14.05.1981
Neðri deild: 94. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4405 í B-deild Alþingistíðinda. (4447)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég get ekki alveg skilið röksemdaflutning hæstv. ráðh. varðandi fiskimannafrádráttinn. Þó hann kalli alla embættismenn ríkisins til hér í hliðarherbergi þingsalanna breytir það engu um það, að framkvæmdin, eftir að reglugerðin var gefin út, er önnur en hún hefur verið. (Fjmrh: Ekki vilja menn kannast við það.) Þeir, sem borga skattinn, kannast við það, og þeir, sem fá bréfin frá skattstjórunum, kannast við það. Ég veit ekki hvort það kemur afrit af öllum sendibréfum skattstofanna upp í fjmrn. Ég þekki það ekki. En ef ég fer með rétt mál, má ég þá treysta því, að hæstv. fjmrh. muni hjálpa mér til þess að tryggja sömu framkvæmd laganna gagnvart mönnum og verið hefur? Auðvitað vill hann ekki gefa slíka yfirlýsingu af því hugmynd hans er að þrengja kost fiskimannanna. Framkvæmdin er önnur, það er kjarni málsins.

Ég fer fram á að deildin fallist á litla viðbót þess efnis að ráðh. sé óheimilt að þrengja með reglugerð ákvæði laganna um fiskimannafrádráttinn. Ég geri ráð fyrir að bæði formaður Verkamannasambands Íslands, sem sæti á í þessari deild, þm. Norðurl. í heild, sjómenn eins og hv. 4. þm. Suðurl. og ýmsir aðrir muni greiða atkvæði með því að skattalögin haldi gildi sínu gagnvart sjómönnum og þeim sem að útgerð vinna. Ég vil ekki trúa öðru. Ef það, sem ég segi um þessi efni, er rangt, þá breytir þessi viðbót, sem ég legg til, engu. Ef það, sem ég segi, er rétt, þá fá þeir menn, sem ég ber fyrir brjósti, stuðning í þessu gagnvart því að reglugerðin standist ekki. Á þetta verður að reyna.

Ég lýsi yfir vonbrigðum yfir því, að hæstv. fjmrh. skuli ekki gefa það yfirlit um launaþróun á þessu ári sem hann lofaðist til að gefa við 1. umr. málsins. Ég hlýt að harma það. Það var talað um það fyrr í vetur að við 2. umr. yrði nákvæmar farið út í á hvaða forsendum hæstv. ríkisstj. byggði þá fullyrðingu sína, að í þessum skattalögum fælist 1.5% kaupmáttaraukning. Það vita allir þm. að þegar rætt er um 1.5% kaupmáttaraukningu er vitaskuld miðað við launin á þeim tíma sem kaupmáttaraukningin er mæld. Það er alveg sama hvernig skattalögum er breytt á þessu ári, út úr því getur ekki komið kaupmáttaraukning á s. l. ári. Fyrirheitið um áramótin var um að skattbyrðin yrði lækkuð miðað við tekjur greiðsluárs svo mikið að næmi 1.5% í kaupmætti. Engin lækkun á skattgreiðslum hefur enn orðið, ekki ein einasta króna, og getur ekki orðið úr þessu fyrr en á síðari helmingi ársins þegar menn halda áfram að greiða sína skatta á ný. Og spurning mín er afskaplega einföld, var einföld og er einföld: Hvað reiknaði ríkisstj. með mikilli meðaltalshækkun milli ára frá 1980 til 1981 þegar hún ræddi við verkalýðshreyfinguna? Spurning mín til formanns Verkamannasambands Íslands er einföld: Hvað reiknaði hann og aðrir fulltrúar launþega með mikilli hækkun launatekna frá s. l. ári til þessa árs þegar þeir gáfu yfirlýsinguna um að það skattalagafrv., sem hér liggur fyrir, væri fullnægjandi fyrir launþega? Þetta eru einfaldar spurningar, og ekki aðeins alþm. eiga heimtingu á að fá svör við þessu, heldur þjóðin öll, allir launþegar í landinu. (GJG: Það er margbúið að svara þessu.) Þessu hefur ekki verið svarað. Hvað reiknar formaður Verkamannasambandsins með að meðaltalshækkun launa verði mikil frá árinu 1980 til 1981? (Gripið fram í.) Það er margbúið að svara því, segir hv. þm. í frammíkalli. Kannske hann komi hér á eftir og segi þetta enn þá einu sinni. Hvað reiknar hann með að meðaltalshækkunin verði mikil? Það er ekki eitt einasta orð, ekkert svar. Og hann mun ekki kveðja sér hljóðs á eftir og svara þessu af því hann hefur aldrei reynt að grufla í því.

Hæstv. fjmrh. talaði um það hér áðan, að hækkun verðbólgunnar yrði 40% frá upphafi til loka árs. Hvað verður verðbólgan mikil milli ára? Hvað verður verðbólgan miklu meiri á þessu ári en á s. l. ári? Um það er spurt. Það er það sem skiptir máli. Það er auðvitað alltaf hægt að vera í einhverjum talnaleik. Ég man frá því í skóla að hæstv. fjmrh. var flinkur að fara með tölur og gat leikið sér að þeim betur en allir hans bekkjarbræður og getur enn. Hann kann vel að koma orðum að lágum tölum. En um það er ekki verið að spyrja, hversu menn kunni að reikna þær, heldur hitt, hvað hann reikni með að verðbólgan verði mikil á árinu miðað við s. l. ár, milli ára, og hvað hann reikni með að launatekjurnar hækki mikið milli þessara tveggja ára. Um það er spurt vegna þess að fyrirheit ríkisstj. var um það, og ég hélt satt að segja að þessi ríkisstj. sósíalisma og samvinnuhreyfingar mundi vera óðfús að láta í té svo sjálfsagðar upplýsingar sem ég fer nú fram á að fá.

Ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum, sem hlýddi á ræðu fjmrh. áðan, að hann var svolítið sár yfir því, að enn skyldi þó rétt um helmingur fyrirtækja í landinu hafa þvílíka afkomu að þau geti greitt tekjuskatt. Honum þótti það eiginlega allvont og hugsar nú mjög um ráð til þess, að hann geti svo lokið sínum ferli í fjármálaráðherrasætinu, að næsta ár á eftir verði ekki eitt einasta fyrirtæki í landinu þess umkomið að greiða tekjuskatt nema þá selja allar eigur sínar, fyrningar verði afnumdar og öllu komið undir samvinnuhreyfinguna og ríkið, því að við vitum, þegar upp er talið hverjir greiða tekjuskattinn, að ekki eru hin sósíalísku félög eða samvinnufélögin þar áberandi skattgreiðendur. A. m. k. tekst þeim fyrir norðan að færa á milli deilda þannig að lítið kemur út sem nettóhagnaður í lok greiðsluárs þó svo að menn taki eftir því, að á hverju götuhorni rís svo sem tvílyft verslunarhöll, en náttúrlega ekki eyrir í tekjuskatt. Og maður hefur náttúrlega fylgst með því hjá KRON hér í Reykjavík. Þetta eru ekki áberandi tekjuskattsgreiðendur. Og hvernig hafa þessar eignir orðið til? (MB: Nú viljum við líka fara að sjá skattskrána.) Það verður gaman að sjá skattskrána og sjá hvað samvinnuhreyfingin greiðir í tekjuskatt, því að eignaaukningin hefur orðið mikil, og eftir því sem einkareksturinn lætur undan út af verðlagshöftum og skattpíningu hirðir samvinnuhreyfingin eignirnar upp af götu sinni jafnharðan. Eða hvernig eiga fyrirtæki sem telja rétt fram, heiðarlegir einstaklingar, að eiga eitthvað aflögu í lokin þegar þeir mega ekki einu sinni hækka verð sem svarar auknum tilkostnaði?

Mér hefur þó virst á hæstv. fjmrh. að hann vilji fá eitthvað í aðra hönd ef tilkostnaðurinn hækkar, og hann er furðulega viðkvæmur ef eitthvert lítilræði rennur fram hjá kassanum, eins og menn hafa heyrt hér fyrir skömmu, mig minnir að það hafi verið út af sjávarútveginum. Það átti að vera örlítil eftirgjöf handa sjávarútveginum. Ég held að það sé rétt með farið, að eitt fyrirtæki í kjördæmi fjmrh. muni borga rétt um 50 millj. kr. aukreitis ef frv. ríkisstj. nær fram að ganga, — sjávarútvegsfyrirtæki sem stendur í skipakaupum og við vitum að þarf á öllu sínu að halda til þess að geta endurnýjað sinn framleiðslukost. Samt sem áður dreymir þm. þessa kjördæmis, bæði hæstv. landbrh. og hæstv. fjmrh., um að koma aukasköttum á þetta fyrirtæki fram hjá fyrningunum, endurtaka ævintýrið frá 1978 í september, koma nýjum tekjuskattsviðauka á þessi fyrirtæki til þess að torvelda endurnýjun framleiðslutækjanna. Og einn af þeim mönnum, sem hvað dyggilegast styðja hæstv. fjmrh. í þessari viðleitni að koma í veg fyrir endurnýjun framleiðslutækjanna og um leið að hamla gegn aukinni framleiðni, er formaður Verkamannasambandsins sem ekki má til þess hugsa að aukinni hagræðingu verði komið fyrir í atvinnurekstrinum, að vélarnar verði látnar koma í staðinn fyrir mannshöndina og við reynum að létta eitthvað undir með erfiðisvinnumanninum þannig að hann geti borið meira úr býtum fyrir minni vinnu sem að sjálfsögðu er það sem við eigum að stefna að, en ekki þetta svartasta afturhald sem nú ræður ríkjum, sem dreymir um það helst að leggja þyngstu klyfjarnar á framleiðsluatvinnuvegina sem undir öllu hinu standa, á útgerðina og frystihúsin og þann iðnað sem illa gengur að koma fótunum undir.

Ég vil svo að lokum skora á formann Verkamannasambandsins að gera nú nokkra grein fyrir því, hvernig hann reiknar það út úr þessu frv. að það svari til 1.5% kaupmáttaraukningar. Við munum eftir því, hvernig Sölvi Helgason reiknaði barnið í vinnukonuna, og ég er hræddur um að formanni Verkamannasambandsins svipi til hans að því leyti að honum hefur einhvern veginn tekist að reikna kaupmáttaraukningu inn í þetta frv. En ég held að hann þurfi ekki að reikna kaupmáttaraukninguna út úr því sjálfur, ég held að veruleikinn muni gera það á sínum tíma, skattseðlarnir þegar þeir berast launþegum. Þá mun koma í ljós að kaupmáttaraukningin er minni en engin og svikin munu halda áfram að brenna á fólkinu í landinu alveg með sama hætti og þessi ríkisstj. hefur heykst á því að koma á staðgreiðslukerfi skatta á næsta ári eins og skrifað stendur í hinni helgu bók, stefnuskrá þessarar ríkisstj.