15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4409 í B-deild Alþingistíðinda. (4458)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Framkvæmdastofnun ríkisins hefur nú skilað ársskýrslu fyrir árið 1980 og hefur henni verið dreift meðal hv. þm. Í upphafi inngangsorða í skýrslunni segir að störf stofnunarinnar hafi verið með hefðbundnum hætti á liðnu ári. Þessi skýrsla er hin níunda í röðinni frá upphafi og er þar gerð grein fyrir þeim málaflokkum, sem stofnunin hefur fjallað um, ásamt skrá um lánveitingar úr sjóðum hennar og töflur til frekari upplýsinga.

Úr Byggðasjóði voru samþykkt 430 lán, samtals að fjárhæð 6717 millj. gkr.

Heildarútlán Framkvæmdasjóðs voru 21 487 millj. kr. á s. l. ári og er þá meðtalin lánveiting til Byggðasjóðs að fjárhæð 2773 millj. kr. til endurlána vegna vegagerðar.

Um almenna starfsemi sjóðsins og starfsemi einstakra deilda stofnunarinnar, áætlanadeild, byggðadeild og lánadeild, svo og um Framkvæmdasjóð og starfsemi fjárfestingarlánasjóða eru ítarlegar upplýsingar í skýrslunni og leyfi ég mér að því leyti að vísa til hinnar ítarlegu skýrslu og þeirra taflna og grg. sem henni fylgja.