15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4416 í B-deild Alþingistíðinda. (4463)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er auðvitað söguleg ónákvæmni hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni ef hann heldur því fram, eins og hann gerði áðan, að gagnrýni talsmanna Sjálfstfl. á þessa stofnun á sínum tíma hafi fjallað um það, að það voru þrír „kommissarar“ þriggja þáverandi stjórnarflokka. M. ö. o.: ef íhaldið hefði fengið einn af þessum þremur hefði ekkert verið gagnrýnivert. Þetta er auðvitað alrangt, og það þarf ekki að lesa lengi í Morgunblaðinu og Alþingistíðindum frá 1971 til að sjá að það var allt annað sem var gagnrýnt. Og það, sem var gagnrýnt, var nákvæmlega það sem ég var að lýsa áðan.

Menn geta skipt um skoðun, og það getur vel verið, ef ég má taka svo til orða, að Sjálfstfl. hafi aðra skoðun á þessu máli, hafi sannfærst um gildi áætlunarbúskapar, sem er ágætur, og „kommissarakerfis“, sem er verra, á þessum tíu árum. En þá er þetta allt önnur skoðun og stefna heldur en menn höfðu, og orðaloftfimleikar hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar breyta auðvitað engu þar um. Það var þetta, sem var gagnrýnt, og það var þetta, sem var gagnrýnivert og er gagnrýnivert enn í dag.

Og af hverju er það svo? Ég endurtek, að það er ekki um að ræða vantraust á einstaklinga, heldur er um að ræða þá staðreynd, að freistingarnar eru of miklar. Það verður uppi mikið jafnvægisleysi á milli hins faglega mats og hins stjórnmálalega mats sem þarf að vera í stofnun eins og þeirri sem hér er um að ræða. Og dæmi um það, með hverjum hætti þetta jafnvægisleysi brýst út, er einmitt það mál sem hv. þm. nefndi hér og ég raunar einnig í fyrri ræðu minni. Það er vaxtapólitík þessarar stofnunar. Auðvitað er freistingin rík fyrir menn, sem stjórna þessari stofnun frá degi til dags og eru að ráðgast um útlán til margháttaðra verkefna, — auðvitað er freistingin rík fyrir þá, auðvitað er heppilegra að lána á vöxtum langt undir verðbólgustigi svo að helmingurinn af upphæðinni sé í raun og veru gjöf. Auðvitað má leiða að því rök, að mannleg náttúra sé með þeim hætti að þegar annars vegar er leitin að styrk, leitin að atkvæðum, eins og stundum er kallað, þá verða freistingar æðiþungar í þessa átt. Það var þetta sem Viðreisnarstjórnin var að tala um og breytti 1970. Það var þetta sem þið gagnrýnduð réttilega 1971. Það er þetta sem ég er að gagnrýna nú. Loftfimleikar orðanna breyta auðvitað engu þar um. Talandi dæmi um, hvað þetta hefur slæmar bæði siðfræðilegar og efnahagslegar afleiðingar, er samspil stofnunarinnar og vaxtapólitíkurinnar sem hún rekur.

Ég hafði í fyrri ræðu minni spurt hæstv. forsrh. Mér er kunnugt um að það hafa verið viðræður á milli stjórnar Framkvæmdastofnunar og ríkisstj. um það, með hvaða hætti framtíðarskipan útlánskjara verði í þessari stofnun, og mig langar til að ítreka þá spurningu til hæstv. forsrh. í framhaldi af þeirri skýrslu sem hann flutti hér áðan, hvort einhver ákvörðun hafi verið tekin í ríkisstj. um það, með hverjum hætti lánskjör verði þarna í framtíðinni og hvort nokkurra ákvarðana sé að vænta frá hæstv. ríkisstj. um það.