15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4414 í B-deild Alþingistíðinda. (4462)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv. hefur gert Framkvæmdastofnun ríkisins almennt að umræðuefni, ekki beint þá skýrslu sem hér liggur fyrir, og hefur rakið töluvert þær umræður sem áttu sér stað þegar lögin um þessa stofnun voru til umr. og afgreiðslu hér á Alþingi. Í sambandi við það sem hann vitnaði bæði í Magnús Jónsson og Morgunblaðið og Sjálfstfl. finnst mér rétt að koma með örfáar skýringar ef það mætti verða hv. þm. til einhverra upplýsinga og svo og öðrum þeim sem hafa sérstakan áhuga á umræðum um Framkvæmdastofnun ríkisins.

Með því frv. var verið að sameina þrjár stofnanir: Atvinnujöfnunarsjóð, sem starfað hafði með því nafni í örfá ár og hét áður Atvinnubótasjóður, Efnahagsmálastofnun og Framkvæmdabanka Íslands. Þessar stofnanir voru settar undir eitt og um það var ekki neinn ágreiningur sem teljandi er. Hins vegar var bætt í þessa stofnun hagrannsóknadeild sem nú er Þjóðhagsstofnun. Um það var mikill ágreiningur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu á þeim tíma, þar sem stjórnarandstaðan taldi að slík deild ætti alls ekki heima þarna, heldur ætti að vera sjálfstæð stofnun, enda kom það í hlut þeirrar ríkisstj., sem stóð að setningu þessara laga, að breyta því ákvæði, að mig minnir einu eða einu og hálfu ári síðar.

Hitt var svo aftur mjög mikið ágreiningsefni, að tilgangurinn, sem var á bak við þessa stofnun, var sá, að hún átti að hafa í raun og veru vald til áætlunargerðar og ákvarðanatöku eiginlega í öllum greinum athafnalífs og nokkurn veginn líka í viðskiptalífi. Þetta óttuðust menn að mundi verða með þeim hætti að innleiða hér aftur höftin, sem voru hér fyrr á árum, og gagnrýndu það mjög ákveðið og hart. Hins vegar breyttist þetta mjög eftir að frv. varð að lögum og stofnunin fór að starfa, og það var fyrir það að ráðherrar í þeirri ríkisstj. vildu ekki hafa þetta vald í þessari stofnun. Þeir vildu halda í margt sjálfir, þannig að þessi ásetningur þeirra ákveðnu manna, sem að þessu stóðu á sínum tíma, varð aldrei að veruleika.

Þá var gagnrýnt að þrír flokkar, sem stóðu að ríkisstj. á þeim tíma, skyldu ætla sér að hafa alla framkvæmdastjórana. Það væri með sama hætti og að ríkisstj. á hverjum tíma skipti um bankastjóra í öllum ríkisbönkum. Þetta var sú gagnrýni sem höfð var uppi. Þessi harða gagnrýni varð sennilega til þess, að þessu var ekki beitt með þessum hætti. Að vísu byrjaði heldur óhöndulega í sambandi við undirbúning mála fyrst í stað, en það lagaðist mjög þegar leið á tímann. Og ég vil minna menn á það, að þessi stofnun kemur eiginlega fyrst og fremst til umræðu ef það er eitthvert mál sem hægt er að gera að hasarmáli. Þá er rætt um það. Það hefur verið einkar kært sumum mönnum að tala um Þórshafnartogarann, eins og það sé aðalmálið sem þessi stofnun hafi fjallað um, það sé togarinn til Þórshafnar.

Þessi Þórshafnartogari, fyrst við nefnum hann á annað borð, þá varð ekkert úr þeim kaupum og nýr samningur um smíði gerður. Ríkisstj. ákveður að samþykkja þann samning, ábyrgjast 80% af kaupverðinu og færa Byggðasjóði 10% til viðbótar til þess að endurlána. Átti þá stjórn Byggðasjóðs að stöðva það með því að segja nei við 10% sem á vantaði, þegar ríkisstj. hafði afgreitt málið? Stjórn Byggðasjóðs eða Framkvæmdastofnunar hafði löngu áður fellt niður allar lánveitingar til skipa erlendis frá. Undantekning var gerð um þetta atriði eftir að ríkisstj. hafði gengið frá sinni samþykkt. Þar með liggur þetta mál að mínum dómi ákaflega (jóst og glöggt fyrir.

Hv. þm. talar mikið um það pólitíska vald sem þarna er. Vitaskuld er valdið pólitískt. Alþingi kýs stjórnina eftir styrkleikahlutföllum flokka hér á þingi og Alþingi kýs líka öll bankaráð í ríkisbönkum. Það er pólitísk stjórn á allflestum lánasjóðum í landinu. Hverjir ráða svo bankastjórana? Þeir eru ráðnir pólitískt. Og þeir eru ekki kjörnir til skamms tíma, heldur eru þeir ráðnir á meðan þeirra starfsaldur endist. Hver er þá munurinn á þessu gífurlega pólitíska valdi í Framkvæmdastofnuninni og í bönkunum? Hann er sá, að nú er einn forstjóri þessara stofnunar með framkvæmdastjóra deilda í stofnuninni sem fyrst og fremst ráða daglegum störfum, þ. e. forstöðumenn áætlanadeildar, byggðadeildar og svo auðvitað forstöðumaður lánadeildar. Þessir menn fjalla um erindi hverrar deildar um sig og lánadeildin fjallar um öll lánamál ásamt forstjóra, þessum eina manni. Síðan kemur hvert einasta mál fyrir sjö manna stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins. Það eru sjö menn sem taka endanlega ákvörðun um hvert einasta lán. Ég hef verið í þessari stjórn frá byrjun, að undanskildum fjórum árum sem ég starfaði ekki þar þegar ég átti sæti í ríkisstj., svo að mér er vel kunnugt um þessi vinnubrögð. Það hefur aldrei staðið á starfsmönnum stofnunarinnar að gefa okkur stjórnarmönnum hverjar þær upplýsingar sem við biðjum um og kynna okkur þau mál sem eru til umfjöllunar hverju sinni. Og þetta er eina lánastofnunin í öllu landinu sem birtir skýrslu um hvert einasta útlán og hvern einasta styrk sem veittur er. Er hægt að hafa þetta fyrir opnari tjöldum en þarna er? Ég tel að mörgu sé brýnna að breyta í þessu þjóðfélagi heldur en stjórn og starfrækslu Framkvæmdastofnunar ríkisins.

