15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4410 í B-deild Alþingistíðinda. (4459)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Eitt er til mikillar fyrirmyndar um þá skýrslu sem hæstv. forsrh. hefur hér talað fyrir um Framkvæmdastofnun ríkisins, og það er að þar er nákvæmlega gerð grein fyrir öllum lánveitingum sem frá þessari lánastofnun fara. Ég hygg að þetta sé eina lánastofnunin á vegum ríkisins sem svo gerir grein fyrir sínum málum og það skal endurtekið að þetta er til mikillar fyrirmyndar og væri æskilegt að aðrir höguðu sér eins í þessum efnum.

Um hið pólitíska markmið þessara stofnana, sem er að stuðla fyrst og fremst að áætlunargerð í byggðamálum, um það markmið er auðvitað á engan hátt nema gott eitt að segja. Hins vegar langar mig til að gera tvennt að umræðuefni að því er varðar Framkvæmdastofnun ríkisins: í fyrsta lagi þau vaxtakjör sem þar eru ástunduð, og síðan í öðru lagi það sem stundum hefur verið kallað kommissarakerfi. Og þá fyrst um vextina.

Það er auðvitað öllum ljóst, að hvað sem líður almennum yfirlýsingum hefur verið að eiga sér stað hér í landinu mjög veigamikil breyting í lánastarfseminni. Sú breyting hefur verið í þá veru að raunhæf ávöxtunarkjör eða verðtryggingarstefna er hægt og sígandi að verða ofan á. Í Framkvæmdastofnun sitja hins vegar bæði pólitískir kommissarar — eða kommissar nú um stundir — og eins þingbundin stjórn. Það hafa orðið nokkrar umræður um þetta, en enn um sinn vantar mikið á að verðtryggingarmarkmiðum í einu eða öðru formi sé náð. Raunar má segja að því er t. d. Byggðasjóð varðar að þar séu menn enn langt á eftir. Nú mátti um það lesa í blöðum ekki alls fyrir löngu, að stjórn stofnunarinnar hefði óskað eftir því við ríkisstj. að fá að lána með raunhæfari kjörum miðað við verðbólgustig, en þar hefðu á hinn bóginn komið neikvæð svör frá ríkisstj. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. um hvernig þessum málum sé háttað, hver sé afstaða ríkisstj. til þeirrar vaxtastefnu, sem rekin er að því er Framkvæmdastofnun varðar, og hvort einhverra breytinga sé að vænta í þeim efnum og þá í hvaða formi þær séu.

Það má auðvitað æra óstöðugan með því að fara að tíunda öll þau rök sem flutt hafa verið fyrir því, að vaxtakjör og útlánakjör skuli vera raunhæf, en sannleikurinn er sá, að sennilega á það hvergi eins við og í stofnun sem þeirri sem hér um ræðir. Það er óþarfi að fara að lesa upp eða tíunda einstök lán sem gerð er grein fyrir í þessari skýrslu. En auðvitað er æ fleirum að verða ljóst um lán eins og þau, sem hér um ræðir, að það er skiljanlegt að um þau skuli leika tortryggni, ég tala nú ekki um þegar stofnunin er eins byggð og hún er, með öllu því pólitíska valdi sem þar er innan veggja, þegar um er að ræða stórkostlega niðurgreidd lán. Þetta er aðeins önnur hliðin á málinu. Hin hliðin er síðan sú varðandi lán eins og þau sem hér um ræðir, að við höfum auðvitað ekki betri tryggingu fyrir arðsemi og skynsemi þeirra verkefna, sem lánin eru veitt til, en þau að lán séu verðtryggð, séu til langs tíma og jafnvel að lán séu lengd meðan verið er að koma þessari stefnu á.

Ég held að það sé veruleg sjúkdómseinkenni á þessari stofnun, eins og var í efnahagslífinu hér áður fyrr en er góðu heilli að batna, með hvaða hætti lánakjör eru í þessari stofnun. Ég óska eftir að talsmenn stofnunarinnar geri grein fyrir því, hvað næsta framtíð muni bera í skauti sér að því er þetta varðar. — Þetta var um útlánskjörin.

Þegar Framkvæmdastofnun ríkisins var stofnuð árið 1971 gerði þáv. stjórnarandstaða ýmsar athugasemdir. Miklar athugasemdir komu frá sjálfstæðismönnum á þeim tíma og eitt af því, sem þeir gagnrýndu mjög og að minni hyggju réttilega, var hið svokallaða komissarakerfi sem þá var sett upp. Mjög harkalega var þetta gagnrýnt í Morgunblaðinu á þeim tíma og á þeim tíma var einn helsti talsmaður Sjálfstfl. í þessum málum Magnús Jónsson. Hann sagði í umræðu hér á hv. Alþingi, með leyfi forseta:

„En það, sem skiptir þó meginmáli, eru hinir pólitísku „kommissarar“. Það eru mennirnir þrír sem eiga öllu að ráða. Af hverju skyldu þeir vera þrír,“ spurði hann, „af hverju máttu þeir ekki vera tveir eða fjórir? Það skyldi þó ekki vera af því að ríkisstjórnarflokkarnir eru þrír? Hér er að finna gleggsta dæmið um pólitíska óbragðið af þessu máli.“

