögum, en þeir, sem eru verr settir eða mjög illa settir, séu hundeltir, eins og hæstv. ráðh. sagði. Nú vill svo vel til hans vegna, að hann situr í ríkisstj. við hliðina á æðsta manni skattamála, það gengur ekki hnífurinn á milli þeirra í öllu, og nú getur hann beitt áhrifum sínum við æðsta yfirmann skattamála, hæstv. fjmrh., að draga nú verulega úr og hætta að hundelta þessa láglaunahópa í þjóðfélaginu. Þar gæti hann náð töluverðum árangri því að það er mjög hlýtt og gott þarna á milli eins og allir vita.

En hæstv. landbrh. getur gert meira, bæði fyrir smáatvinnureksturinn og ekkert síður fyrir allan almenning, hina almennu launþega í landinu. Hann getur lækkað þá ósanngjörnu skatta sem vinstri stjórnin lagði 1978 t. d. á alla þá sem eiga íbúðarhús. Þá var gripið til þess ráðs að hækka eignarskattana í einu vetfangi um hvorki meira né minna en 50%, úr 0.8 í 1.2%. Þá var núv. hæstv. landbrh. algjörlega á sama máli og allir sjálfstæðismenn eru, að það væri óhóf að haga sér þannig við eignarskattsálagningu að hækka hana í einu vetfangi um 50%. Því var aldrei hreyft í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar 1974–78 af Framsfl. að hækka eignarskattana um 50%, hvað þá meira. En hvað hefur gerst síðan, síðustu tvö árin. Því er haldið við, 1.2% eignarskatti. En það, sem gerist, er að eignarskattsstofninn hækkar ekki í hlutfalli við verðbólguna, við verðstuðulinn. Það, sem gerist, er að nú á hann að hækka um 45 skattvísitölustig á milli áranna 1980 og 1981. Síðustu tvö árin, 1979–81, hefur eignarskattsstofninn engan veginn hækkað í sama hlutfalli og fasteignaskattarnir og fasteignamatið. Má segja að í reynd hafi eignarskattar hækkað um ekki minna en 70% frá því að Sjálfstfl. fór úr stjórn, og það hefur farið versnandi eftir að hæstv. landbrh. kom í ríkisstj. Hann er búinn að bæta um vinstristjórnarmetið frá haustinu 1978. Nú gefst hæstv. ráðh. tækifæri til að leiðrétta þetta misræmi. Við fengum það ekki í gegn í nefndinni og sennilega hafa nm. orðið fyrir einhverjum þrýstingi frá stóru körlunum á bak við frv. En nú getum við Pálmi Jónsson náð saman, nú getum við gert þessa mikilvægu breytingu. Það stendur víst ekki á honum því hann er að hugsa um þá sem minnst mega sín. Það er fallegt af honum og þannig eiga menn að hugsa.

Ég vil benda mönnum á það, að þrátt fyrir þetta takmarkaða samkomulag sem gerist innan nefndarinnar er eftir sem áður óbreytt stefna Sjálfstfl. sú í skattamálum, að heildarskattprósenta beinna skatta miðist ekki við hærri upphæð en 50%. Sú stefna er óbreytt að tekjuskattar verði afnumdir í áföngum á almennum launatekjum, að tekjuskattar verði lækkaðir verulega á láglaunafólki og svigrúm aukið til þess að nýta persónuafslátt til greiðslu opinberra gjalda eins og við flytjum brtt. um, að eignarskattar verði aldrei til þess að hrekja fólk úr eigin húsnæði þó það sé gamalt orðið eða tekjulágt, svolítið er komið til móts við eldra fólkið nú í þessu frv., — og að skattlagning fyrirtækja sé með þeim hætti að það hamli ekki gegn æskilegri uppbyggingu og framþróun atvinnulífsins.

Í samræmi við þessi meginmarkmið í skattamálum flytjum við till., sem hv. 1. þm. Reykn. fylgdi úr hlaði í dag, um breytingu á skattþrepum og skattstigum bæði einstaklinga og fyrirtækja, breytingu á eignarskattstiga og skattfrelsismörkum, eins og ég sagði áðan, og breytingu á skattlagningu hlutafjár og arðs af hlutafé. Sú breyting er nauðsynleg. Það á að örva þátttöku almennings í því að leggja hlutafé fram, og það má gjarnan njóta arðs af því, ekkert síður en að örva fólk til þess að leggja sparifé í banka. Enn fremur er í okkar brtt. ákvæði um breytingu á skiptingu persónuafsláttar til greiðslu opinberra gjalda og breytingar á meðferð vaxta og verðtryggingar á námslánum.

Ég legg á það áherslu, að það er skynsamlegi á hverjum tíma að reyna að ná eins og hægt er samstöðu um allt er lýtur að tæknilegri hlið skattamála og heildarstefnunni. Við deilum vafalaust alltaf um skattstigana, það er ekkert nýtt, og ýmislegt fleira sem hefur verið gert hér að umræðuefni. En af því að ég sé nú að hæstv. fjmrh. hefur staldrað við í þingsalnum um hríð, en orkurh., sem var einn þegar ég gerði hér fsp. áðan, er horfinn, þá vil ég endurtaka þá spurningu mína, hvort það sé ekki fastur ásetningur hæstv. ríkisstj. að halda fast við stjórnarsáttmálann frá 8. febr. 1980 um að tekin verði upp staðgreiðsla skatta innan tveggja ára og hvort þá sé ekki ákveðið frá hendi~fjmrh. að 1982, því þá eru þessi tvö ár liðin, verði tekið til að innheimta eftir staðgreiðslukerfi skatta sem búið er nú að hrekjast í stjórnkerfinu hátt í heilan mannsaldur.