Hitt er annað mál, sem er athyglisvert, að það starfa svo margir aðilar að áætlunargerð, bæði á vegum rn. og annarra stofnana, að þar getur átt sér stað tvíverknaður í mörgum greinum og þar þarf að koma á meiri samræmingu í vinnubrögðum en nú er. En það er ekki við Framkvæmdastofnunina að sakast í þeim efnum, nema þá kannske að örlitlu leyti, við skulum ekki alveg hvítþvo hana. En það á sér stað ákaflega kostnaðarsöm vinna á vegum t. d. ráðuneyta sem hægt væri að framkvæma í þessari stofnun, eins og upprunalega átti að vera.

Ég skal taka undir margt sem hv. þm. sagði varðandi vaxtakjörin, en þó ekki allt. Ég vil ekki fara að taka upp raunvexti í Byggðasjóði. Hins vegar álít ég að vextirnir eigi að vera helst ekki miklu neðar en innlánsvextir af almennum sparisjóðsbókum. En verðtryggð byggðalán koma ekki til greina að mínum dóma nema þá í undantekningartilfellum. Hins vegar má segja það, að vextir hafa farið lækkandi í raun og veru nú á síðustu árum því að þeir hafa ekki verið nema 22% þangað til flutt var till. um það í des. af forstjóra að vextir yrði hækkaðir upp í 32%. Og það er ekki fyrr en nú fyrir skömmu að stjórnin varð ásátt um að vextir hækkuðu í 28%. Hins vegar kom frá ríkisstj. að hún teldi að vextir ættu ekki að hækka, en hún benti aftur á aukna verðtryggingu, sem ég held að mér sé alveg óhætt að segja að stjórnin telji vera mjög erfitt að koma á og ekki hljómgrunnur fyrir nema að mjög takmörkuðu leyti. Ég tel að það valdsvið, sem ríkisstj. hefur um ákvörðun á vaxta- eða lánakjörum stofnlánasjóða í landinu, sé fyrst og fremst til að samræma kjör fjárfestingarlánasjóðanna þannig að þau verði ekki mjög misjöfn. Hins vegar hefur hún ekki blandað sér í vexti Byggðasjóðsins, það hefur stjórn stofnunarinnar haft að gera með hverju sinni. Þeir eru langt undir vöxtum til hinna almennu stofn.ánasjóða, enda segir í lögunum um Framkvæmdastofnun ríkisins, í kaflanum um Byggðasjóð:

„Framkvæmdastofnunin gerir árlegar áætlanir um heildarútlán Byggðasjóðs á komandi ári og gerir frumvarp að slíkri áætlun á grundvelli landshlutaáætlana og leggur fyrir stjórnina. Þá tekur stjórnin einnig ákvörðun um einstakar lánveitingar og kveður á um tryggingu fyrir láni, vexti og afborgunarskilmála hverju sinni.“

Menn geta haft um það sínar skoðanir hvort þingmenn eða þingmaður eigi að gegna starfi forstjóra eða forstöðumanns í þessari stofnun. Þessi réttindi hafa ekki verið tekin af þm., þeir geta þess vegna verið þarna forstjórar. En ég undirstrika það, að þó að þingmaður eða þingmenn séu þarna forstjórar, þá hafa þeir ekkert vald til þess að lána nema stjórn stofnunarinnar samþykki allar þeirra till. Allt fer þetta í gegnum hendur starfsmanna stofnunarinnar, sem eru hlutlausir embættismenn og hafa staðið mjög vel í stöðu sinni að mínum dómi, og því tel ég enga hættu af þessu stafa.

Það voru lengi uppi þær hugmyndir og var í reynd, að þm. og þá úr fleiri en einum flokki sátu í bankastjórastólum í þessu landi, þó að breyting hafi nú orðið á. En af hverju varð sú breyting? Hún er fyrst og fremst vegna þess að það eru miklu meiri umsvif í bönkum landsins en áður og það er miklu meira starf að vera þm. í stórum kjördæmum og sífellt lengra þinghald. Ætli það hafi ekki verið höfuðástæðan fyrir þessari breytingu?

En ég get aldrei tekið undir það sjónarmið, sem er alltaf að skjóta upp kollinum víða í þessu landi, að þingmenn megi hvergi vera nema þingmenn og helst að hafa ekkert kaup eða lítið þannig að þeir geti varla dregið fram lífið. Ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir þm. að geta kynnst einhverjum öðrum störfum en þingmannsstarfinu einu. Það gefur þeim innsýn í fleiri mál en með því að lesa eingöngu hér þingskjöl og skýrslur. Þeir eru þá í nánari snertingu á margan hátt við atvinnulífið og við líf þjóðarinnar og í meira sambandi við þjóðina sjálfa en ef þeir helguðu sig eingöngu starfi sínu sem þingmenn.