Þetta eru orð Magnúsar Jónssonar á árinu 1971. Hann hélt áfram og sagði:

„Hér eru settar á laggirnar, eins og ég kallaði þá, „kommissarar“, af því að þetta minnir ákaflega mikið á skipulag í vissum hópi ríkja sem eiga ráðamestu aðdáendur í hæstv. núv. ríkisstj. Og það er eftirtektarvert, eins og einmitt er um „kommissara“ í þeim ríkjum, að það verður ekki séð hvaða hlutverki þeir gegna. Ég býst að vísu ekki við að það verði eins og stundum í rússnesku sendiráðunum.“ — Og svo hélt hann áfram og læt ég staðar numið í þeirri upptalningu.

Nú var það svo og það var mjög gagnrýnt á þeim tíma, að þáv. stjórnarflokkar, Framsfl., Alþb. og Samtök frjálslyndra og vinstri manna, settu upp þetta kerfi þar sem að minni hyggju mönnum voru færð völd sem nálguðust það að vera ráðherravöld, ef þeir hreinlega stóðu ekki jafnfætis. Tveir stjórnmálaflokkar á þessum tíma notuðu sér þetta þann veg að setja í þessi embætti alþm., það voru Framsfl. og Alþb., en þá með þeim skilningi að þeir fylgdu ríkisstj., enda véku þeir þegar ríkisstj. vék 1974. Þriðji flokkurinn, sem á þeim tíma var til þess að gera nýtt afl á sviði stjórnmála, kusu ekki alþm., heldur mann sem utan Alþingis starfaði. Nú ber þess að gæta, að á síðustu árum Viðreisnar voru nokkrar breytingar gerðar á mjög líkum sviðum og þessu. Það var sem sé metið svo af ríkisstj. að það færi ekki saman að alþm. gegndu störfum bankastjóra vegna þess að þar hlyti að koma að hagsmunir rækjust á. Það er auðvitað ekki sagt niðrandi um einn eða neinn einstakling, heldur hitt, að þegar frambjóðendur til þings sitja í störfum eins og þessum eru freistingar einfaldlega of miklar. Ég hygg því að það hafi verið rétt stefna sem farin var í lok viðreisnartímans, raunar eftir verulega gagnrýni þáv. stjórnarandstöðu, var ekki lögfest, heldur var framkvæmd svo að menn yrðu að gera upp við sig hvort þeir sætu sem bankastjórar í ríkisbönkum eða sætu á Alþingi. Nokkrir einstaklingar urðu að taka ákvörðun af þessu tagi.

Þetta var auðvitað sjálfstæðismönnum á þeim tíma, eins og Magnúsi Jónssyni sem hér var vitnað í, mætavel ljóst. Þetta „kommissarakerfi“ var gagnrýnt og féllu um það ákaflega stór og þung orð á þeim tíma. Ég held að það sé ekki ofsagt að Morgunblaðið hafi farið beinlínis hamförum út af þessu „kommissararáðstjórnarkerfi“, sem þeir kölluðu, og að hér væri pólitíkin að teygja sig ekki aðeins óeðlilega, heldur ósæmilega langt. Undir þessa tíu ára gömlu gagnrýni Morgunblaðsins og Magnúsar Jónssonar í Alþingistíðindum 1971 vil ég í grófum dráttum mjög taka.

En svo gerist það 1974 að stjórnarskipti verða í landinu og þá snerust þessi mál heldur betur við. Fyrrverandi gagnrýnendur þessa kerfis, gagnrýnendur með mjög miklum rétti, sneru algjörlega við blaðinu. Komminn og Samtakamaðurinn voru settir út, en fulltrúi ríkisstj., sem þá kom í staðinn, það var hv. þm. Sverrir Hermannsson, settist við hliðina á Tómasi Arnasyni og „kommissarakerfið“ hélt áfram. Magnús Jónsson notaði það orð 1971, að að þessu væri óbragð. Það held ég að hafi verið skiljanlegt orð 1971 og varð satt að segja skiljanlegra síðar. Síðan, þegar leið á kjörtímabilið 1974–78, var bætt um betur þannig að þeir „kommissarar“, sem þarna sitja, voru gerðir að fastráðnum starfsmönnum. Hér er um það að ræða að upphaflega er mönnum fengið vald sem því sem næst jafngildir ráðherravaldi. Breytingin, sem svo er gerð, er sú, að þessi framkvæmda- og útlánaembætti eru gerð óháð almennum kosningum, enda fór svo 1978 og 1979 að það verður ekki breyting á þessu „kommissarakerfi“.

Alveg burt séð frá forsögu málsins og þeim orðum sem féllu 1971 og 1974, og enn fremur bið ég um það að þessi orð séu ekki skoðuð sem gagnrýni á tiltekna einstaklinga og þá ekki hv. þm. Sverri Hermannsson sem auðvitað á allt gott skilið — (Gripið fram í: Hver segir það?) Ég segi það. En röksemdafærslan, sem skiptir máli í þessum efnum, er í fyrsta lagi sú, að þetta fer ekki saman með góðu móti, starf alþm. og starf „kommissars“ — það fer ekki saman með góðu móti, með sama hætti og Viðreisnarstjórnin á sínum síðustu árum lagði á það mat, að bankastjórastarf í ríkisbanka og þingmennska færu ekki saman, ekki vegna þess að um sé að ræða laka einstaklinga eða einstaklinga sem séu ekki fyllsta trausts verðir, heldur hreinlega hitt, að freistingarnar verða of miklar, enda var vísað til þess á framboðsfundum í Austurlandskjördæmi, að ég hygg 1979, þegar „kommissar“ sagði kjósendum sínum hverju hann hefði fengið áorkað fyrir þá í gegnum stofnunina. (SvH: Þetta er lygi úr Bjarna Guðnasyni.) Þetta segir Bjarni Guðnason og hann fer venjulega með rétt mál.

En kjarni málsins er þessi: Þarna er búið að koma málum svo fyrir að einn alþm. situr í þessu starfi og svo haganlega ráðinn að honum er varla fært að segja upp. Annað embætti er látið bíða öðrum alþm. meðan hann situr á ráðherrastól. Og þess er m. a. kirfilega getið á fyrstu síðu þeirrar skýrslu sem hæstv. forsrh. hefur réttilega mælt fyrir. En nú er von að menn spyrji: Af hverju er þetta svona? Úr því að þarna situr einn hv. alþm. og sams konar staða bíður eftir öðrum þegar hann losnar úr ráðherrastól, þá skyldu menn ætla að þeir stjórnmálaflokkar, sem viðkomandi hv. alþm. eru fulltrúar fyrir, sjái sér hag í því að hafa þetta kerfi með þessum hætti. Og það er einmitt kjarni málsins. Það er af þeim ástæðum sem þetta kerfi gengur ekki upp með þessum hætti, svo ekki sé talað um þegar svo hefur verið búið um hnútana að úrslit í kosningum skipta ekki máli. M. ö. o.: 10 hv. alþm. af 60 eru ráðh., en þeir lúta þó þeim lögmálum, að þeir víkja ef meiri hluti Alþingis ákveður svo og það með litlum fyrirvara, en þessir menn með ráðherravöld sitja miklum mun kirfilegar í þessum embættum heldur en ráðh. sem þó því nafni heita.

Ég vona að a. m. k. margir hv. alþm. séu mér sammála um að þessi mál hafi þróast með allt öðrum hætti en upphaflega var ráð fyrir gert. Og það er löngu tímabært að breyta þessu aftur með þeim hætti, að yfirmenn þessarar stofnunar, látum nafngiftir, íslenskar eða erlendar, liggja milli hluta, þeir séu embættismenn án tengsla við stjórnmálatlokka, þeir starfi á vegum þingkjörinnar stjórnar sem þarna situr, þeir séu ráðnir til skamms tíma í senn og að þeim tíma liðnum þurfi að endurráða þá og ríkisstj., hver sem hún er á hverjum tíma, hafi þá eitthvað um það að segja hvernig í slík embætti sé skipað. Og það segi ég þó að ég sé andstæðingur núv. stjórnar. Ég tel mig vera að tala fyrir almennum lýðræðisforsendum í þessum efnum. Það er auðvitað gersamlega á skjön við allt sem lýðræði getur heitið hvernig þessu hefur verið komið fyrir.

Og til þess að enda þetta þar sem ég byrjaði: Morgunblaðið og Magnús Jónsson gagnrýndu þetta kerfi mjög árið 1971, eins og var vísað til í upphafi þessa máls. Í grófum dráttum hygg ég að sú gagnrýni hafi átt við rök að styðjast. Ég held að Alþingi ætti að taka fram fyrir hendurnar á þessari stofnun og afnema þetta „kommissarakerfi“ sem hefur verið óbragð að allar götur síðan 1971. Það er út af fyrir sig eðlilegt að þar sé þingkjörin stjórn. En við vitum auðvitað hvernig mál þróast í stofnunum af þessu tagi, hvernig það þróast í ríkisbönkum þar sem bankastjórar sitja við hliðina á bankaráðum. Auðvitað er þungi hinnar daglegu stjórnar svo mikill að mikil völd hlaðast á hendur hinna daglegu stjórnenda. Og ég tel það gersamlega óviðeigandi og ég tel að það hafi í för með sér miklar hættur, pólitískar og siðferðilegar hættur, að hafa þetta fyrirkomulag með þeim hætti sem það er, ég tala nú ekki um eins og búið er að breyta þessu kerfi og rígnegla nú hin síðustu ár. Till. mín er sú, að fyrr en seinna eigi Alþingi að breyta lögum um þessa stofnun og afnema þetta kerfi. Að þessu leyti hafði þáv. hv. þm. Magnús Jónsson hárrétt fyrir sér fyrir tíu árum.